Fimmtudagur 16. janúar, 2025
4.9 C
Reykjavik

Heimir gafst upp á heibrigðiskerfinu – Læknirinn sem hætti við að útskrifast og „datt í ginið“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Ég sá að það yrði erfitt fyrir mig að vinna í þessa kerfi, jafnvel danska kerfinu, sem er sennilega það besta í heimi. Ég hef aldrei misst áhugann á læknisfræðinni en ég taldi að ég myndi ekki geta gefið sjúklingum þann tíma og þjónustu sem þeir þurfa í óbreyttu kerfi,“ segir Heimir Guðbergsson, búsettur í Damörku sem átti aðeins örfáa mánuði í að útskrifast sem læknir þegar hann tók stóra beygju í lífinu og fór að framleiða áfengi við góðan orðstýr.

Kerfið er ekki að virka

„Það er gríðarleg pressa á þeim sem starfa innan heilbrigðisgeirans, ekki bara læknum, heldur öllum sem starfa innan þess. Það er vöntun á læknum hér í Danmörku og enn meiri vöntun á Íslandi.  Það eru peningar í samfélaginu til að hafa kerfið í lagi en það virðist ekki vera pólitískur vilji til þess. Ef ég hefði klárað námið og farið að vinna sem læknir hefði ég eytt alltof mikilli orku og tíma í að vera reiður út í kerfið eða reyna að breyta því í kerfinu sem gerði það að verkum að ég gæti ekki unnið vinnuna mína.”

Heimir hefur ekki útilokað að klára læknisfræðina síðar. „Mér gekk afar vel í skólanum, námið var mér auðvelt og þetta er ekki ákvörðun sem maður tekur af léttúð, ég hugsaði þetta vel og lengi. Það er aldrei að vita hvað maður gerir síðar.”

Matur og drykkur áhugamál fjölskyldunnar

Heimir flutti til Danmerkur ásamt foreldrum sínum árið 1996, aðeins fimm ára að aldri. Foreldrar hans eru menntaðir í hótel- og veitingarekstri. Áhugi á mat og drykk hefur lengi verið ríkjandi í stórfjölskyldunni.

- Auglýsing -

„Frændi minn átti marga veitingastaði, meðal annars Lækjarbrekku, þar sem ég var mikið sem krakki og er sonur hans einnig í veitingastaðarekstri, á meðal annars Íslenska barinn og Matarkjallarann. Þessi áhugi er gegnumgangandi í fjölskyldunni.”

Heimir við bruggun.

Heimir er einn fimm bræðra og árið 2016 opnuðu þeir ásamt móður sinni Gastro pub í Álaborg þar sem fjölskyldan býr. „Ég var í námi í Óðinsvéum og ók á milli allar helgar til að hjálpa til og leysa af. Veitingastaðurinn gekk mjög vel og við komumst í góð kynni við mann að nafni Fredrik Hector Scmidt sem er sérfræðingur í bjórbruggun og hafði unnið sem slíkur hjá fjölda framleiðenda. Hann hafði áhuga að stofna sitt eigið brugghús og okkur fannst spennandi fyrir veitingastaðinn að vera með eigin bjór. Svo fór að Fredrik og Jóhann bróðir minn stofnuðu brugghúsið Bad Seed Brewing árið 2018.”

Þegar bruggverksmiðjan var komin í fullan gang sá Heimir fram á að unnt væri að nýta húsnæðið og tækin undir framleiðslu á einu af hans helstu áhugamálum, gini.

- Auglýsing -

Datt í ginið

„Það má segja að ég hafi dottið í ginið þegar ég var í heimsókn á Íslandi hjá frænda mínum á Fiskfélaginu fyrir margt löngu. Þangað komu reglulega sölumenn og var einn með nýtt og sérkennilegt gin sem mér þótti gott. Í kjölfarið fór ég að kynna mér gin og versla hinar ýmsu tegundir á ferðalögum mínum um heiminn.“

Heimir framleiðir nokkrar tegundir af áfengi en gin er hans ástríða.

Heimir setti upp eimingarverksmiðjuna Fennec Spirits ásamt Jóhanni árið 2020.

„Við erum með nokkrar tegundir en ginið er okkar sérgrein. Það er í raun ekki flókið að búa til áfengi, framleiðsluferlið er frekar einfalt, en það er erfitt að búa til gott áfengi. Þetta snýst allt um að prófa sig áfram, appelsína hér, einiber þar, smá af kóríander og smakka það til. Við erum með ekki með hefðbundið gin, sumum líkar það ef til vill ekki, en við höfum heilt yfir litið fengið afar góð viðbrögð við okkar vöru. Hér er áfengi selt út um allt en við erum aðallega í sérverslunum sem bjóða upp á vandaðra áfengi en er að finna til dæmis í stórmörkuðum.“

Einokun hindrar innflutning

Aðspurður hvort Íslendingar megi eiga von á því að bragða á afurðinni hlær Heimir.

„Við erum reyndar ekki komnir með þá framleiðslugetu að geta hafið útflutning. Það er mjög erfitt fyrir lítið fyrirtæki að flytja inn áfengi til Íslands. Það þarf til dæmis að greiða áfengisgjaldið upp í topp við innflutning þegar flest önnur lönd rukka það eftir að varan er seld. Einokunin gerir það að verkum að það er varla hægt að komast inn á markaðinn.

Ég var að gæla við þá hugmynd að senda einn kassa heim til fjölskyldunnar en gafst upp eftir að hafa séð flækjustigið og kostnaðinn við það,” segir Heimir Guðbergsson gináhugamaður og framleiðandi.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -