Fimmtudagur 26. desember, 2024
2.8 C
Reykjavik

Illugi með þrjár bækur og tvö spil í jólaflóðinu: „Mér finnst gaman á jólum“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Feðginin Illugi Jökulsson og Vera Illugadóttir eru dýrkuð og dáð sem dagskrárgerðarfólk í útvarpi. Þau eru þó að sýsla ýmislegt annað og nú fyrir jólin er Illugi með tvö spil og þrjár bækur í jólabókaflóðinu. Eina þeirra, bókina Dýrin, skrifuðu þau feðginin saman.

„Við Vera tókum saman og skrifuðum bókina um dýrin, einfaldlega af því dýr eru svo skemmtileg og svo margt hægt að læra af þeim, bæði um líf þeirra, lífið á jörðinni almennt og milli línanna líka um líf okkar mannanna,“ segir Illugi í samtali við Mannlíf um nýju dýrabók þeirra feðgina. Á bóksöluvef er henni lýst með eftirfarandi hætti:

„Þau eru ægileg, hlægileg, furðuleg og forvitnileg! Bók stútfull af myndum, fróðleik og skemmtilegum sögum af dýrunum. Bráðskemmtileg, illvíg og ófrýnileg. Baneitruð, krúttleg, örsmá og risastór. Útdauð, ómissandi, ótrúleg og sprenghlægileg!“

Aðspurður segir Illugi að það hafi verið skemmtilegt verkefni með Veru að skrifa þessa fjörugu bók um dýrin. 

Vera og Illugi eru dýrkuð og dáð.

„Í bókinni er sagt frá skrýtnum dýrum, hættulegum dýrum, dýrum í útrýmingarhættu og „þjóðardýrum“ – en það eru dýrin sem hinar ýmsu þjóðir samsama sig við. Svo eru í bókinni flottar myndir sem lýsa vel þessum undradýrum öllum. Þetta er einfaldlega bók sem ég get sannarlega mælt með. Þú getur til dæmis ekki ímyndað hvað letidýr eru furðuleg. Þau hanga þarna í trjánum og hreyfa sig næstum ekkert og það virkar nú ekki margt spennandi við þau. En það er öðru nær. Letidýr eru ótrúlega spennandi skepnur og það var stórkostlega gaman að rannsaka líf þeirra og háttu. Ég vona og trúi að okkur hafi tekist að koma því og öðrum dásemdum dýranna til skila,“ segir Illugi.

- Auglýsing -

Spurningakóngur Íslands

Tilviðbótar við dýrabókina þeirra Illuga og Veru er hann líka með tvær fótboltabækur í verslunum fyrir jólin.

„Ein er um hetjurnar á HM og er auðvitað i fullu gildi þó HM sé liðið. Hin er um Erling Haaland, hina uppvaxandi stjörnu sem líklega verður einn sá allra besti í heimi á næstunni, ef hann er ekki þegar orðinn það. Ferill hans er rakinn og svo eru myndir af þessum ótrúlega kappa,“ segir Illugi.

- Auglýsing -

Rithöfundurinn skemmtilegi er þekktur fyrir spurningagerð og ekki úr vegi að tala um Illuga sem hálfgerðan spurningakonung landsins. Hann samdi til dæmis til spurnningar og þrautir í tvö skemmtileg spil fyrir þessi jólin, Gettu betur og Hrærigraut.

 

 

 

 

 

 

„Nú, svo tók ég að mér að semja spurningar í tvö borðspil sem koma út. Annað er ný útgáfa af Gettu betur spilinu sem kom fyrst út fyrir 20 árum. Þetta er klassískt spurningaspil með hraðaspurningum, bjölluspurningum, vísbendingaspurningum og svo framvegis, hæfileg blanda af léttum spurningum, miðlungsléttum og fáeinum þungum!,“ segir Illugi og bætir við:

Ilugi bjó til spurningar og þrautir í tvö spil um þessi jól.

„Hrærigrautur er aftur á móti leikur að orðum fyrir alla þá sem hafa gaman af íslenskri tungu en raunar líka þá sem hafa jafnvel ekkert gaman af íslenskunni en elska skemmtilega og fjöruga keppni. Keppendur glíma meðal annars við nýorðasmíði, stafarugl, hengimann og tabú. Spilið er í raun hrærigrautur af öllum skemmtilegustu orðaleikjunum sem við þekkjum, spilið sem fær fólk til að tala, bulla og hlæja.“

Það er augljóst að það er því mikið fjör hjá Illuga þessi jólin, með þrjár bækur og tvö spil í jólaflóðinu. En skyldi hann sjálfur vera mikið jólabarn?

„Mér finnst gaman á jólum, já. Fyllist kannski lengur barnslegu jólaskapi, en finnst mikilvægt að fólki líði vel og það skemmti sér þessa daga,“ segir Illugi að lokum.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -