- Auglýsing -
Eurovision-farinn fyrrverandi, Ari Ólafsson, er undir Stækkunargleri Mannlífs þessa vikuna.
Ari fór fyrir Íslands hönd í söngvakeppnina árið 2018, með lagið Our Choice, og flutti hann lagið af mikilli fagmennsku, enda með töluverða reynslu í að koma fram þrátt fyrir ungan aldur. Ari var aðeins 19 ára gamall er hann steig á svið á stóra sviðinu í Lissabon.
Það skal engan undra að nú leggur Ari stund á nám í tónlist og hvorki meira né minna en við hinn virta skóla The Royal Academy of Music í London.
Mannlíf komst að því að Ara finnst mikilvægt að sýna öðrum ást og kærleik, hann hefur leikið í nokkrum auglýsingum og þáttum og elskar rétt eldaða fillet-steik.
Fjölskylduhagir? Fjölskyldan mín er, held ég, bara mjög venjuleg steríótýpa af íslensku fjölskyldunni. Giftir foreldrar og tvö börn. Ég er stóri bróðirinn, mamma er sálfræðingur og pabbi er rithöfundur/grafískur hönnuður. Litli bróðir minn er í HR í tölvunarfræði og það eru bara tvö ár á milli okkar, svo við höfum alltaf verið mjög nánir. Annars erum við bara, held ég, mjög venjuleg, öll samt mjög hugmyndarík og skapandi en bara frekar „chill og mello“-gengi.
Menntun/atvinna? Ég hef verið mjög lánsamur og heppinn í lífinu hvað varðar nám og atvinnu. Ég byrjaði í Þjóðleikhúsinu að leika Oliver Twist, sem var leikstýrt af henni Selmu Björns, og eftir Oliver Twist reyndi ég að gera allt tengt músík og leiklist.
Ég er mjög heppinn að hafa fengið að syngja og leika í öllum helstu leikhúsum og -sölum landsins.
Núna er ég að klára bachelor-gráðu í tónlist í The Royal Academy of Music. En til að skilgreina svona hvað ég er akkúrat núna, þá myndi ég segja söngvari/klassískur söngvari.
Uppáhaldssjónvarpsefni? Það var Game of Thrones, en þeir náðu að klúðra því öllu saman. Núna finnst mér Verbúðin vera meðal skemmtilegustu þáttanna sem eru í gangi, en annars er ég miklu meira fyrir bíómyndir.
Leikari? Ég hef leikið í nokkrum auglýsingum og sjónvarpsþáttum og á mínu sviði verða held ég allir að vera með einhvers konar leikreynslu eða hæfileika.
Bók eða bíó? Bíó allan daginn. Myndir eru fullkomna listaverkið, þær eru með leik, söng, myndir, tónlist, sögu. Þær ná yfir öll sköpunarsviðin.
Rithöfundur? Ég og litli bróðir minn höfum verið að skrifa sögur síðan við vorum níu og ellefu ára, en núna höfum við tekið þetta á annað plan og okkur langar að búa til góða ofurhetjusögu sem vonandi verður gefin út einhvern tímann!
Besti matur? Vel gerð fillet-steik. Það er ekkert sem toppar það!
Kók eða pepsí? Það er bara siðblint fólk sem finnst pepsí betra en kók.
Fallegasti staðurinn? Selland í Fnjóskadal.
Hvað er skemmtilegt? Topp tíu skemmtilegustu hlutir sem ég geri í engri ákveðinni röð eru: fótbolti, DND, myndir, söngur, spikeball, ferðast, leiklist, fara á uppistand, borða góðan mat og UFC.
Hvað er leiðinlegt? Ég veit ekki, ég nenni oft ekki að pæla í því hvað mér finnst leiðinlegt, en ef ég ætti að segja eitthvað, þá væri það bara fólk sem er dónalegt, ég hef enga þolinmæði fyrir dónaskap og ömurlegri hegðun.
Hvaða flokkur? Ég kýs bara þá sem ég treysti til að tækla þau vandamál sem jörðin er að kljást við núna. Lögum umhverfið okkar fyrst og fremst.
Skemmtistaður? Prikið. Hef bara farið þangað, en núna upplifi ég mig alltof gamlan fyrir þann stað.
Kostir? Er hress, jákvæður, orkumikill og hjálpsamur, en ég held að besti kosturinn minn sé, að ég get tjáð tilfinningar mínar, litið inn á við og endurspeglað sjálfan mig.
Hver er fyndinn? Villi Neto „Enough said!“
Trúir þú að drauga? Nei: (En væri ekki kúl, ef þeir væru til?)
Stærsta augnablikið? Það verður að vera Eurovision, bara allt það ferli var truflað.
Mestu vonbrigðin? Ég gerðist Arsenal aðdáandi …
Draumurinn? Að geta lifað af því sem ég elska að gera.
Mesta afrek á þessu ári? Það er ekki mikið búið af 2022, en ég er að syngja í óperuuppsetningu í skólanum mínum og mér gengur mjög vel.
Ertu búinn að ná öllum þínum markmiðum? Alls ekki, ég held það muni aldrei gerast, er alltaf að koma með ný og ný markmið.
Manstu eftir einhverjum brandara? Vissirðu að Bruce Lee á bróður sem er vegan?
Hann heitir Brokkolí.
Vandræðalegasta augnablikið? Það kom nokkuð oft fyrir mig í menntaskóla að þegar ég spurði einhvern vin minn hvernig „kæró hefði það“ þá voru þau alltaf nýhætt saman.
Svo sofnaði ég einu sinni á sviðinu í Þjóðleikhúsinu sem Oliver Twist.
Sorglegasta stundin? Þegar afi minn lést, var mjög náinn honum.
Mesta gleðin? Að vinna söngvakeppnina held ég og verða Íslandsmeistari í fyrsta skipti í fótbolta.
Mikilvægast í lífinu? Það sem mér finnst mikilvægast í mínu lífi, er að ég elski sem flesta og sýni ást og kærleik til eins margra og ég get þar til ég dey.