Kjartan Darri Kristjánsson fær skilaboð á Messenger frá blaðamanni. Er hann til í viðtal? Hann svarar á Messenger:
„Já, ég er á ferðalagi um landið, með leiksýningu, er að fara um borð í Baldur á eftir. En það er sennilega samband alla leið! Þú bjallar bara og við vonum að sambandið haldi.“
Baldur siglir rúmum klukkutíma síðar frá höfn í Stykkishólmi og um Breiðafjörðinn með eyjarnar óteljandi og þá er leikarinn tilbúinn í viðtal. Haustsólin skín á fjörðinn fagra.
Sýningin sem hann nefndi er leikritið Vloggið eftir Matthías Tryggva Haraldsson og er á vegum Þjóðleikhússins. „Sýningin er fyrir nemendur í 8. 9. og 10. bekk. Ég og Þórey Birgisdóttir leikum og Ásta Jónína Arnardóttir er tæknimaður sýningarinnar. Við ökum á Þjóðleikhúsbílnum hringinn í kringum landið; við erum reyndar búin að fara heilan hring og það má segja að við endum á að fara einn og hálfan hring. Við Þórey leikum ungt fólk sem er að reyna fyrir sér í vloggbransanum og vilja verða Youtube-stjörnur. Karakterarnir Sirrý og Konráð fara nýstárlega leið að því; þau velja forvarnir sem einhvers konar efnivið til að heilla pöpulinn, ná athygli þeirra og verða fræg. En það sem þau vita ekki er að „kontentið” þeirra er ekkert sérstaklega áhugavert, fyrir utan það hvað þau virðast hafa takmarkaða vitneskju um forvarnir.“
Við dauðans dyr
Kjartan Darri ólst upp í Vesturbænum í Reykjavík og gekk í Melaskóla og síðan Hagaskóla. Hann fékk ungur áhuga á leiklist.
„Ég tók alltaf mikinn þátt í félagslífinu í skólanum. Áhuginn á að koma fram var kannski fyrst bundinn við skólann og félagslífið þar. Mér fannst alltaf mjög gaman að koma fram á skólaskemmtunum og svo var svo mikil gleði og spenningur þegar maður var að búa til atriðin með bekkjarfélögum sínum. Ég myndi kannski ekki segja að ég hafi verið athyglissjúkur en mér fannst mjög gaman að koma fram, standa á sviði með vinum sínum og skemmta fólki.“
Darri fór í Menntaskólann í Reykjavík. Bróðir hans hafði farið í MR og tekið þátt í Herranótt og Darra fannst það vera heillandi og tók þátt í leiksýningum Herranætur öll árin sem hann var í skólanum.
Hann fór á fyrsta ári í MR að finna fyrir félagskvíða sem var svo slæmur að hann leitaði sér hjálpar sálfræðings. „Ég, eins og við öll gerum einhvern tímann, fór að hafa áhyggjur af því hvað fólki fannst um mig, fékk algjöra þráhyggju um hvernig ég kæmi öðrum fyrir sjónir. Það að velta því fyrir sér hvað fólk sé að hugsa um mann er hola sem enginn ætti að fara of djúpt ofan í. Það er oftast algjörlega tilgangslaust að vera að velta því fyrir sér hvað öðrum finnst um mann. Ég vildi tala við sálfræðing, einhvern sem gæti sagt mér hvað væri að gerast og af hverju hugsanir mínar væru að bera mig ofurliði.
Sálfræðingurinn, sem ég hitti bara einu sinni, útskýrði þetta frábærlega fyrir mér og sagði að ég gæti auðveldlega unnið bug á þessum kvíða sjálfur með því að ögra mér, stíga inn í aðstæður sem mér þætti óþægilegar. Það er gott að ögra sér; ef maður er hræddur við eitthvað þess þá heldur. Það er nauðsynlegt að stíga út fyrir þægindarammann, það gerir manni bara gott. En þessi kvíðaglíma var klárlega eitthvað sem breytti mér á endanum til betri manns á sínum tíma og kenndi mér margt.“
Það er gott að ögra sér; ef maður er hræddur við eitthvað þess þá heldur.
Erfiðleikarnir voru fleiri á þessum tíma en Kjartan Darri var 16 ára þegar hann veiktist alvarlega af heilahimnubólgu og var í lífshættu um tíma. „Ég lá inni með heilahimnubólgu af völdum bakteríusýkingar en þetta getur dregið fólk til dauða ef ekkert er gert. Ég held ég hafi ekki áttað mig á alvarleika málsins fyrr en ég kom heim af spítalanum á aðfangadag en þá brast pabbi í grát og knúsaði mig. Það var ekki oft sem ég hafði séð pabba minn gráta. Þetta var magnað móment; ég að hugga pabba minn.
Ég var síðan boðaður í rannsókn en það var verið að rannsaka fólk sem hafði fengið heilahimnubólgu. Það var verið að athuga alls konar, ég fór meðal annars í jafnvægispróf og heyrnar- og sjónpróf. Maðurinn sem sá um þetta sagðist þurfa að segja mér hvað ég væri heppinn; ég var fyrsti einstaklingurinn sem hann tók á móti þann daginn sem kom gangandi inn. Ég hugsaði dálítið um þetta eftir á. Svo má líka minna sig á hvað maður er heppinn að búa í samfélagi með gott heilbrigðiskerfi og kannski líka hvað við erum heppin að Alexander Fleming hafi óvart fundið upp pensilínið.“
Kjartan Darri segir að það að hafa glímt við kvíða og svo að vera við dauðans dyr vegna heilahimnubólgu hafi haft þau áhrif að hann finni fyrir meiri auðmýkt en ella og sé einlægari. „Þetta eru kostir sem ég hef reynt að temja mér í gegnum tíðina. Og það skiptir máli að muna að staldra aðeins við, slaka á í öxlunum, njóta, brosa og knúsa fólk innilega.“
Maðurinn sem sá um þetta sagðist þurfa að segja mér hvað ég væri heppinn; ég var fyrsti einstaklingurinn sem hann tók á móti þann daginn sem kom gangandi inn.
Gaf hestinum að éta
Jú, það var gaman að fá að taka þátt í uppsetningum Herranætur á menntaskólaárunum. Leiklistin og leikhúsin heilluðu svo mikið að Darri sótti um á leiklistarbraut Listaháskóla Íslands árið 2010 en komst ekki inn. Þá fór hann læra spænsku við Háskóla Íslands og tók þátt í uppsetningum Stúdentaleikhússins á sama tíma. „Svo fékk ég inni í leiklistardeild Listaháskóla Íslands árið 2012.“ Hann var þá 22 ára. „Ég vann á þessum tíma mikið sem tæknimaður hér og þar. Ég byrjaði ungur sem ljósamaður í Íslensku óperunni og var líka eitthvað að vinna í Þjóðleikhúsinu og Loftkastalanum og svo var ég umsjónarmaður tæknimála hjá Iðnó. Mér líður einstaklega vel í leikhúsum; þetta eru svo dýrmætir staðir. Það er góður andi í þessum húsum og svo eru líka svo skemmtilegar sögur sem fylgja leikhúsunum.
Ég var einu sinni að vinna sem tæknistjóri á einleikjasýningunni Hún Pabbi sem var sýnd á Act Alone á Suðureyri. Tæknimaður hússins kom inn og spurði hvort ég væri ekki örugglega búinn að gefa hestinum. Ég spurði hvað hann ætti við. Hann fór svo með mig í sjoppuna í leikhúsinu og lét mig kaupa súkkulaðistykki. Svo fórum við baksviðs og niður í kjallara og þar lá sælgætishrúga í einhverri kompu. Ég átti að setja súkkulaðið þar og „gefa hestinum”. Ég man ekki hversu gömul hjátrú þetta var en það þurfti sem sagt að gefa hestinum áður en maður fór að vinna því annars myndi maður eiga hættu á að slasa sig. Maðurinn sagði mér sögur af öðrum tæknimönnum sem gleymdu að gefa hestinum og bíða þess ekki bætur. Ég er ekkert mjög hjátrúafullur en ég ætlaði ekkert að láta reyna á það og gaf þessum hesti með glöðu geði.“
Grímuverðlaunahafi
Darri hefur tekið þátt í mörgum spennandi verkefnum eftir útskrift frá Listaháskóla Íslands vorið 2015. Hann fór að vinna hjá Leikfélagi Akureyrar strax eftir útskrift og lék meðal annars í verkunum Pílu Pínu og Helga magra. Þá hefur hann tekið þátt í fjölda sýninga sjálfstæðra leikhópa sem leikari og einnig sem vídeó-, hljóð- og ljósahönnuður. Darri var árið 2017 tilnefndur til Grímuverðlauna fyrir lýsingu ársins í sýningunni Þórbergur sem var sett upp í Tjarnarbíói. Hann fær æ fleiri tækifæri til að koma fram sem leikari og er nú ársráðinn hjá Þjóðleikhúsinu. Á síðasta leikári og núna í haust leikur hann í uppsetningu Þjóðleikhússins í sýningunni Kafbáturinn en fyrir þá túlkun fékk hann Grímuverðlaunin sem leikari ársins í aukahlutverki.
Á síðasta leikári og núna í haust leikur hann í uppsetningu Þjóðleikhússins í sýningunni Kafbáturinn en fyrir þá túlkun fékk hann Grímuverðlaunin sem leikari ársins í aukahlutverki.
„Þetta er frábær viðurkenning og minnir mann á hvað það eru mikil forréttindi að vera að vinna við það sem maður elskar. Svo styrkir þetta mann í þeirri trú að maður sé á réttri hillu og sé vonandi að gera góða hluti, það er voðalega ánægjulegt.“
Hvað er svo fram undan? „Vloggið heldur áfram á sinni vegferð um landið og endar svo á stóra sviði Þjóðleikhússins þar sem við tökum á móti elstu grunnskólanemum höfuðborgarsvæðisins. Svo verð ég með í leikritinu um Láru og Ljónsa, sýningu fyrir okkar allra yngsta og mikilvægasta fólk, og eftir áramót leik ég í söngleiknum Sem á himni sem er að slá í gegn um heim allann og gerir örugglega hér á Íslandi.“
Þörfin fyrir að segja sögur
Darri gaf hestinum og lukkudísirnar virðast fylgja honum í leikhúsheiminum. Hvað heillar hann við þennan heim svo mikið að hann vildi gera þetta jafnvel að ævistarfi? „Það er þessi þörf að segja fólki sögur og gefa fólki einhvers konar upplifun. Ég held að það sem heldur manni fastast í þessu starfi sé fólkið sem maður er að vinna með og ég held að það hafi verið þannig alveg frá því ég var í grunnskóla. Ég eignaðist marga af mínum bestu vinum í öllu þessu stússi í Herranótt og Stúdentaleikhúsinu. Svo heldur maður bara áfram að kynnast fleira fólki og vinna með alls konar hæfileikaríku og skapandi einstaklingum sem víkka í manni hugann og stækka hjartað.“
Baldur siglir á firðinum fagra og í gegnum tækin heyrst brak þegar hann klýfur öldurnar. Þarna gerast ævinýrin alveg eins og á sviðinu. Þarna rætast jafnvel draumar. Hvað með drauminn varðandi leikhúsið?
„Æðsti draumurinn er að geta skapað sína eigin list og setja eitthvað á svið eða á filmu úr mínu eigin hugartetri. Það væri náttúrlega draumurinn. En svo má líka tala um draum eins og að eiga heima í kastala sem væri líka leikhús og maður gæti alltaf verið að skapa eitthvað. En það gerist sennilega aldrei.. nei.. aldrei að segja aldrei, kannski rætist það.“
Æðsti draumurinn er að geta skapað sína eigin list og setja eitthvað á svið eða á filmu úr mínu eigin hugartetri.
Lestu allt um málið og meira til í brakandi fersku helgarblaði Mannlífs hér eða flettu blaðinu hér fyrir neðan: