Föstudagur 27. desember, 2024
4 C
Reykjavik

Helga jógakennari segir marga óttast að ræða kynlíf eða sjálfsfróun: „Kynorka er lífsorkan okkar“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Ég trúi því svo innilega að við megum og raunverulega þurfum að fá að vera allt sem við erum, að kynnast öllum hliðum okkar, líka þeim sem þykja ekki eins viðurkenndar. Þetta hljómar einfalt en því miður er veganesti okkar flestra að við fengum og fáum mjög mikið af skilaboðum um hvaða hliðar okkar eru viðurkenndar og hverjar ekki“ segir Helga Snjólfsdóttir jógakennari.

Blaðamaður Mannlífs hafði samband við Helgu sem hefur síðustu misseri starfað undir merkjum Allt sem þú ert. Eina alvörumarkmiðið sem starf Allt sem þú ert hefur er að styðja fólk í að vera meira það sjálft, fella grímur og fækka hlutverkum – að geta verið sönn okkur sjálfum í öllum aðstæðum. Starfsemin er svo námskeið og viðburðir, á sviði jóga og svo meðvitaðrar kynhegðunar (e. conscious sexuality) – allt sem tengist meðvitaðri nálgun á kynlíf, samskipti og nánd. Einnig býður Helga upp á einkaviðtöl um kynorku og nánd fyrir einstaklinga og pör.

„Flest okkar heyrðu til dæmis í barnæsku „láttu ekki svona!“ (eða sambærilega frasa) þegar við vorum leið/reið/frek/kát/feimin/æst og svo má áfram telja, það kenndi okkur að ritskoða líðan okkar og hegðun til að hlífa umhverfinu“.

Fann kynorku streyma um líkamann

Ljósmynd: Ásta Kristjánsdóttir

„Vegferðin inn á þessa braut byrjaði eftir örlagaríka ferð til Liverpool haustið 2018 með bestu vinkonu minni! Við fórum tvær á 3ja daga námskeið þar sem við vorum í 80 manna hópi að dansa svokallaðan 5rythms dans. Á svona námskeiði er mjög samþykkt að fólk bresti í grát, öskri eða hlæi, sýni alls kyns tilfinningar. Á dansgólfinu fer ég svo að finna kynorku streyma um líkamann, unaðsstrauma raunverulega og heyri skýr skilaboð innra með mér um að það sé ekki viðeigandi hér í margmenni. Á sama tíma fann ég að sannleikur minn var að auðvitað væru þessar tilfinningar jafn viðeigandi og allar hinar, að þetta væri bara mitt og mætti alveg flæða um mig. Annað sem ég hugsaði var að ef ég væri í karlmannslíkama og væri með standpínu, hvernig væri það, þyrfti ég að fela það? Þarna runnu í gegnum huga minn alls konar gamlar sögur og hugsanir sem tengjast hömlum og skilyrðingum í kringum það að vera kynvera. Það sem stóð upp úr var að þetta var svo mikið bull og hlaðið skömm og sektarkennd fyrir það eitt að vera kynvera“.

„Ég kom heim úr þessari ferð og fór á google og leitaði að „sexuality & sensuality“. Þar hófst magnað ferðalag sem er enn í gangi. Algjör umbreyting og endurskoðun á viðhorfum mínum og skilyrðingum í sambandi við að vera kynvera, og manneskja! Þegar þarna er komið við sögu er ég búin að vera á andlegri braut frá unglingsaldri þegar ég kynntist jóga“.

- Auglýsing -

 

Ég upplifði margt sem gerði mig forvitna.

„Ég var líka mikil efahyggjumanneskja á þessum árum og trúði ekki á neitt. Heimurinn var mjög svarthvítur í mínum augum. Svo byrjaði ég að upplifa ýmislegt á jógadýnunni sem gerði mig forvitna og sú forvitni um að tilveran væri margslungnari og dularfyllri en ég hafði trúað dró mig áfram. Ein sterk minning er að liggja í slökunarstöðu í lok æfingar og upplifa sterkt að ég væri náttúra, haf, fjöll og himinn allt í senn!“

- Auglýsing -

„Nú hef ég verið jógaiðkandi hálfa ævina og jógakennari fjórðung ævinnar en ég ræktaði jógaiðkun samhliða verkfræðinámi og síðar starfsframa í Össuri“.

Vorið 2018 ákvað Helga að segja starfi sínu hjá Össuri lausu og einbeita sér að ástríðu sinni sem er að styðja við vellíðan nútímafólks með það að leiðarljósi að það er hægt að lifa andlegu og innihaldsríku lífi í nútíma samfélagi. Til þess þarf þó þjálfun og æfingu í að þekkja sjálfan sig og hvað skiptir mann mestu máli og velja og hafna í samræmi við það.

Fyrsta námskeið Allt sem þú ert var KvennaKraftur – endurheimt þar sem Helga byggir á eigin reynslu af kulnun og notar jóga bakgrunninn til að skapa nærandi námskeið fyrir konur sem af einhverjum ástæðum þurfa að byggja sig upp.

„Svo í framhaldi af þessari uppgötvun minni um kynveruna, að hún væri í raun niðurbæld hjá mér og mörgum öðrum, fór ég að læra meira og sótti mér þjálfun á þessu sviði. Haustið 2019 steig ég stórt skref og fór af stað með námskeið fyrir konur sem heitir Kvenleiki, nánd, kynorka! Það er búið að vera ótrúlega dýrmætt að leiða fjöldann allan af konum í gegnum það 6 vikna ferðalag um þessa mikilvægu þætti tilverunnar sem er allt of lítið fjallað um. Síðan þá hef ég haldið ýmsa viðburði og námskeið fyrir einstaklinga og pör sem allir fjalla um samskipti, nánd og kynverund. Ég býð svo líka upp á einkatíma fyrir einstaklinga og pör“.

Það sem Helgu finnst standa mest upp úr á þessu „ferðalagi“  vera tenging við sjálfa sig. „Ég þekki mig betur og elska manneskjuna sem ég er, með öllum mínum kostum og brestum. Þetta hefur svo kennt mér samkennd, að taka fólki eins og það er, og það tekst orðið yfirleitt“.

„Þessi sjálfsþekking styður mig svo við að velja hvað ég vil gera hverju sinni og nýt þess að vera meira og minna laus við að þurfa samþykki frá öðrum. Sem svo leiðir að því að setja mörk, sem því miður okkur er fæstum kennt, ég veit núna að ég set mörk fyrir sjálfa mig og ber ábyrgð á að virða þau og tjá eftir þörfum og þarf að treysta því að aðrir sjái um að setja sín mörk“.

 

Brjóta upp hversdaginn

Ljósmynd: Ásta Kristjánsdóttir

Helga talar um að vandamálin sem fólk er að koma með til hennar séu að sjálfsögðu af misjöfnum toga. „Stór hluti finnur eitthvað svona kitl, finnur að það er eitthvað meira, er sjálft búið að finna þetta sem ég fann að það eru einhverjar innri hömlur, skilyrðingar, eitthvað sem við bara fengum í gegnum uppeldi, umhverfi, samfélag og menningu, sem er ekkert endilega satt, að minnsta kosti ekki fyrir okkur.

Annar hluti er bara forvitnin eða með einlægan áhuga á nánd og samskiptum. Svo þessir sem eru alltaf til í að gera eitthvað nýtt eða nýstárlegt, brjóta upp hversdaginn og víkka sjóndeildarhringinn. Svo eru það auðvitað þau sem virkilega finna fyrir þungum farangri, skömm, sektarkennd og ótta í sambandi við að vera kynvera og þurfa hjálp við að finna sátt og frelsi“.

„Flestir eru hræddir eða að minnsta kosti stressaðir fyrir að byrja að skoða þessa hluti. Eitt er að byrja að tala um kynhegðun og nánd og þurfa jafnvel að rifja upp hluti eins og fyrstu kynlífsreynslurnar eða tala um sjálfsfróun. Annað er tilhugsunin um að breytast, það getur verið mjög ógnvekjandi, hvað þýðir það ef ég og viðhorf mín breytast? Hvað ef ég uppgötva að líf mitt er ekki eins og ég óska mér? Hvað ef ég er ekki það sem ég hélt? Mun fólkið í lífi mínu ennþá elska mig?“.

„Kynorka er lífsorkan okkar, orkan sem drífur okkur áfram og meðal annars getur skapað nýtt líf, heila nýja manneskju. Þessi tilfinning að finnast maður lifandi, sem er því miður ekki alltaf til staðar, er þegar lífsorkan flæðir.

Því miður hefur fókusinn í okkar umhverfi verið mjög mikið á hugann, afrakstur og árangur og þar með tenging við líkamann okkar, orku og skynjun mjög mikið týnst. Með því að læra betur á orkuna okkar getum við víbrað af lífi og upplifað dýpri tenginu við okkur sjálf og umhverfi okkar“.

 

Fyrsta er að virkja næmni líkamans og skynjun

Fyrsta verkefnið sem ég tek fyrir með flestum sem koma til mín er að byrja virkja næmni líkamans og skynjun, að meðvitað snerta líkama sinn og finna fyrir honum

Helga talar um að því miður virðast margir upplifa skömm í kringum þessi málefni.

„Það sem kemur fyrst upp í hugann eru þær fjölmörgu konur sem þekkja píkuna sína ekki, hafa mögulega ekki skoðað hana eða kannað hana, finnst hún ekki líta ‚rétt‘ út, lyktin af henni vond og svo má lengi halda áfram. Að kynfærin eru bara þarna og mögulega bara könnuð af einhverjum öðrum, aldrei skoðuð og heiðruð fyrir það sem þau eru og snert bara til að snerta þau ekki bara til að fá unað eða fullnægingu“.

„Frá karlmönnum hef ég meira upplifað skömm í kringum frammistöðu ýmis konar, til dæmis risvandamál, pressu á að fullnægja kynlífsfélaga, ótti við að misstíga sig og fara yfir mörk. Vil samt leggja áherslu á að þetta er ekki klippt og skorið og getur átt við um alla óháð kyni“.

„Stór upplifun mín er að fólk sé búið að hólfa af kynveruna, að hún sé einhver partur af okkur sem er bara vakandi í mjög tilgreindum aðstæðum og með ákveðnum aðilum. Það þýðir að það er raunverulega verið að bæla hana niður stóran hluta tímans, og lífskraftinn þar með. Svo á hún bara vakna úr dvala þegar rétta tilefnið sýnir sig, en það er kannski ekki svo auðvelt“.

 

Njóta kynlífs í núinu

Sýn Helgu er að að hægt sé að njóta kynlífs í núinu, að finna, skynja og njóta þess sem er að gerast núna. „Þegar fullnæging er aðalmarkmið kynlífs er hætta á að við missum af kynlífinu í kappinu að þeim. Kynlíf er líka svo fullkomið tækifæri til að tengjast og það hljómar eins og ríkara markmið en fullnæging“

„Hvað er svo kynlíf? Það er spennandi að spyrja sig að því, hvað flokkast sem kynlíf hjá mér og svo spjalla um það við kynlífsfélaga. Því miður heyri ég of oft að kynlíf hefur mjög þrönga skilgreiningu og á milli þess og hversdagslegra samskipta er oft lítil sem engin líkamleg nánd. Meira að segja er algengt að fólk sé hætt að kyssa djúsí kossa, faðma, dansa eða gefa nudd því það er orðin óskrifuð regla að það leiði til kynlífs, en Helga segir okkur að það sé efni í heilt aukaviðtal um samskipti, tjáningu, meðvirkni, mörk og fleira“.

 

Reynsla í að vinna með kynorku og nánd

Það sem að Helgu langar að segja við þá sem eru að stíga sín fyrstu skref í þessum hugleiðingum er að finna hugsunum sínum farveg, skrifaðu niður, finna vin sem þú getur talað við, finna þér ráðgjafa. „Það gerist ekkert á meðan áhuginn fær bara að hringsóla í huganum“.

Það hjálpaði Helgu mjög mikið að leita á netinu, lesa bækur, hlusta á hlaðvörp og svo auðvitað námskeið þar sem hún fékk upplifun og reynslu í að vinna með kynorku og nánd.

„Það er svo magnað að vinna með kynorkuna því hún hreyfir við svo djúpum og oft gömlum þungum tilfinningum eins og skömm, ótta og sektarkennd. Krefjandi en áhrifaríkt“.

„Þegar við förum að tengjast okkur nánar krefur það okkur um að horfast í augu við okkur sjálf, allt sem við erum, líka það ljóta og hrædda, til dæmis. Nánd snýst um að opna sig, berskjalda og deila sér með einhverjum öðrum, það er stórt verkefni fyrir okkur flest að fella varnirnar okkar og verða fær um djúpa nánd“.

Erfiðast í þessu ferli hefur verið að sleppa tökum á fullkomnunaráráttu og kröfum á mig sjálfa, segir Helga.

„Að viðurkenna bresti mína og þora að sýna mínum nánustu allar mínar hliðar. Ég segi þora, því óttinn við að vera ekki lengur elskuð eða samþykkt var mikill.

Einnig var erfitt að átta mig á hversu mikið af hugmyndum mínum voru bara arfleifð, að mín grunngildi og viðhorf eiga ekki mikið skilt við það sem ég fékk úr uppeldi, samfélagi og menningu“.

 

Lestu allt um málið og meira til í brakandi fersku helgarblaði Mannlífs hér eða flettu blaðinu hér fyrir neðan: 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -