Föstudagur 10. janúar, 2025
0.8 C
Reykjavik

Haraldur Logi missti allt í hruninu – Rekur nú stórveldi og er ástfanginn upp fyrir haus

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Haraldur Logi ólst upp í Hafnarfirði, er útlærður framreiðslumaður en hefur frá því eftir útskrift aðallega unnið við sölu- og ráðgjafastörf eða þar til hann stofnaði eigið fyrirrtæki fyrir um áratug. Og fyrirtækjunum hans fjölgar.

„Ég vann hjá Glitni fyrir hrun, var í útlánum, og það var ofboðslega skrýtinn tími að vinna þar dagana fyrir hrun. Í hvert skipti sem yfirmaðurinn gekk fram hjá þá hugsaði ég með mér hvort ég yrði næst kallaður inn því það voru uppsagnir allt í kringum okkur.“

Svo rann sá dagur upp sem Haraldur Logi var kallaður inn til yfirmannsins og honum rétt uppsagnarbréf. Hann segir að bankinn hafi gert vel við þá starfsmenn sem misstu vinnuna varðandi uppsagnarfrest og fleira.

„Ég var farinn að vinna hjá Kortaþjónustunni um viku síðar. Ég starfaði svo sem auglýsingastjóri fyrir WOW air flugfélagið frá 2012 og til síðasta dags þess ágæta flugfélags. Mér leið vel hjá WOW og er ég ánægður með þann góða tíma sem ég átti þar.“

Haraldur Logi átti íbúð fyrir hrun og hann missti hana.

„Það var mikill skellur að missa allar eigur sínar; það fór nánast allt í kringum hrunið. Ég var alls ekki skuldsettari en hver annar en húsnæðislánin hækkuðu og launin lækkuðu og þá var bara ekkert hægt að ráða við það. Lánin fóru vel yfir verðmæti eignarinnar. Þetta var óyfirstíganlegt.“

Haraldur Logi segir að þessi reynsla hafi styrkt sig.

- Auglýsing -

„Það var erfitt að fara í gegnum þetta en ég held að þetta hafi styrkt mig í að vera ákveðnari í að skuldsetja mig ekki. Allt sem við eigum í dag höfum við byggt upp saman frá grunni,“ segir Haraldur Logi.

„Við“ er hann og ástin í lífi hans og eiginkona, Drífa Björk Linnet, en þau eiga fyrirtæki hér á landi og erlendis. Nei, þau hafa ekki tekið lán varðandi fyrirtækin.

Ástin og rómantíkin

- Auglýsing -

Haraldur Logi varð skotinn í ungri konu, Drífu Björk Linnet, í apríl árið 2008; hrunárið mikla. Hann segir að hún hafi ekki orðið jafnskotin í sér.

„Ég gafst hins vegar ekki upp á þvermóðskunni í þessari sveitastelpu og var sannfærður um að hún yrði konan mín. Við hittumst svo 31. ágúst í gegnum sameiginlega vini. Ég bauð henni í kaffibolla.“

Drífa þáði loksins kaffibollann.

„Og við erum ennþá að drekka það kaffi.“

Hún varð bálskotin í honum. Það var ekki aftur snúið.

Haraldur Logi

Hvað er ástin?

„Ástin er vinátta, virðing, fegurð og auðmýkt myndi ég segja.“

Hann er spurður hvort hann sé rómantískur.

„Oftast já,“

Í hverju felst það?

„Hún felst í þessum litlu hlutum. Að leggja teppi yfir konuna mína, bjóða henni góða nótt og svo góðan dag með kossi, senda henni falleg skilaboð yfir daginn, færa henni ristaða brauðsneið og útbúa morgunmatinn hennar áður en ég fer í vinnuna fyrir utan svo allt hitt eins og að fara út að borða og hafa það kósí.“

Haraldur Logi og Drífa giftu sig á Ítalíu og eiga tvö börn sem eru sjö og níu ára, þau Björk Linnet og Harald Loga yngri.

Haraldur Logi

Reykjavík Warehouse og leyndarmálið

Aftur til baka í tíma.

Haraldur Logi vann jú hjá Glitni og Drífa var fasteignasali. Þau áttu von á eldra barni sínu og segir Haraldur Logi að þá hafi í rauninni dottið í hendurnar á þeim lager af arganolíu sem er fágæt en hún er unnin úr hnetum argantrjáa sem eru upprunnin í Marokkó og þykir olían vera góð fyrir húð, hár og neglur.

„Drífa heillaðist af þessu undraefni og byrjaði að leita að vörumerkjum sem innihéldu arganolíu og þá byrjaði þetta að vinda upp á sig. Þetta átti bara að vera hobbí í bílskúrnum en svo úr varð að heildverslunin Reykjavík Warehouse var stofnað árið 2011 með mörg vörumerki en þar má m.a nefna ELEVEN AUSTRALIA, BALMAIN PARIS HAIR COUTURE, K18 og ítalska háraliti.. Við einblínum helst á vörur sem eru hreinar, það er að segja lausar við skaðleg eiturefni, umhverfisvænar og ekki prófaðar á dýrum. Við sinnum aðallega hárgreiðslustofum út um allt land. Ég ætlaði aldrei að verða sjampósölumaður en það er bara gaman,“ segir Haraldur Logi og hlær.

Haraldur Logi

Hjónin keyptu fyrir átta árum síðan sumarbústað í Hraunborgum á Suðurlandi; þau höfðu átt sumarbústað annars staðar sem þau seldu en heilluðust af Hraunborgum meðal annars vegna þjónustunnar sem sumarhúsaeigendum sem og gestum á tjaldstæðinu þar er boðið upp á. Þar er til dæmis sundlaug, golfvöllur og þjónustumiðstöð þar sem er veitingastaður. Þá er hægt að leigja sumarhús með heitum potti á svæðinu. Hjónin keyptu svo allan rekstur í Hraunborgum af landeiganda árið 2018.

„Við höfum hækkað töluvert þjónustustigið á svæðinu. Það eru um 300 sumarbústaðir á svæðinu og opnuðum við bar og veitingarstað sem heitir Þorpbarinn; þetta er eins og þorp fyrir utan gesti tjaldstæðisins. Þetta er leynd perla. Hraunborgir er algjör paradís og frábærlega staðsett.“

Núna eru Hraunborgir til sölu vegna þess að suðrið kallar á hjónin. Tenerife.

Þau eru að fara að opna heildsölu á Tenerife en þau eru komin með leyfi fyrir öll merkin sem þau flytja inn hér á landi til að selja á öllum Kanaríeyjunum en þær eru átta talsins.  „Þetta er risamarkaður með mörgum milljónum íbúa svo ekki sé talað um ferðamennina. Við munum því hefja dreifingu merkjanna okkar þar á haustmánuðum.“ Og svo eru þau nýbúin að kaupa veitingastað í verslunarmiðstöðinni The Duke Shops á Tenerife en það er við Duque-ströndina.

„Við höfum farið mjög þétt í frí fjölskyldan til Tenerife síðan 2008 og höfum eignast þar marga góða vini. En það var svo 2018 sem við ákváðum að eiga þar annað heimili og tókum við þá hús á leigu í langtímaleigu. Svo hófust plön og alls konar hugmyndir fæddust og við ákváðum því nú að fylgja þessu eftir með heildsöluna og að opna veitingastað sem yrði heilsutengdur. Svo fundum við draumastaðsetningu og draumastað. Við kynntumst eiganda verslunarmiðstöðvarinnar The Duke Shops í gegnum sameiginlega vini og keyptum svo veitingastaðinn af honum eftir nokkrar viðræður en hann var ekki á sölu og það stóð ekki til að selja hann en honum leist vel á hugmyndirnar og sló til. Við erum núna að vinna í matseðlum og fleiru og opnum hann með okkar hugmyndum haust.“

Fjölskyldunni líður vel á Tenerife.

„Ég finn mun á líkamlegri og andlegri heilsu að vera þar miðað við að vera á Íslandi. Það er sólin og hvað fólk er slakt. Það er ekki þessi asi og læti eins og hér. Ég var kominn á blóðþrýstingslyf áður en ég flutti til Tenerife en ég hætti á þeim eftir að ég flutti út. Ég finn strax mun á mér þegar ég kem til Íslands. Íslendingar eru öðruvísi en Spánverjar. Ísland er æðislegt. Ísland er best í heimi. En ég get alltaf komið heim til Íslands aftur. Börnin eru ánægð og eru að öðlast frábær tækifæri þar.“

Það er ekki „bara“ heildsala og veitingastaður á Tenerife. Hjónin eru með fleiri járn í eldinum og hugmyndirnar eru margar.

„Við erum með ákveðna hugmynd í gangi sem við erum búin að vera að vinna að síðustu mánuði. Þetta er leyndarmál ennþá en það má segja að við séum að vinna að fleiri hlutum þarna úti sem verða sýnilegri í nánustu framtíð.“

Heildsala, Hraunborgir sem eru til sölu, veitingastaður og svo leyndarmálið.

„Ef fók fær ekki hugmynd þá gerist ekki neitt. Ef það væri ekki til fólk sem fær hugmyndir þá myndi allt verða eins.“

Haraldur Logi segir að Drífa sé meiri „hugmyndamaskína“ en að hann sé meira „down to earth“. „Þess vegna gengur okkur vel að vinna saman, hún fær hugmyndirnar og ég framfylgi þeim og útfæri.“

Hvað með áhættu hvað varðar fjármagn?

„Við myndum aldrei setja allt okkar fjármagn í eitthvað sem myndi setja fjölskylduna á hliðina. Við tryggjum að fjölskyldan lifi öruggu lífi og svo förum við í fjárfestingar með það sem við eigum. Við erum ekkert að skuldsetja okkur. Það er svolítið íslenska leiðin að taka stór lán en við gerum það ekki.“

Taka þau engin lán?

„Nei. Við ákváðum það eftir hrunið árið 2008 að taka engin lán. Auðvitað hefur Covid-19 haft áhrif á reksturinn en við erum ekki á þeim stað að þurfa fjármögnun annars staðar frá.“

Hann vill vera sinn eigin herra.

„Mér finnst það vera þægilegt. Þegar ég fer að sofa á kvöldin og þegar ég vakna á morgnana þá get ég ekki beðið eftir að takast á við nýjasta verkefnið hverju sinni. Ég er fullur af eldmóði.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -