Fimmtudagur 24. október, 2024
2.6 C
Reykjavik

Júlía – Lifðu til fulls: „Nýjar uppskriftir spretta upp í hvert skipti sem ég ferðast“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Matgæðingur Mannlífs þessa vikuna er Júlía Magnúsdóttir, hjá Lifðu til fulls – heilsumarkþjálfun.

Lifðu til fulls hjálpar konum að öðlast breyttan lífsstíl og finna hvað líkaminn getur verið  orkumikill þegar hann er laus við óþarfa sykurþörf allan sólarhringinn. Þér á að líða vel í eigin skinni og er útkoman fyrir marga þyngdartap, en það er alls ekki alltaf aðalmarkmiðið.

Góðar aðferðir til að ná huganum um borð
Júlía segir okkur að aðalmarkmið með þessari heilsumarkþjálfun sé einfaldlega að hjálpa öðrum að lifa lífinu til fulls. „Við gerum það með því að setja saman matarplan fyrir hvern og einn og svo höldum við utan um planið í gegnum netnámskeið. Heildarplanið er svo sannreynt með matseðlum, innkaupalistum og aðferðum til að ná huganum um borð í þessa sykurlausa vegferð. Mikilvægt er að skapa venjur sem þú tekur með þér áfram til þess að ná varanlegum breytingum.“

Uppáhaldsréttur Júlíu er svokallað Vetrarsalat með graskeri, linsubaunum og grænkáli – sjúklega gott, einfalt og fljótlegt.

„Vikulega elda ég indverskan mat og einu sinni í viku baka ég æðislega pítsu með möndlumjöli, graskeri, möndlu ricotta-osti, basil, ólífum, kúrbít og tómötum …ohh, hvað hún er góð!“

Júlía hefur menntað sig í hráfæði og fær mikinn innblástur til matargerðar á ferðalögum sínum. „Nýjar uppskriftir spretta upp í hvert skipti sem ég ferðast og fer á nýjar slóðir og kynnist nýjum matarheimi. Ég borða líka reglulega hráfæði og finnst gott að borða súrkál, kombucha, gerjaða kókosjógúrt, hrákökur og granóla, svo einhver dæmi séu nefnd. Og til þess að hámarka næringarupptökuna legg ég hneturnar og fræin í bleyti.“

- Auglýsing -

Júlía segist leggja mikið upp úr góðu matarskipulagi og þær konur sem sækja námskeiðin hjá henni þekkja það vel. Með því að skipuleggja sig vel er hægt að ná fram hollum rétti á núll einni. „Að halda úti matarskipulagi er líka svo mikið atriði til að halda okkur við breytt mataræði og svo við „dettum ekki í það“ þegar við komum heim eftir langan vinnudag og endum á því að panta okkur pítsu.

Það er hægt að nálgast uppskriftabókina mína hér og skoða námskeiðin hér.

Ég legg mikið upp úr því að uppskriftirnar bragðist vel, séu barnvænar, henti fjölskyldufólki og fólki sem er vant því að borða skyndibita. Uppskriftirnar eru einfaldar, krefjast ekki mikils umstangs og innihalda ekki óþarfa hráefni. Þær eiga að veita líkamanum aukna orku, ljóma og hjálpa fólki að vera besta útgáfan af sjálfum sér og lifa til fulls.“

- Auglýsing -

Vetrarsalat með graskeri, linsubaunum og grænkáli

1 skammtur, þú getur auðveldlega tvöfaldað uppskriftina og borið fram fyrir tvo

Grænmeti:

½ eða minna af miðlungsstóru graskeri

3-4 miðlungsstórar gulrætur

½ rauð paprika (valfrjálst)

1 skalottlaukur (eða annars konar laukur, en skalottlaukur gefur góða sætu)

Ólífuolía eftir smekk

Krydd að eigin vali: Ég hef notað 1 tsk. grænmetiskryddblöndu og ½ tsk. reykta papriku frá Kryddhúsinu. Einnig má nota ½ tsk. rósmarín, ½ tsk. papriku, svartan pipar, himalajasalt, og rautt chili-krydd.

Linsubaunir:

1 bolli soðnar brúnar linsubaunir (um það bil 1/4 bolli þurrkaðar linsubaunir, soðnar í vatni eða notið í kringum 1/3 linsubaunir sem eru forsoðnar í dós)

Salatbotn:

3-5 grænkálsblöð, fjarlægðu stilkinn (ef grænkál fæst illa, notið spínat eða klettasalat)

⅓ af gúrku (í kringum 100 g, það er ráðlagt magn, en ekki hika við að bæta við það)

1 tómatur (ráðlagt magn, ekki hika við að bæta við það)

Dressing:

1-2 msk. af majónesi (vertu viss um að það sé ekki viðbættur sykur. Ég nota gjarnan avókadó-majónes sem fæst í Costco)

1-2 msk. kreistur sítrónusafi (notið meira fyrir þynnri dressingu)

Svartur pipar eftir smekk (ég set nóg af svörtum pipar)

Ofan á, skreytingin er það sem gerir þetta salat fullkomið:

50 g ristaðar, ósaltaðar pistasíuhnetur (ekki hika við að setja meira ef þú vilt)

30 g geitaostur (ég hef bæði notað rifinn geitaost og íslenskan geita feta-ost frá Jóhönnu sem fæst m.a. í versluninni Gott og blessað í Hafnarfirði)

Fersk mynta eða steinselja

Aðferð:

1. Linsubaunir: Til að elda linsubaunir settu 1/4 bolla þurrkaðar, ósoðnar linsubaunir í pott. Bættu a.m.k.  þrisvar sinnum meira vatni en linsum (1:3) eða 3/4-1 bolla af vatni í pottinn. Láttu sjóða og lækkaðu hitann í lága suðu. Bættu meira vatni út í ef þörf er á, horfðu bara á pottinn af og til til að sjá hvort linsubaunirnar þurfa meira vatn. Láttu malla í u.þ.b. 15-20 mínútur eða þar til þú getur auðveldlega kreist eina linsu! Ef þú ert að nota forsoðnar linsubaunir í dós þarftu ekki að elda þær, hitaðu þær aðeins ef þú vilt.

2. Grænmeti eldað: Skerðu graskerið og gulræturnar í ca 2 sentímetra bita. Ef þú vilt elda í bökunarofni, settu á bökunarpappír, kryddið og setju olíu yfir og eldaðu í ofni á 180-200 °C í u.þ.b. 25-30 mínútur, hrærðu í öðru hverju svo grænmetið eldist jafnt.
Ef þú vilt grilla grænmetið á útigrilli mæli ég með að grænmetið sé soðið í vatni fyrst. Fylltu þá pott upp að 3/4 af vatni og láttu sjóða, settu grænmetið í pottinn í u.þ.b. 10 mínútur eða þar til þú nærð að stinga gafflinum auðveldlega í gegn. Taktu grænmetið úr vatninu og settu í skál. Kryddaðu og settu olíu yfir. Settu grænmeti á grillbakka og grillaðu í ca 15 mínútur eða þar til það fer að verða stökkt og ristað.

3. Salatið: Rífðu grænkálsblöðin, kreistu 1/2 sítrónu yfir, skerðu gúrku, tómata og settu ofan á grænkálið. Setja til hliðar.

4. Dressing: Blandaðu mæjónesið og sítrónusafa saman og settu til hliðar.

5. Borið fram: Núna ættu linsubaunirnar að vera tilbúnar! Kryddaðu með salti og pipar eftir smekk og settu linsubaunirnar og því næst grænmetið yfir salatið. Skreyttu með pistasíuhnetum, steinselju og geitaosti. Njóttu!

Hér er hægt að sjá heimasíðuna.

Facebook 

Instagram

Smelltu hér til að lesa brakandi feskt helgarblaðið eða flettu því hér fyrir neðan:

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -