Þriðjudagur 14. janúar, 2025
8.3 C
Reykjavik

Konur eru ekki uppá punt á Alþingi

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Það er stöðugt verið að reyna afvegaleiða umræðuna með beitingu þaulreyndrar kúgunar- og þöggunaraðferð valdhafanna. Þeirri aðferð langar mig svo til að henda í ruslið því þar á hún heima,“ segir Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, sem í upphafi vikunnar sagði sig frá störfum sem formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis. Þar vildi hún ekki vera upp á punt og segist hafa fengið nóg af því skítkasti sem viðgengst innan íslenskra stjórnmála.

Í lýðræðishúsinu Alþingi eru svona aðferðir ekki ásættanlegar, að hjóla alltaf í persónuna. Þetta á ekki að vera viðurkennt sem einhver pólitísk taktík. Að gera mótherjum sínum stöðugt upp illan hug og láta líta út eins og annarlegar hvatir búi að baki því að fólk vinni
sína vinnu. Þvert á móti eigum við að vinna faglega með því að benda frekar á hvað er að gjörðum fólks en ekki huga fólks.“

Annarlegar hvatir
Í formennsku sinni segist Þórhildur Sunna hafa reynt undanfarið að skýra út betur hæfi Kristjáns Þór Júlíussonar sjávarútvegsráðherra gagnvart málefnum Samherja en í stað upplýstrar umræðu hafi hún mætt heiftúðri mótspyrnu þar sem hún hafi verið sökuð um annarlegar hvatir. Fljótlega eftir fjölmiðlaumfjöllun um meintar mútur Samherja í Namibíu fór Þórhildur Sunna fram á að ráðherrann kæmi á opinn fund nefndarinnar til að ræða um tengsl hans við sjávarútvegsfyrirtækið. Hún segist ekki skilja mótspyrnuna við því að ráðherra mæti á fund til að skýra sín mál. „Ég mætti einfaldlega mikilli mótstöðu við að fá ráðherra inn á fund. Ég fékk strax ásakanir um að ekki væri heillyndi bak við beiðni mína og ég var sökuð um annarleg sjónarmið. Svo byrjaði ballið í fjölmiðlum þar sem allt var reynt til að mála mig þessum sömu litum. Því var reglulega haldið fram að annarlegar hvatir lægju að baki ósk okkar þriggja um að frumkvæðisathugun færi fram,“ segir hún.

Vildi fá svör
Þórhildur Sunna segir að of margt sé á gráu svæði þegar kemur að hæfi Kristjáns Þór Júlíussonar sjávarútvegsráðherra í ríkisstjórn. „Stjórnsýslurétturinn er þannig að ráðherra metur hæfi sitt sjálfur og hann ákveður það greinilega í upphafi að hann sé hæfur til þess að taka á málum tengdum Samherja sem „ekki varða veigamikla hagsmuni“ – en það liggur ekkert fyrir um hvernig á að framkvæma þetta hagsmunamat. Mér fannst líka mjög skrítið að ráðherra geti sjálfur dregið þá ályktun að ekki hafi reynt á hæfi hans sem ráðherra því þetta snerti ekki veigamikla hagsmuni. Að hann geti slengt því fram að hann hafi engra, hvorki persónulegra né fjárhagslega, hagmuna að gæta. Það sem ég vildi
fá svar við er hvernig eru þessir veigamiklu hagmunir metnir en stjórnarliðar hafa endurtekið komið sér undan að svara því,“ segir hún.

„Kristján Þór upplýsti í Kastljósi að hann liti svo á að símtalið sem hann átti við Þorstein Má, forstjóra Samherja og vin sinni til margra ára um hvernig honum liði eftir uppljóstranir Kveiks væri af sinni athafnaskyldu sem ráðherra. Óskráðar hæfisreglur stjórnsýsluréttar eiga einmitt við um athafnaskyldu ráðherra. Í þessu tilfelli virðist ráðherrann eiga erfitt með að aðgreina hver er vinur hans og hver er forstjóri Samherja. Hvernig getur það
verið að ráðherra hafi ekki verið vanhæfur til að eiga þetta símtal? Af hverju var þetta símtal ekki skráð í málaskrá ráðherrans? Þetta eru hlutirnir sem ég vildi skoða og satt best að segja skil ég ekki þessa heift gagnvart því.“

Vilja fela andúðina
Þórhildur Sunna telur sig aðeins hafa verið að sinna eftirlitshlutverki nefndarinnar þar sem hún hafi reynt að koma með haldbærar ábendingar um hvernig megi betur fara með viðmið
á hæfi. „Í staðinn þá er ég sökuð um vilja gera pólitíska nefnd að rannsóknarrétti og misnota stöðu mína til að koma höggi á andstæðinga. Ég á bara að vera með einhverjar annarlegar hvatir þarna að baki. Meirihlutinn vill aðeins fela andúð sína á því að hæfi
ráðherra sé athugað með því að gera mína persónu að einhverju aðalatriði. Þetta er þaulreynd kúgunar- og þöggunaraðferð þeirra sem ekki vilja sæta gagnrýni, aðhaldi og eftirliti. Sér í lagi frá konu í stjórnarandstöðu sem er í leiðtogahlutverki,“ segir Þórhildur
Sunna.

- Auglýsing -

Aðspurð hvort konur eigi erfiðara með störf innan þingsins svarar hún að svo
sé. „Mér finnst eðlilegt að spyrja hvort það sé komið verr fram við komur heldur en karla á Alþingi. Það er ekki þannig að við séum þarna inni til að vera einhverjar dúkkulísur, heldur
betur ekki. Ég er stjórnmálakona sem er kosin til að viðra mínar skoðanir, ég er kosin til þess að hafa eftirlit og aðhald með framkvæmdavaldinu.“

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir
Mynd / Hallur Karlsson

Önnur afsökun
Þegar talið berst að afsögn Þórhildar Sunnu sem formanni þingnefndar segist hún einfaldlega hafa fengið nóg og og að hún hafi viljað upplýsa um og mótmæla þessari lágkúrulegu aðferðarfræði sem meirihlutinn var að nota til þess að koma sér undan eðlilegu
eftirliti og aðhaldi. „Ég sá að ég var komin á þann stað að það stóð ekkert til að leyfa mér að hreyfa mig hænufet í þessu embætti nema sæta endalausum ásökunum og rugli. Ég ætlaði ekki að vera einhver dúkkulísa í höndunum á þeim eða vera þarna upp á punt til þess að meirihlutinn geti skreytt sig með því að þarna sé nú ung kona að leiða þessa
nefnd. Þetta er bara leikrit sem ég tek ekki þátt í. Ég fékk bara nóg,“ segir
Þórhildur Sunna ákveðin.

„Mér finnst ekkert gaman að standa í persónulegum deilum um einhvern
tittlingaskít. Ég er ekki í pólitík til þess. Það var þess vegna sem ég ákvað að fjarlægja sjálfa mig úr þessum aðstæðum. Meirihlutinn var að nota mig sem skjöld fyrir því að nefndin sinnti ekkki sínu hlutverki og nú verða þeir að finna sér einhverja aðra afsökun.“

- Auglýsing -

Gaslýsingar valdhafa
Þórhildur Sunna segist sannfærð um að hún sé á réttri leið í stjórnmálum þegar hún mætir þessari heift og ofbeldi innan Alþingis. „Þegar viðbrögðin eru svona rætin þá veit ég að ég er að hræra í einhverjum potti sem fólk vill ekki að ég hræri í. Það er ágætis staðfesting á því að maður er á réttri leið en ég get samt ekki sagt að ég þrífist endilega vel í brjáluðum átökum. Ég varð sjálf stundum reið yfir þessari ofbeldismenningu sem þarna þrífst,“
segir Þórhildur Sunna.

Aðspurð hvað það er einna helst sem reiti hana til reiði segir hún það vera þegar valdhafarnir spili með raunveruleikann. „Það sem einna helst reiðir mig er þegar réttu máli er hallað. Ég tala stundum um gaslýsingar valdhafanna. Það virðist bara í lagi að þeir geri eitthvað brjálæðislega klikkað og svo daginn eftir geta þeir bara sagt: þetta gerðist ekki. Hvernig hægt er að endurskrifa söguna aftur og aftur.“

Alltaf eins
Þórhildi Sunnu finnst sorglegt hversu illa gengur að breyta vinnustaðarmenningunni á Alþingi. „Einhvern veginn helst þetta alltaf eins. Það eru margir sem hafa sagt við mig að þeir hafi brennandi áhuga á stjórnmálum en að framkoma stjórnmálamanna fæli frá þátttöku. Ég hef ítrekað heyrt að fólk hræðist þetta af ótta við að þátttaka í stjórnmálunum leiði til ærumissis. Það finnst mér mjög sorglegt að þannig sé komið fyrir þinginu. Við þurfum fleira fólk í stjórnmálin sem er málefnalegt, heiðvirt og hjartahlýtt,“ segir hún.

„Í uppvextinum hugnaðist mér aldrei að fara út í íslenska pólitík því mér fannst hún alltaf svo rætin og ómálefnaleg. Við erum alltaf úti á túni og það er reynt að afvegaleiða umræðuna frá þeim hneykslum sem uppi eru þá stundina. Ég veit ekki hversu margar feitar smjörklípur ég hef horft upp á á þessum fjórum árum sem ég hef verið á þessum vinnustað.“

Tilfinningalegur vanþroski
Þrátt fyrir að hafa ung að árum aldrei ætlað út í pólitík ákvað Þórhildur Sunna að láta slag standa þegar Píratar komu fram á sjónarsviðið, flokkur sem talar fyrir borgararéttindum og
lýðræði. Að hennar sögn skemmdi ekki fyrir að Píratar leggja áherslu á upplýsta ákvörðunartöku og að það sé í lagi að skipta um skoðun. „Mér finnst skipta máli að þú getir sagt, á grundvelli betri gagna sem fram koma, að þú hafir haft rangt fyrir þér. Það gerir venjulegt þroskað fólk. Umræðan á þinginu er því miður ekki á þeim stað. Þar er rosaleg karla-karla stemning þar sem þú hefur aldrei rangt fyrir þér og meginkosturinn að vera staðfastur. Mér finnst það bara sýna tilfinningalegan vanþroska, að geta ekki viðurkennt mistök og lært af þeim. Það er aldrei hægt að viðurkenna að hafa rangt fyrir sér heldur er bara hjólað í sendiboðann. Þetta hefur mjög eyðileggjandi áhrif.“

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir
Mynd / Hallur Karlsson

Barátta fyrir gæðum
„Það er erfitt að fylgjast með þjóðfélagsumræðunni þegar maður sér hvernig þingmenn tala um og koma fram hver við annan. Þá finnst mér vont að sjá hvernig viðstöðulaust er verið að senda út þau skilaboð að almenningur hafi ekki rétt á að hafa skoðun eða rétt á því að vera reiður. Hvaða skilaboð eru það til dæmis út í samfélagið þegar fjármálaráðherra segir að taki fræðimenn þátt í umræðu séu þeir að vinna sér sjálfskaða,“ segir
Þórhildur Sunna.

Aðspurð þá telur þingmaðurinn mögulegt að breyta vinnustaðamenningunni á Alþingi. Að hennar mati er eitt af lykilatriðunum að kjósa rétt. „Ég held að það sé hægt að breyta þessu en þá verður fólk að kjósa eitthvað annað en íhaldið. Það er í þeirra eðli að vilja engu
breyta þrátt fyrir fögur loforð. Þeim finnst fínt hvernig hlutirnir eru, það er bara skilgreiningin á íhaldinu. Ég væri ekki í pólitíkinni ef ég teldi ekki að það væri hægt að finna leið til að gera hlutina betur.“

Til að undirstrika hversu lengi sömu aðferðunum hafi verið beitt á þingi vísar Þórhildur Sunna í ræðu Vilmundar Gylfasonar þingmanns frá árinu 1982. „Mér finnst svo sorglegt að lesa þingræðu frá árinu 1982 sem lýsir varðhundum valdsins og hvað þeir gera til að þagga niður gagnrýni og aðhald. Varðhundar valdsins muni ráðast að okkur með gífuryrðum, þeir muni loka fjölmiðlunum og þeir munu láta allt líta út fyrir að vera upphlaup eða gífuryrði. Því miður er þetta bara enn þá nákvæmlega svona í dag.“

Skilur ekki leyndina
Eitt af baráttumálum Pírata er að auka gegnsæi í stjórnsýslunni og koma þannig í veg fyrir spillingu sem þrífst í landinu. Þórhildur Sunna segir afar brýnt að styrkja varnirnar hérlendis. „Vegna þess hversu fámenn þjóðin er þurfum við sterkar spillingarvarnir. Baráttan gegn spillingu er barátta fyrir samfélagslegum gæðum. Að við sitjum öll við sama borð og höfum jöfn tækifæri og jafnan rétt.“ Hún er þeirrar skoðunar að vegna þess
að ekki sé tekið nægjanlega vel á spillingarmálum þá fái hún að viðgangast og skemma út frá sér. Hún bendir á að nýleg löggjöf gegn hagsmunaárekstrum sé gott dæmi.

„Mjög mikilvægt skref vissulega en samt tókst ekki að setja þar inn eftirlit með því að ráðherrar fylgi þessum reglum vel. Þvert á móti eru þeir sérstaklega undanskildir viðurlögum og eftirliti. Af hverju? Að vilja ekki sjálfstætt eftirlit með sjálfum sér er dæmi um að vilja ekki sæta aðhaldi og eftirliti,“ segir Þórhildur Sunna.
„Nefndarfundir Alþingis eiga að vera opnir. Ég sé ekki af hverju þeir ættu að fara leynt. Vond vinnubrögð þrífast í skjóli þess að það sem gerist inni á þessum fundum sé eitthvert
ríkisleyndarmál.“

Sterk taug
Þórhildur Sunna sagði af sér formennsku þingnefndarinnar til þess að mótmæla vinnubrögðum meirihlutans í nefndinni, sér í lagi við framkvæmd frumkvæðisathugunarinnar á hæfi Kristjáns Þórs. Hún bendir á að hann hafi sjálfur lofað að láta meta hæfi sitt gagnvart Samherja þegar hann tók við embætti. Hún trúir því að breytingar séu mögulegar velji kjósendur að hafna íhaldinu og þori að velja nýjan kost. „Taugin í okkur er mjög sterk að velja bara eitthvað sem maður þekkir þegar á hólminn er komið. Alveg sama þó það gamla sé frekar lélegt. Það er svo miklu auðveldara heldur en að velja óvissuna. Það er skiljanlegt að óttast óvissuna en ef við veljum alltaf sama gamla kostinn þótt hann hafi ekki endilega reynst okkur vel í gegnum tíðina að þá er augljóst að við hökkum alltaf í sama gamla farinu,“ segir hún.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -