Hafsteinn Númason þekkir bæði andlegan og líkamlegan sársauka. Hann hefur sigrað Bakkus, skilið tvisvar, misst fjögur börn og lent í slysi þar sem hann missti annað augað. Hann er sjötugur leigubílstjóri sem býr í leiguíbúð fyrir aldraða en dvelur stundum í húsi í Serbíu. Þar er bjartara á veturna en skugginn eltir hann samt.
Hafsteinn fæddist í Reykjavík árið 1951 – árið þegar lagið „Unforgettable“ með Nat King Cole var vinsælt. Aðstæður móður hans voru erfiðar og gaf hún hann til ættleiðingar. Hjón að vestan komu suður til að ná í nýfædda barnið sitt og á Patreksfirði ólst drengurinn upp í nálægð fjallanna og hafsins bláa hafsins.
Góð æska
„Ég átti mjög góða æsku. Í svona sjávarþorpi hafði maður fjöllin og fjöruna sem þá var leiksvæði. Við krakkarnir vorum í allavegana leikjum. Við vorum með bíla og gerðum vegi. Svo var það fjaran; þegar maður eltist þá var farið í fjöruna og búinn til fleki til að sigla á. Ég og vinur minn sátum einhver vor yfir ánum yfir burðinn. Það var líka mikið ævintýri. Við fórum stundum í ferðalög út úr bænum; eitthvað að labba upp á fjöll. Svo vorum við að stelast niður á höfn sem var harðbannað. Það farið niður á bryggju; það var oft spennandi að fara þangað að veiða kola á sumrin. Ég man eftir því þegar fór að dimma á haustin; þá var farið í leiki á túnunum. Krakkarnir hópuðust saman. Það var farið í fallin spýta, hlaupa í skarðið og allavegana svona leiki. Yfir. Útilegumannaleik. Það var allt mögulegt. Svo var maður stundum eitthvað að prakkarast. Gera at. Við vorum að hrekkja fólk. Það var tiltölulega saklaust en það var ekkert vel liðið.“
Hann hlær.
Ættleiddur
Hafsteinn segir að foreldrar sínir hafi leynt því fyrir honum að hann væri ættleiddur.
„Það vissu þetta náttúrlega allir í litlu þorpi. Mér var strítt á þessu. Það kom fyrir og þá urðu stundum slagsmál. Ég var kallaður tökubarn. Ef krakkar þurftu að ná sér niðri á mér þá var ég kallaður tökubarn. Það vafðist fyrir mér hvort þetta væri satt eða ekki; ég vildi ekki spyrja. Maður var hræddur við svarið svo maður lokaði þetta allt inni. Maður byrgði allt inni“.
Hann fór ungur að drekka og segir að fullur hafi hann farið að röfla um þetta og þá hafi foreldrar hans staðfest það að hann væri ættleiddur.
„Blóðmóðir mín hafði svo samband við mig þegar ég var 16 ára og ég hitti hana þegar ég var 19 ára. Það var skrýtið þegar hún hringdi fyrst. Og ég var dálítið frosinn. Maður vissi ekki hvernig maður ætti að taka þessu og ég var svolítið lengi að melta þetta – að átta mig á því hvað var að gerast eftir samtalið. Þegar svona gerist þá nær maður því kannski ekki alveg fyrr en seinna meir. Ég kom oft til hennar í gegnum árin og við spjölluðum saman. Það fór vel á með okkur. Föður minn, rétta föður minn, hitti ég þegar ég var 25 ára og við urðum mjög góðir vinir. Við náðum vel saman. Maður var búinn að velta svo mörgu fyrir sér og allavegana þegar maður var lítill. Það var svolítið skrýtið en samt gott að hitta þau og þau vildu allt fyrir mig gera. Eftir að ég hitti mömmu þá var voða skrýtið að eiga allt í einu fjögur systkini af því að ég ólst upp sem einbirni“.
Þögn.
„Það var voða skrýtið. Það skiptir rosalega miklu máli að vita fortíð sína og uppruna. Ég hafði velt þessu mikið fyrir mér áður og þá var ég með alls konar grillur. Það var stundum sagt við mig að blóðmóðir mín hefði verið kanamella og ég hafi verið gefinn. Það var voða skrýtið og óþægilegt. En það var gott að svo var ekki. Ég vildi á þeim tíma ekki heyra svörin. Maður var hræddur við þau. Eftir að ég hitti svo blóðforeldra mína þá var ég alltaf í góðu sambandi við þau en ég hefði ekki getað lent á betra fólki en foreldrum mínum sem ættleiddu mig. Þau vildu allt fyrir mig gera og ég gat ekki haft það betra.“
Á sjó
Jú, hafið bláa hafið. Það togaði í Hafstein. Hann fór fyrst sex eða sjö ára gamall á róður með pabba sínum.
„Þá vildi hann að við drægjum saman en það kom ekki til greina. Ég varð að hafa mitt alveg sér og það varð að vikta það sér. Ég var alltaf voðalega þver. Lét mig aldrei.“
Svo skall þorskastríðið á.
„Ég man eftir að hafa séð varðskipin fyrir utan. Það var voða ævintýralegt að sjá þau. Manni fannst þetta vera svo stórt.“
Þeir voru margir sjómennirnir í sjávarplássinu Patreksfirði.
„Maður stefndi í upphafi á að fara á sjóinn. Sjómenn á þessum tíma þóttu vera miklir menn og maður var að rembast við að vera einhver stór karl; það þóttu vera hörkumenn sem voru á sjó og það þótti vera mesta skömm að geta ekki farið á sjóinn. Og ég fór strax á sjóinn þegar ég gat. Ég var 16 ára. Þá fór ég túr sem messagutti á millilandaskipi; Mælifelli. Við fórum til Antwerpen og þaðan til Noregs og svo komum við upp á Austfjörðunum. Síðan fórum við norður fyrir land og lönduðum þar. Við vorum með áburð.“
Háseta vantaði á bát
Hann fór þennan eina túr á Mælifellinu og svo fór hann að vinna sem háseti á báti. Háseta vantaði á bát.Hafsteinn var á sjónum í um 30 ár.
„Ég byrjaði 1967 og hætti í janúar 1995. Með smáhléum; ég vann í fiskverkun einhverja vetur en var svo á vertíð. Það þótti vera toppurinn að fara á síldina. Þá fórum við norður í haf. Ég var á nokkrum bátum á síld. Það var gaman. Svo var ég á loðnuvertíðum. Þegar loðnan var búin þá var farið á net. Svona var það í nokkur ár. Svo fór ég yfir til Ríkisskipa og var á Esjunni í tvö ár. Ég slasaðist í einum túrnum; ég braut á mér hnéð – hnjáliðinn – og var frá vinnu í sex mánuði. Ég náði mér aldrei. Svo fékk ég slitgigt í hnéð. Það komu síðar meiðsli fram í annarri hendinni; afltaugin fór í klemmu þannig að ég var eiginlega farinn að missa stjórn á fingrunum. Þá fór ég í aðgerð út af því og þá var ég frá vinnu í tvö ár. Þetta var á árunum 1977-1979. Þá var ég kominn með heimili; konu og barn en ég kvæntist fyrri konunni minni árið 1978. Svo fór ég að vinna á eyrinni hjá Hafskip og fór eftir það á sjóinn hjá þeim og var í nokkur ár. Brennivínið var farið að há mér; ég bara drakk. Það endaði á því að ég eyðilagði hjónabandið með þessu; ég drakk frá mér hjónabandið og allt saman. Ég var settur af hjá Hafskip út af fylliríi. Ég var þá búinn að fara í eina meðferð en hún dugið ekki neitt. Svo eftir að ég var settur af þá sögðu þeir að ef ég færi í meðferð þá gæti ég talað við þá aftur“.
Jú, Hafsteinn fór aftur í meðferð árið 1985 og er búinn að vera edrú síðan.
„Þá fór ég aftur á sjóinn. Ég fór á bát hjá vini mínum. Var á rækju. Var stýrimaður en ég er með 1. stigið frá Stýrimannaskólanum og er með 200 tonna réttindi“.
Svo var það rækjubáturinn Haffari þar sem Hafsteinn var stýrimaður fyrst og síðan háseti. Og loks togarinn Bessi en þar var hann þar til hann hætti á sjónum árið 1995. Örlagaríka árið 1995.
Bakkus
Brennivínið. Helvítis brennivínið eins og sumir segja. Hafsteinn heldur að hann hafi verið 14 ára þegar hann fékk sér fyrsta sopann. Jafnvel yngri. Það var aðallega brugg og séniver fyrstu árin.
„Maður gat þá farið á böllin og maður fékk stundum sopa hjá eldri strákunum. Ég man að mér fannst þetta vera alveg hryllilega vont. Og oft kúgaðist ég. Það lá við að ég ældi þessu en maður gat ekki verið minni maður en hinir; maður varð að geta drukkið. Svo endaði á því að maður komst á spenann“.
16 ára gamall gat hann farið að panta sér brennivín frá „ríkinu“. Hann drakk til að verða meiri maður. Og til að losna við feimnina.
„Maður þorði öllu þegar maður var undir áhrifum. Maður var feiminn við stelpur og maður þorði ekkert að gera fyrr en maður var orðinn drukkinn. Svo þegar maður var undir áhrifum þá fór manni að líða vel. Þá varð maður svo mikill maður og hættur að vera feiminn. Maður hélt að maður væri voða mikill kall.“
Þegar ég kom í land var ég vanur að vera fullur
Drykkjan jókst með árunum og segir Hafsteinn að hann hafi ekki kunnað sér hófs í drykkjunni. Hann prófaði meira en brennivín. Hass. LSD. Spítt.
„Hassið var ekki fyrir mig; ég var alltaf að drekka mig frá feimni og drekka í mig kjark en ég lokaðist þegar ég reykti hass. Fór inn í sjálfan mig. Ég prufaði einu sinni LSD; ég fór einu sinni suður með mönnum sem voru í dópi – spítti. Og ég var í viku með þeim á spítti og að drekka. Maður var út úr ruglaður. Ég svaf ekki í viku og þurfti ég eiginlega að sofa í viku eftir þetta. Þegar ég kom í land var ég vanur að vera fullur og fara á kvennafar en þegar maður var á þessu spítti þá gleymdi maður öllu því og var bara spíttaður. Og það var ekki fyrir mig. Ég vildi heldur vera fullur og vera á kvennafari“.
Hann hlær. Hann segist oft hafa verið settur í steininn; lögreglan sótti hann stundum út úr drukkinn hingað og þangað og bara á víðavangi og setti hann í steininn. „Ég drakk þangað til ég valt út af. Ég var eins og kálfur á spena. Yfirleitt drakk maður sig dauðan. Maður drakk sig út úr. Maður hafði engar bremsur. Þetta smáágerðist og versnaði. Ég man að fyrir um 25 árum þá var ég fullur í mánuð. Og í restina var ég farinn að vera fullur í vinnunni. Ég var þá á millilandaskipi. Ég náði að leyna því eins og ég gat. Ég hélt mér á mottunni í vinnunni en ég var kannski að skjóta á mig einum bjór í hádeginu; maður varð að drekka eftir klukku til að fara ekki yfir um og meika daginn. Mér var farið að líða illa með þetta og átti mjög erfitt. Þá var hjónabandið farið í molana. Svo fór ég í meðferð en ég var ekki tilbúinn; ég veit ekki hvort ég hafi verið að reyna að laga heimilisástandið. Ég fór svo aftur á sjóinn, var edrú í hálfan mánuð og þá var ég byrjaður aftur að drekka. Svo skildum við. Ég var orðinn einn. Þá loksins endaði á því að ég gafst upp endanlega og fór í meðferð aftur. Ég hef ekki drukkið síðan.“
Kominn á botninn
Það var sem sé árið 1985 eins og þegar hefur komið fram. Hann segist hafa verið kominn á botninn.
„Maður drakk og lífið var orðið ömurlegt. Það var ekkert gaman að vera fullur. Ég var hættur að verða fullur; ég bara drakk þangað til það slokknaði á mér. Það var engin skemmtun orðin lengur. Ég var skilinn og bjó fyrir austan fjall, í Hveragerði, og sat þar einn og drakk. Bæði dag og nótt. Ég drakk til að geta sofnað aftur. Mér fannst ég vera búinn að klúðra lífinu svo gjörsamlega. Það var eiginlega ekkert til að lifa fyrir. Mér fannst best að ég myndi bara fara. En ég þorði aldrei að taka eigið líf. Ég hugsaði mikið um það en það vantaði bara herslumuninn. Einu sinni var ég þó að nóttu til með hníf í hendi og ætlaði að skera mig á púls en það varð ekki af því. Ég var kominn á botninn. Ég var búinn að fá nóg. Þetta var ekkert líf. Þetta var helvíti. Ég var búinn að missa fjölskylduna og allt; ég átti ekki neitt og var orðinn atvinnulaus. Það var engin framtíð. Maður var búinn að missa alla lífslöngun. Mig langaði ekki til að lifa. Þá langaði manni ekki einu sinni til að bjarga sér. Maður vildi ekki hitta vinina eða neina af því að ég skammaðist mín fyrir að vera bara aumingi. Ég var svo illa haldinn. Ég var eina nóttina á fylliríi en þá var ég búinn að vera fullur í meira en mánuð. Ég sat einn með flösku sem ég drakk úr og tveir menn dauðir rétt hjá mér. Fyllirísdauðir. Þá voru komnar svo miklar sjálfsmorðspælingar í mig. Allt í einu kom eitthvað yfir mig; ég hringdi í lögregluna og bað þá um að taka mig. Þeir voru komnir eftir smástund. Ég fór með þeim út í bíl og upp á stöð. Ég sagði að ég væri að bíða eftir plássi á Vogi og svo var ég settur í klefa með öðrum fyllibyttum til að sofa úr mér. Ég var spurður morguninn eftir hvort ég vildi ekki bíða aðeins af því að von væri á áfengisvarnarfulltrúa og var ég spurður hvort ég vildi ekki tala við hann. Ég var til í það. Ég var ekkert borubrattur. Áfengisfulltrúinn talaði við mig, hann hringdi síðan upp á Vog og var mér ekið þangað í lögreglubíl“.
Meðferð
Jú, Hafsteinn fór í meðferð á Vogi og hefur síðan verið edrú. Hann fór á Staðarfell eftir að hafa verið á Vogi og segir hann að hann og fleiri hafi oft farið til kvöldbæna í kirkjunni á staðnum.
„Ég sat þar eitt kvöldið og mér leið voðalega illa. Ég horfði á altarið og þá kom allt í einu eins og þytur í gegnum hausinn á mér. Það kom eitthvað fyrir mig í kirkjunni þar og einhvern veginn náði ég áttum. Ég get ekki lýst því. Það var eitthvað sem skeði. Það var eins og það færi allt í einu elding í gegnum hausinn á mér. Ég breyttist svolítið við það. Þetta var voða skrýtið. Einhvern veginn hugsaði ég öðruvísi eftir þetta. Ég fór að pæla í hlutunum. Ég hef mikið verið laus við áfengislöngun eftir þetta“.
Hann segist halda að þetta hafi verið eitthvað yfirnáttúrulegt.
„Áfengi er ekki fyrir mig. Það er ágætt fyrir marga. En fyrir mig er það dauði. Ég ræð mínu lífi á meðan áfengi er í flöskunni en um leið og ég opna stútinn og smakka þá ræð ég engu. Þá er ég viljalaust verkfæri.“
Hrefna, Kristján og Aðalsteinn
Hafsteinn gekk í hjónaband árið 1978 og eignaðist hann tvær dætur með þeirri konu, Jóhönnu Helgu og Valgerði. Hjónin skildu árið 1984.
„Þetta var mikið áfall. Það var rosalega erfitt að fara í gegnum skilnaðinn. Mjög erfiðar tilfinningar. Ég reyndi að loka á þetta og bara drakk“.
Hafsteinn fann ástina aftur. Hann hitti Berglindi Maríu Kristjánsdóttur árið 1986 þegar hann var búinn að vera edrú í rúmt ár og þau giftu sig nokkrum árum síðar.
„Allt varð bjart á ný og gaman.“
Þau bjuggu í Súðavík. Hjónin eignuðust þrjú börn. Hrefna Björg fæddist árið 1987. Kristján Númi fæddist árið 1990 og Aðalsteinn Rafn árið 1992.
„Hrefna var óttalegur grallari. Hún var mikill strákur í sér en samt voðalega blíð og voðalega hænd að mér. Hún lék sér mikið úti. Við vorum með íslenskan hund, tík sem hét Tinna, og einu sinni dubbaði Hrefna hann upp í dúkkuföt, lagði hann í vagn og keyrði hundinn í vagninum sem lét sér það vel líka“.
Hann hlær.
„Það var fyndið að sjá tíkina í dúkkufötum og með húfu liggjandi í vagninum. Það sást niður að bryggju frá húsinu okkar og þegar ég kom í land kom tíkin stundum eins og raketta niður eftir, stökk upp á herðar á mér og sat þar. Og þannig labbaði ég með hana heim“.
Svo var það Kristján.
„Kristján var svo rólegur. Hann var svo gömul sál. Hann var svo mikill nákvæmnismaður. Það þurfti allt að vera hárnákvæmt. Akkúrat. Hann var meira inni en Hrefna. Hann var jafnvel í dúkkuleik. Hann átti litla eldavél og þóttist vera að elda og baka.
Steini var oft kallaður „litli samúræinn“. Hann var allur í vopnum; sverðum og hífum. Hann var svo mikill grallari. Einu sinni í brjáluðu veðri, þegar ég var á sjónum, henti hann nær öllu dótinu út um gluggann og mamma hans þurfti að fara út í myrkri og ná í það.
Það var alltaf mikið fjör þegar ég kom í land; þá var allt á öðrum endanum á heimilinu. Allur flokkurinn hékk á mér þegar ég kom. Þá var eitthvað gert og sunnudagsmaturinn var hafður þegar ég kom í land sem var yfirleitt á mánudegi.“
Hélt í litlu hendurnar þeirra þangað til þeir voru sofnaðir
Hafsteinn var vanur að svæfa börnin þegar hann var í landi.
„Ég sat þá á kolli á milli rúma strákanna og þeir vildu að ég héldi í hendina á sér. Ég teygði mig því á milli rúmanna og las og fór með bænirnar og svo varð ég að sitja kyrr þangað til þeir voru sofnaðir“.
Hafsteinn segir að það hafi aðallega verið Faðirvorið og „þessar venjulegu kvöldbænir“ eins og Vertu guð faðir faðir minn og Jesú bróðir besti.
Svo var það dagurinn sem Hafsteinn Númason sá litlu börnin sín þrjú í síðasta skipti. Það var í janúar árið 1995.
„Þetta var ósköp venjulegur dagur. Ég var heima. Það var fínasta veður.“
Hafsteinn settist á kollinn á milli rúma litlu sona sinna um kvöldið. Las fyrir þá. Bað með þeim. Bauð þeim góða nótt. Hélt í litlu hendurnar þeirra þangað til þeir voru sofnaðir.
„Þeir voru hvor með sinn bangsann.“
Vertu, Guð faðir, faðir minn,
í frelsarans Jesú nafni,
hönd þín leiði mig út og inn,
svo allri synd ég hafni.
„Hrefna fékk að vaka lengur af því að hún ætlaði að kveðja pabba sinn. Hún hafði hamast einhvers staðar í laumi við að klára rauðan trefil sem hún prjónaði með puttaprjóni og það var eins og hún væri hálffeimin að gefa mér hann um kvöldið. Ég var svo ánægður með trefilinn. Ég vafði honum um hálsinn á mér. Hún kvaddi mig frammi í anddyri; ég faðmaði hana, kyssti og kvaddi og lokaði síðan á eftir mér og gekk með trefilinn á mér um borð. Ég tók hann svo af mér og stakk honum í vasann. Þetta var bara eins og venjulega nema að ég fékk þennan trefil. Mér datt aldrei í hug að þetta væri í síðasta skipti sem ég kvaddi börnin mín“.
Snjóflóð
Togarinn, Bessi, lét úr höfn.
„Það var brjálað veður síðasta daginn á miðunum. Maður gat ekki sofið á frívaktinni. Það voru svo mikil læti. Við fórum undir það sem við köllum Hótel Grænuhlíð,“ segir Hafsteinn en skip leita stundum vars undir Grænuhlíð á Ísafjarðardjúpi eða Hótel Grænuhlíð eins og svæðið er stundum kallað þegar veður er mjög vont. „Við lágum undir Grænuhlíð í vari. Maður treysti sér ekki inn því það var fjara og togarinn risti það djúpt.“
Hann vann úti um nóttina og hugsaði um fríið sem fram undan var en þá ætlaði hann að njóta þess að vera heima og gera eitthvað með fjölskyldunni.
„Það var svo brjálað veður þessa nótt að maður heyrði hviðurnar koma niður fjallið. Þær öskruðu. Þetta er það stór togari að hann lagðist yfir 20 gráður á hliðina undan veðrinu. Þegar hviðurnar skullu á skipinu þá var svo mikill súgurinn að maður fékk hellu fyrir eyrun.“
Þögn.
„Ég hafði aldrei upplifað þetta áður. Ekki svona veður.“
Þögn.
„Skipstjórinn kallaði í okkur um morguninn og sagði að við færum ekki inn strax. Svo kom stýrimaður niður í borðsal og sagði að það hefði fallið snjóflóð á Súðavík.“
Þögn.
„Hann sagði hvar það hefði komið niður. „Þá hefur það lent á mínu húsi,“ sagði ég og benti þeim á mynd í borðsalnum og sýndi þeim hvernig það hefur runnið en stýrimaðurinn sagði að snjóflóðið hefði lent á frystihúsinu en húsið mitt var fyrir ofan það. Það gat ekkert farið niður nema að hafa farið líka yfir húsið mitt. Ég fór upp í brú og skipstjórinn hringdi í land. Ég náði sambandi við svila minn og hann sagði mér hvernig staðan væri. Húsið væri farið. Linda væri fundin en börnin týnd“.
Þögn.
„Það var svarta myrkur uppi í brú en það var smáljós frá tækjunum en þegar ég heyrði þetta þá varð myrkrið algjört. Ég sá ekki neitt. Skipstjórinn kom og studdi mig í sófa sem var þarna og ég settist niður. Ég var búinn að segja honum hvað hafði skeð. Ég sá ekki neitt. Það var algerlega svart“.
Þögn.
„Ég var þarna í dálítinn tíma og svo fór ég niður í borðsal til strákanna og sagði þeim hvað hefði skeð. Þeir urðu felmtri slegnir. Svo var eins og þeir vissu ekki hvernig þeir ættu að akta; það var eins og þeir forðuðust mig. Svo voru þeir allir horfnir úr borðsalnum og ég sat þar einn. Ég fór svo niður og inn í klefa. Ég var með mynd af krökkunum þar og tók ég myndina í hendina og sat þar og grét“.
Þögn.
„Ég vissi ekkert hvað ég ætti að gera. Karlinn hafði áður sagt að hann þyrði ekki að fara inn af því að ef eitthvað kæmi fyrir þá myndi hann loka einu björgunarleiðinni sem til var. Ég var alveg sammála honum og skildi þetta vel þótt ég vildi fara í land. Ég skildi að það þurfti að halda höfninni opinni. Ég vafraði svo um og var kominn inn á yfirmannagang. Þar var skápur sem var fullur af flotgöllum og var ég að spá í að taka einn gallann og fara í hann en togarinn var alveg upp við höfnina að reyna að lýsa í land og það voru komnir fleiri togarar sem hafði verið kallað í til að lýsa líka. Ég var að hugsa um að stökkva í sjóinn í flotgallanum og synda í land en svo hætti ég við það vegna þess að ef ég gerði það þá myndu þeir reyna að ná mér og þá myndi skipið kannski stranda og loka fyrir innsiglinguna. Svo ég varð að vera kyrr Þannig að ég missti ekki alveg glóruna“.
Hafsteinn fór síðan á gúmmíbáti ásamt einum skipsfélaga sínum yfir í annan bát sem sigldi að bryggju.
Þögn.
„Það er skrýtið. Þegar svona er þá verður maður dofinn. Maður verður bara magnlaus“.
Snjóflóðið sem féll á Súðavík þennan dag, um hálfsjö að morgni 16. janúar, er eitt mannskæðasta snjóflóð Íslandssögunnar. 14 manns létust í snjóflóðinu. Þar af átta börn. Um 10 manns slösuðust. 12 var bjargað úr flóðinu. Snjóflóðið var um 400 metra breitt. 18 íbúðarhús urðu fyrir flóðinu sem og sjö önnur hús þar sem voru fyrirtæki eða stofnanir. Á fjórða hundrað björgunarsveitarmanna tóku þátt í björgunaraðgerðum.
Börnin dáin
Hafsteinn fór í frystihúsið í bænum þar sem fólk hafði safnast saman.
„Það var tekið á móti mér í anddyrinu. Svo þegar ég labbaði aðeins lengra þá sá ég inn í matsalinn. Þá sá ég yngsta son minn uppi á borði. Hann lá þar hvítur. Bara á bleiunni sinni. Ég labbaði til hans. Tók í hendina á honum. Ísköld“.
Brostin rödd.
Hafsteinn hafði haldið í litlu höndina hans – hans sem sofnaði með bangsann sinn í fanginu. Þá var höndin hlý.
Hafsteinn grætur.
Aðalsteinn hafði fundist á lífi en það var ekki hægt að bjarga honum.
Löng þögn.
„Það sá ekkert á honum,“ segir Hafsteinn loks brostinni röddu. „Hann var ekki neitt slasaður að sjá. Þá kom Þorsteinn yfirlæknir og tók utan um mig. Svili minn var þarna líka“.
Hafsteinn hitti svo konu sína, Lindu.
„Hún var slösuð; hún lenti í flóðinu og var föst undir braki en hún gat rifið sig upp. Hún bað mig um að fara að leita. Ég ætlaði að fara út en ég mátti það ekki, enda hefði ég ekki komið að neinu gagni. Ég var út úr kortinu.“
Þögn.
„Þá voru hin börnin týnd. Þau fundust ekki fyrr en daginn eftir. Þau voru þau síðustu sem fundust.“
Hafsteinn segir að hann hafi reynt að styðja og hjálpa Lindu og fleirum; hann segist hafa reynt að vera sá sterki þótt hann hafi verið jafnhjálparvana og aðrir.
„Það hvolfdist yfir mig ofboðsleg brennivínslöngun. Ég get svarið það að hefði ég haft flösku þá hefði ég þambað úr henni í einum teyg. En nei, börnin höfðu aldrei séð mig drukkinn og ég ætlaði ekki að sverta minningu þeirra með því að drekka út á þetta“.
Þögn.
„Þetta voru helvítis átök“.
Fjöldi manns fékk aðhlynningu á sjúkrahúsinu á Ísafirði og segir Hafsteinn að fólk hafi haldið utan um hvert annað og að það hafi hjálpað mikið.
„Það kom áfallateymi en mér fannst þeir ekki ráða við neitt. Ég fékk eitt viðtal“.
Líkin voru svo flutt með varðskipi suður en Hafsteinn og fleiri fóru suður í almennu flugi.
„Það var svolítið nöturlegt að koma út úr vélinni fyrir sunnan. Flugstöðin í Reykjavík var troðfull af fólki. Við vorum eins og viðundur sem allir voru að skoða. Voða óþægilegt. Það var eins og við værum einhver sýningardýr“.
Jarðarför barnanna þriggja fór fram frá Dómkirkjunni í Reykjavík. Og Hafsteinn reyndi áfram að vera sá sterki.
„Maður hefur fest í því að vera sá sterki en maður er ekkert sterkari en hver annar. Maður fór bara afsíðis og grenjaði þar“.
Þrjár litlar, hvítar kistur.
„Ég man að það var spilað á trompet lagið „Söknuður“ með Villa Vill.
Mér finnst ég varla heill, né hálfur maður,
Og heldur ósjálfbjarga, því er verr.
Ef þú værir hjá mér, vildi ég glaður.
Verða betri en ég er.
Eitt sinn verða allir menn að deyja.
Eftir bjartan daginn kemur nótt.
Ég harma það, en samt ég verð að segja.
Að sumarið líður allt of fljótt.
Við gætum sungið, gengið um,
gleymt okkur hjá blómunum,
Er rökkvar, ráðið stjörnumál,
Gengið saman hönd í hönd,
Hæglát farið niðrað strönd.
Fundið stað,
Sameinað
Beggja sál.
Horfið er nú sumarið og sólin
í sálu minni hefur gríma völd.
Í æsku léttu ís og myrkur jólin,
Nú einn ég sit um vetrarkvöld.
Því eitt sinn verða allir menn að deyja.
Eftir bjartan daginn kemur nótt.
Ég harma það, en samt ég verð að segja,
Að sumarið líður allt of fljótt.
Ég gái út um gluggann minn.
Hvort gangir þú um hliðið inn.
Mér alltaf sýnist ég sjái þig.
Ég rýni út um rifurnar,
ég reyndar sé þig alls staðar,
þá napurt er.
Það næðir hér
Og nístir mig.
(Texti: Vilhjálmur Vilhjálmsson.)
Missti fjórða barnið
Hjónin fluttu suður. Þau fóru í tíma hjá sálfræðingi og var sagt að þau þyrftu ekki að borga sjálf heldur yrði notast við peninga sem tengdist söfnun eftir snjóflóðið.
„Eftir tvo til þrjá tíma varð sálfræðingurinn rosalega vandræðalegur og sagði að því miður væri þetta ekki rétt; við þyrftum að borga. Við hefðum kannski átt að halda áfram en af því að það var logið að okkur þá hættum við. Við urðum að gera allt ein eftir að við komum suður. Það var enginn til að hjálpa okkur. Og allt sem náðist fram varð ég að berjast fyrir með kjafti og klóm“.
Hafsteinn segir að það sé bull að fjölskyldan hafi búið á öruggu svæði á Súðavík.
„Ég barðist í fimm ár við vindmyllur. Ég vildi fá heiðarlega rannsókn á því hvað gerðist og út af hverju. Ég vissi öll svörin. Mér fannst það hins vegar ekki vera í mínum verkahring að ákæra. Það sem gerðist þennan morgun var bara hryllingur. Það var búið að vara við fyrir nóttina en það var ekki hlustað á það. Það var skrifað upp á að þetta væri öruggt svæði en það var pólitísk málamiðlun. Þetta snerist um peninga. Þorpið er núna á öruggu svæði,“ segir hann en eftir snjóflóðið var byggt annars staðar í bænum.
Hann hefur farið nokkrum sinnum til Súðavíkur eftir snjóflóðið.
„Mér finnst vera vont að koma þangað. Það var erfitt fyrst en betra eftir því sem ég kem oftar.“
Hjónin keyptu svo hús í Mosfellsbæ og tveimur árum eftir snjóflóðið eignuðust þau dóttur.
„Þá kviknaði á sólinni en hún varð aldrei jafnbjört. En það var æðisleg tilfinning að halda á henni í fanginu. Ótrúleg. Maður varð að passa sig á að sitja ekki yfir vöggunni allan daginn“.
Hann hlær.
„Íris Hrefna er svolítið lík systur sinni. Ægilegur grallari.“
Hjónin eignuðust svo aðra dóttur, Birtu Hlín. Systurnar fengu ungar að vita um systkini sín á himnum.
„Það er líka sorg hjá þeim. Þær syrgja líka.“
Skilnaður og dótturmissir
Hjónin Hafsteinn og Linda skildu svo árið 2013.
„Það var mjög erfitt.“
Dóttir Hafsteins af fyrra hjónabandi, Jóhanna Helga, lést árið 2006 af völdum krabbameins.
„Það var mjög erfitt. Ég neitaði að trúa því þegar ég frétti að hún ætti eitt ár eftir ólifað. Ég fór í afneitun“.
Sorgin. Nístandi sorgin. Hvernig hefur Hafsteinn tekist á við hana?
„Ég veit það ekki. Ég held ég hafi lítið tekist á við hana. Ég held að það sé eitthvað meira að koma fram núna. Að ég sé að gefa eftir. Ég er orðinn meyrari. Ég á það til að fara að gráta upp úr þurru. Eftir þetta allt saman hefur lífið aldrei orðið eins. Það er alltaf einhver skuggi. Það slokknaði á sólinni eftir snjóflóðið. Þó það kvikni á henni þá hefur hún aldrei skinið jafnskært. Ég þarf ekki nema að sjá eitthvað smáatriði í bíómynd; það þoli ég ekki og brotna. Sorgin er eins og hnútur í brjóstinu á manni. Og sálinni líka. Það er bara drungi. Doði. Eins og búið sé að dempa ljós. Maður sér ekki birtuna. Maður vill stundum helst leggjast niður og breiða upp fyrir haus. Maður vill vera einn og loka sig af sem er ekki gott“.
Dauðinn
Hafsteinn er spurður hvað dauðinn í sé í huga hans.
„Fyrir mér er hann færsla yfir á annað tilverustig. Eftir allt þetta er ég hættur að spá í dauðann. Hann kemur bara þegar hann á að koma. Ég óttast ekki lengur að deyja en ég gerði það áður. Ég fór stuttu eftir snjóflóðið með flugi vestur á Ísafjörð og mér leið djöfullega við lendinguna. Þá horfði ég á fjallið og hugsaði bara: „Ok, flott, ef við hröpum þá er ég dauður og þá fæ ég að hitta krakkana. Gott mál.“ Og ég fann ekki fyrir hræðslu. Það hefði bara verið fínt að fara. Og ég er hérna ennþá. Ég mun hitta krakkana, þau koma og taka á móti karlinum þegar hann kemur“.
Hafsteinn trúir á líf eftir dauðann og hann hefur farið til miðla. Það þarf þó ekki alltaf miðla til.
„Við Linda fórum til Portúgal nokkrum mánuðum eftir snjóflóðið. Íslensk kona sem var þar líka sagði mér einn daginn að það væri alltaf stelpa að skottast í kringum mig. Hún lýsti Hrefnu og hún lýsti klippingunni á henni; það var búið að klippa hana stutt og það hafði enginn séð mynd af henni með þá klippingu. Nokkrum dögum síðar kom þessi kona aftur til mín og sagðist ekki fá neinn frið. Hún sagði að stelpan væri alltaf að gera svona með puttunum,“ segir Hafsteinn og hreyfir fingur sína. „Hún sagði að hún skildi þetta ekki. Hún sagði að þetta væri eitthvað í sambandi við mig. Ég sagði að þetta gæti verið puttaprjón og þá sagði konan að það væri það; hún væri 100% viss. Mér fannst þetta vera voða skrýtið. Svo varð ekkert meira úr þessu. Við Linda fórum svo heim og nokkrum dögum síðar tók ég sjógallann minn upp úr tösku sem var búinn að vera þar síðan ég kom heim af togaranum. Ég sá að það var bunga á öðrum vasanum. Ég fór í vasann og dró upp rauða trefilinn sem dóttir mín hafði gefið mér í síðasta skipti sem ég sá hana en þá hafði hún hamast allan daginn við að prjóna hann með puttaprjóni. Ég mundi ekkert eftir þessu. En svo allt í einu sat ég frosinn með trefilinn“.
Þögn.
„Það gæti ekki verið sterkara.“
Hrefna vildi gefa pabba sínum trefil þar sem honum var oft kalt á sjónum.
„Kunningi minn var skyggn og hann sagðist oft sjá hana hjá mér í bílnum.“
Þögn.
„Mér finnst það vera gott.
Hafsteinn segist svo hafa séð dóttur sína sem lést í snjóflóðinu í minningarathöfn sem haldin var 20 árum eftir snjóflóðið.
„Það var minningarathöfn í Guðríðarkirkju og sat ég á fremsta bekk ásamt Lindu og biskupnum. Fjallabræður sungu svo fallegt lag þegar athöfnin var byrjuð. Ég er svo laglaus að ég get ekki sungið það. Það hafði svo ofboðsleg áhrif á mig að ég var að brotna. Ég var að fara að gráta. Veggurinn fyrir aftan altarið er úr gleri og þegar ég leit upp þá var eins og það væri tjald dregið fyrir og ég leit á dóttur mína og hún var orðin fullorðin; það var eins og hún kæmi fram fyrir tjaldið sem kynnir. Hún veifaði til mín hlæjandi með annarri hendinni. Ég sá hana í augnablik. Og ég hreinlega fraus. Ég gleymdi allri sorg. Ég var út úr kortinu það sem eftir var athafnarinnar. Hún var í hvítum kirtli og það var prakkarasvipur á henni. Það var eins og hún hefði stolist til að láta mig sjá sig. Svo heyrði ég í fullt af fólki á bak við tjaldið á meðan ég sá hana. Það var eins og kliður; fólk að tala saman. Þetta var sekúndubrot“.
Stórslasaður
Áföllin hafa verið mörg. Sársaukinn mikill – bæði andlegur og líkamlegur sársauki. Hafsteinn lenti í bílslysi árið 2001.
„Ég ákvað að taka einn dag í frí og fara í laxveiði. Ég ók bílnum í beygju í áttina að Hellisheiði frá Þrengslaveginum þegar hvellsprakk hægra megin að framan. Bíllinn byrjaði að rása á veginum. Það var mikil umferð á móti og ók stór flutningabíll á móti mér. Það var annaðhvort að lenda framan á honum eða fara út í hraun. Og ég valdi hraunið. Andlitið kurlaðist; það fór allt í köku. Það stendur í læknaskýrslu að hvert einasta bein hægra megin í andlitinu hafði kurlast og mest öll bein vinstra megin líka. Svo ég var í góðu mauki. Þá missti ég augað. Hægra augað. Þegar þeir komu að mér lá það niður á kinn. Ég var ekki beint fallegur. Ekki beint frýnilegur. Ég var alblóðugur. Það var svo skrýtið að ég rotaðist ekki. Ég gat sagt til nafns þegar þeir spurðu hver ég væri. En ég var fastur í bílnum og þeir þurftu að klippa mig lausan. Ég var það tæpur að þeir treystu mér ekki með sjúkrabíl í bæinn og var ég sendur í þyrlu og var mér sagt eftir á að það væri bara gert í algerri neyð. Ég var að drukkna í eigin blóði og þufti að skera mig í hálsinn til að þræða mig. Annað lungað hafði fallið saman og rifbein voru brotin. Þá braut ég annað hnéð. Og annan úlnliðinn. Og ég var úr axlarlið. Þeir þorðu ekki að hreyfa við mér þar sem þeir héldu að ég væri með mænuskaða. Það tók síðan um níu tíma að púsla saman á mér andlitinu; ég er miklu breiðleitari í dag heldur en ég var“.
Hafsteinn segist hafa verið kolruglaður á spítalanum.
„Ég var út úr ruglaður, út úr dópaður og kolbrjálaður. Ég var brjálaður í skapinu. Ég vildi bara komast heim. Ég reyndi einu sinni að strjúka og notaði sem hækju flöskustatífið sem ég var með. Ég var einn daginn kominn að lyftunni með brotið hné og ætlaði heim en sem betur fer fór rafmagnið af spítalanum þannig að ég komst ekki í lyftuna“.
Hann hlær.
Hann segir að slysið hafi haft áhrif á minnið.
„Ég er svo gleyminn.“
Hafsteinn segir að líkamlegu kvalirnar séu ekki neitt miðað við þær andlegu.
„Þær eru bara „pís of keik“.
Skugginn
Hafsteinn hefur farið reglulega til geðlæknis eftir snjóflóðið. Þynglyndi hrjáir hann. Hann segir að hann hafi verið farinn að finna fyrir því í drykkjunni; fyrir snjóflóðið.
„Þegar ég er þunglyndur þá vill maður helst ekki gera neitt. Maður vill helst vera heima hjá sér. Þegar mér líður illa þá kaupi ég mér eitthvað slikkerí og leggst í át. Það er erfitt þegar fer saman sorg og þunglyndi. Maður getur eiginlega ekki skilgreint þetta. Þetta er svipað. Það er erfitt að sjá einhverja bjartar hliðar á lífinu“.
Hafsteinn missti bílprófið fyrir mörgum árum vegna drykkju en hann fékk það aftur. Var náðaður. Hann hefur starfað sem leigubílstjóri undanfarin ár og ætlar að halda því áfram þótt hann sé orðinn sjötugur. Honum finnst vera betra að fara út á meðal fólks hvað þetta varðar heldur en að vera mikið heima í íbúðinni fyrir aldraða sem hann leigir.
„Ég ætla að halda áfram að vinna. Ég kann ekkert annað. Þetta er til að brjóta upp daginn. Ég nenni ekki að sitja hér og drepast“.
Missti húsið
Hann átti hús á sínum tíma en hætti að greiða af því lánin eftir hrunið og hann má ekki eiga neitt þess vegna. Hann er með aðgang að húsi í Serbíu þar sem hann hefur dvalið á veturna undanfarin ár – nema síðasta vetur vegna Covid-19. Honum finnst vera gott að komast í burtu. Fara í annað umhverfi.
„Ég læt mér leiðast þegar ég er í Serbíu. Er ekki að gera neitt. Það er ágætt að breyta til. Veturnir þar eru styttri og meiri dagsbirta. Maður er bara í rólegheitunum þar. Ég fer kannski í göngutúr í skóginum og spjalla við fólk á kaffihúsum. Stundum skrepp ég yfir til Bosníu. Það er voða næs að vera þarna. Þetta er sumarbústaðahverfi“.
Hann kemst í annað umhverfi en:
„Skugginn eltir mann alltaf uppi. Það dugir ekkert að vera á endalausum flótta“.