Sunnudagur 22. desember, 2024
-4.3 C
Reykjavik

Kristinn er óvinnufær og á ekkert inni á reikningnum: „Gengur hægt að fyrirgefa sjálfum sér“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Kristinn Magnússon hefur marga fjöruna sopið. Hann átti ánægjulega æsku og honum gekk vel í skóla. Síðan kynntist hann Bakkus en fyrir utan brennivínið var amfetamín og fleira daglegt brauð – og þunglyndi og kvíði hafa verið fylgifiskar hans í áratugi. Hvort kom á undan – neyslan eða andleg vanlíðan – er spurning og hann líkir þessu við eggið og hænuna. Kristinn kynntist ljótum heimi í neyslunni. Hann er óvinnufær, er 75% öryrki og segist hafa búist við því áður fyrr að eiga sumarbústað og fara í Kanaríferðir þegar hann kæmist á ellilaun. Lífið er alls konar.

Kristinn Magnússon ólst upp í Hafnarfiði til 12 ára aldurs, einn fjögurra systkina. Fjölskyldan flutti svo á sveitabæ austur á Hérað þar sem þau bjuggu í fimm ár.

„Skólagangan var mjög fín. Mér gekk alltaf vel í skóla og þurfti aldrei að hafa fyrir námi. Það voru engin áföll í æsku eða neitt. Bara góð barnæska. Ég var í heimavistarskóla fyrir austan og rann í gegnum allt nám eins og ekkert væri. Svo fluttum við aftur suður þegar ég var 17 eða 18 ára. Aftur í Hafnarfjörðinn. Þetta var allt bara svona ósköp venjulegt.“

Mér gekk alltaf vel í skóla og þurfti aldrei að hafa fyrir námi. Það voru engin áföll í æsku eða neitt. Bara góð barnæska

Hvað með draumana á þessum árum?

„Ég sat ekki sem unglingur og dreymdi um að það væri best að verða öryrki þegar ég yrði eldri; hafa ekkert að gera og hafa það fínt heima eins og sumir halda að öryrkjar séu einhverjir sem vilji bara vera á örorku af því að þetta sé svo auðvelt líf. Ég var svolítið áttavilltur og vissi aldrei hvað ég vildi verða. Ég datt óvart inn í bifvélavirkjann þegar ég var 17 eða 18 ára og fór að vinna við standsetningu á nýjum bílum um tvítugt en mér hafði verið boðið að koma í nám á bílaverkstæði. Þá var ég búinn með dálítið í fjölbraut og af því að ég átti alltaf svo auðvelt með að læra þá var ég búinn með öll þessi almennu fög. Ég vann í tvö eða þrjú ár á verkstæðinu og fór svo í iðnskólann í eitt ár og kláraði bifvélavirkjann á einu ári og vann svo við það lengi vel framan af.“

 

- Auglýsing -

„Djélið“ eða dáinn?

Kristinn var 26 ára þegar hann kvæntist fyrri eiginkonu sinni og eignuðust þau tvo syni. „Við fluttum til Danmerkur árið 1996 þar sem við bjuggum í þrjú ár og vann ég þar hjá Siemens sem var að framleiða vindmyllur.“

Kristinn hafði drukkið töluvert í gegnum árin og jókst drykkjan á árunum í Danmörku. „Þetta var alltaf að stigmagnast. Það var til nóg þar og bjórinn kostaði ekkert.“

- Auglýsing -

Fjölskyldan flutti svo aftur til Íslands og skildu hjónin árið 2006. „Drykkja mín hafði stór áhrif á það. Ég var í fínu starfi á þessum tíma en ég var verslunarstjóri hjá Bílanaust í Hafnarfirði og gekk mér ágætlega fyrir utan þessa drykkju og allt sem henni fylgdi.“

Ástin bankaði aftur á dyrnar en Kristinn kynntist annarri konu og fluttu þau til Danmerkur og bjuggu þau þar í þrjú og hálft ár. Hann fékk aftur vinnu hjá Siemens og þar vann hann fram á vorið 2011.

„Árið 2010 var síðasta árið sem ég var í fullri vinnu. Ég var að skoða þetta um daginn en ég var þá með um 15 milljónir í árslaun á móti um 2,5 milljónum í dag sem ég fæ frá Tryggingastofnun.“

Jú, drykkjan jókst alltaf og þunglyndi og kvíði hafði mikil áhrif en Kristinn hafði fundið fyrir bæði þunglyndi og kvíða síðan hann var á unglingsaldri.

„Ég er kvíða- og þunglyndissjúklingur með alls kyns andlega kvilla,“ segir hann og nefnir einnig félagsfælni. „Þunglyndið og kvíðinn eru stóru punktarnir. Læknir spurði einu sinni hvort hefði komið á undan; alkóhólisminn eða þunglyndið og kvíðinn. Það er spurning um eggið eða hænuna; hvort kom fyrst. Þetta saman endar yfirleitt ekki vel. Ég var líka orðinn slæmur í skrokknum; bakinu. Ég reyndi að fara að vinna árið 2011 eftir að ég flutti heim en ég var með súper meðmæli frá Dönunum en þá var ég kominn á það stig að ég bara treysti mér ekki lengur til að vinna út af drykkjunni en ég drakk alltaf frá mér kvíðann og þunglyndið.

Ég fór að vinna í varahlutaverslun bílaumboðs haustið 2011 en ég entist fram að áramótum. Ég fór í mína fyrstu meðferð um haustið; ég man að ég ætlaði að taka það eins og skólagönguna: Mér fannst ég vera svo klár að ég þurfti eiginlega ekkert að vera að hlusta á hvað var sagt við mig í meðferðinni. Ég var svo farinn að drekka einni eða tveimur vikum eftir meðferðina. Þá tók við erfiður tími. Ég leigði íbúð með pabba heitnum og af því að ég var skráður hjá honum þá fékk ég um 70.000 á mánuði frá félagsþjónustunni og var þá kominn út í miklu meira heldur en áfengi. Alls kyns rugl.“

„Alls kyns rugl“ segir hann.

Kristinn Magnússon

„Ég var kominn mjög djúpt í neyslu á örvandi efnum; amfetamíni og kókaíni. Þarna var ég kominn út í dagdrykkju. Ég drakk kannski eina til tvær tveggja lítra flöskur af 75% spíra og drakk svo bjór ofan í það líka; til að geta haldið út þá byrjaði ég að taka þessi örvandi efni. Bara til að geta drukkið meira. Þau gerðu hins vegar ekkert nema að auka ennþá meira á kvíðann eftir að vera kannski búinn að vaka og drekka og taka í nefið í fimm til sjö sólarhringa án þess að sofa; þá var maður orðinn geðveikur í hausnum.“

Ég var kominn mjög djúpt í neyslu á örvandi efnum; amfetamíni og kókaíni

Kristinn er spurður hvað hafi verið það versta sem hann upplifði á þessum tíma.

„Ég veit það ekki. Það var svo margt. Það var stanslaust partí allan sólarhringinn allt árið. Alltaf fleira fólk. Ég vaknaði oft upp við það eftir að vera búinn að sofa í nokkra tíma að það voru einhverjir stumrandi yfir mér og var púlsinn á mér kannski kominn í 240 slög á mínútu og var talað um að hringt yrði á sjúkrabíl en ég var þá kannski kominn með verk niður í vinstri handlegginn og var náttúrlega bara í hjartaáfalli. Það eru svona minningar sem eru einna verstar; þegar maður var við það að fara. Það var hins vegar alltaf sama svarið hjá mér: Réttið mér bjórinn eða flöskuna. Þá slokraði maður í sig áfengi og þá fann maður hvernig púlsinn fór niður. Svo var bara haldið áfram.

Ég sá náttúrlega mikið af alls kyns ljótum hlutum sem ég vil helst ekki vera að rifja mikið upp.“

Þögn.

„Þetta er mjög ljótur heimur og hefur ekki skánað síðan.“

Kristinn er spurður hvernig hann hafi fjármagnað neysluna.

„Á þessum tíma var ég með rúmlega 70.000 krónur frá félagsþjónustunni og ég gerði bara það sama og margir fíklar gera: Ég kom mér í góð sambönd og fékk amfetamín á góðu verði og þá tók maður helminginn fyrir sjálfan sig og þynnti hitt út og svo seldi maður vinum og kunningjum. Það var aðaltekjulindin. Það gerði það að verkum að rjóminn af götum bæjarins var nánast búandi heima hjá mér. Það eru nokkrir af þeim látnir og svo aðrir sem sitja inni. Svo eru nokkrir sem eru edrú og eru í góðum málum í dag.“

Ég kom mér í góð sambönd og fékk amfetamín á góðu verði og þá tók maður helminginn fyrir sjálfan sig og þynnti hitt út og svo seldi maður vinum og kunningjum

Kristinn segist ekki hafa komist í kast við lögin. „Lögreglan var nánast líka fastagestur. Þeir komu oft. Annaðhvort út af hávaða eða þá að þeir voru að leita að einhverjum sem þurftu að koma í skýrslutöku. Þeir vissu alveg hver ég var og hvað var í gangi en það voru aldrei neinar kærur eða annað á mig. En það voru þarna menn sem voru náttúrlega góðkunningjar lögreglunnar sem vissi alveg hvar hægt væri að leita að þeim.“

Kristinn sér eftir mörgu. „Ég held að það gangi hægast hjá manni að fyrirgefa sjálfum sér að leyfa þessu að ganga svona langt. Jú, á þessum árum missti ég náttúrlega allt samband við ættingja og börnin mín. Maður gat ekki boðið þeim upp á að heyra í manni í alls konar ástandi; en það hefur sem betur fer lagast allt og ég á góða stórfjölskyldu sem studdi mig um leið og ég fór að gera eitthvað í mínum málum. Þegar svona er þá er aðallega við mann sjálfan að sakast. Þó mér hafi ekki fundist ég vera að gera neinum mein þá veit ég í dag að það er fullt af fólki sem þykir vænt um mig sem var kannski með endalausan kvíðahnút og áhyggjur af því hvenær símhringingin kæmi um að ég væri kominn í „djélið“ eða dáinn. Maður var ekkert að pæla í því á þessum tíma. Það var bara „láttu mig í friði með mitt – ég er ekkert að meiða neinn annan en mig“.

Ég held að það gangi hægast hjá manni að fyrirgefa sjálfum sér að leyfa þessu að ganga svona langt

Kristinn Magnússon

 

Sendi bréf til þingmanna

Kristinn fór í meðferð á Vogi í febrúar 2012 og datt í það fjótlega eftir að hann kom úr meðferðinni. „Svo hringdi í mig vinur minn sem býr úti á landi sem var með vélaverkstæði; hann vildi endilega að ég kæmi og hætti þessari vitleysu. Ég var í nokkrar vikur hjá honum. Svo gekk það ekkert lengur. Brennivínið kallaði á mig og var ég oft lengi í burtu og kom svo hálfslompaður til baka og var í nokkra daga að jafna mig. Það var ekki hægt að bjóða neinum vinnuveitanda upp á það. Það er ekki vænlegt til árangurs að flytja eitthvert til ađ verða edrú; það þarf aðeins meira til.“

Kristinn fór aftur í meðferð árið 2013 og var edrú í tæp þrjú ár eftir það en treysti sér ekki í fasta vinnu. „Ég vann svolítið sjálfstætt í bílaviðgerðum árið 2015. Ég hélt ég gæti meikað þetta ef ég réði mér sjálfur en um leið og álagið fór að aukast þá kiknaði ég undan því. Kvíðinn fór upp úr öllu valdi sem og þunglyndið og ég réð ekki við öll verkefni og endaði á því að byrja að drekka. Það var ekki nema um hálft ár sem ég var að drekka og gerði ég það aðallega til að drepa niður vanlíðan, þunglyndi og kvíða. Þegar rann af manni þá blossaði kvíðinn upp og það af tvöföldum þunga. Það var einfaldast að halda áfram að drekka.“

Kristinn fór svo í enn eitt skiptið á Vog árið 2016 og hefur verið að mestu edrú síðan.

„Ef ég á að vera alveg heiðarlegur þá hafa reyndar komið kvöld síðasta einn og hálfa mánuðinn sem ég hef fengið mér einn eða tvo bjóra. Það er út af þessari vondu líðan sem ég hef verið að upplifa að undanförnu. Ég hef ekki haft hátt um þetta en ég veit að margir ættingjar og vinir hafa haft miklar áhyggjur af mér um að ég myndi lenda á sama stað og áður.“

Kristinn hafði kynnst núverandi eiginkonu sinni, Heiðdísi Ýr, árið 2015. Hann segir að hún hafi líka átt við fíknivanda að stríða og bjuggu þau á áfangaheimili til að byrja með sem var svo lokað. „Við fluttum til Vestmannaeyja haustið 2016 af því að vinur minn þar átti íbúð sem við gátum fengið leigða. Þar byrjaði ég í endurhæfingu hjá VIRK og var í alls kyns sálfræðiviðtölum og sjúkraþjálfun til að reyna að koma mér í gang. En það var svo fullreynt eftir um eitt og hálft ár. Ég fékk þá endurhæfingarlífeyri á meðan sem er svipuð upphæð og örorkubætur. Það var svo úrskurðað að endurhæfing væri ekki að skila árangri og ekki þannig að ég væri hæfur til að fara út á vinnumarkaðinn. Þá setti læknirinn í gang ferli um að sækja um örorkubætur. Kerfið virkaði þannig að á meðan ég var að bíða eftir úrskurði frá Tryggingastofunun þá fékk ég um 20.000 krónur á mánuði í bætur af því að ég var kvæntur: konan mín, öryrkinn, átti að sjá fyrir mér líka. Fólki er alltaf einhvern veginn refsað í kerfinu fyrir að gifta sig en örorkubætur konunnar voru reiknaðar inn í þetta.“

Þar byrjaði ég í endurhæfingu hjá VIRK og var í alls kyns sálfræðiviðtölum og sjúkraþjálfun til að reyna að koma mér í gang

Kristinn Magnússon

Úrskurður Tryggingastofnunar kom svo. Kristinn var dæmdur 50% öryrki. „Mig minnir að þetta hafi verið um 33.000 krónur á mánuði. Það þykknaði í mér og ég skrifaði bréf til allra alþingismanna þar sem ég lýsti þessu. Þetta rataði reyndar í fjölmiðla og þá fór eitthvað í gang. Ég veit ekki hver gerði hvað en það var allavega hringt í mig og strax farið í að endurmeta þetta og þá var ég sem sagt dæmdur bara 75% öryrki.“

 

Bréfið:

 

Vestmanneyjum, 22.mai, 2018

Ágæti þingmaður.

Í aðdraganda síðustu alþingiskosninga var nokkuð rætt um bága stöðu öryrkja vegna þeirrar staðreyndar, að örorkubætur ná ekki lágmarks framfærsluviðmiðum.
Það sem var þó mest rætt varðandi stöðu þessa hóps voru þær óréttlátu skerðingar, stundum kallað “krónu á móti krónu”, sem þessi lægst setti hópur þjóðfélagsins þarf að þola ef einhver innkoma kemur annars staðar frá.

Flestir ef ekki allir frambjóðendur og flokkar voru sammála um óréttlætið sem í þessu kerfi felst og lofuðu allir að láta sig málið varða þegar inn á þing yrði komið. Nú er mai næstum á enda og ekkert hefur verið gert.
Ástæða þess að ég skrifa þetta bréf nú er að í dag fengu öryrkjar sinn árlega glaðning, útreikning vegna ársins 2017. Þá kemur í ljós hverjir eiga að borga TR til baka vegna skerðingalöggjafarinnar sem þinn vinnustaður, Alþingi, hefur ákveðið.

Hér er mín saga til að hjálpa þér að glöggva þig á hvernig þessi lög, sem þú og þinn vinnustaður getið breytt, virka í mínu tilfelli:

Ég hef verið óvinnufær í 7 ár vegna sjúkdóms. Síðastliðin 3 ár hef ég verið í endurhæfingarúrræðum og fengið endurhæfingarlífeyri sem er 204.000 útborgaður á mánuði.
Um síðustu áramót var ljóst að ég yrði ekki vinnufær aftur í bráð og þ.v. sótti ég, í byrjun Janúar, um örorkubætur til TR. Sú umsókn varð til þess að ég fékk síðast greiddan endurhæfingalífeyri 1.febrúar.
Þar sem ég beið úrskurðar varðandi örorku mína leitaði ég til félagsþjónustu sveitarfélagsins um fjárhagsaðstoð. Þar voru svörin að vegna þess að ég er giftur, þá ætti ég rétt á 20.000 krónum til framfærslu, vegna tekna konu minnar. Rétt er að taka fram að konan mín er öryrki og fær vegna hjúskaparstöðu sinnar, 204.000 útborgað. Þessi mismunun er náttúrulega augljóst brot á jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar, en samþykkt af Alþingi.

Þegar loks kom niðurstaða frá TR varðandi örorkuumsókn mína var niðurstaðan sú að ég, algjörlega óvinnufær, er metinn með 50% örorku, og fæ því 33.168 kr á mánuði til framfærslu!
Þar sem þessi niðurstaða dugði ekki til að hrekja mig í sjálfsmorð, þá er reynt að reka endahnútinn á það ætlunarverk með bréfinu sem mér barst í dag. Þar kemur fram að ég skuldi TR 480.000 sem mér beri að greiða til baka innan 12 mánaða. Hvernig ég á að fara að því með mínum 33.168 kr á mánuði er mér hulin ráðgáta.

Þetta er sá raunveruleiki sem ég lifi við, sem ég geri mér grein fyrir að er fjarlægur þér, sem væntanlega þiggur yfir milljón á mánuði úr sama ríkissjóðnum og ég fæ 33.168 kr.

Því vil ég spyrja þig:

  1. Ætlar þú persónulega að berjast fyrir því að þessum ólögum um almannatryggingar verði breytt strax, eins og lofað var af öllum flokkum fyrir kosningarnar á síðasta ári?
    2. Munt þú beita þér fyrir að skerðingarnar sem öryrkjar búa við verði afnumdar með lögum á Alþingi, áður en þið farið í sumarfrí?
    3. Ætlar þú að beita þér fyrir að hætt verði að mismuna fólki eftir hjúskaparstöðu innan almannatryggingakerfisins og hjá sveitarfélögum, sem er brot á stjórnarskránni?

Bréf þetta mun ég senda á alla þingmenn sem sæti eiga á alþingi. Einnig mun ég birta það opinberlega á Facebook og hugsanlega í fjölmiðlum. Ég vænti svars fyrir 10.júní en þá mun ég einnig birta hverjir hafa svarað mér og hugsanlega útdrætti úr svörum.

Virðingarfyllst,
Kristinn Magnússon”

VARÚÐ!!! Gríðarlega niðurdrepandi status

Kristinn og Heiðdís Ýr leigja gamalt, lítið einbýlishús á Ólafsfirði og eiga tvo hunda. Hann segir að leigan sé 140.000 krónur á mánuði. Hann segist hafa fengið um 180.000 krónur útborgaðar á mánuði en hann tekur fram að hann fékk um 700.000 krónur í eingreiðslu frá lífeyrissjóðnum á sínum tíma og að það hafi lækkað greiðsluna frá Trygginastofnun en nú er hún að komast í 200.000 krónur á mánuði. Þá fær hann um 40.000 frá lífeyrissjóðnum á mánuði og hefur sótt um bætur frá Danmörku og vonast til að það gangi í gegn. Hann segir að eiginkona sín fái um 150.000 krónur útborgaðar á mánuði.

„Við erum heppin að búa á litlum stað úti á landi þar sem fólk þekkist og það er náttúrlega ekkert mikið um að vera; við erum ekki að leyfa okkur neinar tómstundir eða þess háttar. Það eru engin veisluhöld á heimilinu. Við erum heppin þar sem ég þekki trillusjómenn þannig að við höfum yfirleitt haft nóg af fiski. Svo förum við yfirleitt í kringum hver mánaðamót til Akureyrar til að versla í Bónus. Við höfum ekki liðið neinn skort í mat en maður er ekkert að leyfa sér eitthvað mikið. Maður er ekkert á veitingastöðum um hverja helgi. Það er helst þessar daglegu vörur sem okkur hefur vantað stundum ef mjólkin og brauðið hafa klárast og þetta sem maður er að kaupa. En að öðru leyti hefur þetta alveg gengið.

Við erum heppin þar sem ég þekki trillusjómenn þannig að við höfum yfirleitt haft nóg af fiski

Svo höfum við stundum fengið lánað hjá vinum og kunningjum þegar við höfum orðið mjög aðkreppt. Það þarf náttúrlega að borga það til baka og þá er maður ennþá krepptari. Við höfum tekið smálán til að bjarga okkur.“

Kristinn talar um tannlæknakostnað en hann fór ekki til tannlæknis lengi en svo fór að það hefur þurft að fjarlægja skemmdar tennur á síðustu tveimur árum.

Hjónin eiga sitthvorn bílinn. Kristinn segist hafa keypt bíl þegar hann fékk eingreiðsluna frá Tryggingastofnun og svo fengu þau bíl gefins.

Hvað með fjárhagsáhyggjur í bland við þunglyndi og kvíða? „Það verður enginn bati á meðan. Ég hef verið á lyfjum á tímabilum hjá lækninum en hann setur mig á þunglyndislyf sem vinna aðeins á þunglyndinu þannig að dýfurnar eru ekki eins slæmar. En þegar maður er alltaf með áhyggjur af hvernig hlutirnir verða þá verður enginn bati.“

Kristinn skrifaði nýlega færslu á Facebook sem vakti athygli og var minnst á hana í nokkrum fjölmiðlum. Þetta skrifaði birti hann 14. desember:

 

VARÚĐ!!!    Gríđarlega niđurdrepandi status…

Margir vina minna hafa haft samband viđ mig þar sem þau hafa tekiđ eftir undirlyggjandi þunga og myrkri í færslum mínum og lagavali undanfariđ.

Ég er mjög þakklátur ykkur öllum sem hafiđ sýnt mér umhyggju.

Máliđ er ađ ég hef lengi glímt viđ bæđi þunglyndi og kvíđa en náđ ađ halda mér fljótandi á jákvæđni og hjálpsemi viđ ađra (asnalegt ađ tala um eigin hjálpsemi).

Þennan mánuđinn hefur álagiđ einfaldlega veriđ of mikiđ og ég hef þurft ađ berjast af hörku viđ eigin niđurdrepandi hugsanir.   

Sem betur fer hef ég Heiđdísi mína, sem reynir eftir megni  ađ benda mér á ljósu hliđarnar. En hún hefur sjálf ekki getađ hreyft sig nema staulast á hækjum milli herbergja, eftir ađ hùn slasađist á hné. (U.þ.b. mánuđur síďan og loks tími í segulómun á morgun)

Eftir síđustu mánađamót var ekkert eftir á reikningunum okkar, og enn ógreiddir reikningar..

Viđ höfum fengiđ smá ađstođ frá vinum og ættingjum til ađ kaupa mat og litla pakka fyrir yngstu börnin hennar. Fyrir þađ erum viđ mjög þakklát.

Þannig er stađan og kannski skiljanlegt ađ kallinn sé ekkert dansandi af gleđi ađ fara inn í hátíđarnar.

En kæru vinir sem nenntuđ ađ lesa til enda, viđ ykkur vil ég segja aď ég er ekki ađ biđja um vorkun eđa peninga, heldur einfaldlega ađ útskýra mína stöđu, þar sem ég vil heist ekki valda mínum nánustu áhyggjum  

Ég vil líka segja ađ ég hef gengiđ í gegnum verra og þađ birtir alltaf til. 😊

Læt fylgja mynd af „sparnađinum“ þennan mánuđinn. 😉

Svona er lífiđ fyrir öryrkja í „Landi tækifærana“ hans Bjarna Ben.

„If you’re going through hell,  keep going.)

(Winston Churchill)

 

„Ég hef meira verið í að birta brandara á Facebook; meira í að reyna að dreifa einhverjum bröndunum til að létta manni upp en ég ákvað að skrifa þennan status og lýsa hvernig þetta væri. Ég var alls ekki að ætlast til þess að fólk færi að senda mér einhverja peninga. Ótrúlegasta fólk hefur hins vegar haft samband til að uppörva og eins viljað styrkja okkur til að við getum haldið jólin. Bæði fólk sem við höfum verið í samskiptum við í dag og fólk sem ég var í samskiptum við fyrir 10 árum síðan og alveg aftur í fólk sem ég var með í skóla sem unglingur og sem ég hef næstum því ekki hitt í 40 ár.“

Þetta hefur glatt Kristin mikið.

„Maður á kannski ekki að segja það 54 ára gamall bifvélavirki en ég hef setið hérna og kjökrað. Mér finnst vera til ótrúlega mikið af góðu fólki. Bláókunnugt fólk hefur haft samband síðan Mannlíf, Hringbraut, Fréttablaðið og trolli.is birtu færsluna. Ég átti alls ekki von á þessum viðbrögðum. Ég vil endilega koma á framfæri þakklæti fyrir allt þetta; það eru svo margir sem hafa haft samband hvað varðar uppörvandi orð, hvatningu og svo hafa sumir gaukað einhverju að okkur. Við erum mjög þakklát. Maður er hálforðlaus; maður veit ekki hvernig maður á að láta. Kona nokkur sem er öryrki og á mann sem er atvinnulaus vildi endilega leggja inn á mig 5000 krónur en ég sagðist ekki vilja taka síðustu krónurnar af henni.

Ég lít á þetta eins og það eigi að skila skömminni. Skömmin er ekki öryrkjans að verða fyrir því að vera fatlaður eða veikur heldur eru það stjórnvöld sem stýra því hvernig staðan er.“

Jú, lífsleið Kristins Magnússonar er búin að vera grýtt lengi vel. Hvað hefur hann lært af þessu öllu?

„Ég held að fyrir það fyrsta ætti maður ekki að taka neinu sem gefnu. Ég var í fullri vinnu og hélt ég yrði gamall maður sem myndi eiga sumarbústað og sem færi í Kanaríferðir þegar ég færi á ellilaun. Svo getur lífið farið allavega. Þetta hefur aukið skilninginn og samkennd gagnvart öllum. Það eru margir að glíma við sitt. Ég vona að þessi athygli sem ég fæ opni augu fleiri en það eru ekki allir á Íslandi sem hafa það rosalega fínt.“

Skömmin er ekki öryrkjans að verða fyrir því að vera fatlaður eða veikur heldur eru það stjórnvöld sem stýra því hvernig staðan er

Kristinn Magnússon

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -