Þriðjudagur 24. desember, 2024
2.8 C
Reykjavik

Móðir heimilislauss manns stígur fram og krefst breytinga: „Við höfum verið með lögregluvernd“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Á Íslandi er talsverður fjöldi heimilislausra og lítið um úrræði fyrir þennan hóp. Fólk á öllum aldri leita í athvörf og gistiskýli sem ætluð eru heimilislausum. Mannlíf ræddi við móður 25 ára manns sem neyðist til að leita í gistiskýlið á Lindargötu en þar er aðstaða fyrir 25 karlmenn.

„Ég hef ekkert samband við hann nema einstaka sinnum þegar hann hringir. Ég er oft búin að skipta um síma, hann hefur bara komist að því hvaða númer ég er með. Ég vil samt vita hvar hann er, ég held alltaf að hann sé að deyja“ segir móðir mannsins en hún kýs að njóta nafnleyndar. Sonur hennar glímir við fíknisjúkdóm og einhverfu ásamt alvarlegri kvíðaröskun. Einhverfan kom þó ekki ljós fyrr en hann var orðinn tvítugur.

Móðirin segir son sinn leita til vettvangs- og ráðgjafateymis Reyjavíkurborgar en þar er veitt ráðgjöf til þeirra sem eru heimilislausir og glíma við vímuefna- eða geðvanda. Hún segir teymið þó lítið geta gert, þar er skortur á fjármagni. Sonur hennar hringir þangað þegar hann er útskrifaður af fíknigeðdeild Landsspítalans en þar hefur hann legið inni oft. Hjá ráðgjafateyminu er rætt við hann í um hálftíma á dag, fleiri eru úrræðin ekki.

„Hann hringir í þau þegar hann er að losna af fíknigeðdeild, hann er alltaf útskrifaður snemma þaðan, er orðinn svona krónískur þar. Það er kominn stimpill á hann, hann er búinn að fara í svo margar innlagnir og er talinn ómeðferðarhaldinn.“

Drengurinn fékk ekki greiningu upp á einhverfu fyrr en á fullorðinsárum en hann er einnig greindur með mikinn kvíða, „Hann er með dæmigerða einhverfu og sjúklegan kvíða, er með greiningu upp á það en hann flokkast hvergi, hvorki sem geðveikur eða fatlaður. Hann passar hvergi inn í neitt kerfi,“ segir móðirin. Hún hefur reynt allar leiðir til að hjálpa syni sínum, leitað til margra lækna og félagsráðgjafa en aldrei fær hann næga aðstoð. Hann er settur á ávanabindandi lyf í flokki benzódíazepíns en þau eru gjarnan notuð í neyð. Mörg svefnlyf tilheyra þessum flokki, ásamt kvíðastillandi og róandi lyfja. Ávanahætta lyfjana eykst því lengur sem þau eru notuð og eru þau því ekki hugsuð sem langtímalausn. Þekkst hefur þó á Íslandi að læknar fari ekki alltaf eftir þessum tilmælum. Sonur móðurinnar fær þessi umdeildu lyf við ofsakvíða.

„Þegar hann er um 18 ára uppgötvar hann að hann sé kominn með svo mikinn kvíða, hann fer til læknis sem setur hann á bensó lyf. Þá er hann aldeilis kominn á græna grein, bensó er töfralausnin. Honum líður svo vel á þessu en það er þannig með bensó lyfin að þú verður háður þeim, færð gríðarleg fráhvörf og þarft alltaf meira.“

- Auglýsing -

Fljótt er hann orðinn fangi lyfjanna, eins og gerist oft við misnotkun þeirra. „Hann gengur á milli lækna og notaði mig sem aðgangseyri að læknunum og ég segi alltaf að honum líði svo illa og að það þurfi eitthvað að gera. Hann varð eins og lyfjafræðingur, kunni utan af hvaða lyf gerðu hvað. Mér fannst svo erfitt að horfa upp á barnið mitt líða illa og ég sá að þetta hjálpaði honum en ég áttaði mig ekki á því í hvaða hyldýpi hann var að fara,“ segir móðirin.  Sonur hennar flosnar upp úr skóla og neyslan versnar. Hann er heima allan daginn, sefur og tekir lyf. Heimilislífið varð sífellt erfiðara, sonurinn fer að sýna ofbeldishegðun og allt fór að snúast um að halda honum góðum. „Allir voru markeraðir af þessu, maðurinn minn var hættur að vilja koma heim eftir vinnu. “

Það kviknaði von í hjarta móðurinnar þegar sonur hennar byrjaði í sambandi. Um einhvern tíma gekk vel, hann var fljótt kominn með bíl og húsnæði en náði þó aldrei að halda sér í vinnu. „Fljótlega eftir að þau flytja inn er hann farinn að sofa sólahringunum saman. Hann kynnist svo manni sem er mikið á djammi, mikið í kókaíni og neyslu og hann fer á fullt í það. Á nokkrum mánuðum er kærastan flutt út, hann farinn að beita ofbeldi og orðinn mjög agressívur. Ég er þarna orðin mjög hrædd við hann. Hann fer að koma heim til okkar í annarlegu ástandi, ógnar okkur, berjandi allt að utan og er alltaf öskrandi á hjálp. Þetta er þarna orðið mjög óeðlilegt og mikið ofbeldissamband. Ég fer alltaf að reyna að róa málin með hina í fjölskyldunni og er alltaf í framlínunni með hann.“

Engin úrræði eru fyrir fólk með geð- og fíknisjúkdóma sem getur ekki búið sjálfstætt. Sonurinn er ekki fær um að  búa einn og segir móðir hans vera nær ómögulegt að finna fyrir hann húsnæði.

- Auglýsing -

„Hann er með félagsráðgjafa í þjónustumiðstöð sem er að sækja um húsnæði fyrir hann hjá borginni. Við höfum heyrt að það taki mörg ár að fá húsnæði. Við fjölskyldan vitum að það þýðir ekkert að skaffa honum bara húsnæði, það þarf að vera einhversskonar forstöðumaður allan sólahringinn þar sem hann er. Honum er ekki sjálfrátt, hann hefur aldrei getað unnið. Hann er með eðlilega greind og klárar grunnskóla en hann er með svo sjúklegan kvíða gegn öllum kröfum sem gerðar eru til hans í lífinu, alveg sama hvað það er, hann forðast allt. Hann getur ekki tekið ábyrgð á sjálfum sér. Þau húsnæði sem hann hefur fengið, hefur hann náð að rústa á bara nokkrum dögum eða vikum. Hann kann ekki að ganga um. Hann hefur alist upp við mjög góð kjör og aðstæður, ekkert ofbeldi, ekkert í uppeldinu sem skýrir neitt.“

Hann varð fyrir miklu einelti í grunnskóla

Móðirin segir fjölskylduna ekki hafa fengið hjálp þegar sonur hennar var á grunnskólaaldri, hann er sendur í greiningu en ekkert kemur úr henni annað en kvíði. „Við fáum þarna enga hjálp, hann passar ekki í neinar greiningar, hann fer í einhverfugreiningu en það kemur ekki fram, ekki fyrr en seinna þegar það er gerð greining á geðdeildinni. Þegar við horfum til baka sjáum við hvað hann hefur þurft gríðarlegan stuðning í grunnskóla. Hann var látinn kveljast í raun og veru.“

„Hann varð fyrir miklu einelti í grunnskóla. Ég var alltaf að reyna að passa hann, hjálpa honum en hann var alveg félagslega vanhæfur. Hann var stilltur í skólanum en heima hélt hann fjölskyldunni í gíslingu. Honum leið alltaf illa, var með læti. Bróðir hans flúði bara inn í herbergi. Við gátum aldrei beðið hann um að gera neitt, við héldum að hann væri latur. Hann var fyrsta barnið okkar og við skyldum aldrei hvað væri að honum. Yngri sonur okkar er fjórum árum yngri og hann þroskaðist eðlilega, þá föttuðum við hvað þetta var sjúklegt. Þegar hann er tólf ára kom í ljós að hann væri búinn að þola einelti. Þegar skólinn byrjaði um haustið árið sem hann átti að fermast, sagðist hann ekki geta farið í skólann, hann vildi frekar deyja. Hann hefur ekki viljað segja mér allt, þetta var svo ógeðslegt og hann skammaðist sín fyrir það.“

Eineltið skánar þegar móðirin tekur málin í sínar eigin hendur. Sonurinn á þó enn erfitt með námið og kemur fljótt í ljós að eitthvað sé ekki eins og það á að vera. Hjálpina er þó ekki auðvelt að fá. „Ég fer í það að skipta um skóla fyrir hann, það er aldrei hlustað á okkur. Þá fer honum að líða aðeins betur. Það fer að koma meira í ljós eftir því sem hann verður eldri, þegar hann á að gera verkefni sem eru meira krefjandi, þá stendur hann eins og ráðavilltur og veit ekkert hvað sé að gerast. Skólinn lætur vita af þessu og sagði hann aldrei taka neinum fyrirmælum, þau eru bara að gagnrýna hann. Það er ekkert talað um að hjálpa honum.“

Móðirin segir son sinn ekki hafa leitað í áfengi eða önnur hugbreytandi efni til að deyfa sig, sem vill oft verða í svona málum. Hann áttar sig ekki á því að vímuefni geti verið einhversskonar lausn fyrir hans líðan.

„Hann klárar grunnskólann og er ekki einu sinni farinn að drekka. Þegar hann fer í framhaldsskóla fer hann að smakka vín. Það eru engir alkóhólistar í fjölskyldunni. Hann hefur ekki verið að sækjast í að deyfa sig, á þessum tíma fattar ekki að það sé eitthvað. Hann klárar fyrsta árið í framhaldsskóla en fer svo að verða stressaður, hann fer hundrað sinnum á klósettið og getur ekki lært heima. Ég neyðist til að lesa fyrir hann allar bækur. Allt fer í taugarnar á honum, meira að segja upplesturinn hjá einhverjum á hljóðbókum. Ég er þarna komin í fulla vinnu við að sinna þessu barni.“

Ástandið fer áfram versnandi, móðirin er orðin úrræðalaus. „Ég held lengi að þetta myndi bara lagast. Ég reyni að fá hann til sálfræðings en hann vili það aldrei, ofboðsleg forðun er hans greining. Hann getur ekki horfst í augu við vandamálin, hann flýr.“

Eftir eitt ár í framhaldsskóla hættir sonurinn í skóla. Líðan og hegðun tekur stórum breytingum til hins verra. „Hann flosnar upp úr skólanum, hann fer að vera bara heima, sefur allan daginn, tekur pillur og fer svo út á kvöldin. Tekur ekki þátt í neinu á heimilinu og heldur öllum í helgreipum þegar hann kemur úr herberginu sínu.“

Móðirin hefur þurft á mikilli sjálfsvinnu að halda og segir sjúkdóma og ástand sonarins hafa tekið mikið á hennar líðan og gert hana nánast óvinnufæra. Hún er sjálf orðin veik. “Maður er svo vanmáttugur, grátgjarn. Reyna að standa sig í vinnu. Þú hefur engan bardagamátt. Ég verð rosalega meðvirk með honum.“ Hún segist hafa gert ýmislegt sem hún er ekki stolt af, en oftast fylgja fíklinum meðvirkir aðstendendur. „Hann hringir og segir mér að koma með ýmislegt. Ég er þá farin að ljúga að manninum mínum, eyði oft helmingnum af laununum mínum í hann og það hefur örugglega mikið til farið í dóp.“

Hún segir son sinn hreinlega vera hættulegan sjálfum sér og öðrum. Fjölskyldan hefur þurft á vernd að halda. „Hann hefur ekki komið heim til okkar í um tvö ár. Við höfum verið með lögregluvernd og nálgunarbann á tímabili. Alltaf þegar hann reynir að koma heim, hringjum við á lögregluna því við vitum ekki í hvaða ástandi hann er.“ Hún hefur þó unnið mikið í sínum málum og náð góðum árangri gegn meðvirkinni. Hún er alltaf hrædd um son sinn, óttast það að missa hann. Að eigin sögn er langt síðan fjölskyldan byrjaði að syrgja lifandi manninn, hann er ekki sá sami og hann var.

„Ég er alltaf hrædd um að það sé að koma prestur heim. Ef ég heyri eitthvað í fréttum er ég viss um að það hafi eitthvað komið fyrir hann. Mér líður best ef ég veit ekkert af honum. Það eru margar mæður í svipaðri stöðu sem verða öryrkjar af álagi. Ég ætla ekki að verða þannig, en ég er rosalega ráðþrota.“

Þetta er búið að vera algjör martröð

Sonurinn er nú heimilislaus, hann fær skjól í gistiskýlinu á Lindargötu en þar er þó bara opið yfir nóttina. Á daginn ráfar hann um og finnur leiðir til að fjármagna neysluna „Siðferðiskenndin í honum er orðin mjög skökk. Hann hefur verið réttsýnn og eðlilega siðferðislega hugsandi en hann er orðinn hálfgrillaður núna.“

Hann hefur þó reynt að koma lífi sínu á rétta braut en það hefur ekki skilað árangri nema í skamman tíma. Hann getur þó ekki hugsað sér að vera án allra ávanabindandi lyfja. „Það koma tímabil þar sem hann er í lagi en hann verður alltaf að vera á einhverjum lyfjum. Hann getur ekki hugsað sér lífið án lyfja. Hann hefur farið á áfangaheimili og orðið eðlilegur aftur, húsum hæfur og samræðugóður en svo koma alltaf þessi kvíðaköst. Hann nær aldrei að komast út úr þeim og fer þá í lyfin.

Móðirin segir erfitt að horfa upp á son sinn hverfa, hún vilji sjá úrræði fyrir fólk eins og hann. „Þetta er búið að vera algjör martröð en ég reyni að lifa einn dag í einu. Ég vil helst ekki eiga samskipti við hann, hann er kominn svo langt út fyrir þennan heilbrigða heim en mér finnst samt sárt að sjá að hann fái ekki aðstoð. Ég veit að ef hann fengi að vera einhversstaðar þar sem er aðili allan sólahringinn, þar sem hann gæti leitað til einhvers, það væri það sem hann þyrfti til að ná sér á strik.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -