Fimmtudagur 16. janúar, 2025
1.8 C
Reykjavik

Jónas hefur þurft að vera á tánum í faraldrinum: „Þegar börn eiga í hlut þá hleyp ég“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Kórónuveirufaraldurinn setti strik sitt í reikning ansi margra starfsstétta og þeirra verkferla. Slökkviliðs- og sjúkraflutningamenn eru meðal þeirra sem faraldurinn hafði mikil áhrif á, en verkferlar þeirra og viðbúnaður þurfti töluvert endurskipulag.

Allt tekið á jákvæðninni

Jónas Baldur Hallsson, varðstjóri í Slökkviliði Akureyrar segir það hafa kallað á mikla vinnu að viðhalda öruggu starfsumhverfi, en allt hafi gengið merkilega vel á stöðinni fyrir norðan og á vinnustaðnum hafi aldrei komið upp smit. „Það sem hjálpaði gríðarlega mikið hérna var hvað allir voru jákvæðir og til í þetta.

Menn voru ekkert hræddir, þetta var bara verkefni sem við þurftum að sinna og allir hjálpuðust að við það.

Og mér finnst yfir höfuð landinn hafa tekið vel á þessu.“

Flækti útköll

Jónas segir mismikinn covid viðbúnað hafa verið eftir eðli hvers útkalls.

- Auglýsing -

„Aðalsían sem við vorum að nota var Neyðarlínan. Hún var með fjórar spurningar sem hún þurfti að spyrja og út frá því var ákveðið hvaða hlífðarbúnað við notuðum. Ef þær upplýsingar fengust ekki, var það eitt af því fyrsta sem við þurftum að gera á vettvangi, að spyrja þessara spurninga.“

Nauðsynlegur hlífðarbúnaður í covid útköllum.

Segir hann að ef um covid smit var að ræða eða sjúklingurinn hafði verið í návígi við covid smitaðan einstakling hafi þurft að nota allan hlífðarbúnað frá A til Ö, eins og hann orðar það; heilgalla, gleraugu, maska, tvöfalda hanska og stundum plasthlíf yfir andlitið.

„Við förum alltaf eftir fjögurra kóða kerfinu, F1, F2, F3, F4 en F1 er það alvarlegasta. Ef það var F1 útkall þurftum við að meta hvað við vorum með, hvort þetta var endurlífgun eða ekki, hvort þetta var eitthvað sem gat beðið í tvær mínútur á meðan við gölluðum menn og sendum þá eður ei.“

- Auglýsing -

Segir Jónas að alltaf hafi verið reynt að nota eins fáar hendur og mögulegt var í útköll til að minnka líkur á smiti. „Eins og F1 útköll, við fórum kannski varðir, tveir saman, annar fór inn til að kanna aðstæður, athuga hvort þyrfti hinn manninn inn. Ef ekki þá sinnti þessi eini maður þessu, fór svo bara aftur í og sat þar eða sinnti sínum sjúklingi ef þurfti en kom aldrei nálægt félaga sínum. Það eru gluggar á milli afturrýmis og framrýmis sem voru þá bara lokaðir.“

Fjórir stórbrunar á Akureyri

Starfslið Slökkviliðsins á Akureyri var skipt í fjóra aðskilda hópa og ekkert samneyti á milli til að gæta þess að allur hópurinn yrði ei óvinnufær ef upp kæmi smit á vinnustaðnum.
Á meðan faraldurinn hefur geisað hér á landi hafa orðið hvorki meira né minna en fjórir stórbrunar á Akureyri, þar sem allt tiltækt lið slökkviliðsins var kallað út.

Hvernig gekk það?

„Við þurftum auðvitað öll að vera með maska og við vorum öll mjög meðvituð um ástandið. Þannig að menn voru ekki mikið að hrúga sér saman á vettvangi. Það sem hjálpaði líka  var að þegar þú ert í reykköfun  ertu með aðflutt loft, þá ertu bara með kút, svo þú ert nokkuð vel varinn. Svo var bara allt þrifið rosalega vel.“

Fólk þyrptist að til að berja brunann augum, var ekkert vandamál að stemma stigu við hópmyndunum á vettvangi?

„Lögreglan stóð sig gríðarlega vel við að halda fólki frá. Lögreglan og Slökkviliðið hér á Akureyri eru líka með alveg einstakt samstarf,“ segir Jónas og leggur áherslu á orð sín.

„Ætli mesta vandamálið hjá okkur hafi ekki verið í sjúkrafluginu“

Miðstöð sjúkraflugs fyrir allt Ísland er á Akureyri í umsjá Slökkviliðs Akureyrar. Síðustu ár hefur sjúkraflugi farið fjölgandi en  til að gera fólki grein fyrir fjölda ferða þá voru til dæmis tæplega átta hundruð sjúkraflug árið 2019.

Samkvæmt Jónasi var helsta flækjustigið, þegar kom að kórónuveirufaraldrinum, í kringum sjúkraflugið.

Sjúkraflugvél Mýflugs sem staðsett er á Akureyri.

„Ætli mesta vandamálið hjá okkur hafi ekki verið í sjúkrafluginu. Þessi hylki voru svona misgóð,“ segir hann og á við sérútbúin hylki sem voru ætluð covid sjúkum. „Nýjasta hylkið passaði vel, en venjulega vorum við ekki að flytja í hylkinu. Sjúklingum var pakkað inn eins og ungbarni, vafið alveg inn í teppi, það var maski og tvöfaldir hanskar sem við settum á sjúklingana ef þeir gátu. Svo voru mikil þrif alltaf á milli.“

Tímafrekt

Segir hann þó að vissulega hafi útköll orðið tímafrekari og mikið púsl fylgt þeim varúðarráðstöfunum sem þurfti að gera. „Þeir sem voru í flutningnum sáu um að þrífa bílinn, svo klæddu þeir sig úr hlífðarbúnaði og settu í poka sem var sendur í brennslu. Þá var farið í sturtu og í hrein föt. Þannig að óhætt er að segja að hvert covid útkall hafi verið mjög langt,“ segir Jónas með áherslu.

„Þrifin á bílnum tók líka í heild yfir klukkutíma og á meðan var hann ónothæfur. En við ákváðum í byrjun að ganga frekar einu skrefi of langt í viðbúnaði og öryggisráðstöfunum, heldur en einu skrefi of stutt. Sem klárlega virkaði þar sem ekkert smit kom upp hér.“

Þá hafi allar vaktir byrjað með þrifum og gera enn. „Öll vaktaskipti byrja á því að við förum í hanska og erum með sápulög, ákveðna blöndu, og við förum yfir alla sjúkrabíla, alla snertifleti, tæki, handföng, allt þetta. Svo er eldhúsið, varðstofan, setustofan, þetta er allt strokið hátt og lágt, alltaf.“

Segir Jónas þetta aukna hreinlæti hafi líka haft í för með sér jákvæð áhrif. „Við tókum eftir því að fólk var miklu minna veikt heima. Flensan, það varð enginn var við flensuna. Hún hefur varla komið við sögu á þessu covid tímabili. Kvef og allt þetta drasl. Covid er búið að gera góða hluti líka,“ segir hann brosleitur.

Tekið á taugarnar?

Nú er oft mikið í húfi þegar ykkur berast útköll, jafnvel mannslíf, tók það ekkert á taugarnar að þurfa koma sér í allan þennan hlífðarbúnað áður en stokkið var af stað?

„Nei mér fannst menn mjög rólegir yfir þessu. Við vinnum alltaf í að halda okkur rólegum og það var engin undantekning þar á þó hlífðarbúnaðurinn bættist við. Hluti af því að halda sér rólegum er að hlaupa ekki og gera allt vitlaust. Þú æsir sjálfan þig upp með því, þú gengur bara rösklega, segir Jónas en bætir svo við, „nema þegar börn eiga í hlut, þá hleyp ég.“

Jónas Baldur Hallsson við Slökkvistöð Akureyrar.

Heilt yfir litið segir Jónas allt hafa gengið afar vel fyrir sig, þó vissulega hafi álagið orðið meira. „Maður þurfti að vera vel á tánum, en allt hefur gengið afar vel og má þakka því þeirri jákvæðni og hjálpsemi sem fólk hefur sýnt.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -