Fimmtudagur 16. janúar, 2025
0.8 C
Reykjavik

Ísbílstjórinn Jón Ísak lifir ævintýralífi: „Þarf að rífast við einbúann svo hann kaupi ís“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Það eru eiginlega bara furðufuglar sem vilja ekki fá ísbílinn í heimsókn,“ segir Jón Ísak Ragnarsson, einn reyndasti ísbílstjóri landsins, sem ekur landið þvert og endilangt og selur ís og fiskmeti. Hann var í ferð númer tvö í Árneshreppi um mánaðarmótin. Þá var hann svo stálheppinn að fólk á tjaldsvæði Ferðafélags Íslands á Valgeirsstöðum keypti af honum tvö íspinna og bauð honum að snæða með sér humarsúpu.

Ísbíllinn valt

Jón Ísak er ættaður frá Vestmannaeyjum. Hann ekur einum af 12 ísbílum landsins sem þvælast upp um allar sveitir, þorp og bæi. Og ísbíllinn fer meira að segja til Vestmannaeyja.

„Það voru 13 ísbílar á ferðinni um landið í fyrra en svo valt einn þeirra og það tók því ekki að gera við hann. Þetta er þriðja sumarið mitt og ég er orðinn einn af þeim sjóuðustu hjá fyruirtækinu. Mín sérgrein er Vestfirðir. Þetta er gefadi starf og maður er stöðugt að hitta skemmtilegt fólk. Í seinustu ferð minni hitt ég skemmtilegan náunga sem reyndist vera nafni minn. Við erum meira að segja báðir skírðir Jón Ísak, eftir öfum okkar en erum ekkert skyldir,“ segir Jón Ísak og hlær.

Hann er spurður um bestu viðskiptavinina.

„Skemmtilegasta fólkið er það sem býður manni í humarsúpu,“ segir hann, hlær og fær sér skeið af súpu og dæsir af velþóknun. Jón Ísak ætlar ekki að gera starfið sem ísbílstjóri að ævistarfi. Hann er búinn að skrá sig í sagnfræði og ætlar að leggja það fyrir sig. Reynslan af heimsóknum um landið hjálpar honum í þeim efnum. Hann safnar sögum í sarpinn.

„Bændurnir hafa sérstaklega gaman að því að segja mér sögur af búskapnum og úr veitinni. Sumir eru orðnir góðir kunningjar mínir. Þetta er ævintýrastarf“.

- Auglýsing -

Jón Ísak á að baki farsælan feril sem ísbílstjóri og engin sérstök áföll að baki.

„En ég brenndi að vísu kúplinguna í síðustu ferð. Ég náði að hökta til Reykjavíkur. Um páskana fór ég á Vestfirði og þá mátti minnstu muna að illa færi. Ég var að aka um Dalina og vanmat hálkuna. Það var skafrenningur, talsverður vindur, og bíllinnn tók að rása á 90 kílómetra hraða. Bíllinn missti gripið í beygjunni. Sem betur fór hélt ég ró minni og náði tökum á ástandinu og slapp með skrekkinn“.

Jón Ísak er ísbílstjóri sem krussar landið þvert og endilangt.
Mynd: Reynir Traustason
Rifist við einbúa

Jón Ísak segist hitta marga merkilega kvisti á ferðum sínum. Einbúi nokkur á Suðurlandi er honum sérstaklega minnisstæður.

- Auglýsing -

„Maður hittir allskonar skrautlegt fólk og skrýtið. Stundum heimsæki ég einbúa sem búa afskekkt og kaupa af mér ís en vilja líka spjalla og bjóða upp á kaffi. Einn slíkur býr á Suðurlandi. Hann er innmúraður Miðflokksmaður og vill fá að rífast við mann. Og magnið í ískaupunum ræðst af því hve harðar deilurnar eru. Það er auðvelt að rífast við hann og ég græði vel á þeim heimsóknum. Hann er gjarnan hæstánægður með að fá að tappa af sér,“ segir Jón Ísak.

Krakkar, krakkar, ísbíllinn er kominn

Við tölum um aprílgabb yfir humarsúpunni í húsbílnum á Valgeirsstöðum. Sagan af móðurinni frá Eskifirði er rifjuð upp. Börnin hennar fjögur voru sofandi á koddum sínum þann 1. apríl þegar brast á með bjölluhljómi eins og þeim sem ísbíllinn gefur frá sér. Móðirin kallaði hátt.

„Krakkar, krakkar, ísbíllinn er kominn. Börnin, á aldrinum 3 til 10 ára, þustu á náttklæðunum einum út á götu en þar var ekkkert að sjá nema broddskitugulan Toyota Yaris. Að baki þeirra stóð móðirin í dyrunum og engdist sundur og saman af hlátri, með klingjandi bjöllu í hendinni. Jón Ísak hló og kannaðist vel við gleði blessaðra barnanna þegar hann rennir hlað með bjölluhljómi. Tekið skal fram að móðirin í sögunni er allajafna afskaplega góð við börnin sín en með afar sérstæðan húmor.

Kröfuharðir viðskiptavinir

Viðskiptavinir Jóns Ísaks eru kröfuharðir. Þegar eitthvað er að vörunni þarf að gefa afslátt og láta skaðabætur

„Stundum er maður hundskammaður ef ísinn stenst ekki allar gæðakröfur. Þetta er algengast með eina ónefnda ístegund. Það er allur gangur á því hvernig ástandið er á þeirri vöru. Ef þeir hafa bráðnað þurfum við að gefa nýjan kassa í skaðabætur“.

Pakksaddur ísbílstjóri

Ísbílstjórinn Jón Ísak kveður á hlaðinu á Valgeirsstöðum. Hann er pakksaddur eftir veitingarnar í húsbílnum og þakkar fyrir sig fögrum orðum og segir skemmtilegasta fólkið vera það sem býður upp á humarsúpu. Skálavörður spyr um vöruúrvalið Hann sagðist bjóða upp á fiskiflök og gellur, auk allra ístegundanna. Gellur, virkilega?

„Já, ég hélt reyndar fyrir nokkrum árum að gellur væru bara sætar stelpur. Svo komst ég að því í starfi mínu að þetta er hluti af þorskinum og einkar ljúffengt. Fisherman á Suðureyri framleiðir gellurnar, rétt eins og annan fisk sem við seljum,“ segir Jón Ísak. Söluræðan virkaði og hált annað kíló af gellum skiptu um hendur. Þá var einn kassi af hnetutoppum og freistandi til að það yrði staðist. Jón Ísak kvaddi með virktum og tryllti af stað á ísbílnum. Á hlaðinu stóðu viðskiptavinirnir og horfðu á eftir honum hverfa í rykmekki fyrir nesið undir Urðartindi.

Leið ísbílsins liggur um malarveginn í Árneshreppi, norður Djúp og þaðan á Suðureyri Þingeyri, Flateyri, Ísafjörð og Bolungarvík. Vikufrí í Reykjavík býður Jóns Ísaks eftir helgi. Svo fer hann aftur á stúfana, á ísbílnum, drekkhlöðnum af gellum og rjómaís.

„Það verður gott að komast í frí en gaman að snúa aftur,“ hafði hann sagt að skilnaði.

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -