Fimmtudagur 16. janúar, 2025
-0.2 C
Reykjavik

Hólmfríður kom, sá og sigraði: „Kominn tími til að kona leiddi lista VG í Suðurkjördæmi“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Hólmfríður Árnadóttir, skólastjóri Sandgerðisskóla, sigraði í prófkjöri VG í Suðurkjördæmi. Hún talar hér meðal annars um ástæðu þess að hún skráði sig í VG á sínum tíma, starf sitt þar og áherslurnar. Svo talar hún um gosið. 

Hólmfríður Árnadóttir fæddist í mars árið 1973 og er elsta barn hjónanna Jennýjar Jóakimsdóttur og Árna Dan Ármannssonar. Hún ólst upp á Grenivík og flutti til Akureyrar á unglingsárunum þar sem hún stundaði fyrst nám við Menntaskólann á Akureyri og síðar Verkmenntaskólann á Akureyri en hún lauk ekki stúdentsprófi. Hún varð móðir ung, var 19 ára þegar hún eignaðist elsta barnið sitt, og vann við ýmis störf um árabil. Hún fór síðan í leikskólakennaranám við Háskólann á Akureyri og útskrifaðist árið 2000.

„Ég fór að vinna sem leikskólastjóri á Grenivík í eitt ár og vann þar síðan sem aðstoðarleikskólastjóri og deildarstjóri í nokkur ár. Ég kláraði á þessum árum einnig nám sem grunnskólakennari frá KHÍ og síðar meistaranám í menntunarfræðum frá HA árið 2013.“ 

Hér er ótrúlega falleg náttúra og margar hjóla- og gönguleiðir, skemmtilegir veitingastaðir og alls konar afþreying.

Hólmfríður vann í nokkur ár við Brekkuskóla á Akureyri og fór svo að vinna sem sérfræðingur á Miðstöð skólaþróunar við Háskólann á Akureyri og kenndi auk þess við kennaradeild háskólans. Hún var í björgunarsveit fyrir norðan í áratug og það var mikið að gera. Hún á fjögur börn og þar af tvö með fyrrverandi manni sínum og tvö með núverandi manni sínum en hann átti auk þess eitt barn fyrir. Hólmfríður les mjög mikið og helst glæpasögur, hún hleypur, veiðir og ferðast á innanlands á sumrin ásamt því að vera í viðbragðsteymi Rauða krossins á Suðurnesjum. 

 

Velferðarmálin 

Gamall bekkjarbróðir Hólmfríðar hringdi í hana árið 2000 og spurði hvort hún vildi ekki styðja sig af því að hann væri að fara í prófkjör hjá VG. 

- Auglýsing -

„Ég sagði „já“, enda hef ég alltaf verið pólitísk en ég var ekki skráð í neinn flokk. Ég skráði mig í VG í kjölfarið og hef alltaf fundið mig þar; mér finnst áherslur VG vera líkastar áherslum mínum í lífinu.“ 

Það eina sem Hólmfríður gerði næstu árin varðandi VG var að greiða árgjaldið og mæta á kjörstað þegar kosningar voru haldnar. Jú, hún segist stundum hafa kíkt á opna fundi. 

 

- Auglýsing -

Eiginmaður Hólmfríðar er frá Sandgerði og ákváðu hjónin að flytja þangað fyrir fimm árum síðan og fékk hún starf sem skólastjóri við Sandgerðisskóla. 

„Ég var þá búin að vera í VG síðan árið 2000 og hugsaði með mér að nú ætlaði ég að hella mér á kaf í flokksstarfið. Ég fór í velferðahóp og síðan er ég búin að vera á kafi í alls konar vinnu að velferðarmálum í flokknum. Við vorum mestmegnis að huga að heilbrigðis- og menntamálum og svolítið líka húsnæðismálum. Ég hef auk þess verið í mennta- og menningarmálahóp en við erum að vinna nýja menntastefnu og þar liggur áhugi minn. Við þurfum að styðja miklu betur við ungt barnafólk; það þarf að lengja fæðingarorlofið enn frekar, það þarf að sjá til þess að börn komist í leikskóla og stytting vinnuvikunnar er líka eitthvað sem er gott fyrir fjölskyldufólkið sem myndi þýða meiri tíma með börnunum. Ég var í nokkur ár einstæð móðir á meðan ég var í námi og ég segi oft að það hafi kostað mig blóð, svita og tár. Það var rosalega mikil vinna að púsla þessu saman. Mér finnst auk þess að við þurfum að horfa á miklu fjölbreyttari menntunarmöguleika í landinu og námsmenn eiga að geta fengið styrki í mun meira magni. Það eiga ekki að vera íþyngjandi námslán eins og er í dag. Það er búið að stíga viss skref í þessa átt en ég vil sjá Menntasjóð námsmanna í styrkjaformi og ég vil meiri stuðning fyrir ungt fólk sem er að byrja lífið. Það á ekki að vera þannig að ungt fólk detti í kulnun rétt upp úr þrítugu.“ 

Hólmfríður segir að efla þurfi heilsugæsluna á Suðurnesjum og bendir á að það séu engir með heimilislækni sinn á Suðurnesjum. „Það er gríðarlega mikilvægt að hafa heimilislækni.“ 

Hún nefnir líka geðheilbrigðisþjónustu fyrir börn. 

„Við þurfum að koma á góðum stuðningi við börn strax í leikskóla. Það þarf að styðja við þau og sérþarfir þeirra sem og foreldranna. Og það þarf að halda því áfram þegar þau eru komin í grunnskóla. Við þurfum að gæta þess að fara í alvöru eftir námskrá og lögum. Það eiga allir rétt á námi og þjónustu við hæfi.“ 

 

Við þurfum að bæta okkur hvað varðar aðlögun innflytjenda.

 

Innflytjendur um 25% 

Hólmfríður segir að af um 28.000 íbúum á Suðurnesjum séu 22-25% af erlendum uppruna. 

„Við erum þar með mjög stórt samfélag sem er mikill auður. Þarna er fullt af flottum einstaklingum sem hafa ótrúlega mikið fram að færa. Við þurfum að bæta okkur hvað varðar aðlögun innflytjenda. Við þurfum að vera með miklu markvissari stefnu og utanumhald af því að þetta er fólk sem hefur gríðarlega mikið að gefa okkur. Mér finnst vera mikilvægt að stofnanir og fyrirtæki endurspegli samfélagið og í rauninni ætti fjórðungur starfsfólks í hverri stofnun og fyrirtæki að vera af erlendu bergi brotinn ef við ætlum að endurspegla samfélagið. Við þurfum að hlusta á innflytjendur og mér finnst líka að við þurfum að vera með markvissari aðlögun hvað varðar tungumálið og menninguna; að það sé aðgengilegt fyrir innflytjendur að fá fræðslu á eigin tungumáli og hafi gott aðgengi að fjölbreyttri íslenskukennslu. Hólmfríður Hilma Sigurðardóttir er að vinna gott starf í Reykjanesbæ þar sem hún er að innleiða þessa sýn í allt starf bæjarins þannig að allir séu meðvitaðir um hvernig eigi að þjónusta innflytjendur, hvert eigi að beina þeim og annað slíkt. Við erum að byrja en við þurfum að gera miklu betur og sérstaklega hvað varðar börnin. Börn innflytjenda fara síður til dæmis í tónlistarstarf og íþróttir. Þetta er eitthvað sem við þurfum að skoða vel og sjá til þess að þau séu þátttakendur og fái að alast upp í þessu flotta samfélagi sem við eigum saman.“ 

Gríðarlegt atvinnuleysi

Um 24% vinnufærs fólks á Suðurnesjum eru án atvinnu. Innflytjendur eru um 40% af þeim. 

„Þeir sem eru búnir að vera lengst atvinnulausir og eru jafnvel að detta af bótum núna fara á framfæri sveitarfélaga eins og sagt er. Það er vitað að langtíma atvinnuleysi getur haft slæm áhrif á andlega og líkamlega heilsu fólks og það fólk þarf að nýta sér heilbrigðisþjónustu og heilsugæslu. Þetta er vítahringur. Hér þarf mikið að byggja upp er varðar heilbrigðismál og atvinnumál.“ 

 

Vill láta gott af sér leiða

Hólmfríður vildi gera meira fyrir flokkinn og Suðurnesin og ákvað í vetur að bjóða sig fram í prófkjöri VG. Úrslitin voru kunngerð 12. apríl. Hún sigraði og leiðir VG í Suðurkjördæmi. Margir þeirra sem hún atti kappi við voru þjóðþekktir. 

„Hinir kandidatarnir eru sannarlega flottir og hafa sannað sig á þessu sviði. Ég hef vissulega margt fram að færa en var ekkert að missa mig og hringja í alla í kosningabaráttunni. Ég nýtti samfélagsmiðlana svolítið og tengslanet mitt sem er stórt en ég þekki marga bæði úr fyrri störfum og núverandi starfi. Ég held að það hafi verið kominn tími til að kona leiddi lista VG í Suðurkjördæmi og eins hafi fólk viljað nýtt andlit. Ég hef augljóslega sýnt fram á eitthvað gott í kosningabaráttunni og tel áherslur mínar eiga algjörlega upp á pallborðið.“ 

Hún segist vera spennt fyrir að fara á þing og hafi alltaf brunnið fyrir því að láta gott af sér leiða. 

Svo byrjaði að gjósa á Reykjanesi. Hólmfríður er spurð hvaða máli gosið skipti fyrir svæðið. 

„Þetta er sannarlega upplyfting fyrir okkur hérna á Reykjanesskaganum og ég er að vona að gosið verði til þess að við náum til okkar meiri athygli; að landsmenn horfi hingað til okkar en þetta er svo ofboðslega fallegt og gjöfult svæði. Hér er ótrúlega falleg náttúra og margar hjóla- og gönguleiðir, skemmtilegir veitingastaðir og alls konar afþreying. Þegar ferðaþjónustan hefst á ný þá fáum við meira af ferðafólki til að skoða þetta fallega landslag. Þetta gamla hraun.“ 

Og nýja hraunið.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -