Lára G. Sigurðardóttir læknir skrifaði pistil undir fyrirsögninni „Hættulegt holdarfar“ sem birtist í Fréttablaðinu í dag. Hann hefur vakið athygli á samfélagsmiðlum og eru ekki allir sáttir. Svona er pistillinn sem birtist í blaðinu:
„Þú hefur fitnað,“ sagði kærastinn ákveðinn á meðan við horfðum á bíómynd. Ég var sautján, hann nítján. Á þessum tíma vann ég í Fjarðarkaupum þar sem freistingar voru á hverju horni. Í vasanum leyndist nammipoki og í pásum var stoppað í bakaríinu.
Í síðustu viku var umfjöllun um offitu barna í þættinum Kveik. Þar kom fram að börnum með offitu fer fjölgandi hér á landi og fleiri leita nú á Landspítala með fitulifur, kæfisvefn og undanfara sykursýki.
Eitt þekktasta dæmi um þróun offitu kemur frá eyjunni Nárú í Kyrrahafinu. Íbúar eyjunnar voru við eðlilegt holdafar á meðan þeir nærðust á fiski, ávöxtum og grænmeti. Þegar þeir öðluðust sjálfstæði árið 1968 urðu þeir skyndilega ríkir af fosfat-námuvinnslu. Þeir þurftu ekki lengur að veiða fisk og rækta grænmeti og fóru að flytja inn unnar vestrænar matvörur. Með hinum nýju lífsháttum urðu þeir feitasta þjóð jarðríkis en 95 prósent íbúa Nárú eru í yfirþyngd og 61 prósent of feitt.
Samkvæmt Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni eru of feit börn í aukinni hættu á að deyja um aldur fram og greinast með hjartasjúkdóm, heilablóðfall, krabbamein og sykursýki. Hægt er að afstýra þessu en þá þarf bæði nánasta umhverfi og samfélagið í heild að vinna saman með því að bæta aðgengi að sálfræðingum, heilsusamlegum mat og gera líkamsrækt aðgengilegri. Þurfa íþróttir til dæmis alltaf að snúast um verðlaunapall? Og í betri heimi myndu skólasálfræðingar grípa börnin áður en þau verða of feit því andlegir erfiðleikar geta hæglega steypt þeim í vítahring matarfíknar.
Ég hugsaði um að senda kærastann (sem nú er eiginmaður minn) öfugan út en ákvað heldur að losa mig við nammipokann.“
Samkvæmt Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni eru of feit börn í aukinni hættu á að deyja um aldur fram og greinast með hjartasjúkdóm, heilablóðfall, krabbamein og sykursýki.
Offita tengd ýmsum sjúkdómum
Mannlíf hafði samband við Láru sem sagði að eftir að hún horfði á Kveik hafi hún farið að hugsa um hið sígilda dæmi um þróun offitu hjá íbúum Nárú í Kyrrahafi sem oft er tekið fyrir í faraldsfræði sjúkdómaþróunar. „Um 40% íbúanna eru með sykursýki tengd offitu. Þó svo að offita geti að einhverju leyti stafað af efnaskiptatruflunum þannig að sumum er hættara við að fá offitu eins og við vitum þá breytir það því ekki því eins og Alþjóðaheilbrigðisstofnunin hefur bent réttilega á er offita, og ég tala nú ekki um á meðal barna, eitthvað sem við verðum að taka alvarlega því hún skerðir lífsgæði og lífslengd.
Offita eykur ekki einungis hættu á að greinast með alvarlegan sjúkdóm svo sem hjartasjúkdóm, heilablóðfall, krabbamein og sykursýki heldur einnig líkur á að látast um aldur fram. Með pistlinum er ég ekki að horfa í holdafar útlitslega heldur hættuna sem fylgir því að lifa óheilbrigðu lífi. Maður getur að sjálfsögðu verið bústinn en heilbrigður. Í mínum huga þurfum við að horfa á þróun offitu meðal barna sem lýðheilsuvá sem þarf að bregðast við og horfast í augu við áhættuna sem þessi börn horfast í augu við. Við náum engum árangri með því að tala undir rós. Allt of mörg börn hrökklast til dæmis úr íþróttum af því að þau komast ekki í keppnislið, það þekki ég af eigin raun. Af hverju getum við ekki haft meira framboð af íþróttum þar sem börnin koma saman til að hafa gaman?“
Í mínum huga þurfum við að horfa á þróun offitu meðal barna sem lýðheilsuvá sem þarf að bregðast við og horfast í augu við áhættuna sem þessi börn horfast í augu við.
Lára er spurð um viðbrögð hennar við þeirri gagnrýni sem fólk hefur sett á samfélagsmiðla eftir að pistill hennar birtist. „Maðurinn minn sagði „jæja, núna verð ég skrímslið“ þannig að hann var undir það búinn miðað við hvernig kommentakerfið er. Auðvitað má fólk hafa sínar skoðanir. Ég skrifaði ekki að ég hefði farið í megrun eftir ahugasemd hans um að ég hefði fitnað; ég varð meðvitaðri um hvað ég borðaði en það er ofþyngd í ættinni og við fitnum auðveldlega. Ég leit á athugasemd hans á jávæðan hátt enda kann ég að meta hreinskilni. Eftir að ég skoðaði sjálfa mig þá áttaði ég mig á að þetta var rétt hjá honum.
Ef hann hefði ekki bent mér á þetta þá er ég ekki viss hvert hefði stefnt því eins og líklega fleiri var ég sykurfíkill svona eftir á að hyggja. Í morgunmat fékk ég mér sætabrauð og sparaði mig alltaf fyrir stóran eftirrétt. Nú kaupi ég sjaldan sætindi á heimilið því það endar venjulega ekki vel. Fólk má að sjálfsögðu hafa sínar skoðanir en mér finnst svona ummæli oft vera órléttlát af því að stundum er verið að túlka eitthvað annað heldur en maður er að segja og hlutirnir eru þannig teknir úr samhengi.“
Offita og krabbamein
Talið berst að innkaupum fólks. „Það er nóg að horfa ofan í innkaupakerrur; allt snakkið, sælgætið, gosdrykkir og tilbúnar vörur sem eru næringarsnauðar en hins vegar er þeta fullt af hitaeiningum og ónáttúruleg efnum sem eru neikvæð fyrir efnaskipti og orkuvinnslu líkamans.“
Offita er áhættuþáttur ýmissa krabbameina til dæmis í brjóstum, eggjastokkum, blöðruhálskirtli, lifur, gallblöðru, nýrum og ristli. „Til dæmis framleiðir fituvefur östrogen sem getur aukið hættu á krabbameinum í brjóstum.
Á endanum erum það við sjálf sem berum ábyrgð á eigin heilsu. Ef við foreldrarnir drekkum mikið gosdrykki og borðum skyndifæði þá gera börn það líka. Þau gera meira það sem fyrir þeim er haft en ekki sagt.
Aðalatriðið er að átta sig á að offita hefur í för með sér ákveðna áhættu fyrir börnin og hægt er að koma í veg fyrir hana en Alþjóðaheilbrigðisstofnunin hefur gefið út leiðbeiningar til að styðjast við.“
Offita er áhættuþáttur ýmissa krabbameina til dæmis í brjóstum, eggjastokkum, blöðruhálskirtli, lifur, gallblöðru, nýrum og ristli.