Föstudagur 10. janúar, 2025
-0.2 C
Reykjavik

MAGNAÐAR MYNDIR – Jón hefur farið sjö sinnum að gosi: „Stundum stendur manni ekki á sama“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Fólkið þarf alltaf að ganga lengra. Ég held að það sé búið að drepa ríflega 100 dróna sem hafa bráðnað í gosinu. Instagram kynslóðin er að reyna að toppa sig í þessu,“ segir Jón Hilmarsson ljósmyndari sem hefur farið sjö sinnum að gosinu í Geldingadölum og er hvergi hættur.

Eldhraunið er stórkostlegt sjónarspil. Mynd: Jón Hilmarsson.

Jón telur að það hafi nú örugglega einhverjir farið oftar en hann er hvergi að baki dottinn. „Þetta er auðvitað draumur ljósmyndarans. Það er aldrei að vita við hverju er að búast í næstu ferð.“

Jón starfaði við ljósmyndaleiðsögn áður en Covid faraldurinn skall á. Þá skellti hann sér í skóla til að klára MBA gráðu sína. Hann byrjað 19. mars að mynda gosið fyrir Víkurfréttir og hyggst halda því áfram.

Yfirlitsmynd af svæðinu sem Jón tók sl. mánudag og sýnir hraunið að renna niður í Meradali. Mynd: Jón Hilmarsson.

Jón er afar áhugasamur um gosið og fylgist náið með þróun þess.

„Breytingarnar á gosinu hafa orðið miklar frá upphafi þess. Þegar gígur númer tvö fór af stað var það á mjög skemmtilegum stað fyrir ljósmyndir þar sem hraunflæðið var fjölbreyttara og myndrænna.“

Hann hefur einnig fylst með ferðum fólks að gosstöðvum og séð margt og mikið.

- Auglýsing -

„Stundum stendur manni ekki á sama. Það koma tímar sem það eru kannski tuttugu drónar að mynda í einu og flugvélar og þyrlur að svífa yfir. Stundum fara þær ansi lágt að mínu mati. Svo er fólk að elda sér mat þarna í rólegheitum, fara inn í rásir sem geta lokast eða stíga í hraunið. Sumir eru ansi glæfralegir verð ég að segja. Aðrir ofgera sér.“

Gígur númer 2. Hraunið renna til norðurs í átt að Geldingadölum. Mynd: Jón Hilmarsson.

Jón notar sjálfur mikið dróna við sínar myndatökur. „Drónamyndatakan hefur vinninginn. Maður fær betri yfirsýn við að horfa niður, sérstaklega í ljósaskiptunum þegar hraunflæðið er afar fallegt. Það er orðið erfiðara eftir myrkur þar sem birtan frá gosinu sjálfu er svo mikil”.

Sjálfur segir Jón sig ekki hafa afrekað það enn að missa dróna.

- Auglýsing -

„Ég reyni að halda mig yfir hrauninu sjálfur og passa vel upp á hæð drónans. Það verður að sýna ábyrgð, sérstaklega þar sem ég er þarna sem fréttamaður. Það er engin ástæða til að vera alveg ofan í gosi þegar maður er með dróna. Ég er líka alltaf með gasmæli og grímu, ábyrg hegðun er lykilatriði“.

Þessa mynd tók Jón þann 10. apríl sl. Mynd: Jón Hilmarsson.

Jón hefur bæði gengið upp að gosi og farið með þyrlu.

„Einu sinni fór ég upp með þyrlu en gekk niður. Það gat verið erfitt að ganga þetta með tuttugu kíló af dóti af sér en núna get ég ekið í Merardali og komist fréttamannaleiðina þaðan, hún er hálftíma gangur. Það var mikill munur þegar að hún opnaði.“

Jón hefur tekið fjölda mynda beint ofan í hraunstrauminn. Mynd: Jón Hilmarsson.

Aðspurður um hvenær næsta ferð væri áætluð segir Jón að hann fari um leið og færi gefst. „Það er reyndar spáð rigingu núna en um leið og henni slotar er ég farinn aftur. Það má gera ráð fyrir að ég verði þarna þrisvar til fjórum sinnum í viku að mynda.” Hann segist ekki hafa hugmynd um hve lengi gosið komi til með vera.

„Eins og vísindamennirnir benda á er alveg ómögulegt að segja til um það. Dyngjugos gæti þess vegna verið stöðugt um ókomna framtíð.“

Gígur 1 að kvöldlagi. Mynd: Jón Hilmarsson.

Hann sér mikla möguleika í gosinu.

„Það eru margir kostir við svona gos. Auðvitað er gashættan til staðar en þetta er ótrúlegt sjónarspil og stórfrétt út um allan heim og gæti auðveldlega orðið stór liður í næstu ferðamannasprengju. Það hefur aldrei verið önnur eins ljósmyndum í kringum eitt gos. Það er allt á yfirsnúningi. Ef þetta heldur áfram svona þarf meira en lögreglu og björgunarsveitarmenn. Það þarf að koma þessu í eitthvað rekstrarumhverfi. En það er seinni tíma vandamál,“ segir Jón.

Meira af stórfenglegum myndum Jóns má sjá hér og einnig hér.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -