Föstudagur 27. desember, 2024
3.8 C
Reykjavik

Gunnar Smári lifir á séreignarsparnaðinum: „Ég er atvinnulaus, ég er tekjulaus og ég er eignalaus“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Gunnar Smári Egilsson, formaður framkvæmdastjórnar Sósíalistaflokksins og oddviti flokksins í Reykjavíkurkjördæmi norður, var gestur Reynis Traustasonar í hlaðvarpinu Mannlífið.

„Ég á ekki bót fyrir boruna á mér, eins og sagt er,“  segir Gunnar Smári, aðspurður um það hvort hann sé ekki auðugur maður.

Hann á ekki heldur hús. Húsið sitt varð hann að selja upp í skuldir eftir að Fréttatíminn, þar sem Gunnar Smári var bæði eigandi og ritstjóri, fór á hausinn.

„Ég leigi núna, á Smiðjustígnum.“

„Og ég er ekki með neinar tekjur. Ég bara át húsið mitt – svona herbergi fyrir herbergi. Svo er ég búinn að vera að éta séreignasparnaðinn minn. Þannig að ég er atvinnulaus, ég er tekjulaus og ég er eignalaus. En ég þarf alltaf að vera að svara fyrir það að ég sé einhver stór kapítalisti,“ segir Gunnar Smári og hlær.

Þegar hann er spurður að því hvort ekki sitji eitthvað eftir, hvort hann lumi til dæmis á eignum í skattaskjóli, er Gunnar Smári afdráttarlaus í svörum og segir svo ekki vera. Hann eigi að vísu örlítið eftir af séreignarsparnaði sínum, en þess utan eigi hann bara lífeyrissjóðinn sinn.

- Auglýsing -

 Þegar hann er spurður út í hvort honum þyki það ekki óþægileg staða til að vera í segir hann að svo sé.

„Jú, ég þurfti að hugsa þetta sko, á sínum tíma. Af því að dóttir mín er bara fjórtán ára.“ Dóttir Gunnars Smára heitir Sóley, en hún er ættleidd frá Tógó í Afríku.

 „Ég hugsaði: get ég gert þetta? Bara haldið áfram að byggja upp Sósíalistaflokkinn, gefið honum allt mitt líf. Gefið honum tengslanetið mitt, alla getuna mína og eitthvað fleira. Get ég gert þetta? Verð ég ekki að fara og beygja mig einhversstaðar í duftið og skríða fyrir einhvern kapítalisma og fá vinnu einhversstaðar til að eiga peninga til þess að tryggja Sóley betri framtíð? Kannski er það eigingjarnt, en ég hugsaði bara sem svo að það er betra fyrir Sóley að ég sé heiðarlegur, að ég taki þátt í baráttunni og falli þá bara við það, heldur en að ég beygi mig. Það er betra veganesti fyrir börnin mín heldur en að ég erfi þau að einhverjum gömlum Skoda.“

- Auglýsing -

Gunnar Smári segist vera eldheitur sósíalisti í hjartanu. Hann rifjar upp æsku sína og það hvernig hann hafi í raun alltaf verið sósíalisti, frá blautu barnsbeini.

„Ég var í villta vinstrinu þegar ég var svona fjórtán, fimmtán, sextán.“

Gunnar Smári heldur áfram:

„Ég man þegar ég var tólf ára, þá var ég svona heimagangur á heimili Péturs Sigurðssonar alþingismanns sem sat á þingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn og við rifumst um pólitík. Ég man að einhvern tíma hrópaði hann á mig: „Haltu kjafti og lestu Moggann með poka yfir hausnum!“ Þannig að eitthvað hef ég verið að trufla þá.“

Gunnari Smára þykir ganga of hægt að reyna að knýja fram breytingar í gegnum blaðamennsku. Það þekkir hann vel í gegnum feril sinn. Það breyti líka miklu um afstöðu og hugmyndir að hefja starfsferil í blaðamennsku.

„Svo náttúrulega þegar maður fer í blaðamennsku þá yfirgefur maður svolítið allar þessar hugmyndir. Það er bara þannig. Og svo hittir maður þær aftur þegar ég allt í einu átta mig á því að það er ekki hægt að breyta heiminum með því að upplýsa um stöðu mála. Sjáðu með Samherja. Þjóðin er búin að fá að vita þetta allt saman. En hvað er að frétta? Ekki neitt.“

Hann heldur áfram:

„Ég bara missti trúna, sérstaklega þegar ég tók eftir því hjá Fréttatímanum að þeir sem stjórnuðu auglýsingunum gátu bara hoggið fæturna undan okkur. Og ég hugsaði: þetta er bara sjálfsblekking.“

Hann horfir á blaðamanninn fyrir framan sig:

„Ég er ekkert að segja að.. sko, þú mátt alveg halda áfram í blaðamennsku. Þetta er bara persónulegt sem við gerum hver upp fyrir sig og ég bara missti trúna.“

Eins og vinstrið trúi ekki að þau eigi að fara með vald

Gunnar Smári er ómyrkur í máli þegar talið berst að hægri öflum landsins. Hann hefur lengi verið þekktur fyrir að herja á Sjálfstæðisflokkinn, hægrið og kapítalið. Nú er greinilega svo komið að ritstjóra Morgunblaðsins stendur stuggur af Gunnari Smára og Sósíalistaflokknum, því hann hefur lagt sérstaka áherslu á að ráðast að þeim undanfarið í skrifum sínum.

„Valhöll og hægrið, þau munu aldrei veigra sér við að nota vald sitt. Það hefur ekki verið vandamál hér að vinstrið hafi verið að nota vald sitt. Tökum bara Katrínu Jakobsdóttur, þegar hún fer inn í forsætisráðuneytið. Hvern ræður hún til þess að sjá um stjórnarskrárbreytingarnar? Fyrrverandi þingmann Sjálfstæðisflokksins. Vinstrið, það er eins og þau trúi ekki að þau eigi að fara með vald. Í hvert skipti sem þau hafa tækifæri til þess fara þau að ráða hægrimenn alveg á fullu. Maður sér þetta stundum í svona umræðum og svona, hvern vinstrið kallar til, til þess að stjórna umræðunum. Það eru alltaf einhverjir hægri.. Sigmar Guðmundsson eða eitthvað, að stjórna umræðum fyrir hönd Alþýðusamband Íslands. Hvaða grín er þetta?“

Enginn einkabílstjóri

Þegar Gunnar Smári er spurður um það hvernig ráðherra hann yrði og hvort hann myndi vera með einkabílstjóra, svarar hann því skýrt og skorinort á þann veg að Sósíalistaflokkurinn sé með það í stefnu sinni að hætta með einkabílstjóra. Aðspurður enn frekar um það hvort hann myndi sjálfur hafna einkabílstjóra, jafnvel þó það stefnumál næði ekki í gegn almennt, segir hann svo vera.

„Já auðvitað, það er bara skammarlegt. Það er eins og að eiga þræl, að vera með svona. Og í gegnum tíðina hefur maður hitt ráðherra og borgarstjórann og svona, sem eru með þessa aðstoðarmenn sína með. Mér finnst þetta svo niðurlægjandi. Fólk fer eitthvað inn í Kastljós og svo kemur það út og svo kemur aðstoðarmaðurinn til þeirra og „djöfull stóðstu þig vel“ og svona. Þetta er eins og að eiga svona aðdáanda númer eitt, þetta er bara… þetta er svo niðurlægjandi. Það er margt í kringum stjórnmálin sem er svona, hugmynd um svona status og stöðu og svona. Það er bara óviðkunnanlegt.“

Einkaþotan, Dagsbrún og hamingjan

Talið berst að einkaþotunni, sem Gunnar Smári þáði far með þegar hann var ritstjóri Fréttablaðsins og forstjóri fjölmiðlasamsteypunnar Dagsbrúnar. Nýlega var sú saga dregin fram í dagsljósið í bókinni Málsvörn Jóns Ásgeirs Jóhannessonar eftir Einar Kárason. Á þessum tíma unnu þeir Gunnar Smári og Jón Ásgeir saman að útgáfu fríblaðsins Nyhedsavisen, en Jón Ásgeir var eigandi Dagsbrúnar, sem var afsprengi sameiningar Fréttablaðsins og fjölmiðlafyrirtækisins Norðurljósa. Gunnar Smári hefur sagt frá því í fjölmiðlum að þegar verið var að vinna að útgáfu Nyhedsavisen hafi hann mikið þurft að fara á milli Íslands og Danmerkur. Yfirleitt hafi hann flogið með Icelandair, en það kom fyrir að ekki væri nægur tími fyrir hann til þess að fljúga á milli landanna með hefðbundnum hætti. Þá hafi Jón Ásgeir boðið honum far með þotunni, sem hann hafi þegið. Jón Ásgeir hafði skotið föstum skotum á Gunnar Smára í bókinni og sagt hann helst ekki hafa nennt til Danmerkur öðruvísi en í einkaþotu. Því hefur Gunnar Smári vísað til föðurhúsanna.

Ertu hamingjusamari núna heldur en þegar þú sast í einkaþotunni, sem var að vísu leigubíll?

„Ég man ekki alveg hvaða tími þetta var, ég held að þetta hafi verið þegar þeir felldu Dagsbrún. Málið var það með Dagsbrún, að það var stjórnarsamþykkt fyrir því að kaupa tvöfalt og þrefalt efnahagsreikninginn, sem þýðir bara að kaupa fyrirtæki. Og það náttúrulega þýðir meiri skuldir og hluthafarnir ætluðu að koma með eignir á móti, nýtt eigið fé. Þeir höfðu reiknað með því að þetta myndi bara hækka verðið á hlutabréfunum og þeir gætu tekið lán út á hækkunina og borgað það inn sem hlutafé. Síðan kom litla kreppan á Íslandi um páskana 2006 þannig að hlutabréfin lækkuðu, en hækkuðu ekki. Og þá þurftu þeir að finna einhverja leið. Þeir áttu ekki þessa peninga sem þeir ætluðu að leggja inn og hefði aldrei dottið í hug að leggja eigið fé, þeir ætluðu bara að sækja það í Landsbankann eða Kaupþing og láta þarna inn. Þannig að þeir fóru í einhverjar rosalegar æfingar við að kljúfa fyrirtækið.“

Hann heldur áfram:

“Þannig að ég var ekki hamingjusamur á þessum tíma. Maður hugsaði bara: hvaða steypa er þetta? Og það er líka eins og mér fannst á þessum tíma, alveg eins og ég er að tala um núna, að ég er eignalaus, atvinnulaus en allir halda að ég sé kapítalisti. Stundum er það þarna úti, að þú nærð ekkert að breyta neinu. Þannig að ég vissi það að þó að ég myndi stíga fram á þessum tíma og segja: heyrðu þessir menn eru að hlaupa frá sjö milljarða hlutafjárloforði… það hefði enginn hlustað á mig.“

„En ég var ekki hamingjusamur þarna, nei.“ Hann hugsar sig örlítið um. „Eða, ég var alveg hamingjusamur, ég var bara undir miklu álagi og erfiðleikum. En ég hef alltaf verið hamingjusamur.“

Kom beyglaður úr æskunni

Þegar Gunnar Smári er spurður að því hvort hann sé sáttari við sjálfan sig núna en hann var þá, hugsar hann sig um. Hann segir það rangt ef hann segðist alltaf vera sáttur.

„Af því ég ólst upp í, ég hef oft sagt frá þessu, en ég ólst upp í fátækt og svo skömm. Þannig að þá kemur maður svolítið beyglaður úr æskunni og það tók mig svolítið langan tíma að verða sáttur við það, verða sáttur við foreldra mína og uppruna minn og svona. En frá 33 ára aldri er ég bara búinn að vera mjög ánægður með að fá að druslast um heiminn í þessu formi.“

„Hvert augnablik er ólétt af mörgum framtíðum“

Þegar Gunnar Smári er spurður út í það hvernig hann sjái næstu tíu ár og hvort hann sé ekki maður sem skipuleggur og hugsar dálítið langt fram í tímann, segist hann ekki gera mikið af því.

„Nei, ég nefnilega hugsa ekki svona langt. Vegna þess að hvert augnablik er ólétt af mörgum framtíðum. Þannig að ef þú ætlar að fara að hugsa of marga leiki fram í tímann þá gætirðu farið að þröngva þeirri línu í gang og ekki tekið eftir tækifærum sem þú hefur annarsstaðar. Þannig að ég hugsa ekki svona. Ég veit alveg svona sirka hvert við erum að fara með hreyfinguna, byggja upp breiða hreyfingu. Og ég veit að það mun fylgja því mikið afl og miklar samfélagsbreytingar. Hversu miklar fer eftir ýmsu.“

Gunnar Smári undirstrikar það að honum henti ekki að skipuleggja lífið of langt fram í tímann:

„Ég til dæmis get ekki teflt skák, ég hef ekki þolinmæðina,“ segir hann og hlær.

Hér má hlusta á viðtalið við Gunnar Smára í heild sinni.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -