Miðvikudagur 15. janúar, 2025
6.8 C
Reykjavik

Natalya Baburina frá Úkraínu: „Meðan á símtalinu stóð lenti sprengja á húsi um 50 metrum frá honum“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Hræðsla, reiði; mikil reiði. Ég var hamslaus. Ég var líka áhyggjufull, hjálparvana og sorgmædd og svo líka þakklát og full aðdáunar og trausts og það róaði mig,“ segir Natalya Baburina, sem er frá Úkraínu og er komin hingað til lands, þegar hún er beðin um að lýsa tilfinningunum eftir að Rússar réðust inn í Úkraínu.

Natalya, sem bjó í borginni Kharkiv og vann hjá tölvufyrirtæki, flúði á öðrum degi stríðsins. Lífleg borgin varð allt í einu hálfmannlaus og sá Natalya flugskeyti á himni. Hún fór ásamt syni sínum en eiginmaður hennar varð eftir en hjónin tóku þessa ákvörðun eftir að Rússar gerðu árás á kjarnorkuver í borginni Enegrodar. „Maðurinn minn hringdi í vini sína á Íslandi og bað þá um að hjálpa okkur og hýsa okkur. Ég keypti flugmiða tveimur dögum áður en við fórum til Íslands og fór maðurinn minn með okkur að landamærum Ungverjalands. Við mæðginin kvöddum hann þar, við grétum öll svolítið og fórum síðan yfir landamærin. Það voru ekki margir Úkraínumenn að flýja þennan dag yfir landamærin þannig að þetta gekk vel og við hittum mjög elskulegan sjálfboðaliða, Beata, frá Búdapest og hún aðstoðaði okkur síðan við að komast á flugvöllinn. Við gistum eina nótt í skóla í Tisabetch, þar sem fleiri í okkar stöðu gistu, og daginn eftir fór Beata með okkur til Búdapest og við gistum á heimili mömmu hennar nálægt flugvellinum. Það var ótrúlegt að sjá hve margir voru hjálplegir í Ungverjalandi en þetta var hinn almenni borgari sem skipulagði þetta; ekki hið opinbera. Fólk dvaldi einungis í einn til tvo daga í svona flóttamannamiðstöðvum og sáu sjálfboðaliðar um að skipuleggja hvert fólk gæti svo farið.“

Meðan á símtalinu stóð lenti sprengja á húsi um 50 metrum frá honum og særði fólk.

Natalya segir að á ferð fjölskyldunnar hafi þau hitt marga úkraínska hermenn svo virkuðu sjálfsöruggir, kurteisir og þeir voru að hennar sögn mjög hjálpsamir. „Ég talaði á þessum tíma við bróður minn í síma, en hann var eftir í Kharkiv, og meðan á símtalinu stóð lenti sprengja á húsi um 50 metrum frá honum og særði fólk. Hann lýstu þessu öllu fyrir mér. Hann hefur sagt mér frá fleiri álíka atburðum í borginni.“

Natalya og sonur hennar komu svo í öryggið á Íslandi.

Natalya Baburina

Gefur pening

- Auglýsing -

Móðir og bróðir Natalya eru í Kharkik og segir hún að þau hafi frá upphafi stríðsins verið ákveðin í að vera þar áfram og gera það sem þau geta til að aðstoða. „Mamma sér um heimilislausa ketti og bróðir minn er leigubílstjóri og hann aðstoðaði fólk við að komast á járnbrautarstöðina þar sem það tók lestir til að komast í burtu. Við hjónin vildum að bróðir minn fengi annan bílinn okkar þar sem leigubílastöðvar buðu upp á akstur í vesturátt og ég lét bróður minn fá nöfn mæðra sem voru á hinum ýmsu foreldraspjallhópum en það var mikið vandamál með leigubílstjóra þar sem fáir vildu aka fólki sem bjó á svæðum þar sem hættulegast var að vera og sumir þeirra vildu taka allt of hátt gjald. Ég vona þess vegna að við höfum hjálpað einhverjum konum og börnum fyrstu vikurnar.“ Natalya segir að bróðir sinn eigi vin sem er í hernum og særðist hann í átökunum og dvelur hann nú hjá bróður hennar og móður á meðan hann er að jafna sig þar sem íbúð hans eyðilagðist í sprengingu. „Ég les skilaboð frá bróður mínum á hverjum morgni.“

Við viljum fara aftur heim og byggja upp heimili okkar og borg.

Natalya vinnur við að aðstoða föðurlandið. Hún og fleiri foreldrar barna í skólanum sem sonur hennar gengur í gefa pening til hjálpar þeim sem eru úti en margir Úkraínumenn leggja fram fé til að hægt sé að kaupa meðal annars ökutæki og dróna sem notaðir eru í baráttunni gegn Rússum. „Við viljum fara aftur heim og byggja upp heimili okkar og borg. Ég er mjög þakklát úkraínskum hermönnum og sjálfboðaliðum sem leggja sig í hættu við að vera drepnir. Þetta eru hetjur. Og ég er mjög ánægð með að geta aðstoðað á þann hátt að leggja til pening. Ég vann í tölvufyrirtæki og stór hluti viðskiptavina þess hjálpar líka Úkraínumönnum. Þeir gefa pening, gera nýja samninga við fyrirtækið og halda samstarfinu áfram þrátt fyrir ástandið í Úkraínu.“

 

- Auglýsing -

Hatar Rússland

Natalya segist hafa óttast innrás Rússa frá því í fyrrasumar.

„Við hjónin höfðum það sterklega á tilfinningunni að borgin okkar færi illa vegna innrásar Rússa. Borgin er mjög falleg, nútímaleg og þar býr margt vel menntað fólk. Við þóttumst vita að Rússar myndu vilja eyðileggja allt þetta.“

Mér fannst vera kuldalegt og fjandsamlegt þar.

Natalya fæddist í Sovétríkjunum árið 1984. „Ég hataði að tilheyra Sovétríkjunum. Þá byggðist allt upp á lygi, misbeitingu og niðurlægingu fólks. Það var erfitt um tíma að búa í Úkraínu þar sem hagkerfið var eyðilagt og verðbólga var gífurleg og þá var betra að búa í Rússlandi enda fluttu þangað margir. Ég var í Moskvu árið 1991 og ég var ekki ánægð þar. Mér fannst vera kuldalegt og fjandsamlegt þar og þar var mikið um glæpi. Á þeim tíma dreymdi mig um að Úkraína yrði auðugt land.“ Rússar fóru svo að skipta sér af pólitíkinni í Úkraínu og segir Natalya að síðan þá hafi hún engan áhuga á Rússlandi og að í dag hati hún það land svo mikið að hún vilji ekki að það sé á yfirborði jarðar. „Frá árinu 2000 hef ég séð hvernig Rússar hafa snúið sér aftur að hryllingnum og áróðursstarfseminni sem tilheyrði Sovétríkjunum.“

Hve langt heldur hún að Pútín muni ganga? „Ég held hann geti náð langt með því að hóta kjarnorkusprengju. Þeir taka yfir kjarnorkuver í Úkraínu og beita þannig þrýstingi og ég er hrædd um að heimskulegir tilburðir þeirra muni leiða til hörmunga.“

Alræðisvald er orð sem Natalya notar yfir Rússland. „Pútín er einungis núverandi leiðtogi. Það gætu aðrir tekið við sem notuðu sömu taktík. Það er ekki satt að Rússar séu almennt saklausir en ættingjar mannsins míns og margir Rússar sem við þekkjum eru á því að Úkraína eigi að tilheyra Rússlandi. Þetta tengist því að Úkraína sé auðlind fyrir Rússa. Þetta er heimsveldishugsun og jafnvel frjálslyndir Rússar eru á þessari skoðun.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -