Fimmtudagur 24. október, 2024
2.6 C
Reykjavik

Gunnar Örn gítarsmiður smíðaði sinn fyrsta gítar við eldhúsborðið: „Ég var aldrei í ballbransanum“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Ég smíðaði minn fyrsta gítar árið 1998. Hugmyndin hafði blundað lengi í mér enda skorti ekki áhugann á hljóðfærinu. Ekki var þessi fyrsti gítar minn smíðaður við merkilegar aðstæður, því eldhúsborðið heima var eiginlega vinnubekkurinn. Afurðin varð Telecaster-týpa með einhverjum tilbrigðum en hálsinn eins og á Tele,“ segir Gunnar Örn Sigurðsson gítarsmiður með meiru.

Gunnar Örn ólst upp við Grundarstíginn í Reykjavík og gekk í Miðbæjarskóla. „Ég átti góða bernsku og það var margt brallað, eins og gutta er von og vísa. Síðan fluttum við í Vesturbæinn og ég sótti nám í Melaskóla þegar ég var 10-12, mér leist betur á hann en Hagaskóla. Mér leiddist í skóla, leið aldrei vel og var latur námsmaður.

Enda tók skólaganga mín enda eftir annan bekk gagnfræðaskóla og ég fór á sjóinn,“ segir Gunnar Örn um skólagöngu sína.

Þegar þar var komið sögu var Gunnar Örn farinn að neyta áfengis og fíkniefna. „Eðli málsins samkvæmt hafði það mikil áhrif á líf mitt, allt þar til ég varð 27 ára.

Ég settist þó aftur á skólabekk þegar ég var tvítugur og lærði vélvirkjun, en ég vann í rauninni ekkert við hana,“ segir Gunnar Örn.

Gítaráhuginn vaknar

Í föðurætt Gunnars Arnar var tónlist að finna og hann var ekki gamall þegar áhugi hans á gítarleik vaknaði.

- Auglýsing -

„Ég byrjaði að spila á gítar þegar ég var tólf ára og eftir það varð ekki aftur snúið. Ég heillaðist að gítar sem hljóðfæri og við tóku nokkur ár þar sem áhuginn var kannski meira en getan, en áhuginn dvínaði ekki, þvert á móti,” segir Gunnar Örn.

Þegar Gunnar Örn var 27 ára venti hann sínu kvæði í kross og ákvað að segja skilið við áfengið.

„Ég hafði nýlega lokið áfengismeðferð, 27 ára, og um það leyti byrja ég að spila svona fyrir alvöru, eins og hægt er að segja. Ég spilaði í hljómsveit sem hét Tregasveitin með félögum mínum sem, eins og ég, voru edrú. Í kjölfar Tregasveitarinnar fór ég í hljómsveit sem hét Strákarnir hans Sævars, en sú hljómsveit var ansi lengi til. Í dag er ég í tveimur hljómsveitum, minna má það varla vera, en það eru Singleton og RPG 103.“

- Auglýsing -

Það sem þessar hljómsveitir allar eiga sameiginlegt er blúsinn, segir Gunnar og bætir við: „Ég var aldrei í ballbransanum. Það átti ekki við mig og hefði í raun verið stílbrot.“

Gítarsmíðin

Víkur nú sögunni að atvinnu Gunnars Arnar, gítarsmíðinni. Sem fyrr segir smíðaði hann sinn fyrsta gítar við eldhúsborðið heima hjá sér árið 1998.

„Já, það er óhætt að segja að gítörum mínum hafi fjölgað síðan þá. Ætli ég hafi ekki smíðað um 130 gítara og eðlilega hafa þeir flestir eignast heimili hér á landi. Engu að síður hafa þeir allnokkrir fundið sér samastað erlendis og farið nokkuð víða.

Nokkrir hafa endað í Bandaríkjunum og Suður-Ameríku, en aðrir hér í Evrópu, þá einkum í Frakklandi, Þýskalandi og Svíþjóð,“ segir Gunnar Örn.

Á gítarsýningu Gunnar með uppáhaldsgítarsmið sínum, Scott Walker.

Gunnar Örn hefur ekki látið þar við sitja, því hann hefur verið iðinn við að sækja gítarmessur hér og þar í heiminum. Á þeim hefur hann átt þess kost að sjá það nýjasta í heimi gítarsins auk þess sem hann hefur kynnt sína eigin gítarsmíð; Gunnar Orn Custom Guitars.

Gunnar Örn hefur vakið athygli fyrir frumlega nálgun í smíði gítara, efniviðinn og að sjálfsögðu þá alúð sem hann leggur í hvern grip. Má í því samhengi nefna Mjölni, rafmagnsgítar sem vakið hefur verðskuldaða athygli, hér heima og utan landsteinanna.

Mjölnir
Hefur vakið athygli innanlands sem utan.

„Já, ég hef farið með mína gítara á sýningar erlendis, meðal annars á NAMM-sýninguna í Los Angeles í Bandaríkjunum og The Holy Grail Guitarshow í Berlín í Þýskalandi og ekki má gleyma Fuzz Guitarshow í Svíþjóð. Mér reiknast til að ég hafi sótt tólf sýningar heim og á þeim hef ég kynnst frábærum og þekktum gítarsmiðum hvaðanæva úr heiminum. Slíkt er að sjálfsögðu ómetanlegt og tengslanetið nýtur góðs af.“

Gítarviðgerðir og -smíðanámskeið

Gunnar Örn hefur haft nóg að gera í viðgerðum á gítörum og sinni eigin gítarsmíði. Hann hefur þó ekki látið þar við sitja því árið 2007 haslaði hann sér völl í Tækniskólanum.

„Árið 2007 var ég með gítarsmíðanámskeið í Tækniskólanum og hef síðan þá boðið upp á þau, oftast tvisvar á ári. Þau hafa ávallt verið vel sótt, enda tilvalið tækifæri fyrir gítarleikara, til dæmis, til að smíða sinn eigin gítar, frá a til ö eftir eigin höfði,“ segir Gunnar Örn.

Afrakstur námskeiðanna telur nú vel á annað hundrað gítara og er vitnisburður um þann mikla áhuga sem fyrir hendi hjá fólki um að smíða sitt eigið hljóðfæri.

„En ekki aðeins hafa námskeiðin gefið þeim sem þau sækja mikið, því þau gefa mér heilmikið einnig, enda gaman að geta miðlað af þekkingu sinni að ekki sé talað um þann mikla fjölda skemmtilegs fólks sem ég hef kynnst,“ segir Gunnar Örn.

„En annars hefur þetta verið þrískipt hjá mér og þá mest að gera í gítarviðgerðum, en gítarsmíðin hefur tekið æ stærri skerf af tíma mínum hin síðari ár. Námskeiðin taka einnig sinn tíma þannig að ég hef í raun ansi mikið fyrir stafni – mér leiðist allavega ekki,“ segir Gunnar Örn og brosir gegnum skeggið.

Hitti Billy Gibbons

Í gegnum vinnu sína hefur Gunnar Örn hitt fjölda þekktra manna úr heimi tónlistar, hvort heldur sem er gítarsmiðir, framleiðendur íhluta fyrir gítara eða tónlistarmenn. Gunnar nefnir til sögunnar gítarleikara rokkhljómsveitarinnar heimsþekktu, ZZ Top.

„Árið 2012 varð ég þeirrar óvæntu ánægju aðnjótandi að hitta engan annan en Billy Gibbons, hinn síðskeggjaða gítarleikara ZZ Top. Billy er einn af mínum uppáhaldsgítarleikurum og ég náði að spjalla við hann í um hálftíma – umræðuefnið var að sjálfsögðu gítarar.

Gibbons og Gunnar
Hár úr skeggi Gibbons er á vísum stað hjá Gunnari.

Þannig var mál með vexti að tveimur mánuðum áður hafði ég eignast „Billy Bo-signature“-gítar og að sjálfsögðu bað ég Billy að árita gripinn, sem hann gerði með glöðu geði. Þegar ég síðar opnaði gítartöskuna blasti við mér hár úr skeggi kappans – það bara lá þarna ofan á gítarnum. Ég tók skegghárið og festi það með límbandi á „certificate“-skjalið sem fylgdi gítarnum og þar er það enn.“

Hendrix og Gallagher

Einn er sá gítarleikari sem er í sérstöku uppáhaldi hjá Gunnari Erni, Írinn Rory Gallagher heitinn.

„Ég heyrði fyrst í Rory þegar ég var þrettán ára gamall og enn þann dag í dag hlusta ég á tónlist hans og hef spilað nokkur af hans lögum gegnum árin,“ segir Gunnar Örn um Rory sem skildi við árið 1995 aðeins 47 ára að aldri.

„Rory var á sínum tíma einn af þeim bestu og fáir sem stóðu honum jafnfætis þegar hann var upp á sitt besta.

Sagan segir, og ég hef alltaf gaman af þeirri sögu, að Jimi Hendrix, sá magnaði gítarleikari, hafi eitt sinn verið spurður hvernig það væri að vera besti gítarleikari í heim. Hendrix svaraði að bragði: „I don’t know, ask Rory Gallagher.“

Ég held reyndar að hvergi sé að finna skothelda heimild fyrir þessum orðaskiptum, en sagan er góð og eins og sagt er; það er óþarfi að láta sannleikann eyðileggja góða sögu.“

Bítlarnir eða Stóns

Það er ekki hjá því komist að varpa fram spurningunni: Bítlarnir eða Stóns? Svarið vefst ekki fyrir Gunnari Erni: „Ég er Bítlamaður, þeir voru einfaldlega betri en Stóns. Eins og allir á ég minn uppáhaldsbítil; George Harrison. Eitt þeirra laga sem höfðu mikil áhrif á mig er lagið My Sweet Lord, eftir Harrison. Það er í raun lítið lag, en samt einhvern veginn svo stórt. Það sem einkennir lagið er „slide“-gítarleikur Harrison; hljómur og stíll sem síðar varð vörumerki hans.“

Eins og áður hefur komið fram hefur Gunnar Örn nóg við að vera. „Fram undan eru fleiri sýningar að heimsækja, fleiri gítarar að gera við og síðast, en ekki síst, fleiri gítarar að smíða,“ segir gítarsmiðurinn og Bítlamaðurinn Gunnar Örn Sigurðsson að lokum.

 

Fræðast má frekar um smíði Gunnars Arnar

hér customguitarsiceland

og hér vikingguitarsiceland

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -