Föstudagur 10. janúar, 2025
2.8 C
Reykjavik

Heyrnarlausa parið Hanna og Hilmar ætla að sigra heiminn

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Við ætlum að sigra heiminn, auðvitað. Okkur langar til að ferðast mikið meira næstu árin, erum alls ekki hætt og látum ekkert stoppa okkur,“ segir Hanna K. Jónsdóttir ferðalangur sem hefur síðastliðin fjögur ár ferðast mjög víða með kærasta sínum, Hilmari Thorarensen Péturssyni. Þau eru bæði heyrnarlaus og hafa lent í ýmsum ævintýrum á ferðalögum sínum.

Ferðalag heyrnarlausa parsins hófst árið 2016 og síðan þá hafa þau ferðast til Póllands, Sameinuðu arabísku furstadæmanna, Svíþjóðar, Englands, Hollands, Taílands, Noregs, Ástralíu, Nýja-Sjálands, Indónesíu, Síngapore, Malasíu, Sri Lanka, Kambódíu, Katar, Malasísíu, Maldíveseyja og Víetnam. Þau skipuleggja öll sín ferðalög sjálf og ætla ekki að hætta fyrr en þau hafa sigrað heiminn.

Geta allt nema heyrt

„Okkur finnst best að skipuleggja allt sjálf. Við kaupum flugmiða, finnum gistingu og alls konar afþreyingu. Við látum heyrnarleysið alls ekki að stoppa okkur og látum drauma okkar rætast. Við getum gert hvað sem okkur langar til, nema heyrt, auðvitað,“ segir Hilmar.
Unga parið hefur kynnst fjölda fólks á ferðalögum sínum, bæði öðru heyrnarlausu fólki frá öðrum löndum og þau hafa einnig verið dugleg að tjá sig með bendingum við þá sem ekki kunna tákn með tali. „Við höfum hitt ótrúlega margt heyrnarlaust fólk frá mörgum löndum en táknmálið er alls ekki það sama alls staðar. Það hefur verið virkilega gaman og kynnast mismunandi menningu þess. Vel hefur gengið hjá okkur að tala saman á táknmáli en þetta hefur verið skrautlegra gagnvart þeim sem heyra,“ segir Hanna.

„Okkur finnst best að skipuleggja allt sjálf.“

Hér eru Hanna og Hilmar með innfæddum á Balí í Indónesíu.

Ótrúleg ævintýri

„Við fórum til dæmis í fjögurra daga siglingu á Komodo-eyjarnar í Indónesíu sem var algjörlega toppurinn af öllum okkar ferðum. Þarna sváfum við í tjaldi fyrir ofan bátinn. Einn starfsmaðurinn var alveg yndislegur og við náðum mjög vel saman þrátt fyrir tungumálið. Við heyrnarlaus, hann heyrandi en við notuðum mikið af látbragði, svipbrigðum og handabendingum. Við grínuðumst mjög mikið saman og hann gerði allt fyrir okkur þannig að í það skiptið græddum við helling á því að vera heyrnarlaus,“ bætir Hanna við.

- Auglýsing -

Hilmar er sammála því að þessi sigling hafi verið toppurinn. Hann segist aldrei munu gleyma öllu dýralífinu. „Við sáum þarna 11 metra stingskötur og það var magnað að synda með þeim. Þá syntum við með sæskjaldbökum og skrautlegum fiskum. Að kvöldlagi flugu yfir okkur þúsundir leðurblaka í ætisleit. Það besta var þó að sjá risastóra kómódódreka „í nærmynd“ en þeir eru víst alveg stórhættulegir fólki. Þeir geta fundið blóðlykt úr mikilli fjarlægð,“ segir Hilmar.

Ekki bara dans á rósum

Aðspurður segir Hilmar það ekki alltaf hafa eingöngu verið dans á rósum að ferðast svona lengi og víða. Erfiðasta lífsreynslan var þegar Hanna fór í bakinu eftir að þau höfðu bæði borið 15 kílóa bakpoka á bakinu svo dögum skipti. „Við vorum í Sihanoukville á Kambódíu og höfðum verið á ferðalagi í tvo mánuði. Þá fékk hún rosalega sprengjutilfinningu í mjóbakinu, missti máttinn og lyppaðist niður. Hún gat einfaldlega ekki hreyft sig vegna verkja. Hringt var á sjúkrabíl og farið með Hönnu á spítala. Þar var allt rosalega skítugt og gamaldags, þjónustan ekki alveg upp á það besta, svo ekki sé meira sagt,“ segir Hilmar. „Við þurftum að bíða endalaust, Hanna fékk ekki einu sinni að pissa og ekkert að borða heillengi. Til að tjá  okkur skrifuðum við í símann með hjálp Google Translate. Það var mjög sérstakt að upplifa þetta. Eftir nokkra klukkutíma missti Hanna meðvitund og þá varð ég skíthræddur um að missa hana. Við sváfum tvær nætur á skítugu spítalaherbergi með blóðblettum upp um alla veggi þar sem okkur heyrnarlausa fólkinu var bara sagt að hringja þyrftum við aðstoð. Sem betur fer frétti hótelstjórinn af okkur á spítalanum og kom okkur til bjargar, við erum miklir vinir í dag.“

- Auglýsing -
Hér eru Hanna og Hilmar hoppandi kát á Maldives-eyjum.

Vegabréfið horfið

Á ferðalagi um Nýja-Sjáland leigðu Hanna og Hilmar sér bílaleigubíl. Ferðalagið gekk vel að mestu leyti, fyrir utan að þau lögðu bílnum ógætilega er þau fóru í árdegisverð í borginni Auckland. „Við lögðum bílnum fyrir framan prentsmiðju sem okkur sýndist vera lokuð. Eftir yndislega stund komum við til baka og þá var bílinn bara horfinn. Við misstum hjartað í buxurnar og vissum ekkert hvað við áttum að gera,“ segir Hanna. „Við báðum fólkið á veitingastaðnum að hjálpa okkur og kom þá í ljós að prentsmiðjan var opin og þeir höfðu hringt á dráttarbíl þrátt fyrir að það voru tóm stæði allt í kring. Við þurftum að punga út 25 þúsund krónum til að fá bílinn aftur. Það tókst sem betur fer því við uppgötvuðum líka að vegabréfin okkar voru í hanskahólfi bílsins og voru þar þegar við fengum bílinn því við áttum ferð til Balí eftir nokkra daga. Þetta kenndi okkur að skilja aldrei vegabréfin okkar eftir.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -