Þriðjudagur 29. október, 2024
6.4 C
Reykjavik

Móðir Guðbjargar með tvær gerðir krabbameins: „Gífurlegt áfall fyrir alla fjölskylduna“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Mamma greindist með tvær tegundir krabbameins á síðasta ári og auðvitað var áfallið gífurlegt fyrir alla fjölskylduna. Tónlistin hefur alltaf verið mín helsta huggun þegar á móti blæs og þannig fór ég beint í melódíurnar.

Ég hafði verið að syngja lag sem þá var enn á vinnslustigi og bar heitið Lifa og njóta. „Lífið er núna!“ hugsaði ég og bar hugmyndina að breyttum texta og nýju heiti undir þá Þórhall Emil og Einar Höllu sem sömdu lagið. Ég tengdi lagið við bróður minn og ömmu mína í upphafi sem dóu bæði úr krabbameini. Þegar sjúkdómsgreiningin lá svo fyrir hjá elsku mömmu minni, þá fór ég ósjálfrátt að syngja til mömmu. Þá hugmynd sótti ég í slagorð Krafts, sem eru stuðningssamtök ungs fólks sem hefur greinst með krabbamein og aðstandendur þeirra.

Álfrún Kolbrúnardóttir (önnur frá hægri) skrifar handrit, leikstýrir og framleiðir myndband við lagið Lífið er núna
Lagið helgað Krafti og hvunndagshetjum krabbameinssjúkra

Þetta segir Guðbjörg Elísa tónlistarkona sem syngur af krafti um kærleikann í nýútkomnu lagi sínu en tökum á tónlistarmyndbandi er nýlokið. Gugga Lísa, eins og hún vill gjarna kalla sig, á ekki langt að sækja tónlistargáfuna og hefur sungið og samið tónlist frá blautu barnsbeini enda af hæfileikaríku tónlistarfólki komin í báðar ættir. 

Trúin og tónlistin hafa hjálpað mér allra mest gegnum áfallið sem fylgdi sjúkdómsgreiningunni,“ svarar Gugga aðspurð og klykkir út með því að kærleikurinn sé magnaðasta aflið sem sannarlega sé samofið heimi tónlistar. 

Mamma greindist samtímis með brjóstakrabba og lungnakrabba en krabbameinið er líka komið í lifur.

Þegar ég kom inn í vinnslu lagsins þá varð mér sjálfkrafa hugsað til herferðar Krafts út af bróður mínum og ömmu minni. Þess vegna fékk ég að bæta setningunni „Lífið er núna,“ inn í textann og breyta þar með heiti lagsins. Þá höfðu fréttirnar af krabba ekki enn borist fjölskyldunni.“ 

Gugga Lísa segir tónlistina og trúnna fagurt haldreipi í gegnum erfiðleika lífsins

Guðbjörg er ekki ókunn þeirri grimmu vá sem krabbamein er, en bróðir hennar andaðist aðeins 11 ára gamall úr hvítblæði, en mörgum árum seinna andaðist föðuramma barnanna úr krabbameini í munnholi. „Svo greinist mamma í vetur með tvær gerðir krabba. Ég hef því orðið fyrir margítrekuðum áföllum vegna sjúkdómsins á ævi minni og í gegnum það ferli hafa trúin og tónlistin alltaf verið mín mesta huggun.“

- Auglýsing -
Lítill lagstúfur snerist upp í stórkostlegt verkefni

„Herferð Krafts snertir mig mjög djúpt vegna bróður míns og ömmu minnar og þegar mamma svo greindist, þá fór ég ósjálftrátt að tengja textann og lagið við mömmu og fer ósjálfrátt að syngja lagið fyrir hana. Þetta er í dag orðið að stórkostlegu verkefni sem hægt er að tengja við úrvinnslu fleiri tegundir áfalla og lífsreynslu.“

Samhliða tónlistarferlinum er Guðbjörg við nám í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands en hún tók sér eðlilega hlé frá námi eftir greininguna sem skók fjölskylduna nú á síðasta ári. „Ég helga textann í laginu mömmu minni sem er enn síung um sjötugt og á lífið framundan í faðmi fjölskyldunnar. 

Páll Óskar og Gugga Lísa frumfluttu lagið Lífið er núna í fjáröflunarþætti á vegum KRAFTS í febrúar á þessu ári

Allt í einu byrja svo hjólin að snúast en ég á vinkonu sem hefur sigrast á krabbameini og hefur sótt stuðning til Krafts. Svo vill til að hún starfar einnig hjá samtökunum. Þannig koma frumtengslin til. 

Áður en ég vissi af var ég á leið upp á svið í beinni útsendingu gegnum Sjónvarp Símans með lag í vinnslu og þar frumflutti ég Lífið er núna ásamt Páli Óskari, sem steig með mér á svið í fjáröflunarþættinum.

- Auglýsing -

Við smullum eins og flís við rass eftir örfáar æfingar fyrir þáttinn. Það var gífurlegur heiður fyrir mig að fá að stíga á svið með Páli Óskari og að frumflytja lagið Lífið er núna með honum meðan á fjáröflun stóð. Þetta gerðist allt svo hratt; ég hafði ekki einu sinni fullklárað lagið þegar við fórum á svið. En þetta gekk alveg eins og í sögu. Minningin er frábær.“

Óttaðist að missa mömmu sína um stutt skeið

Í kjölfarið gaf Guðbjörg Elísa svo út lagið á tónlistarveitunni Spotify en í þessari viku var svo tónlistarmyndbandið tekið upp í Reykjavík. Eðlilega er móðir Guðbjargar Elísu, Kristín Snæfells Arnþórsdóttir, afar hreykin af dóttur sinni og segir Gugga Lísa bjartar horfur á lofti.

Guðbjörg Elísa ásamt móður sinni, Kristínu Snæfells Arnþórsdóttir, sem er að vonum afar stolt af dóttur sinni

„Mamma fær bestu umönnun sem kostur er á og við erum þakklát hverjum degi. Vissulega er krabbameinsmeðferð erfið og við þurftum að takast á við bakslag fyrir einhverjum vikum síðan, þetta var tvísýnt um tíma og ég hélt í skamma stund að ég myndi missa mömmu. En lyfjameðferð gengur vel og mömmu líður eins vel og hægt er að vona. Hún fær að vera heima og það skiptir miklu.“ 

Kærleikurinn kennir okkur að rísa sterk úr erfiðleikum

Skilaboðin sem textinn felur í sér er sterkur boðskapur vonar og lífsvilja: „Í laginu er ég ekki bara að syngja um það að sleppa, lifa og njóta því lifið er núna; lagið fjallar líka um að standa saman og berjast í gegnum hvers konar erfiðleika, hlúa að sínum nánustu og sjálfum sér eins mikið og hægt er.“ Og Guðbjörg er skýr í máli þegar textann ber á góma í viðtali við blaðamann: „Að njóta þess að lifa í krafti kærleikans sem er ávallt mestur.“ 

„Þessu lagi er ætlað að minna okkur á að vera góð við náungann og að gleyma ekki því að vera okkur sjálfum góð líka.“

Kærleikurinn kennir okkur að rísa upp úr erfiðleikum og láta ekki hugsanir stjórna líðan okkar heldur að horfa til Guðs, sleppa tökunum og njóta liðandi stundar og miðla von til allra, þrátt fyrir að erfiðleikar rísi. 

Guðbjörg syngur með kristnu lofgjörðarbandi á hverjum sunnudegi í Smárakirkju í Grafarvogi auk þess sem hún þjónar af og til í United Reykjavik, sem er samastaður kristilegs hjálparstarfs. Þá syngur þessi hæfileikaríka tónlistarkona víða á vegum kirkjunnar og tekur að sér tónlistarverkefni á öðrum kristilegum og hefðbundnum menningarviðburðum.  

Tökustjóri táraðist þegar hún heyrði lagið 

Tökum er nýlokið á tónlistarmyndbandinu en Álfrún Kolbrúnardóttir, framleiðandi og vinkona Guggu Lísu leikstýrir myndbandinu ásamt Birgi Erni Magnússyni, sem starfar sem pródúsent og hljóðblandar tónlistina. 

Gugga Lísa ásamt Álfrúnu Kolbrúnardóttur, framleiðanda og leikstjóra myndbandsins sem kemur út í júní

Sjálf segist Álfrún hafa verið djúpt snortin þegar Gugga Lísa kynnti hugmyndina fyrir henni. „Ég fékk símtal frá Guðbjörgu Elísu sem bað mig að skapa fallegt myndband við lagið. 

Morguninn eftir settist ég niður heima og hlýddi á lagið og hugmyndirnar flæddu fram. Málefnið þykir mér svo fallegt og styrkjandi að ég táraðist meðan ég skrifaði handritið. Ég fór bara að gráta. 

Í erfiðleikum okkar er svo mikinn styrk að finna og við getum öll verið til staðar hvert fyrir annað eins og Guðbjörg syngur svo fallega um. Það vona ég að hlustendur nemi þann styrk gegnum lagið þegar myndbandið kemur á markað; að við getum blásið öðrum von og styrk í brjóst og hvatt fólk til að gefast aldrei upp.“ 

Myndbandið kemur út í byrjun júní en lagið Lífið er núna er komið á Spotify og er sérstaklega tileinkað móður Guðbjargar Elísu, sem heitir Kristín Snæfells Arnþórsdóttir og Krafti, styrktarfélagi ungs fólks með krabbamein og aðstandendum þeirra. 

Lífið er núna er sérstaklega tileinkað móður Guðbjargar Elísu og er komið á Spotify

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -