Þriðjudagur 14. janúar, 2025
8.8 C
Reykjavik

Hilmar opnar sig um kvíðann, offituna og magermisaðgerðina: „Að líða illa var aumingjaskapur“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Kvíði er bölvaður andskoti og eitthvað sem er alls ekki tabú og á að ræða án viðkvæmni. Minn kvíði kom seinna, á efri árum og það er erfiðara að hemja þetta helvíti núna en áður,“ segir Hilmar Þór Norðfjörð, ljósmyndari, markaðsmaður og framkvæmdastjóri Media Group ehf.

Hann hvetur fólk til að opna sig því að með aukinni tjáningu fólks á vanlíðan sinni sé stórt skref stigið.

„Ég er óhræddur við að segja að ég hef blessunarlega leitað mér sérfræðihjálpar, fengið bæði lyf og þjónustu sálfræðinga. Ég fékk greiningu á fullorðins ADHD auk þess að tikka í mörg box kvíðaröskunar. Ég hummaði það af mér, stór og sterkur strákurinn. Ég hefði líklega átt að hlusta betur.“

Sendur á Dalbraut sem gallaður

Hilmar hefur alltaf verið orkumikill og var sem krakki sendur á barnaheimilið að Dalbraut þar sem hann dvaldi í tvær vikur. „Það hefur margt breyst í dag en þarna var maður bara lokaður inni í tvær vikur án greiningar eða aðstoðar. Þetta var bara fangelsi fyrir erfiða krakka sem Hilmar var sendur í því hann var eitthvað gallaður. Blessunarlega er umræða um kvíða og þunglyndi ekki eins viðkvæm eins og hún var, að líða illa var aumingjaskapur, en sem betur fer er breytt sýn á það í dag.” Hilmar segir að þrátt fyrir að meira aðstoð sé fyrir börn í dag þyki honum aðrir hlutir hlutir erfiðari fyrir ungt fólk eða áður, en hann er tæplega fimmtugur. „Ég myndi ekki vilja vera unglingur í dag, við búum í svo kikkuðu umhverfi að það meikar ekki sens að við séum ekki með kvíða. Áreitið á börnin okkar er yfirgengilegt, sjóvarp, tölvuleikir, samfélagsmiðlar, krafan um að líta vel út svo og stöðug leit að nýjum leiðum til að hafa ofan af fyrir sér. Ég fór í sveit sem krakki sem var frábært. Engar tölvur, ekkert sjónvarp en samt hafði maður alltaf nóg að gera, þótt maður hefði „ekkert” að gera. Samfélagið er að mörgu leyti betra og opnara en líka hraðara og steiktara.“

Hilmar Þ

Ekkert nema óhóf

- Auglýsing -

Hilmar var um margra ára skeið fréttaljósmyndari og þurfti að vera í góðu líkamlegu og andlegu formi fyrir oft á tíðum erfiðar myndatökur. Þar segist hann þurft að vera sterkur og sýna aldrei veikleika. En með árunum jókst þyngdin, þrekið minnkaði og kvíðin jókst. Hilmar telur enga spurningu samband hafi verið á milli aukinnar þyngdar og aukins kvíða. „Ég er hávaxinn svo ég bar þetta þokkalega vel en ég var orðinn um 130 kíló þegar mest var. Ég hef líka fitnað í samböndum mínum, ég hef tekið eftir að um leið og þú ert kominn í svona „comfort zone” er freistandi að fá sér gott að borða og vínglas þegar heim er komið. Ég var búin að prófa alls konar megrunarkúra, fara á ketó og nefndu það. Ekkert gekk og allt fór í sama farið. Ég vinn við tölvu eins og svo margir og eins og svo hjá mörgum var matarræðið í algjöru rugli. Ég át of mikið, of oft og yfirleitt á hlaupum. Þetta er bara óhóf. Ég var hættur að geta keypt á mig föt í uppáhaldsbúðunum mínum og man að ég endaði í Dressman til að kaupa mér skyrtu fyrir brúðkaup. Það var ákveðið „slap in the face”.

Það var síðan Tinnabolurinn sem gerði útslagið. „Ég keypti bol  í XL með Tinna í Epal sem mér fannst rosalega flottur en þegar ég var búinn að troða mér í hann leit ég út eins og pulsa. Átti ég að skila honum? Ég ákvað að halda honum og gera eithvað varanlegt í mínum málum. Ég var líka kominn með áhyggjur af heilsunni, hjartasjúkdómum eða sykursýki. Ég er alveg til í að vera 150 kíló ef ég heilbrigð 150 kíló“.

„Á kort í World Class“

- Auglýsing -

Hilmar lagðist í rannsóknir og ákvað á endanum að fara í magaermiaðgerð þar sem 80% af maganum er fjarlægt. Hann hefur verið afar opin um ákvörðun sína og hafa í kjölfarið fjöldi manns haft samband við hann. Hilmar tekur alltaf símann. „Það eru svo margir sem geta, eða finnst þeir ekki getað, sest niður og rætt ofþyngd. Sérstaklega veigra karlmenn sér við því að ræða ofþyngd af hreinskilni. Umræðan þarf að vera opin og fólk verður að geta spurt og fengið svör við spurningum sínum.” Þegar Hilmar tjáði fólki að hann væri að fara í aðgerð segist hann hafa fengið svör eins og að hann liti bara vel út og af hverju hann keypti sér ekki kort í World Class. „Ég leit allt í lagi út og átti kort í World Class, takk fyrir. En mér leið illa, ég var of þungur og þurfti að leita mér lækninga við því eins og hverjum öðrum sjúkdómi. Þetta snýst um að vera ekki með skert lífsgæði eða fara í áhættuhóp vegna hjartasjúkdóma. Enginn getur dæmt annars líðan.“

Núllstillti líkamann

Hilmar fékk símtal í miðjum Covid faraldrinum í október á síðasta ári. Hann var þá á biðlista en það hafði opnast fyrir hann aðgerðartími vegna sóttkvíar. „Ég var búinn að tala við marga og hugsa málið til enda. Þetta var búið að blunda í mér um tíma og þegar að því kom að taka ákvörðun sagði ég strax já. Það varð að gera eitthvað varanlegt.

Aðgerðin gekk vel, kílóin fuku af Hilmari, hann var kominn til vinnu innan viku og eftir mánuð hafði hann að mestu jafnað sig. „Ég hef alltaf verið sykurfíkill, ef það var til sælgæti var það borðað þar til það var búið. Eftir aðgerðina lifði ég á tærum súpum og maukuðum mat sem var það sem til þurfti til að núllstilla og hreinsa líkamann. Þar var líka nauðsynlegt fyrir framhaldið.”

Kílóin byrjuðu að fjúka af og fataskápurinn var endurnýjaður. „Það er búið að vera gaman að sjá þetta gerast, þótt ég sakni reyndar sumra fíkanna sem ég lét gossa. En hausinn þarf líka að vera í lagi því um meiriháttar lífsstílsbreytingu er að ræða. Ég fæ mér ennþá nammi en í dag fæ ég mér aðeins brot þess sem ég át áður. Þetta er heldur engin töfralausn, ef þú heldur áfram í sykrinum og óhollustunni færðu þetta á þig aftur.“ Hilmar segist ekki vikta sig, fötin og líðanin segi allt sem þarf. „Ég hef líka verið að æfa stíft og aukinn vöðvamassi hefur örugglega hækkað töluna á viktinni. Ég var í fáránlega góðu formi þegar ég var yngri og þótt maður sé ekki lengur 25 ára þá blundar í manni að komast þangað aftur”.

Og Tinnabolurinn smellpassar.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -