Sunnudagur 22. desember, 2024
-4.2 C
Reykjavik

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra: „Ég get verið svolítil frenja”

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Örlögin hafa dálítið leikið sér að mér af því ég var dálítið æst yfir því sem ung kona hve vonlausir allir stjórnmálamenn væru. Þegar stjórnmálamenn komu í menntaskólann minn var ég fussandi og sveiandi yfir þessu fólki. Það er mátulegt á mig að vera núna einn af þeim,” segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í viðtali við Mannlíf. 

Katrín er spurð um upphaf þess að hún lagði inn á braut stjórnmálanna sem hún hafði áður hálfgerða skömm á. Það var virkjanamál sem kveikti áhugann sem á endanum kom henni í sjálfan forsætisráðherrastólinn.  

 

„Það er örugglega baráttan gegn Kárahnjúkum og það mál allt,” segir Katrín um ástæðu þess að hún lagði fyrir sig stjórnmálin. 

Katrín er ung að árum, 45 ára, en á þegar að baki langan og farsælan feril sem alþingismaður og síðan ráðherra. Aðspurð um baráttuna gegn Kárahnjúkavirkjun hlær hún og rifjar upp þegar hún var aktívisti og stóð með mótmælaspjald á Austurvelli. Hún segist strax hafa viljað leggja náttúrunni lið sitt. Það hafi verið mikilvægast. 

Katrín er spurð að því hvort því fylgi ekki mikil skerðing á persónufrelsi að starfa sem forsætisráðherra þegar allra augu hvíla á henni, hvar sem hún fer. 

- Auglýsing -

„Öll störf hafa kosti og galla. Það er ég alin upp við. Þegar maður var að kvarta í gamla daga yfir því að það væri leiðinlegt eða ekki nógu gott í einhverju starfi þá sögðu foreldrar mínir gjarnan að þetta snerist meira um  mitt viðhorf en sjálft starfið. Svo hefur maður val um það hversu mikið maður lætur pólitíkina skerða sitt frelsi. Ég hef haldið mig við það að sinna þessu venjulega í lífinu eins og allir gera”. 

Katrín er ekki með háan lífsstíl. Margir sjá fyrir sér að fólk í æðstu stöðum búi stórt og lifi hátt. Katrín býr í fjölbýlishúsi í Vesturbænum og berst ekki mikið á. Hún segir það vera meðvitað að vera með báða fætur á jörðinni. 

„Já, ég bý í minni blokk. Ég hef rosalegan áhuga á fólki. Ég sé stundum að fólk fer ekkert sérstaklega vel út úr því að vera manneskja í póltík. Það er ákveðið markmið hjá mér að þegar ég hætti í stjórnmálum þá sé ég ennþá sama manneskjan og ég hef alltaf verið. Það er eiginlega sjálfstætt markmið”. 

- Auglýsing -

Með harðan skráp

Katrín segist ekki hafa orðið fyrir alvarlegu áreiti. Hún er vön að lifa sínu hefðbundna lífi í Vesturbænum án þess að þurfa lífverði. 

„Það sleppur engin í minni stöðu alveg við áreiti. Oftast er þetta allt í góðu og aðeins fólk sem þarf að tala, þó það sé æst. Ég hef alveg lent í leiðinlegum hlutum en  kannski er ég búin að byggja upp harðan skráp. Hér heima hef ég ekki þurft að vera með lífverði sem eru algjör forréttindi. Alltaf þegar ég fer til útlanda í embættiserindum eru settir á mig 2-5 lífverðir. Það er örugglega erfitt að vera alltaf í þeirri stöðu að vera með fólk að fylgjast með sér. Það furðulegasta sem ég hef lent í var þegar ég fór að hlaupa í Central Park New York. Það varð uppi fótur og fit þegar ég ákvað þetta. Svo hófst hlaupið. Þá var einn lífvörður á undan mér og tveir á eftir mér. Svo ók bíll sem ók löturhægt með mér. Ég hugsaði með mér hvert yrði nú kolefnisfótspor þessa hlaupadags og allt þetta umstang vegna einhverrar konu sem enginn í Ameríku þekkti”. 

Ráðherraveikin

Stundum er talað um ráðherraveiki. Það hugtak nær utan um þá depurð sem fylgir því að missa völd. Katrín kvíðir því alls ekki að missa ráðherrastólinn og verða óbreyttur þingmaður. 

„Ég hef hætt að vera ráðherra. Ég spurði Valgerði Sverrisdóttur, sem þá hafði verið ráðherra Framsóknarflokksins, hvort allir hættu að vilja tala við mann þegar maður hættir. Hún sagði að það væri dálítið þannig en þá skipti mestu að vera mjög upptekin og þá gengi þetta yfir. Ég gerði nákvæmlega þetta og eftir nokkrar vikur var ég komin í nýtt hlutverk”. 

  

Katrín hefur haldið saman ríkisstjórn þriggja ólíkra flokka. Til þess þarf væntanlega klókindi og lipurð. Katrín er spurð um það hvernig stjórnandi hún sé. Hvað er undir góðlegu yfirbragðinu?

„Ég get verið svolítil frenja. Það verður ekki af mér tekið. En ég hika ekki við að taka ákvarðanir ef á þarf að halda. En ég er ekkert að stressa mig yfir einhverjum status. Einhvern tímann var mér sagt af fræðingi í stjórnun að ég væri jafningjastjórnandi”. 

Hlustar á aðra

 

Fyrir 10 árum eða svo var óhugsandi að stjórnmálaöfl lengst til hægri og vinstri ynnu saman í ríkisstjórn. Þótt einhverjir innan Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna hefðu átt sér þann draum þótti það vera fráleitt. En svo gerðist það fyrir tilstilli Katrínar og hennar nánustu samstarfskonu, Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra. Katrín fellst á að það snúist um lipurð að komast í gegnum kjörtímabil með þessi öfl innanborðs. 

„Ég er tilbúin að hlusta á aðra. Ég lít ekki í spegilinn á hverjum morgni þegar ég vakna og hugsa að ég hafi öll svörin. Ég er alveg til í að hlusta á aðra. Þó ég hafi mínar hugsjónir sem ég byggi á mínum gildum þá veit ég að það eru ekki allir þar. Það skiptir mig máli að geta talað við það fólk. Það skiptir líka samfélagið máli að þetta fólk geti talað saman”. 

Katrín er brosmild kona. Meira að segja svo að hún hefur verið skömmuð fyrir að vera of glaðleg. Hún er spurð um lundarfarið. Verður hún aldrei reið. 

„Það fer ekki framhjá neinum þegar ég reiðist. Ég er ekki pókerfeis. Mig dreymir samt um að vera þessi þögla sterka týpa sem enginn veit hvað er að hugsa. Það verður kannski seinna,” segir hún. 

Traust samstarf

Lykilinn að samstarfi Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna er að finna í vináttu Katrínar annars vegar og Illuga Gunnarssonar og Bjarna Benediktssonar. Elstu menn muna að Illugi og Katrín voru saman með sjónvarpsþátt á þeim sáluga Skjáeinum. Katrín fellst á þessa skýringu og segir að traust ríki milli sín og Bjarna. 

„Það skiptir gríðarlegu máli í þessu samstarfi að fólk treysti hvert öðru”. 

Hún viðurkennir að ríkisstjórnarsamstarfið sé ekki einfalt. 

„Það er flókið að vinna með ólíkum flokkum. Ég var áður í ríkisstjórn með Samfylkingunni en nú erum við með Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum. Allar ríkisstjórnir eru svolítið eins og mannfræðiverkefni. Þú þarft að skilja flokk sem er með ólíka menningu. Maður þarf að átta sig á því hvernig maður tekur á málum”. 

Ekkert kosningabandalag

Einhverjir hafa haldið því á lofti að það sé kosningabandalag á milli ríkisstjórnarflokkanna þriggja. Katrín segir það af og frá. 

„Það er auðvitað ekki kosningabandalag. Það var á sínum tíma stór ákvörðun fyrir okkur að ganga til þessa samstarfs. Ástæðan fyrir því var sú að við Svandís vorum í þeirri vinnu og baklandið okkar, grasrótin, var til í þetta vegna stjórnarsáttmálans. Fólk sá að þarna voru mörg góð mál sem við höfðum barist lengi fyrir og var til í að láta á þetta reyna. Áframhald samstarfsins mun alltaf hanga á því hvað um semst og auðvitað hvernig við komum út úr kosningum. Við komum vel út síðast og núna verðum við að meta stöðuna eftir því hvað kemur upp úr kössunum ”. 

Einhverjir töldu að það yrði pólitískt sjálfsvíg fyrir VG, róttækan vinstri flokk, að ganga til samstarfs við Sjálfstæðisflokkinn. Vísað var til fortíðar þar sem hver samstarfsflokkurinn af öðrum visnaði upp í slíku samstarfu. Annað virðist vera að koma á daginn. VG stendur ágætlega í könnunum. 

„Ég tók við sem formaður, snemma árs 2013 og leiddi hann í kosningum þá um vorið eftir stjórnarsamstarf með Samfylkingu. Þá töpuðum við helmingi af okkar fylgi þannig að ég veit vel að maður fer ekki í stjórnarsamstarf til að verða vinsælastur í bekknum. Ég vona að við skilum þessu fylgi í höfn og er bjartsýn á það og tel að fólk kunni alveg að meta það sem við höfum verið að gera”. 

Forsætisráðherrastóllinn er eftirsóttur. Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra sagði í fjölmiðlum að hún teldi að Framsóknarflokkurinn væri í lykilstöðu til að leiða næstu ríkisstjórn. Sigurður Ingi Jóhannsson væri þannig í dauðafæri með að verða forsætisráðherra. Katrín hefur skilning á þessu sjónarmið og segir eðlilegt að flokkar horfi til forsætisráðuneytisins. 

„Við höfum talað skýrt og erum tilbúin að leiða næstu ríkisstjórn. Ég geri engar athugasemdir við að við séum ekki ein um hituna”. 

Núningur

Núningur hefur verið um heilbrigðismálin á milli stjórnarflokkanna. Þingmenn lengst til hægri hafa átt í útistöðum við Vinstri græna sem hafa viljað efla opinbera hlutann af heilbrigðiskerfinu. Hægrimenn hafa viljað efla einkaframtakið. Átökin hafa staðið um rekstrarform í heilbrigðiskerfinu. 

„Þetta hefur ekki verið eðlilegt ástand þar sem við fengum heimsfaraldur á miðju kjörtímabili. Þetta hefur verið algjört álagspróf á heilbrigðiskerfið. Svandís hefur staðið sig gríðarlega vel í að benda á að við þurfum núna að horfa til þessa opinbera hluta heilbrigðiskerfisins. Það er ekkert launungarmál að það var löngu tímabært að styðja betur við heilsugæsluna og spítalann og heilsugæslu víða um land. Hún hefur gert það og aukið framlög og farið í að byggja nýjan spítala. Þá hefur hún farið í að lækka kostnað vegna sjúklinga sem er risastórt vinstri jöfnunarmál. Svandís hefur skilað mjög góðu verki á kjörtímabilinu, þrátt fyrir allt sem hefur gengið á”. 

Ekki ESB

Aðildarumsókn að ESB er í sama frosti og hún var þegar Samfylking og VG ákváðu að sækja um og setja málið í þjóðaratkvæði. Katrín var á meðal þeirra þingmanna VG sem studdu að sækja um aðild þótt þeir væru í rauninni á móti því. Af hverju í ósköpunum féllst hún á umsóknina? 

„Sjálf er ég þeirrar skoðunar að við eigum ekki að sækja um aðild að ESB núna. En ég tók hins vegar þátt í því á sínum tíma að sækja um. Þá var sú umræða hátt uppi í samfélaginu að þetta væri það mikilvægasta að gera eftir hrun. Ég var þeirrar skoðunar að þjóðin fengi einhvern samning að kjósa um í þessu máli. Ég féllst á það þótt ég væri með varann á varðandi aðild. Fyrir Samfylkinguna var þetta stóra málið í kosningunum. Í dag er ég á þeirri skoðun að okkur hafi farnast mjög vel utan Evrópusambandsins”. 

Viðreisn hefur sett það má á oddinn að þjóðin fái að greiða atkvæði um endanleg slit á umsóknarferlinu eða framhald þess. 

„Áður en til þess kemur þurfum við að fá fram hvar meirihluti þingsins stendur í þessu máli. Ég legg mjög mikið upp úr öflugu samstarfi við Evrópuþjóðir og hef ræktað það sem forsætisráðherra. Ég er ekki á þeirri skoðun að það gagnist íslensku samfélagi að ganga í ESB,, hvað þá að ganga inn í eitthvert myntbandalag”. 

Katrín segir að Samfylking og VG hefðu betur spurt þjóðina strax árið 2009 hvort hefja ætti aðildarviðræður. Ef þingmeirihluti myndist fyrir aðildarumsókn verði skynsamlegt að spyrja þjóðina áður en lengra yrði haldið. 

„Það verður ekki farið aftur af stað í þetta nema með umboði þings og þjóðar”. 

Katrín segir að fátækt sé áhyggjuefni í íslensku samfélagi. Þó hafi ríkisstjórnin unnið vel að málum þeirra sem minnst mega sín. Hún nefnir hlutdeildarlánin og bætt barnabótakerfi. 

Fjármagnstekjuskatturinn er næstur á dagskrá sem jöfnunartæki. Katrín er spurð hvort Sjálfstæðisflokkurinn verði ekki tregur í taumi þar. Hún segist ekki hafa spurt Sjálfstæðisflokkinn. 

Ráðherraveikin

Kenningar eru uppi um að Samfylkingin sé komin vinstra megin við VG. Róttæknin hafi minnkað og flokkurinn hafi færst nær miðjunni og sé orðinn umburðarlyndari

„Við höfum ekki færst inn á miðjuna en það getur vel verið að við séum orðin umburðarlyndari,” segir hún. 

Því er haldið fram að VG hafi mildast í afstöðu sinni gegn virkjunum og fiskeldi. Lilja Rafney Magnúsdóttir þingmaður VG í Norðvesturkjördæmi var til dæmis stuðningsmaður þeirrar umdeildu Hvalárvirkjunar í Árneshreppi og hefur sömuleiðis staðið með fiskeldi í sjó. 

Nei, við Hvalárvirkjun

„Hvalárvirkjun er gott dæmi um að rammaáætlun sem þingið samþykkir en snýst alltaf um samanburð á virkjanakostum. Síðan þegar virkjunin er útfærð er hún orðin miklu stærri en hún var þegar þingið skipaði henni í nýtingaflokk. Fólk var ekki alveg sammála um þessa virkjun í hreyfingunni en ég vona að hún verði ekki að veruleika. Ég hef rosalega sterk tengsl við þetta svæði af því maðurinn minn er frá Svanshóli í Bjarnarfirði á Ströndum. Þessi virkjun hefði ekki orðið til góðs fyrir þetta einstaka svæði”. 

Innan VG eru skiptar skoðanir á fiskeldi í sjó. Þar er horft til mengunar og erfðablöndunar. Katrín segir að hreyfingin sem slík sé á ekki móti fiskeldi. 

„Við náðum því fram í stjórnarsáttmála að sett voru lög sem tryggja hvata til að færa fiskeldi upp á land. Þá er tryggt að fiskeldið sé byggt á eins góðum gögnum og hægt er og við viljum gæta ítrustu varúðar. Ég veit að þetta er umdeilt í okkar hreyfingu en um leið er um að ræða mikilvæga atvinnusköpun. Það er einkenni minnar hreyfingar að fólk er ófeimið við að takast á um hlutina”. 

VG glímdi lengi vel við innri átök. Frægt var með villikettina á sínum tíma þar sem hver höndin var upp á móti annarri. Við upphaf kjörtímabilsins hætti tveir þingmenn í VG. Andrés Ingi Jónsson og Rósa Brynjólfsdóttir gátu ekki hugsað sér að styðja ríkisstjórnina. Katrín viðurkennir að það hafi verið ákveðið áfall. 

„Rósa var í hreyfingunni lengi, allt frá árinu 2003. Við komum inn á svipuðum tíma. En í dag er rosalega góður andi í hreyfingunni en það er ekki bara mér að þakka. Við héldum landsfund um síðustu helgi og þar fann maður þennan góða anda. Það er í raun mjög magnað hve góð stemmingin er. Ég hef trú á því að það sé hollt að virða allar skoðanir. Hjá okkur hikar fólk ekki við að tala upphátt og greiða atkvæði gegn málum, jafnvel þótt það sé bara einn á móti. Það skapar svo góða stemmningu í framhaldinu þegar farið er að vinna úr málum og fólk fer ekki út í fýlu”. 

Katrín segist ekki taka því illa þótt einhver sé ósammála. 

„Það hef ég lært af mér reyndara fólki að formaðurinn á ekki að taka því illa þótt einhver sé ósammála honum”. 

Mögnuð langamma

Skúli Thoroddsen, þingmaður sýslumaður og ritstjóri var langafi Katrínar. Það gustaði vel um Skúla á ferli hans og deilurnar um skokallað Skurðsmál skóku samfélagið og kostuðu hann embættið á sínum tíma. 

Katrín segist þekkja sögu langafa síns og ekki síður langömmu sinnar, Theodóru Thoroddsen, sem hún hafi gert að fyrirmynd sinni. 

„Hún var mögnuð kona sem eignaðist fjölda barna. Langafi minn dó snemma og hún varð ekkja. Þegar hún varð fimmtug fór hún að yrkja og reykja og sást ekki borða annað en súkkulaði. Hún lifði svo fram á tíræðisaldur. Ég kynntist henni auðvitað ekki en mamma lýsti henni. Hún safnaði stöðugt grjóti og bar inn á heimili sitt. Þessa áráttu hef ég líka. Ég er stöðugt með grjót í vasanum sem ég set hér og þar um heimilið. Gunnar, maðurinn minn, er stöðugt að taka þetta grjót og koma því niður í geymslu. Svo færi ég þetta upp aftur. Þetta hef ég frá langömmu”. 

Katrín á sér fleiri fyrirmyndir í lífinu en langömmu sína. Hún er spurð um pólitískar fyrirmyndir. 

„Það eru örugglega ellimerki að nú er ég dottin í það að lesa allskonar ævisögur. Ég var að lesa ævisögu breska forsætisráðherrans Clement Attlee  sem var skammaður fyrir að vera umburðarlyndur og mjúkur. Eigi að síður náði hann ótrúlegum árangri sem forsætisráðherra og byggði meðal annar upp NHS heilbrigðiskerfið. Hann fékk svo ekki að hætta þegar hann vildi og endaði með magapínu sín seinustu ár í embætti. Hérlendis á ég margar fyrirmyndir. Þegar ég var að byrja í pólitík horfði ég til Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur og Kolbrúnar Halldórsdóttur, þessarra flottu sterku kvenna. Svo horfði ég auðvitað til leiðtoga vinstri manna svo sem Steingríms J. Sigfússonar og Svavars Gestssonar. Svo studdi ég Ólaf Ragnar Grímsson á sínum tíma í forsetaembættið”. 

Aftursæti Steingríms

Katrín er arftaki Steingríms J. sem formaður. Steingrímur stofnaði VG á sínum tíma og var lengst af óumdeildur leiðtogi. En þótt hann hætti sem formaður þá sat hann áfram á þingi. Hvernig var að hafa fyrrverandi formann í aftursætinu?

„Það höfðu margir rosalegar áhyggjur af þessu og ég líka. Það er gaman að segja frá því. Ég hugsaði með mér hvernig ég ætti að gera þetta. Nú væri hann búinn að vera aðalkarlinn og ætlaði svo bara að vera í velferðarnefnd Alþingis. En hann gerði þetta ótrúlega vel og samstarf okkar var gott sem fyrr”. 

Steingrímur og Katrín eru gjörólíkir stjórnmálamenn. Hann var oft kjaftfor í þinginu svo eftir var tekið. Katrín er aftir á móti prúðmennskan uppmáluð. Hún er spurð um ólíkan stíl þeirra. 

„Jú, hann átti það til að vera stóryrtur. Ég er bara alin þannig upp að ég á erfitt með stóryrði. En við erum góðir vinir og ég fór meira að segja og heimsótti hann í sumar. Það var hápunkturinn á sumarleyfi drengjanna minna að fá að vera með honum í sveitinni. Hann er skemmtilegur og það er gaman að fara með honum um landið”. 

 

Grúppía Tony Blair

Katrín er spurð um tengsl hennar við pönkhljómsveitina Tony Blair. Einhver hélt því fram að hún hefði verið hljómborðsleikari, 

„Nei, þú hefur fengið rangar upplýsingar. Ég var grúppía hljómsveitarinnar Tony Blair. Ég var ekki í hlómsveitinni en fylgdi henni. Næsta sem ég hef komist því að vera í hljómsveit var þegar ég lék í myndbandi hjá Bang Gang”.  

Hvað hefur að mati forsætisráðherrans  tekist best hjá ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur? Katrín hugsar sig um og segist vera heilt yfir ánægð. 

„Það að hafa lengt fæðingarorlofið, stytt vinnuvikuna og þrepaskipt tekjuskattinum eru allt risamál fyrir íslenskan almenning”. 

Katrín reyndi að hreyfa við stjórnarskrármálinu. Hún lagði fram þingmannafrumvarp en hafði ekki árangur sem erfiði. 

„Ég kláraði ekki málið. Þetta var ekki ríkisstjórnarmál en ég reyndi að hreyfa við því máli. Stjórnmálin þurfa aðeins að velta þessu fyrir sér, ekki bara ég. Snemma í ferlinu fékk ég þau skilaboð að sumir flokkar vildu ekkert gera nema það yrði nánast orðréttar tillögur stjórnlagaráðs. Það verður að segjast eins og er að það er töluverður minnihluti sem vill fara í það verkefni að ná þessum breytingum fram í áföngum. Það eru mér vonbrigði. Ég var að vonast eftir breiðri samstöðu. Þar sem mál af þessum toga er seinasta málið í gegnum þingið gefur það hvaða flokki sem er neitunarvald í gegnum málþóf. Ég sá ekki fyrir mér að það næðist samstaða um einstakar greinar, allavega ekki þannig að það færi í gegnum þingið. Ég mun reyna að ná í gegn þeirri breytingu að það megi breyta stjórnarskrá á þriðja ári kjörtímabils en það taki ekki gildi fyrr en eftir kosningar. Það myndi aðeins lækka spennustigið hjá okkur stjórnmálamönnum í þessu máli. En ég missi ekkert móðinn”. 

 

Katrín er útivistarkona. Hún nýtur þess að hlaupa eða fara í fjallgöngur til að slaka á frá argaþrasi stjórnmálanna. 

„Þegar maður eldist fer maður að finna meira fyrir því að maður er líkami líka. Svo les ég líka til að slaka á og er með fjölskyldunni”. 

Það er alkunna að mikið álag fylgir því að vera stjórnmálamaður í æðstu stöðum og fólk brennur gjarnan hratt upp. Hvernig er heilsa Katrínar. 

„Ég held að heilsan sé ansi góð. En ég hef alltaf verið með ofnæmi og asma. Ég hef aldrei verið þessi ímynd hreystinnar. Fyrir mér er það stórkostlegt afrek að hlaupa 10 kílómetra þá líður mér eins og maraþonhlaupara. 

Meðvitaðir krakkar

Við rifjum upp gönguferð á Úlfarsfell á vegum Ferðafélags Íslands. Illugi, sonur Katrínar, var með í för. Hann stoppar og spyr móður sína hvað hann eigi að gera við tyggjóið sitt. Hún réttir fram lófann og stingur því í vasann. Þetta er minnisstætt vegna þess að margir krakkar hefðu spýtt út úr sér tyggjóinu en ekki hugsað um umhverfið. 

„Ég vona að ég ali þá vel upp. Drengirnir mínir þrír eru öflugir og við ræðum stundum um pólitík. Þeir hafa rosalega sterka sýn á umhverfismálin sem ég held reyndar að eigi við um marga krakka í dag”. 

Hvernig er verkaskipting á heimili forsætisráðherrans. 

„Ég er svona átaksverkefniskonan sem þríf allt fyrir jólin. Þá verð ég alveg tjúlluð. En Gunnar er sá sem sér um þetta daglega”. 

Katrín er á hátindi ferils síns, aðeins 45 ára. 14 ár á þingi. Hvað ætlar hún að vera lengi í pólitík og hvað tekur svo við. 

„Ég held áfram á meðan ég brenn fyrir því og einhver vill kjósa mig. Þegar ég hverf úr stjórnmálunum hverf ég aftur á vit bókmenntanna. Þá skrifa ég kannski bækur eða hjálpa öðrum við að skrifa eins og ég gerði áður en ég fór í stjórnmálin”. 

Viðtalið í heild sinni er á hlaðvarpinu Mannlífinu með Reyni Traustasyni

 

Þú getur lesið viðtalið við Katrínu forsætisráðherra í heild sinni hér í brakandi fersku helgarblaði Mannlífs eða flett blaðinu hér fyrir neðan:

 

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -