Þriðjudagur 26. nóvember, 2024
0.9 C
Reykjavik

Covid varð til þess að Katrín Ýr fór í hönnun – „Íslendingar eru skemmtilegasta fólk í heimi“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Ég er ekki týpan til að sitja og horfa á sjónvarpið í fárinu. Sköpunargleðin verður að fá útrás á meðan að tónlistin er í hýði. Svo er ég auðvitað óskaplega stolt af að vera Íslendingur og langar til að hafa hjá mér hluti sem minna á landið mitt án þess að vera með eitthvað lundabúðadót í hillunum. Mig langaði í eitthvað töff,“ segir Katrín Ýr Óskarsdóttir, tónlistarkona og hönnuður í London, sem finna má á miðlum undir nafninu IntroducingKat. Hún hefur vakið athygli fyrir hönnun sína, jafnt á skartgripum og nytjahlutum.

Katrín býr í London ásamt breskum sambýlismanni sínum til tólf ára. Á þeim fjórtán árum sem hún hefur búið í borginni hefur hún ávallt starfað sem tónlistarkona.  Hún hefur haldið fjölda tónleika í gegnum árin, starfaði við upptökur, útsetningar og raddþjálfun svo fátt eitt sé nefnt. Hún kennir einnig söng við University of West London auk þess að þjálfa unglinga sem stefna á feril í söngleikjum og annarri tónlist. Ekki er allt upptalið því Katrín kennir á tónlistarbraut Menntaskólans á Tröllaskaga í gegnum fjarbúnað.

„Það er dásamleg vinna. Yndislegir nemendur og samstarfsfólk.”

Glasamottur sem Katrín hannar. Mynd: Katrín Ýr.

Íslendingur í fimm vinnum

„Níu til fimm vinna hefur aldrei hentað mér og ég get nú varla kallað mig Íslending nema vera í fimm vinnum,“ segir Katrín og hlær. „Ég kom hingað út í nám á sínum tíma og sá fljótlega að ég gat haft fulla vinnu af tónlistinni. Markaðurinn hér er svo stór og ég hef haft meira en nóg að gera. Ég stofnaði hópinn Vox Collective og er tónlistarstjóri hans. Þetta er hópur sem sérhæfir sig í ábreiðum og setur saman alls konar sýningar, ég syng á tónleikum, í brúðkaupum og á veitingastöðum. Ég hef því miður ekki sungið eins mikið og hefði gjarnan viljað heima á Íslandi en kom þó og hélt Adele heiðurstónleika, ég hef haldið fjóra slíka og það var mjög skemmtilegt. Um leið og þessu Covid fári lýkur er ég að vonast til að geta sungið meira heima.”

Hún segir töluverðan mun á að syngja fyrir Íslendinga og Breta.

- Auglýsing -

„Ég hef þurft að minna mig á að Íslendingar sitja og hlusta, þeir eru allir hljóðir. Sem er geggjað því það er alltaf gaman að spila fyrir fólk sem er að hlusta og syngur kannski með á lokametrunum. En ég er líka svo mikill skemmtikraftur í eðli mínu, mér finnst svo gaman að vera á sviði, finna orkuna og fá endurgjöfina frá áhorfendum. Það skiptir mig máli að vita að fólk er að skemmta sér og það gerir vinnuna mína líka skemmtilegri.”

Katrín hefur meira en nóg að gera í London.
Mynd: Al Stuart.

Er með krumpu á sálinni

Tónlistarmenn hefur farið illa út úr faraldrinum eins og annað sviðslistafólk.

- Auglýsing -

„Við erum síðust inn og fyrst út og þetta hefur verið erfitt fyrir marga, bæði hér og Íslandi og annars staðar. Ég sakna tónlistarinnar óskaplega mikið, það er krumpa á sálinni að geta ekki unnið við hana núna. Það eru afskaplega stífar reglur um tónlistarflutning hérna. Það má spila tónlist, til dæmis á veitingastöðum, en aðeins ef ekki er rukkað fyrir hana sérstaklega, ekki seldir miðar og hún má ekki yfirgnæfa raddir. Sem er sérkennilegt í ljósi þess að vinur minn hérna úti var á knattspyrnuleik á Wembley með átta þúsund manns! Ég er ekki viss um að yfirvöld hér geri sér grein fyrir hvað leikhús og tónleikar er risastór partur af menningarheiminum. Forgangsröðunin er ekki alltaf rétt.“

Hönnun Katrínar. Mynd: Katrín Ýr.

Katrín hefur til nokkurra ára hannað og gert skartgripi sem hún hefur selt á Netinu undir nafninu Vivid Bones. Þegar enga vinnu var að hafa í Covid fór hún að sinna hönnuninni af meira krafti. „Ég hafði verið í hönnun á skartgripum og einnig verið að búa til kerti og kertamottur sem fóru í sölu nýlega. Ég hafði séð glasamottur úr leðri og við en þegar ég rakst á resin vissi ég að ég yrði að gera eitthvað meira úr því. Í kjölfarið urðu Íslandsmotturnar til.”

Íslandsmotturnar hafa slegið í gegn. Mynd: Katrín Ýr.

Resin er vökvi sem ekki er ósvipaður plasti sem Katrín mótar og vinnur úr. ,,Ég fór að taka myndir af hönnuninni og setja á Snapchat og viðbrögðin voru vonum framar. Ég ákvað í kjölfarið að setja hönnunina á Facebook og þarf að koma mér upp vefsíðu við tækifæri.“

Katrín segir að með hönnuninni nái hún að beisla sköpunarkraftinn, gera hluti sem henni finnast flottir og vera í tengslum og samskiptum við fólk.

„Ég er svo mikil félagsvera og get bara ekki verið aðgerðarlaus. Svo elska ég líka Íslendinga, þeir eru skemmtilegasta fólk í heimi og ég hlakka mikið til að geta komist heim að syngja. Vonandi sem allra fyrst,” segir Katrín Ýr Óskarsdóttir, tónlistarkona og hönnuður.

Það má sjá meira af hönnun Katrinar á Facebook síðu Vividbones á Etsy.

Hún er einnig á Instagram undir nafninu @vivid.bones og á TikTok @vividbones

Hér má sjá Katrínu Ýr taka glæsilegan snúning á Húsavík, lagi allra landsmanna.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -