Miðvikudagur 15. janúar, 2025
6.8 C
Reykjavik

Mohamad horfði ítrekað upp á dauðann ellefu ára: „Mamma grét á leiðinni til Selfoss“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Mohamad Moussa Al Hamoud er 19 ára Sýrlendingur sem búið hefur hér á landi í nokkur ár. Á Selfossi. Hann kom hingað með stöðu kvótaflóttamanns með fjölskyldu sinni en þau fluttu svo úr landi eftir um eitt ár nema að Mohamed kom svo aftur. Hér vill hann búa. Hann talar hér meðal annars um þær minningar sem hann á um stríðið í heimalandinu, tímann í Líbanon þar sem hann á barnsaldri fór að vinna á rakarastofu, Ingó og Bubba, hrútspunga og draumana.

Hann er glaðlegur. Og hann talar ótrúlega góða íslensku miðað við að hafa búið hér á landi í örfá ár. Meira að segja framburðurinn er ótrúlega góður. Næstum því fullkominn.

Mohamad er sonur hjónanna Yousra og Moussa. Hann er elstur í systkinahópnum, en hann á eina systur og þrjá bræður, og fæddist í Aleppo í Sýrlandi. „Við áttum stórt hús í Aleppo og líka stórt land og hús í sveitinni og einn frændi minn sá um það en við vorum alltaf í borginni. Pabbi og frændi minn unnu meðal annars við að mála og tengja rafmagn í nýbyggðum húsum. Mamma var heimavinnandi,“ segir Mohamad og bætir við að hún sé frönskukennari að mennt. „Ég var stundum að hjálpa pabba og frænda mínum alveg frá því ég var um 10 ára; þegar maður var í sumarfríi í Sýrlandi þá varð maður að gera eitthvað. Það var ekkert í boði að vera heima og vera bara í einhverjum tölvuleik. Það var bara harkan sex. Ég kann ýmislegt sem ég gerði hjá þeim. Ég er ánægður með að kunna smá. Það er fullt af krökkum sem kunna ekki neitt og eru bara í tölvuleikjum og gera ekki neitt.“

Hann segist hafa verið mjög klár í skóla. „Í Sýrlandi getur maður fallið í 1. bekk, 2. bekk… Það er alvöru þar. Ég var smá óþekkur en ég var mjög duglegur í skólanum og gerði allt upp á 10. Draumurinn var alltaf að verða læknir. Ég var ekkert að spá í að verða rakari. Ég hafði aldrei áhuga á því.“

Hvað með áhugamálin í æsku? Jú, fótbolti. „Ég var alltaf í fótbolta í frímínútum og eftir skóla. Ég er líka í fótbolta á Selfossi og er mér búið að ganga þokkalega. Ég er samt ekkert alveg ánægður en þetta kemur.“

Ég sá dauða menn

- Auglýsing -

Svo skall stríðið á. Stríðið í Sýrlandi. Mohamed var þá 11 ára. Og lífið breyttist. Allt breytist.

„Ég var 11 ára þegar skólarnir lokuðu og allt fór í steik út af stríðinu.

Ég man alveg eftir því þegar stríðið braust út. Þetta var svolítið skrýtin tilfinning þegar skólar og allt lokaði. Maður gat til dæmis ekki farið út úr húsinu eftir klukkan sjö. Maður heyrði mikið af hljóðum. Pabbi gat ekki unnið lengur. Það var svo mikil hætta. Hann var mjög tæpur einu sinni að fá skot í hausinn. Þetta var svolítið tæpt. Þetta var ekki gaman.

- Auglýsing -

Ég man annars ekki mikið eftir stríðinu af því að við fórum svo snemma eftir að það byrjaði. Ég fylgist voðalega lítið með því núna. Ég nenni ekki að fylgjast með því af því að ég hef ekki einu sinni tíma fyrir það.“

Hann man eftir húsarústum – húsum sem sprengjur höfðu fallið á. „Þar sem afi og amma í ættinni hennar mömmu bjuggu var allt í steik. Það var verið að sprengja lögreglustöðina; þeir voru mest þar. Það voru snæper – leyniskyttur – að fela sig. Þeir voru alltaf að leika sér að skjóta. Menn voru hræddir við að keyra fram hjá. Þetta var voðalega erfitt. Þetta var mjög erfitt. Ég var smá hræddur en maður þroskast strax þegar maður fer í gegnum eitthvað svona. Þegar ég var 11 ára þá fannst mér ég vera eins og tvítugur. Ég sá dauða menn.

Þetta var ógeðslega óþægileg tilfinning. Allir sem voru orðinir 18 ára áttu að fara í herinn og sumir dóu. Foreldrar sumra vita ekki einu sinni af þeim. Þetta er ekki gaman. Núna er Sýrland að reyna að koma sér aðeins í gang en þetta mun taka langan tíma.“

Blóð á götunni

Ættingjar bjuggu í Líbanon og þangað fór fjölskyldan árið 2012 þegar Mohamed var 10 ára.

„Á leiðinni frá Aleppo sá ég blóð á götunni. Ég sá blóð en ég sá ekki manneskjuna sjálfa. Ég vissi að þetta væri dauður maður. Ég hugsaði um það í smástund en svo bara þurfti ég að gleyma því. Það er ekki hægt að hugsa um þetta lengur. Maður á ekki að hugsa um það lengur. Maður getur ekki gert neitt í þessu.“

Fjölskyldan komst til Líbanon og bjó fyrst hjá fóðurbróður Mohamed i Beirút áður en foreldrar hans fundu hús í bæ nokkrum í um klukkutíma akstursfjarlægð frá borginni.

„Mér fannst þetta mjög skrýtið. Mér fannst það ekki vera þægileg tilfinning að fara frá húsinu sem ég ólst upp í og koma sér inn í nýja menningu, nýtt land og nýtt umhverfi. Þetta var svolítið erfitt í byrjun. Við byrjuðum frá núlli eiginlega. Ég var ekki byrjaður að vinna eða neitt. Ég var bara 11 ára. Svo fóru mamma og pabbi að vinna og fengu smá pening og við fengum líka hús og allt þetta. Þetta var smá erfitt. Ég gat ekki verið í fótbolta mikið þar. Ég fór að venjast þessu og átti mikið af vinum. Maður var að reyna að koma sér í nýtt kerfi, nýtt umhverfi. Nýtt fólk. Þetta gekk mjög vel. Þetta var engin breyting fyrir mig. Kannski fyrir mömmu og pabba – þau eru fullorðin. Alltaf þegar maður er að fara frá landinu sínu þá er maður orðinn útlendingur. Samt tölum við sama tungumál og Líbanir. Samt fann maður að maður var ekki frá þessum stað.“

Mohamed segir að fjölskyldan hafi annars haft það mjög gott í Líbanon. „Við lifðum eins og Líbanir.“ Fjölskyldan var þar á skrá sem Sýrlendingar sem höfðu flúið stríðið og fór pabbi hans að vinna við það sama og hann hafði gert í Aleppo.

Mohamed hætti í skóla þegar hann var 14 ára. „Ég gat ekki verið í skóla í Líbanon af því að það var svo ógeðslega dýrt fyrir mömmu og pabba. Mamma og pabbi höfðu ekki efni á því að ég væri í skóla. Það er dýrara eftir því sem krakkar eldast. Mamma og pabbi voru að borga fyrir eina systur mína 2000 dollara á ári. Þetta er eins og að borga milljón á ári fyrir einn nemanda sem er til dæmis í 5. bekk.“

„Það er fólk sem hætti að koma á rakarastofuna þegar það heyrði að ég ynni þar. Það hætti bara að koma. Ég er ekki með sprengjur. Ég var bara 15 ára, sko, þegar ég kom til Íslands.“

Ákveðið var að Mohamed færi til föðurbróður síns í Beirút sem vinnur þar sem rakai. Hann hjálpaði til á rakarastofunni í fyrstu – sópaði gólf og tók til. „Ég var alltaf með fullorðnum mönnum. Ég reyndi að haga mér eins og þeir. Með því að vera hjá frænda mínum þá þroskaðist ég mikið við að vinna svona starf. Ég þurfti alltaf að vera í flottum fötum og hreinn. Alltaf fínn. Og líta vel út. Hann var svolítið harður við mig. Hann keypti föt handa mér. Hann var eiginlega eins og pabbi minn. Hann átti ekki konu. Hann er orðinn 32 ára og ég er alltaf þakklátur fyrir hann. Ég tala meira við hann í dag heldur en mömmu og pabba. Af því að hann kenndi mér það sem ég get lifað af. Hann er enn góður við mig og spyr mig alltaf hvort mig vanti pening. Hann er alltaf til staðar.“

Mohamed segir að rakarastofan hafi oft verið opin eftir miðnætti og mestum tíma sínum varði hann þar. „Við fórum stundum að sofa klukkan þrjú um nóttina og opnuðum daginn eftir klukkan 10. Ég byrjaði þá að taka til og gera allt tilbúið á stofunni. Ég lét svo mömmu og pabba fá launin sem ég fékk. Ég þurfti ekki neitt. Frændi minn borgaði allt fyrir mig; matinn, fötin og allt sem mig langaði í.“

Mohamed vinnur nú á rakarastofu á Selfossi og ætlar að klára sveinsprófið. „Ég er að læra þetta núna í Fjölbraut og á eitt ár eftir og svo fer ég í Tækniskólann í Reykjavík. Mér finnst vera mjög skrýtið að læra að klippa með því að lesa bækur; það er ekki hægt nema út af einhverju sjampódæmi og einhverri efnafræði. Frændi minn leyfði mér að fara að klippa krakka þegar ég var búinn að vera hjá honum í um eitt ár. Það fór smá í steik fyrst. Svo prófaði ég áfram og varð aðeins betri. Ég var 13 ára þegar ég byrjaði að vinna sjálfur – að klippa heilan haus og skegg og gera þetta alveg upp á 10. Ég fékk eiginlega mjög góð laun eins og núna. Og maður þurfti ekki að klára neitt sveinspróf.“

Þau urðu sex í fjölskyldunni í Líbanon þar sem yngta systkinið, drengur, fæddist þar.

Til Íslands

„Það var leiðinleg tilfinning að vita af ástandinu í Sýrlandi. Húsið okkar í Aleppo varð fyrir sprengju. Við vorum alls ekki ánægð. Okkur leið dálítið illa. En við hættum að spá í það. Við vorum ekki að spá í að búa í Líbanon lengur. Planið var alltaf að fara heim eftir stríðið. Við vorum ekki að spá í að fara til útlanda „í gegnum sjóinn“ til Evrópu,“ segir Mohamed og á þar við hælisleitendur sem velja að fara sjóleiðina á litlum bátum. „Svo hætti ég að spá í Sýrlandi. Mér leið bara illa. Maður þurfti að halda áfram og gera eitthvað.

Við vorum skráð hjá UNICEF af því að það þurftu allir að skrá sig. Og mamma og pabbi fengu barnabætur hjá þeim af því að þau áttu svo stóra fjölskyldu. Við fengum smá pening.“

Svo var hringt í foreldra hans.

„Okkur var fyrst boðið að fara til Ameríku. Ég held það hafi verið 2015. Mamma og pabbi sögðu að við hefðum það mjög gott og að við værum ekkert að spá í þetta. Við vorum alls ekki að spá í að fara til útlanda. Það var nóg fyrir okkur að fara frá Sýrlandi. Svo var hringt í okkur frá Íslandi og mamma og pabbi sögðu „nei, við erum ekkert að spá í þetta“. Við gátum verið áfram í Líbanon; okkur var boðið til Íslands. Það var hringt frá Íslandi, fattarðu. Svo var hringt í þriðja skipti og pabbi sagði að þau ætluðu aðeins að hugsa þetta og sagði að þau myndu hringja þegar þau væru tilbúin. Svo ákváðu mamma og pabbi að breyta til og gera eitthvað nýtt og þau vildu prófa en það endaði svolítið illa. Það var voðalega gott að vera í Líbanon og ég vildi aldrei fara og koma hingað. Ég er manneskja sem finnst ekki gaman að ferðast mikið. Mig langar ekki mikið að ferðast á milli. Maður er búinn að byggja upp en svo er alltaf farið frá þeim stað; það er svolítið erfitt. Ég var búinn að vera að vinna og eignast mikið af vinum og allt þetta. Ér réð ekki neinu. Ég fór frá Líbanon þegar ég var 15 ára en mamma og pabbi ákváðu svo að fara til Íslands. Núna er ég hérna. Mamma og pabbi vildu gera eitthvað nýtt. Það var ekkert annað. Við þurftum ekki á því að halda.“

Mohamed segist ekkert hafa vitað um Ísland áður en boðið kom. Það var gúgglað til að kynnast landinu. Landi og þjóð. „Við horfðum á myndir. En þegar myndir eru gúgglaðar þá kemur það flottasta. Sólskin og gott veður.“ Svo var lent í Keflavík í september árið 2017. „Mamma grét á leiðinni til Selfoss. Hún sá bara hraun og ekkert var eins og hún var vön. Það var ekki akkúrat veðrið. Ekki ferðaveður. Mamma er stundum eins og 15 ára stelpa. Ég var næstum því farinn að gráta líka.

Í byrjun vorum við aðeins að reyna að venjast. Þetta var skrýtið fyrir pabba. Það var allt eins. Maður vaknaði og gerði ekki neitt. Við áttum ekki bíl eða neitt. Við vorum að reyna að byggja okkur upp. Fyrst var þetta smá erfitt fyrir mig. Ég hélt ég myndi eiga erfitt með að eignast vini. En þetta er búið að ganga ótrúlega vel. Núna er ég ekkert að spá í þetta. Ég á fullt af vinum.

Ég fór í skóla, 9. bekk, og byrjaði að læra íslensku. Ég hugsaði að ef ég ætla að vera hérna þá verð ég að læra tungumálið og ef ég ætla að vinna þá verð ég að læra tungumálið og ná þessu alveg 100%. Ég byrjaði að læra íslensku og horfði á myndbönd og fór á æfingar og hlustaði á hvernig þjálfarinn talar og hreiminn. Það segja flestir við mig að ég sé ekki með hreim,“ segir Muhamed en hann hefur ótrúlega gott vald á íslenskunni eins og þegar hefur komið fram.

Mohamed fór að vinna á Rakarastofu Björns og Kjartans á Selfossi þegar hann var 16 ára og er þar núna nemi. Kjartan og Ingunn, kona hans, tóku síðar Mohamed í fóstur og er hann núna einn af fjölskyldunni.

Mér leist ekkert á þetta

Foreldrum Mohamed leið ekki vel á Íslandi og eftir um eitt ár ákváðu þeir „að fara og gera eitthvað annað“. „Þau höfðu ekkert unnið hérna og fengu fjárhagslega aðstoð frá hinu opinbera sem kvótaflóttamenn. Og ég fór með þeim til Hamborgar í Þýskalandi. Mér leist ekkert á þetta. Ég var kominn í fótbolta hér og var í vinnu og skóla. Ég var kominn á fyrstu önn í fjölbraut; ég tók fyrstu önn hér og svo fór ég.

Ég var í Þýskalandi í hálft ár. Frænka mín býr þar. Við vorum hjá henni. Ég fór ekki mikið út úr húsi. Maður þekkti ekki neitt. Ég var eiginlega alltaf heima. Þetta var erfitt tungumál, þýska.

Kjartan var alltaf í sambandi við mig; hann vildi fá mig aftur til að vinna hjá sér. Ég talaði við mömmu og pabba og sagði að ég vildi hugsa um sjálfan mig út af því að þau voru ekki alveg viss hvað þau vildu gera. Mamma og pabbi vilja alltaf breyta til og það leist mér aldrei á. Ég vissi að ég ætti flotta framtíð og gæti unnið við þetta starf hvar sem er. Þegar ég ákveð að gera eitthvað þá geri ég það og ég vil vera betri en hinir. Það var planið að koma hingað. Ég vildi fara að vinna aftur og hitta vini mína og allt þetta.

Ég ákvað að fara aftur til Íslands og ég kom aftur einn í júní 2019. Ég er búinn að vera hjá Kjartani og Ingunni núna í næstum því tvö ár eiginlega. Þau eru núna eiginlega eins og mamma og pabbi. Þetta er mjög gott fólk. Mamma og pabbi Kjartans eru eins og amma og afi minn og ég kalla þau ömmu og afa. Ég á ekki afa en ég á tvær ömmur en ég hef svo lítið samband við þær. Þannig að mér líst mjög vel á þetta.“

Foreldrar Mohamed fóru svo frá Þýskalandi og búa núna í Tyrklandi þar sem þau vinna. „Ég veit ekki hvað þau ætla að gera. Ég tala svo sjaldan við þau. Ég bara hef ekki tíma. Það er svo ógeðslega mikið að gera hjá mér í skólanum, á fótboltaæfingum og í vinnunni.“

„Við vorum alls ekki að spá í að fara til útlanda. Það var nóg fyrir okkur að fara frá Sýrlandi. Svo var hringt í okkur frá Íslandi og mamma og pabbi sögðu „nei, við erum ekkert að spá í þetta“.

Borðar ekki hrútspunga

Það er augljóst að Mohamed líður vel. Hann virkar hamingjusamur.

„Mér líður miklu betur en áður. Ég hef eignast allt sem mig langar og ég er búinn að vera að læra og vinna. Ég kaupi allt með eigin peningum.“

Honum þykir vænt um Ísland. Sérstaklega Selfoss. Og honum þykir vænt um nýju fjölskylduna sína. Íslensku fjölskylduna.

„Kjartan og Ingunn eru svo gott fólk. Mér þykir vænt um þau. Ég bý í bílskúrnum þeirra en ég bjó í eitt ár í húsinu hjá þeim.“

Íslenskukunnáttan ber á góma. Mohamed segir að sumum finnist vera skrýtið hvað hann hafi náð góðum tökum á tungumálinu eftir svona stuttan tíma. „Ég ákvað að verða betri en allir hinir. Ég ætla að rústa þessu.“ Hann brosir. „Í íþróttum er maður alltaf með markmið; þú verður að ná markmiði. Og markmiðið er að vera betri en allir hinir. Fattarðu? Ég ætla bara að reyna eins langt og ég get.“

Hann segist ekkert vera að spá í Sýrlandi eins og þegar hefur komið fram. Segist ekki nenna því lengur. „Fólk reynir að spyrja um Sýrland en ég reyni að losa mig undan því. Ég nenni ekki að tala um það. Það er fólk sem veit ekki neitt um þetta en vill spá og vita. Ég reyni bara strax að snúa mér út úr.“ Hann kímir. Og tala um eitthvað annað? „Já.“

Sýrlensk menning er ólík þeirri íslensku. „Þú veist að ég er múslími. Ég er ennþá að biðja og geri allt sem á að gera. Ég á að biðja fimm sinnum á dag en ég get ekki gert það svo oft. Þegar ég er búinn í vinnunni fer ég heim, fer í sturtu, hreinsa mig og geri allt fínt. Þá fer ég að biðja og lesa einhverja bók sem ég á að lesa. Mér líður ógeðslega vel eftir það. Ég fer svo að biðja og geri það sem á að gera. Það er skylda að gera það. Það halda sumir að þetta sé strangt,“ segir hann og á við Íslam. „Þetta er alls ekki þannig. Sumir þurfa að læra meira um trúarbrögð. Þetta er ekki flókið; maður á ekki að ljúga, maður á ekki að stela og maður á að gera allt upp á 10. Annars fer allt í steik hjá manni.“

Hann talaði um „einhverja bók“ og á þar auðvitað við Kóraninn.

„Hefur þú lesið þá bók?“ spyr hann.

Blaðamaður segir svo ekki vera.

„Ég var að klára 450 blaðsíður af þessari bók.“

Hann stendur upp og nær í Kóraninn.

„Þetta er í fyrsta skipti sem ég les bókina alveg. Mér leið svo vel á eftir. Kóraninn er eldgömul bók. Sumir þurfa að lesa þessa bók og átta sig á af hverju við erum múslímar. En ég má ekki tala um eitthvað sem ég veit ekki. Ég má ekki tala um það af því að ég veit ekkert hvernig á að útskýra fyrir fólki af því að ég kann ekki einu sinni að útskýra það á mínu tungumáli af því að ég er ekki búinn að læra það. Þetta er alveg nám. Þetta er 10 ára nám held ég til að útskýra það. Það má ekki bara útskýra eitthvað bull. Það er algerlega bannað.“

Mohamed er spurður hvort hann hafi orðið fyrir fordómum á Íslandi vegna trúar sinnar. „Það er fólk sem hætti að koma á rakarastofuna þegar það heyrði að ég ynni þar. Það hætti bara að koma. Ég er ekki með sprengjur. Ég var bara 15 ára, sko, þegar ég kom til Íslands. Ég er ekki að segja að það séu bara Íslendingar sem séu svona. Þetta er út um allan heim. Þetta er fólk sem heldur að það sé klárara. Það er alls ekki klárt. Það hefur ekki lært um neitt. Það hefur ekki áttað sig á því hvernig trúin er eða af hverju við erum múslímar. Það heldur að múslímar séu að sprengja eins og sýnt er í sjónvarpinu. Hvað heitir þetta?“

ISIS.

„Já, það er ekki Íslam,“ segir hann með áherslu. „Ég verð bara að segja það. Pabbi átti kristna vini í Sýrlandi og ég fattaði fyrir tveimur árum að þeir væru kristinnar trúar. Við vorum aldrei svona. Við spáðum aldrei í svona í Sýrlandi. Það var ekki svoleiðis. Það voru allir saman í kirkjunni og allir saman í moskunni. Það var ekkert verið að spá í eitthvað svona. Við hugsum aldrei um fordóma. Við hugsum um að við séum öll ein fjölskylda. Ekkert annað. Það þarf að læra svona.“

Kynna sér hlutina.

Hann talar um hátíðir múslíma og segist fara í mosku í Reykjavík eftir Ramadan. „Það er smáhátíð. Annars þegar maður býr í einhverju landi á maður að gera það sem fólk þar gerir og taka þátt. Núna tek ég þátt í þessu öllu saman,“ segir hann um íslenskar hátíðir. „Ég verð ekki að gera það en mér finnst gaman að vera með. Það væri einhvern veginn leiðinlegt ef ég væri ekki með, sérstaklega þegar ég bý hjá íslenskri fjölskyldu sem er að verða fjölskyldan mín. Konudagur, páskar og þorrablót. Ég var á þorrablóti í fyrra. Þetta var svolítið skrýtið. Ég var yngstur þarna. Ég dansaði við fullt af konum 50+. Og ég kann ekkert að dansa.“ Hann kímir. „Ég fékk mér hrútspunga. Það fannst mér ógeðslegt. Ég verð að segja það. Þetta var eins og plast. Ég fann ekkert bragð af þessu. Kjartan plataði mig til að fá mér og ég ætla aldrei að fá mér aftur hrútspunga. Hann ætlaði líka að plata mig til að fá mér hákarl en ég sagði nei takk. Lyktin af þessu er ekki í lagi. Ég fékk mér bara einu sinni. Og ég ætla aldrei að gera það aftur.“

Hann borðar hangikjöt „Mér finnst það mjög gott með hvítu sósunni,“ segir hann og á við uppstúf. „Ég fæ mér hangikjöt á annan í jólum.“

Mohamed segist borða allan íslenskan mat nema hrútspunga.

Hann er spurður hvort hann borði stundum arabískan mat. „Ég fékk arabískan mat hjá fjölskyldu á Íslandi og fékk í magann. Maginn er búinn að venja sig á ákveðið mataræði.“ Það er íslenskur matur.

Tónlist berst í tal. Íslensk tónlist. „Ég hef mjög gaman af Gumma Tóta og Ingó. Mér finnst gaman að hlusta á Bubba Morthens, Helga Björns og alla þessa menn. Toppmenn. Ég nenni ekki að hlusta á íslenskt rapp. Mér finnst það alveg glatað. Ég verð að segja það.“

Sýrlendingurinn Mohamed sem elskar Ísland og sérstaklega Selfoss veit hvað hann vill.

„Ég ætla að vinna og kaupa mér hús hérna á Selfossi. Í miðbænum. Í nýja miðbænum. Vonandi einhvern tímann.“

Tíminn líður og það styttist í að Muhamed þurfi að mæta á fótboltaæfingu í Hveragerði.

Við kveðjumst en fyrst er honum þó sagt að hann fái viðtalið til yfirlestrar svo allt verði á hreinu þegar það svo birtist.

„Það væri geggjað.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -