Þriðjudagur 14. janúar, 2025
8.3 C
Reykjavik

Kristrún er í forystusæti Samfylkingarinnar: „Ekki gefandi að starfa við að meta nærbuxnaverð“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Ég var mikið í tónlist þegar ég var yngri, byrjaði í píanónámi fimm ára og tók það frá upphafi mjög alvarlega eins og flestum verkefnum sem barn. Ég var líklega óþarflega ábyrgt barn, mjög hlýðin. En ég kláraði sjöunda stigið í klassískum píanóleik. Fjölskyldan er mjög músíkölsk og þegar ég er átta ára vildi ég líka fara að læra á saxófón því mér fannst það svo smart hljóðfæri,“ segir Kristrún Mjöll Frostadóttir, 33 ára hagfræðingur sem er oddviti Samfylkingarinnar í Reykjavík suður í komandi Alþingiskosningunum.

Lærði alla djammsöngva eldri kynslóðar

„En pabbi var snjall og sannfærði mig um að læra á harmónikku í staðinn og samdi við Guðna, organista í Bústaðakirkju, að kenna okkur systrum djammsöngva eldri kynslóðarinnar,. Svo er ég bara átta, níu ára þegar ég er fengin til að spila undir fjöldasöng í öllum partýum. Þegar ég varð unglingur fannst mér þetta auðvitað síðan alveg hræðilega hallærislegt”.

Kristrún er ekki trúuð í dag en eyddi miklu tíma í Bústaðakirkju við undirleik í barnamessum og á jólaböllum. „Þetta var samfélag sem ég datt inn í vegna tónlistarinnar og mér þykir vænt um þennan tíma í lífi mínu. Ég ber mikla virðingu fyrir fólki sem tekur þátt í kirkjustarfi þó ég sé ekki þar í dag“.

Hef verið heppin í lífinu

Kristrún segist ekki vera komin af pólitískri fjölskyldu en hafi snemma byrjað að hafa sterkar skoðanir og ekki legið á þeim. Stundum hafi jafnvel þurft að þagga niður í henni þegar henni lá mikið niðri fyrir. Hún fór þó aldrei í háskólapólitík né ungliðastarf í stjórnmálaflokki. „Ég hefði allt eins getað farið fyrr í formlegt pólitískt starf, en ég gaf mér einfaldlega ekki í tíma í það þegar ég var yngri. Svo var ég komin í starf þar sem þetta tvennt fléttaðist ekki vel saman, efnahagsráðgjöf og pólitík. En mér finnst heldur ekki sjálfgefið að fólk þurfi að alast upp í stjórnmálaflokki til að vera pólitískt virkt síðar.“

- Auglýsing -
Kristrún fagnar útskrif úr Yale. Mynd úr einkasafni.

„Ég kem úr frekar hefðbundinni fjölskyldu, mamma mín er heimilislæknir en hefur undanfarin 15 ár unnið á bráðamóttökunni og pabbi minn er þjóðfræðingur og var lengst af í safnageiranum. Ég átti góða æsku og gekk vel bæði í námi og félagslega. En ég veit líka að það er langt frá því að vera sjálfgefið og hef alltaf verið mjög meðvituð um hvað ég hef verið heppin. Ég á mjög náin tengsl við einstaklinga sem hafa þurft að hafa mun meira fyrir lífinu en ég og hef óbeit á þeirri framsetningu að ef maður er bara nógu duglegur falli allt í réttan farveg. Aðstæður og eiginleikar fólks eru mjög mismunandi.“

Engar beinagrindur í skápnum

Það er enginn úr viðskipta- og fjármálageiranum í fjölskyldu Kristrúnar og hún segir það algjöra tilviljun að hún valdi hagfræðina en um tíma hafði hún íhugað að fara í stjórnmálafræði. „Ég kom alveg græn inn og vissi ekkert hvað ég var að fara út í. Hvað þá að ég hefði einhverja draum um að verða einhver „stjörnuhagfræðingur”.

- Auglýsing -

Sjálf kemur Kristrún af aðhaldssömu heimili og segir þennan blessaða „uppgang” árin fyrir 2008 krísuna alveg hafa farið framhjá sér.

„Þetta ástand var auðvitað mjög mótandi fyrir marga og hef fengið þá spurningu hvort mig skorti ekki ákveðið samhengi fyrst ég gekk ekki í gegnum hrunið á fullorðinsaldri. En á móti kemur að ég hef engar beinagrindur í skápnum eða aðgerðir að verja sem fylgja stundum þeim sem unnu í viðskiptalífinu á þessum tíma. Allt mitt nám og minn ferill hefur aftur á móti verið litaður af þessari krísu og eftirmálum hennar. Fyrir mér er einfaldlega augljóst að þetta var galið tímabil og það er ekki til í mér meðvirkni, ég er rosalega beinskeytt, segi hlutina eins og þeir eru og held ekki aftur af mér”.

Kristrún í 2016 New York maraþoninu – þar sem hún flaug frá London til NYC á föstudagskvöldi, hljóp 42 km á sunnudegi og svo strax aftur í vinnuna á mánudeginum í London. Mynd: Úr einkasafni.

Fólk tekur sig óþarflega alvarlega

Kristrún segir það oft vilja brenna við að hagfræðingar tali undir rós og í flóknum frösum eins og hagfræði sé eitthvað annað en bara lýsing á raunveruleika fólks. „Eftir að ég fór að tala meira út á við fæ ég oft að heyra að ég sé að tala „mannamál” en ég hugsa það aldrei þannig, finnst það bara hinir sem eru að flækja hlutina óþarflega mikið. Hagfræði er bara ein tegund lýsingar á samfélaginu og hvernig það fúnkerar og þú verður að geta talað við fólk á þeirra forsendum. Fólk tekur sjálft sig óþarflega alvarlega stundum.”

Kristrún er óhrædd við að tjá skoðanir sínar. Mynd: Úr einkasafni.

Árið 2009 fékk fékk Kristrún vinnu sem ritari Seðlabankastjóra fyrir algjöra tilviljun. „Þá var Norðmaðurinn Svein Harald Øygard seðlabankastjóri, mjög áhugaverður maður. Þarna var líka fullt af erlendum sérfræðingum sem höfðu verið kallaðir til af Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og það jók áhuga minn enn meira á hagfræði því ég fékk strax þetta ung tækifæri til að sjá fólk í daglegri vinnu við þessa grein. Þetta hafði ótrúleg áhrif á mig og var meðal annars ástæðan fyrir því hversu drifin ég var síðar í náminu”.

Manhattan agalega spennandi

Eftir hagfræðinámið fer Kristrún að vinna í greiningardeild Arion banka. „Mig langaði að vinna við að greina efnahagsmál og það voru ekki mörg svoleiðis störf í boði þá. Þetta starf hentaði mér mjög vel því ég gat unnið grunnvinnuna en líka talað um tölurnar við fólk. Það fer ekki alltaf saman”. Kristrún fer síðan í framhaldsnám í einn af þekktustu skólum heims, Yale, í Bandaríkjunum og hefur svo störf í greiningardeild fjárfestingarbankans Morgan Stanley eftir hvatningu frá læriföður sínum í skólanum sem hafði verið þar aðalhagfræðingur.

Kristrún gat ekki stillt sig að grípa í sama grip og Elvis notaði þegar hún fót til Memphis. Mynd: Úr einkasafni.

„Ég var reyndar ákveðin í því að fara í almannageirann þá eða „nonprofit” starf og hummaði þessa hvatningu lengi af mér. En auðvitað var þetta agalega spennandi á þessum tíma, að vinna í 50 hæða glerbyggingu á Manhattan og fá vel borgað í þokkabót”. Hún flytur svo á skrifstofur bankans í London ásamt manni sínum, Einari Bergi, sem hafði fengið starf þar í borg.

Ekki gefandi að greina verð á nærbuxum

„Öllum fannst mikill glamúr yfir þessu New York/London dæmi en staðreyndin var sú að við unnum 90 tíma á viku og rétt náðum að þvo þvottinn á sunnudögum. Þetta er rosalegt hark, vissulega lærdómsríkt en mér fannst þetta aldrei neitt sérstaklega gefandi vinna. Þegar ég var komin í að greina verð á fötum í netverslunum hugsaði ég hvers vegna ég hefði lagt á mig alla þessa vinnu svo að framlag mitt til betri heims væri mat á hlutabréfum Asos út frá nærbuxnaúrvali“.

Kristrún vildi fyrst og fremst verða fjárhagslega sjálfstæð segir það aldrei verið markmið sitt að þéna mikla peninga. „Það er gömul og leiðinleg mýta að peningar sé mælikvarði á árangur í lífinu”.

Slæ hnefanum í borðið

Þau hjón héldu heim eftir fimm ára fjarveru. „Ég ætlaði ekki aftur í fjármálageirann hér heima en mér bauðst þessi nýja staða hjá Kviku sem aðalhagfræðingur og fékk fríspil við að móta starfið og sá að ég gæti haft áhrif. Ég hef metnað fyrir að breyta andrúmsloftinu í fjármálageiranum og var alveg óhrædd við að taka debatið og slá hnefanum í borðið varðandi hvernig hlutirnir eru gerðir og orðaðir. Sumir segja að ég hafi aldrei fittað 100% í fjármálageiranum, öðrum finnst það sama eiga við mig í pólitíkinni í dag en það er ekki hollt að hólfa fólk niður í einhverjar stereótýpur. Það er alls konar fólk alls staðar. Og þannig á það að vera“.

Flógáttir opnuðust

Kristrún vakti talsverða athygli í fjölmiðlum í fyrra fyrir greiningar sínar á efnahagsástandinu í tengslum við COVID. Hún segir að hún hafi fundið sig í ákveðnum farvegi eftir síðasta ár sem leiddi hana yfir í stjórnmálin og einfaldlega flotið með. „Þegar COVID krísan hófst í fyrra og aðgerðarpakkar stjórnvalda voru kynntir trekk í trekk opnuðust flóðgáttirnar hjá mér. Öll þekkingin sem ég hafði sankað að mér í gegnum árin eftir yfirlegu á hagstjórnarmálum erlendis varð allt í einu að gífurlegum fjársjóði og ég lá yfir öllum mögulegum úrlausnum á ástandinu. Ég tók slaginn fyrir hluti sem þóttu umdeildir í upphafi kreppunnar, eins og að styðja við fyrirtæki í ferðaþjónustu og hækka atvinnuleysisbætur, almennt meiri ríkisstuðning til fólks í náttúruhamförum. Margt af þessu þótti svo ekkert umdeilt nokkrum mánuðum síðar þegar leið á kreppuna. Ég vissi fyrir víst að ég myndi ná til breiðari hóps fólks því fáir bjuggust við því að manneskja í banka væri tilbúin að gagnrýna meðferð á þeim sem veikast standa í dag.“

Ekki lögmál að viðskiptalífið sé til hægri

Mörgum fannst ótrúlegt þegar Kristrún tók nýja beygju í lífinu og fór í pólitíkina. „Öll mín þjálfun var fyrir svona efnahagsástand, ég vissi að ef ég gæti einhvern tímann haft áhrif þá væri það á svona tímum. Svo ég mætti bara í viðtöl og talaði hreint út um ástandið. Ég var ekkert að velta fyrir mér hver væri að hlusta eða hvert það leiddi mig. En ég tók meðvitaða ákvörðun að hætta að vinna með annarra manna peninga og fara að gera eitthvað sem ég trúi á eftir hvatningu frá fólki í Samfylkingunni. Það kom þeim sem þekkja mig vel ekki á óvart að ég tók stökkið. Sumum fannst reyndar merkilegt að manneskja úr fjármálageiranum væri að fara að vinna með flokki vinstra megin við miðju, eins og það sé eitthvað lögmál að allt fólk sem hafi starfað í viðskiptalífinu sé mjög hægrisinnað.“

Með passlega minnimáttarkennd

Kristrún segir að þau sem skilja pípulagnirnar í fjármálakerfinu hafa mikið vald, fólki gæti þótt það ósanngjarnt en peningar stýra mjög miklu. „Þess vegna skiptir máli að vera með fólk í öllum flokkum sem hefur þekkingu á þessu sviði. Þekking á efnahagsmálum er gífurlega mikilvæg – efnahagsmál eru velferðarmál. Ég viðurkenni að þessi trú hér heima að efnahagsmál séu einkamál hægri manna fer í taugarnar á mér. Sérstaklega þegar 50 ára gömlum kenningum um efnahagsmál er haldið á lofti sem einhverjum sannleik sem langflestir hagfræðingar hafa skotið niður.“

Þótt Kristrún sé aðeins 33 ára hefur hún áratuga reynslu í ræðuhöldum. Mynd: Úr einkasafni.

Kristrún vill draga umræðu um efnahagsmál nær almenningi. „Ég er óhrædd að fara nýjar leiðir en að sama skapi með passlega minnimáttarkennd sem felst í því að ég margtékka á öllu sem ég geri, velti því fyrir mér hvar ég gæti haft rangt fyrir mér. Ég er algjörlega tilbúin að viðurkenna það ef ég hef rangt fyrir mér enda ekki uppfull af sjálfri mér og hef aldrei verið. Ég held að það sé mikilvægur eiginleiki að hafa í pólitík, því mín innkoma í stjórnmálin snýst ekkert um mig, heldur hvað ég get gert fyrir aðra enda er þetta hrein og bein samfélagsþjónusta, segir Kristrún, full orku fyrir komandi kosningar.

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -