Fimmtudagur 23. janúar, 2025
-0 C
Reykjavik

Málsvörn Björns sem dætur saka um kynferðislega misnotkun: „Ég snerti þær aldrei fyrir neðan mitti“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Ég veit nú ekki alveg hvar ég á að byrja, ætli sé ekki best, já og nauðsynlegt, að byrja á skilnaðarharmsögu minni og hennar Ernu, móður stelpnanna. Þetta var erfitt hjónaband sem stóð í tíu ár og byrjaði 1983, endaði 1993. Samt eignuðumst við þessar tvær dætur. Fljótlega upp úr 1990 byrjar Erna að ásaka mig um kynferðisáreitni á eldri dóttur okkar.“

Þetta segir Björn Matthíasson hagfræðingur sem hefur höfðað meiðyrðamál gegn útgáfufélagi Stundarinnar og öðrum ritstjóra Stundarinnar vegna viðtals sem birtist í blaðinu við tvær yngstu dætur Björns.

Í viðtalinu komu systurnar fram nafnlaust og sögðu að Björn hefði misnotað þær sem börn. Birtust meðal annars brot úr dagbókarfærslum, þar sem önnur systirin, þá níu ára gömul, skrifar að faðir sinn hefði misnotað hana þegar hún var yngri.

Einnig kom fram að gögn sýndu að yfirvöldum hafi margoft borist frásagnir af misnotkun, en því var haldið fram í grein Stundarinnar að þær hefðu verið þvingaðar af sýslumanni til að umgangast föður sinn. Yngri systirin segir meðal annars frá því hvernig faðir hennar hafi misnotað hana í þvingaðri umgengni. Björn neitar að slík þvingun hafi nokkurn tímann átt sér stað og þaðan af síður að hann hafi misnotað hana.

Nú hefur Björn ákveðið að stíga fram og segja Mannlífi sína hlið á málinu. Hann hefur alla tíð lýst yfir sakleysi sínu.

„Þetta byrjar vegna þess að til hennar, hún var nú mikill femínisti hún Erna, kom vinkona hennar sem átti föður er þá var nýlega látinn og hún vildi trúa Ernu fyrir því að pabbi hennar hefði einhvern veginn mishöndlað sig eða misnotað meðan hann var á lífi. En hún gerði aldrei neitt í því og núna þegar hann væri dáinn þyrfti hún að varpa þessum áhyggjum af sér á einhvern sem hún trúði og treysti,“ segir Björn.

- Auglýsing -

Björn segir Ernu hafa verið mikla kvenréttindakonu, en hún sat til dæmis í stjórn kvenréttindafélagsins og bendir á að þetta hafi verið löngu áður en Me Too bylgjan hófst. Björn segir Ernu hafa hlustað á vinkonu sína með mikilli hluttekningu og endað á því að styðja hana.

„Og svo fer hún að hugsa, fyrst þetta getur gerst, svona góður faðir og góð dóttir, getur þetta þá ekki líka verið að gerast á mínu heimili. Og hún fer fyrst til eldri dóttur minnar, sem þá var 15 ára, og spyr hana hvort pabbi hennar hafi nokkurn tímann gert henni eitthvað mistækt og hún segir nei, ekki neitt, aldrei heyrt svona lagað nefnt.

Systurnar á góðri stundu

Síðan fer hún til eldri dóttur okkar, sem þá var þriggja og hálfs árs gömul, og spyr, hefur pabbi þinn nokkurn tímann gert þér eitthvað?

- Auglýsing -

Ég veit náttúrulega ekki nákvæmlega hvernig hún orðaði þetta, hvort hann hefði gert eitthvað fyrir neðan mitti. En dóttir þeirra svarar já, hann gerði það. Ég veit heldur ekki hvernig hún lýsti því en þetta varð eins og bensínsprengja inn í hjónabandið og þarna byrjar þetta.“

Segir Björn að þá hafi kona hans rokið með dóttur þeirra til lögreglunnar, sem hafi bent þeim á að tala við sálfræðing. Lögreglan er með sálfræðing á sínum vegum sem fer í slík mál og er dóttur þeirra hjóna komið að hjá honum. Sálfræðingurinn talaði einslega við þau öll fjögur, hann, konu hans og stúlkurnar og svo skoðað þetta vel, að sögn Björns. Því næst hafi hann kallað þau hjónin á fund þar sem hann tilkynnti þeim að ekkert væri í þessu máli sem hægt væri að taka á: „Hann sakfelldi mig ekki en hann sýknaði mig ekki heldur. Hann sagði bara, það er ekkert bitastætt í málinu og að hann sæi enga ástæðu til að aðhafast neitt frekar,“ segir Björn.

Engu að síður var þetta bara byrjunin. Björn segir ásakanirnar hafa haldið áfram og að á þessum tíma hafi hjónabandið verið orðið lélegt. „Það var áfram kynt undir og smám saman varð þetta allt verra og verra. Og til að gera langa sögu stuttu skildum við í júní 1993, eiginlega nákvæmlega 10 árum eftir að við giftumst,“ segir Björn.

Deilt um umgengnisrétt

Hann segir að eftir skilnaðinn hafi næsti kafli byrjað. Þá hafi deilur um umgengnisrétt hafist. Fenginn var félagsráðgjafi til að ræða við dæturnar. Tekin voru ítarleg viðtöl við stúlkurnar að sögn Björns og í kjölfarið hafi félagsráðgjafinn tilkynnt þeim að ekkert óeðlilegt væri við þessar dætur og að ekkert hafi komið fram sem benti til þess að þær hefðu verið mishöndlaðar.

Eftir það var gert umgengnisréttarsamkomulag: „En því miður það stóð aðeins í mjög skamman tíma,“ segir Björn.

Samkvæmt Birni stóð samkomulagið í um það bil einn vetur, en þá rifti Erna því. Leitaði hann strax til sýslumanns sem vísaði málinu áfram til barnaverndarnefndar. „Biðin eftir niðurstöðu stóð í einhverja mánuði. Á meðan var engin umgengni,“ segir Björn. Að lokum komst aftur á samkomulag en það stóð heldur ekki lengi.

„Ég elska þær enn þá, ég get ekki lýst því nánar en svo. Ég elska þær bara mjög mikið.“

Það voru gerð fjögur umgengnissamkomulög á næstu tíu árum en Björn segir þau öll hafa átt það sammerkt að standast ekki.

„Kveðst hún fara fram á að vilji dætranna verði nú virtur og að þær njóti aðstoðar sýslumannsembættisins við að fá frið fyrir föður sem þær óski ekki eftir umgengni við“

Í öllum tilfellum hélt Erna því fram að Björn hefði mishöndlað dæturnar, en ekkert þessara tilfella kærði hún og þar af leiðandi gerði barnaverndarnefnd ekki neitt í að fylgja gruni um mishöndlun eftir. Hún einbeitt sér einungis að koma á nýju samkomulagi um umgengni.

„Svo þegar þetta var búið að gerast þrisvar eða fjórum sinnum þá sagði ég við sýslumanninn á höfuðborgarsvæðinu, þetta gengur ekki lengur, ég verð að fá einhvern umgengnisúrskurð því að þessi samkomulög  eru ekki pappírsins virði sem þau eru skrifuð á og það endar með því að sýslumaður úrskurðar 2002,“ segir Björn.

Í úrskurðinum kemur meðal annars fram að við fyrirtöku málsins 19. janúar 2001 hafi Erna sagst ekki vilja þvinga börn sín til að umgangast föður sinn. Dæturnar voru einnig viðstaddar umrædda fyrirtöku og lýstu þær því þar yfir að þær hefðu ekki áhuga á að hitta föður sinn. Þarna höfðu dæturnar ekki hitt föður sinn síðan í nóvember 2000.
Stuttu eftir fyrirtökuna flyst Erna ásamt dætrum sínum til Finnlands, en deilurnar halda áfram.

Að undirlagi móður

Í bréfi Björns til sýslumannsembættisins þann 22. maí 2001 segir hann að yfirlýsing dætra hans um að vilja ekki hitta hann vera að undirlagi móður þeirra og að ekki væri hægt að trúa henni. Sagði hann jafnframt að fram í nóvember hafi dætur hans umgengist hann og framkoma þeirra gagnvart honum verið eðlileg.

Um sumarið flytjast mæðgurnar aftur til Íslands og fengu sérfræðiráðgjöf á vegum embættis sýslumanns þetta sumar.

Mynd af þeim feðginunum frá 1998.

„Með bréfi Ernu, dags. 16. október 2001, ítrekar hún kröfu sína um að fulltrúi sýslumanns fái upplýsingar um viðtal sálfræðings við dæturnar. Kvað hún sálfræðinginn hafa sagt sér að þær vildu ekki hitta föður sinn nema í tengslum við fermingar. Þá kvað hún dæturnar einnig hafa sett þennan vilja fram við marga sálfræðinga og félagsráðgjafa sem sýslumannsembættið hafi sent þær til undanfarin tíu ár og vísaði einnig til fundar við meðferð þessa máls. Kveðst hún fara fram á að vilji dætranna verði nú virtur og að þær njóti aðstoðar sýslumannsembættisins við að fá frið fyrir föður sem þær óski ekki eftir umgengni við.“

„Þær sögðu að allt í lagi væri að hafa umgengni eins og hún hafi verið. Þær vilji ekki loka alveg á föður…“

Þann 30. október 2001 gefur sálfræðingur embættisins vitnisburð og álit í málinu. En þar kemur fram um viðtal við dæturnar: „Þær sögðu að allt í lagi væri að hafa umgengni eins og hún hafi verið. Þær vilji ekki loka alveg á föður, segja að hann sé alveg góður við þær og að þeim finnist eðlilegt að hann vilji halda sambandi. Þær geta hugsað sér að hann megi vera í tölvupóstsambandi við þær.“

Fram kemur í áliti sálfræðingsins: „Undirritaður setur fyrirvara við vitnisburð þennan um vilja stúlknanna vegna þess að hann mótast af harðri deilu foreldranna og því að í máli þessu hefur myndast áralöng sjálfhelda í fjölskyldunni eftir að faðir var ásakaður um sifjaspell. Það mál virðist ekki hafa verið til lykta leitt eða hlotið ásættanlega úrlausn fyrir fjölskylduna heldur þróast út í harða og langvarandi umgengnisdeilu sem ekki sér fyrir endann á. Stúlkurnar hafa lent þar inn á milli og líða fyrir það. Foreldrarnir ætlast til þess að dæturnar velji á milli þeirra með því að lýsa yfir vilja sínum en slíkri aðstöðu er almennt reynt að hlífa börnum við. Við þessar aðstæður eiga stúlkurnar engan góðan valkost og vafasamt er að líta svo á að þær hafi frjálsan vilja í stöðunni. Undirritaður telur rétt að virða yfirlýstan vilja stúlknanna en jafnframt að vilji þeirra sé skoðaður í ljósi þeirrar stöðu sem þær eru í. Báðir foreldrar ásaka hitt foreldrið um hvernig komið er í samskiptum innan fjölskyldunnar og krefjast úrskurðar sér í vil. Undirritaður mælir með því að ef úrskurðað verður þá verði það á þá leið að umgengni verði lítil í fyrstu en möguleiki verði á því að hún vaxi ef vel gengur.“

Afrit af gömlu bréfi sem yngri dóttir Björns sendi honum.

Björn segir að í þau fjögur til fimm skipti sem þau hafi farið í hringrás í gegnum sýslumannskerfið hafi enginn þar viljað meina að það hefði við einhver rök að styðjast að hann hefði gert börnum sínum eitthvað, ekki einn einasti.

Hann segist hafa heyrt það eftir á að það sé mjög algengt í forræðis- og umgengnismálum að mæður noti það sem öflugt vopn gegn föðurnum að segja börnin hrædd við hann, hann lemji þau eða káfi á þeim eða annað verra. „Þetta er mjög algengt og er skilvirkt vopn. Þetta er skilvirkt að því leyti að það stoppar umgengni, það er þá farið í skoðanir eða eitthvað fleira og gerir alla umgengni tafsama sem kemur fyrst og fremst niður á börnunum sjálfum. Þau missa þá tengsl við pabba sinn. Það er yfirleitt ekki þannig að svona ásakanir séu gegn konum, nei, þær eru gegn körlum,“ segir Björn.

„Þær voru mjög hændar að mér“

En hvernig minnist Björn sambandsins við dætur sínar?

„Mjög gott samband, frá fæðingu og þar til við skildum. Líka fyrstu tvö, þrjú árin þar á eftir þá voru þær mjög hændar að mér, þótti gaman að vera með mér, hlakkaði til að hitta mig, aldrei neitt óþægilegt og við áttum svo góðar fjölskyldustundir saman, komu til mín í nokkra klukkutíma og borðuðu hjá mér. Eldri systkinin voru með og það var bara rosa gaman hjá öllum. Svo fer að kárna gamanið þegar þær verða svona lengi í burtu, umgengni er slitið og þá tekur marga mánuði að koma henni á aftur. Annars vegar þegar þær fluttu til Danmerkur, þá leið nú eiginlega nærri heilt ár án þess við hittumst. Síðan þegar þær fluttu til Finnlands þegar Erna hóf sambúð með manni þar í landi, þá skeði það sama, það var nú heldur styttra samt. Og þá, hvernig á ég að orða það, ókunnuðust þær mér, fjarlægðust mig og það breytti þessu sambandi. Ef það er nógu langt á milli þá verður það bara þannig, það er ekkert annað. En þær voru ánægðar hjá mér oft og mörgum sinnum.“

„Hún fluttist þangað um miðjan vetur, tók þær úr skólanum og einn, tveir og þrír til útlanda“

Samkvæmt Birni fluttist móðir dætranna tvisvar sinnum með þær til útlanda frá 1993 til 2001. Fyrst hafi þær flust til Danmerkur í níu mánuði og síðar til Finnlands, eins og fram hefur komið. Björn segir um Finnlandsflutninginn: „Hún fluttist þangað um miðjan vetur, tók þær úr skólanum og einn, tveir og þrír til útlanda. Án þess að láta nokkurn vita, hún lét mig ekki vita eða neitt heldur bara frétti ég það eftir á úr skólanum.“

Segir hann litla sem enga umgengni hafa verið eftir að þær snéru aftur heim til Íslands sumarið 2001. „Yngri dóttir mín vildi halda sambandi við mig og gerði það í nokkur ár alltaf öðru hverju, kom til mín og hittumst svona. En sú eldri ekki nema þá á afmælum og í fermingunni hennar en yngri aftur á móti oftar,“ segir Björn.

Eftir stúdentspróf fluttist yngri dóttir Björns erlendis og segir hann sambandið milli þeirra hafi þá rofnað og ekkert verið síðan, en hún er enn búsett erlendis.

„Finnst þér hún ekki hryllileg?“

Það var síðan fyrst í janúar 2020 að Björn heyrir af viðtali Stundarinnar við dætur sínar, sem komið hafði út í lok árs 2018. Var það í kjölfarið af atlögu gegn honum í fjallgönguklúbbi þar sem hann var meðlimur.

Björn segir hóp innan klúbbsins hafa gefið það út við stjórnendur að annað hvort væri hann látinn fara eða þau færu. Niðurstaðan varð sú að Birni var gert að yfirgefa fjallgönguklúbbinn og honum endurgreitt félagsgjaldið.
Síðan hefur hann ekki gengið með þeim. Björn segir frá því að í kjölfar þess hafi mikil vinslit orðið sem taki hann reglulega sárt.

„Það eru margir sem hafa lesið greinina og fyllst hryllingi. Hefurðu lesið greinina alla? Finnst þér hún ekki hryllileg?“ spyr Björn og heldur áfram: „Þeir sem lesa þessa grein hugsa sem svo, þetta er svo ámátlegt að þetta hlýtur að vera satt. Þannig sem liggur í þessu.“

Síðasta sumar segist Björn hafa staðið á tímamótum, annað hvort gerði hann eitthvað í málinu eða legði niður rófuna og léti kyrrt liggja.

Segist hann fyrst hafa reynt að leita sáttaleiðar og sent eldri dóttur sinni bréf þar sem hann óskar eftir að þetta sé tekið fyrir í fjölskyldunni og sáttaleið reynd. Bréfinu var svarað með nafnlausri færslu inni á Facebook síðunni Líf án ofbeldis. Og þar undir dulnefni en í svarinu segir hann dóttur sína meira eða minna hafa hæðst að sér fyrir bréfaskrifin. Og segir hann að þar með hafi sú sáttaumleitun farið í vaskinn.

„Nákvæmara og ógeðslegra en ég hef nokkurn tímann heyrt áður“

Í grein Stundarinnar kemur ýmislegt fram sem Björn segist ekki hafa séð eða heyrt áður. Segist hann ekki muna eftir því að móðir dætranna tveggja hafi borið á hann tiltekinn atburð og segir hann lýsingarnar vera grafískari, nákvæmari og ógeðslegri heldur en hann hafi nokkurn tímann heyrt áður.

„Það sagði aldrei neinn við mig að ég hefði verið að káfa á þeim þegar ég sagði þeim sögur“

„Það sagði aldrei neinn við mig að ég hefði verið að káfa á þeim þegar ég sagði þeim sögur. Ég sagði þeim talsvert mikið af sögum, þær vildu að ég sæti með bók og læsi fyrir þær og þá sátu þær á sitt hvorum arminum á hægindastólnum“.

Áréttar Björn að dætur sínar hafi ávallt verið saman þegar þær komu til hans sem börn, það hafi ekki verið fyrr en þær urðu eldri, komnar í framhaldsskóla, þá hafi yngri dóttir hans stundum komið án eldri systur sinnar. En þannig hafi það verið að ef önnur hafi verið veik, þá kom hvorug þeirra. „Þær voru alltaf tvær. Sem gerir það náttúrlega miklu ólíklegra, hvernig átti það þá nákvæmlega að gerast að ég væri með fingurna einhvern veginn í þeim báðum í einum eða önnur væri skilin eftir frammi á meðan, hvernig hefði það átt að geta gerst?“ spyr Björn.

„Því meira sem maður hugsar út í það, því meira absúrd er þessi tilgáta.“

Segir hann þó rétt vera að hann hafi skeint dóttur sinni í einni heimsókninni, en hann hafi einungis þurrkað henni og ekkert meira en það. „Ég bar svo sannarlega ekki á hana vaselín eða gerði neitt í þeim efnum. Ég snerti þær aldrei fyrir neðan mitti og þaðan af síður bar ég á þær vaselín eða reyndi að hitamæla þær í gegnum kynfæri eða troða vaxlitum upp í kynfærin. Þetta eru alveg voðalegar lýsingar og ef þær hafa farið heim og sagt mömmu sinni að pabbi gerði þetta, þá hefði hún náttúrulega rokið í háaloft og beinlínis strax til lögreglunnar. Það bara gerðist ekki og var aldrei,“ segir Björn.

Samkvæmt bréfi frá móður dætranna til sýslumanns sem birt var í Stundinni kemur fram að Björn hafi árið 1995 ítrekað talið ástæðu til að bera vaselín á kynfæri yngri dótturinnar, þó hún hafi aðeins komið í kvöldverðarboð. Þar segir jafnframt að þetta geti núverandi sambýliskona Björns staðfest.

Björn Matthíasson sýnir gamlar fjölskyldumyndir sem hanga á vegg heima hjá honum. Mynd/ Róbert Reynisson

Umræddri sambýliskonu var Björn kvæntur í 19 ár, eða þar til að hún dó frá honum úr krabbameini árið 2017. Segist Björn þess fullviss um að hún hafi ekki staðfest þessa frásögn, hún hafi oftast verið viðstödd allan tímann þegar stúlkurnar komu í heimsókn og ekkert slíkt hafi átt sér stað.

Dætur hans segja frá því hvernig faðir þeirra hafi setið fyrir þeim og mætt í skólann sinn, þrátt fyrir að hafa ekki leyfi til þess. Björn segir nokkuð vera til í þessu.

„Það er þannig að ég kom í skólann alveg fyrirvaralaust eða að þeim í frímínútum og allt í einu er ég bara mættur eins og skollinn úr sauðarleggnum. Þeim brá, það er alveg rétt, það er nokkuð til í því og þær hafi, ég veit nú ekki hvort það eigi að segja að þær hafi orðið hræddar en þær urðu hvumsa við. Ég man í eitt skipti að yngri dóttir mín talaði mjög vel við mig eftir þetta. Svo man ég í annað skiptið að um leið og hún sá mig þá brast hún í grát, hún fór að hágráta á miðjum leikvellinum fyrir framan leikfélaga sína og gæslukonuna sem hljóp strax til og huggaði hana og svo huggaði ég hana en þá varð mér það líka ljóst að það væri ekki heppilegt að ég heimsækti þær þannig, en þá höfðu líka liðið margir mánuðir þar sem klippt var á alla umgengni. Þetta var raunverulega eina leiðin fyrir mig til að sjá dætur mínar og ég viðurkenni eftir á að þetta voru átök, bæði fyrir mig og þær.“

Samkvæmt eldri dóttur hans segir hún hann hafa sagt móður þeirra hafa heilaþvegið þær systurnar: „Ég hugsa að ég hafi nú aldrei notað orðið heilaþvottur. En þær voru spurðar eiginlega í hvert sinn sem þær komu frá mér, hvað gerðist? Gerði hann þér nokkuð? Eitthvað svona. Smám saman hefur það prentast inn í þær að það sé eitthvað stóralvarlegt á ferðinni.“

Í grein Stundarinnar er jafnframt sagt frá því að Björn hafi verið ofbeldisfullur í hjónabandi sínu við Ernu. „Að ég hafi verið ofbeldisfullur í hjónabandinu,“ segir Björn undrandi. „Nei ég neita því, ég var aldrei ofbeldisfullur, en hins vegar gengu illindin fram og til baka með orðum, það má náttúrulega kalla það orðaofbeldi. Það var ekki líkamlegt ofbeldi en það voru hróp og köll á milli okkar, já. Að þeim mjög líklega áheyrandi þó að ég held að við höfum bæði reynt að hlífa þeim við því. Það sauð ansi oft upp úr eftir að yngri dóttir okkar fæddist í júní 89, þá eiginlega byrjaði að halla verulega undan fæti í hjónabandinu, en það var allan tímann erfitt,“ segir Björn.

Segir hann þessa erfiðleika hafa verið jafn mikið sér að kenna og henni, en að hans mati á að skipta slíkum sökum 50%.

„Það er ekkert unnið við að segja þetta var allt henni að kenna eða þetta var allt honum að kenna. Svona nokkuð er alltaf báðum að kenna og ég tek á mig helminginn af því.“

Segir hann þau bæði hafa verið í mikilvægum og streituvaldandi störfum og að þau hafi bæði unnið eins og skepnur. Viðurkennir hann að þetta hafi ekki verið heimilisvingjarnlegt umhverfi, eins og hann orðar það sjálfur.

Björn á fyrir fjögur börn frá fyrsta hjónabandi sínu, þrjá syni og eina dóttur. Móðir þeirra lést 1981 eftir nær 18 ára hjónaband. Þau hafa aldrei tekið undir það sem á hann er borið.

„Ef þau hefðu trúað þessum ásökunum hefðu þau látið lögregluna vita. Það er þegnskylda að láta svona alvarleg afbrot ganga sína leið, ég er alveg viss um það. Þau eru það fullorðin að þau vita annað eins.“

Segir hann syni sína ekki vera í miklu sambandi lengur við yngstu dætur sínar tvær, en þær systur haldi sambandi.

Heldur enn í vonina um að sættir náist

„Ég veit ekki hvort hann elskaði okkur eða ekki, það var ekki mjög ljóst af því hvernig hann var að haga sér,“ sagði eldri dóttir Björns í samtali við Stundina. Hvernig líður Birni að heyra þessi orð dóttur sinnar?

„Ég elska þær enn þá, ég get ekki lýst því nánar en svo. Ég elska þær bara mjög mikið,“ segir Björn, klökknar og gerir hlé á máli sínu.

„Já ég get ekkert sagt við þessu það er, þetta er bara hennar skoðun. En ég reyndi ekki að beita þær neinu andlegu ofbeldi eða neinu ofbeldi. Þvert á móti, ég gerði allt sem ég gat til að hæna þær að mér, en það hefur greinilega ekki tekist þannig það er áreiðanlega eitthvað til í þessum orðum hennar. Því miður. En að ég hafi beitt þær ofbeldi það gerði ég ekki.“

Björn segist hafa leitað ýmissa leiða til að ná fram sáttum við yngstu dætur sínar tvær, til dæmis bað hann fyrir um tveimur árum prest um aðstoð, en án árangurs. Hann segist þó aldrei gefa upp alla von um að ná sáttum.

„Ég vona alltaf. En það er, ég sé það ekkert í sjónmáli, en við verðum öll eldri og þroskaðri og við breytum um skoðun. Ég vona að það gerist einn góðan veðurdag, að við getum verið vinir og hagað okkur eins og faðir og dætur. Nú er ég að verða 82 ára, ég á ekki mörg ár eftir og ég bara vona að það gerist áður en ég kveð þennan heim,“ segir Björn að lokum.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -