Miðvikudagur 15. janúar, 2025
7.8 C
Reykjavik

Lilja tók við systkinum sínum 15 ára eftir andlát móður: „Ég bara var að passa þessi börn“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Það er svolítið ævintýralegt að aka frá þjóðveginum og svo í áttina að Sænautaseli á Jökuldalsheiði. Við tekur nokkurra mínútna akstur á malarvegi. Bærinn birtist svo við vatnið. Sænautavatn.

Sænautasel
Sænautasel á Jökuldalsheiði.

Þögnin. Kyrrðin. Náttúran. Fuglasöngurinn. Vindurinn. Örfáir regndropar. Svo fer sólin að skína.

Gengið er yfir brú til að komast yfir ána Kíl sem rennur í vatnið og með fram bænum.

Uppgert fjárhúsið með torfþakinu er nú orðið að veitingaskála. Tvö lömb koma gangandi. Horfa forvitnum augum á gestinn nýkomna sem fer síðan inn í skálann.

Heyrist ekki bofs í þeim. Ekkert meee.

Sænautasel.
Lömb við Sænautasel. Heyrist ekki bofs í þeim. Ekkert meee. (Mynd: Svava.)

Þetta er svolítið eins og að fara aftur í tíma.

Hlaðnir veggir.

- Auglýsing -

Fortíðin sjálf.

Lilja Hafdís Óladóttir hefur í tæpa þrjá áratugi dvalið þarna á sumrin en hún sér um þjónustu við ferðamenn ásamt sambýlismanni sínum, Birni Halli Gunnarssyni.

„Ég fæddist á bænum Merki þar sem ég bý enn og hef meira og minna verið bóndi,“ segir Lilja þar sem hún situr í eldhúsinu sem er í timburhúsi áföstu veitingaskálanum.

- Auglýsing -

Hún er elst fimm systkina. Dreymdi um að fara í garðyrkjuskóla og voru nemendur teknir inn annað hvert ár.

„Þetta er kannski dramasaga en þannig var það að móðir mín dó og ég eiginlega tók við öllum systkinum mínum þegar ég var 15 ára. Litlum og stórum; bróðir minn er tveimur árum yngri en ég og svo eru önnur sem eru mikið yngri og það yngsta var þriggja ára. Og þá festist ég þarna. Ég bara var að passa þessi börn og það gekk ekki upp að fara í skólann.

Svo óx þetta úr grasi og þau fóru að heiman þessi blessuðu börn. Þegar þau voru uppkomin þá sótti ég snögglega um að komast inn í Bænadaskólann á Hvanneyri 32 ára og var þar í tvo vetur. Það var gott og skemmtilegt.

Ég hef síðan unnið víða um land við hitt og þetta en í stuttan tíma í einu. Ég vann til dæmis við eldamennsku í 10 sumur við virkjunina á Fljótsdalsheiðinni sem endaði svo sem Kárahnjúkavirkjun auk þess sem ég vann við mælingar og var meira að segja á jarðbor.“

Bændastörfin á Merki hafa þó verið hennar aðalstarf og svo reksturinn í Sænautseli.

Og við gáfum öllum kaffi

Sænautasel er eitt af heiðarbýlunum á Jökuldalsheiði og er það eina sem hefur verið gert upp en það er áhugavert að dvelja þar jafnvel í nokkra daga og ganga svo á milli rústa hinna og kynnast sögu þeirra sem og náttúrunni á svæðinu.

 

Sænautasel
Það er áhugavert að dvelja í Sænautaseli jafnvel í nokkra daga og ganga svo á milli rústa hinna og kynnast sögu þeirra sem og náttúrunni á svæðinu. (Mynd: Svava.)

Heiðarbýlin eru í 5-600 metra hæð yfir sjávarmáli.

Auðun H. Einarsson kennari hafði mikinn áhuga á sínum tíma að Sænautasel yrði byggt upp og lagði hann sitt af mörkum til að svo mætti verða og sá hann um trésmíðina og fleiri komu svo að verkinu. Lilja var ráðskona á staðnum á meðan verið var að endurbyggja bæinn sumarið 1992.

„Ég eldaði ofan í 24 manns. 20 unglinga og fjóra fullorðna. Það var byrjað 1. júlí að endurbyggja gamla bæinn og 20. júlí var hann orðinn fokheldur og þá var þetta í rauninni búið það sumarið. Næsta sumar var verið meðal annars að klára að þilja baðstofuna auk þess sem það var verið að byggja salernisaðstöðu og brú.“

Lilja segir að Ævar Kjartansson hafi gert mynd um Sænautasel sem sýnd var á RÚV veturinn 1993 og sumarið eftir hafi gestir farið að koma.

„Við Auðun sögðum „það eru bara komnir átta til 10 manns í dag“ og við gáfum öllum kaffi. Ég sagðist hafa keypt kaffi fyrir 20.000 krónur fyrir sumarið og að ég ætlaði að selja kaffi sumarið á eftir ef ég gæti fengið Sænautasel leigt. Þetta þótti vera ægilega góð hugmynd og svona byrjaði það,“ segir Lilja sem leigir Sænautasel af sveitafélaginu Múlaþingi. Fjárhúsið, þar sem veitingaskálinn er, var endurbyggt árið 2002 og tekið í notkun árið 2004 og svo er viðbygging úr timbri þar sem er eldhús og svefnloft fyrir starfsfólk.

 

Sænautasel

 

Þangað til þetta sprakk

Ævintýrið á heiðinni var hafið.

„Mér fannst vera asnalegt að vera bara með kaffi en þó byrjaði það reyndar þannig. Svo fékk ég þá hugmynd að það væri ekkert mál að eiga lummudeig en það er hægt að gera það nokkurn veginn jafnóðum. Það endist kannski í fjóra til fimm tíma. Ég var náttúrlega ekki með ísskáp þá en maður varð að hugsa í lausnum. Það þurfti bara að gera nógu lítið og það sem passar. Ég var þá með kú við Sænautasel og mjólkaði og gerði osta og allt mögulegt svo sem að skilja og gera rjóma. Og fólk hafði líka gaman af að sjá það.“ Svo var silungur veiddur í Sænautavatni og hann reyktur. Og það er reyndar gert enn.

„11 sumur var ég að berjast í þessu þangað til þetta sprakk.

Allt í einu komu rútur með útlendingum, kannski 28 manna rútur. Það þurfti að taka þetta inn í tveimur hollum og ég sagði að nú gæti ég þetta ekki lengur.“

Fólk ýtti á Lilju að halda veitingarekstrinum áfram og það varð úr. Hún ákvað að vera ekki lengur með skepnur við Sænautasel enda var vinnan tengd ferðamönnunum orðin það mikil.

„Nú erum við bara með hunda, lömb og stundum ketti.“

Lilja segir að í dag komi að meðaltali 50-60 manns á dag í Sænauatsel, allavega í júlí. Sumir staldra stutt við og fá sér kaffi eða heitt kakó og lummur. Aðrir tjalda á svæðinu þar sem er salernisaðstaða. Lilja segir að þegar veður sé gott eins og búið er að vera í sumar séu jafnvel 10-15 tjöld á tjaldstæðinu. „Svo koma „venjuleg sumur“ og þá eru kannski bara örfáir útlendingar á tjaldstæðinu sem harka af sér að tjalda í kulda, norðaustanátt og rigningu.“

Jú, það er boðið upp á kaffi, heitt kakó og lummur allan daginn í Sænautaseli og það nýta gestir sér.

„Það er alltaf jafnvinsælt. Það er svo ótrúlegt; einhvern tímann var sagt við mig að ég ætti kannski líka að bjóða upp á flatbrauð með silungi og hangikjöti og ég prófaði það. En fólk sagðist þá bara vilja fá lummur. Hitt var ekki að virka. Þetta kemur beint af pönnunni og bakað brauð er gott á meðan það er alveg nýtt.“

Kaffi og heitt kakó er drukkið úr postulínsbollum sem tilheyra meðal annars mávastellinu fræga.

 

Sænautasel
Mávastellsbolli. (Mynd: Svava.)

Það er vissulega notalegt að sitja með postulínsbolla með heitu kakói og þeyttum rjóma í veitingaskálanum. Þar er ekkert rafmagn og lýsa kertaljós og kertaljósakróna skreytt laufblöðum rýmið þegar dimma tekur. Eldur logar í ofni. Lilja vill ekki rafmagn.

„Það er hægt að setja rafmagn hérna og gera alla vinnu einfaldari svo sem að vera þá með uppvöskunarvél og kaffikönnu en ég ætla ekki að vinna svoleiðis. Þá er ég hætt.“

Lilja er svolítið eins og farfuglarnir. Hún kemur á Sænautasel á vorin og fer heim til sín á haustin en þess ber þó að geta að þau hjónin og fleiri fjölskyldumeðlimir skiptast á að dvelja á nóttunni í Sænautaseli og Merki yfir sumarmánuðina. Bróðir hennar er bóndi á Merki og þegar hún er ekki á sumrin í Sænautseli hjálpar hún honum við bústörfin. Hallur er á sjónum hluta ársins þegar hann er ekki á heiðarbýlinu uppgerða og svo keyrir hann flutningabíl til að flytja sláturlömb í sláturhús á haustin.

„Þetta er tarnavinna allt saman.“

 

Gjarnan litið niður á vinnufólk

Bærinn í Sænautseli var byggður árið 1843 og voru bæjar- og gripahús byggð að mestu úr torfi og grjóti. Það timbur sem var notað var flutt á hestum frá Vopnafirði. Talið er að bærinn sem var byggður hafi verið svipaður að stærð og gerð og endurgerði torfbærinn. Sænautsel lagðist í eyði árið 1875 vegna eldgoss með miklu öskufalli sem varð í Dyngjufjöllum snemma það ár. Það sama er að segja um önnur býli á heiðinni. Búskapur hófst svo aftur í Sænautseli árið 1880. Staðurinn fór svo í eyði árið 1943.

„Fólk byggði sér bæi svona langt inni í landi meðal annars til að þurfa ekki að vera vinnufólk. Það var oft erfitt að vera vinnumaður og það var gjarnan litið niður á það fólk í þá daga og svo var það náttúrlega kjörin leið til að verða sjálfstæður að vera með eigin bæ. Það er ríkt í okkur Íslendingum að vera sjálfstæð.“

Andinn er góður í skálanum og Lilja tekur undir það.

„Það er eins og fólk sem kemur hingað verði rólegra. Maður sér það alveg. Sérstaklega ef það er hérna inni í skálanum.“

Það gefur henni mikið að dvelja á sumrin í Sænautseli.

„Þetta gefur manni eitthvað og það er alltaf gott að koma hingað á vorin.“

Hún talar um fuglasönginn. Tófuna sem gaggar klukkan 12.

Hún talar um gróðurinn. Grávíðinn.

„Það er allt að vaxa upp af því að veður fer hlýnandi. Ég man eftir mjög köldum sumrum á 10. áratugnum þegar snjóaði í hverjum mánuði. Líka í júlí og ágúst. Það komu skaflar og kom féð að bænum og vildi inn. Núna er búinn að vera um 18 stiga hiti í þrjár vikur.“

Lopapeysur hanga á herðatrjám á hlöðnum veggjunum í skálanum. Þær eru til sölu. Konur úr sveitinni prjónuðu þær. Lilja prjónaði hins vegar röndóttan kjól sem hangir líka á herðatré. Hana dreymdi eina nóttina færeysku söngkonuna Eivør Pálsdóttur í svona kjól. Hún var berfætt og með hálsfesti með grænum steini. Þegar Lilja vaknaði morguninn eftir mundi hún hvernig draumakjóllinn leit út og teiknaði hann upp og prjónaði hann síðan.

„Eivør fær kjólinn. Hann er ekki til sölu.“

Jú, það er ævintýralegt að dvelja nokkra daga í Sænautseli. Heimsækja heiðarbýlin á svæðinu. Ganga nokkra tugi kílómetra í allt. Drekka kakó með þeyttum rjóma úr mávastellspostulínsbolla með morgunmatnum í skálanum. Drekka í sig söguna. Náttúruna. Og þegar dimma fer á kvöldin skapast notalegt andrúmsloft meðal annars vegna logandi kertanna.

Raunveruleikinn og draumar renna þarna einhvern veginn saman.

 

Sænautasel.
Sænautasel þetta sumarið. (Mynd: Svava.)

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -