Miðvikudagur 25. desember, 2024
-2.2 C
Reykjavik

Ólöf var kosin forseti Ferðafélags Íslands eftir miklar deilur: „Auðvitað er þetta áskorun“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Ólöf Kristín Sívertsen lýðheilsufræðingur var kosin forseti Ferðafélags Íslands í mars eftir miklar deilur innan félagsins. Hún nýtur þess að ganga reglulega á fjöll og annars staðar enda upplifir fólk margt á göngu. „Það að finna ilminn af gróðrinum er alveg stórkostlegt. Skilningarvit manns verða einhvern veginn næmari; ég tala nú ekki um ef fólk er í nokkurra daga ferð. Það nær betri tengingu og skynjar betur náttúruna og umhverfið. Og þegar hefur rignt þá er þessi skynjun enn sterkari.“

 „Það var mikill heiður að það skyldi hafa verið leitað til mín og ég beðin um að bjóða mig fram til forseta Ferðafélags Íslands. Það eitt og sér var mikil traustsyfirlýsing til mín og fyrir það er ég afskaplega þakklát og geng auðmjúk og glöð í það verkefni,“ segir Ólöf Kristín Sívertsen lýðheilsufræðingur sem var í mars kosin forseti Ferðafélags Íslands. „Auðvitað hugsaði maður sig aðeins um þar sem þetta er svo stórt verkefni. En það sem Ferðafélagið er að gera og þau gildi sem það stendur fyrir samræmast mjög vel mínum eigin gildum. Ég er nefnilega kennari í grunninn og er síðan með meistaragráðu í lýðheilsufræðum og starfsemi Ferðafélagsins smellpassar við það.“

Ólöf Kristín er spurð hvernig hafi verið að taka við stöðu forseta félagsins í kjölfar fyrrnefndra deilna.

„Það er að sjálfsögðu svolítið sérstakt. Ég hafði setið í stjórn Ferðafélags Íslands í þrjú ár áður en þetta kom allt saman upp. En auðvitað er þetta áskorun. Og það er ekkert sjálfgefið að maður gefi kost á sér í slíkt. Þótt þetta sé sjálfboðaliðastarf þá er þetta opinber staða í samfélaginu.“

Ólöf Kristín segir að þetta hafi verið virkilega erfiður tími. „Það er ótrúlega leitt að málin skyldu þróast á þennan veg en við teljum að við höfum gert allt sem við gátum til þess að leysa þessi mál á farsælan hátt. Og auðvitað setti þetta líka mark sitt á félagið og umræðuna. En það sem gaf okkur síðan byr undir báða vængi var félagsfundur sem var haldinn í kjölfarið en þar fékk þáverandi stjórn afgerandi stuðning frá félagsfólki sem samþykkti traustsyfirlýsingu til hennar. Það var okkur mjög dýrmætt veganesti fyrir framhaldið. En auðvitað er það ekkert óeðlilegt í svona fjölmennu félagi eins og Ferðafélagi Íslands er, með um 11.000 félagsmenn, að það séu ekki allir alltaf á eitt sáttir. Við erum að sjálfsögðu alltaf opin fyrir ábendingum um okkar starf og hvað við getum gert betur. Félagið og stjórn félagsins er náttúrlega á engan hátt yfir gagnrýni hafin og starfsemin þarf sífellt að þróast í takti við samfélagið. Hins vegar horfum við nú björtum augum til framtíðar og þeirrar spennandi uppbyggingar sem er fram undan.“

Viðtalið við Ólöfu Sívertsen má lesa í heild sinni á blaðsíðu 14 í nýjasta tölublaði Mannlífs:

- Auglýsing -

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -