Föstudagur 10. janúar, 2025
0.8 C
Reykjavik

Opinská Þórunn Jarla: „Léttir að amma var með sífílis en ekki heilarýrnun, geðveiki eða alzheimer“.

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Bærinn brennur“ er nýjasta bók Þórunnar Jörlu Valdimarsdóttur og hún segist ekkert vera að slást í jólabókaslagnum. „Hún er aðra vikuna í röð í 3. sæti á metsölulista yfir allar bækur. Ég veit eftir 26 bækur að bækur ganga allavegana,“ segir rithöfundurinn sem segist vera með átta bækur í legvatninu; ekki farvatninu. Hún ver almennt um fjórum tímum á dag í skapandi vinnu svo sem að skrifa bækur eða jafnvel baka brauð.

Þórunn, sem gengur í gúmmískóm til að ná jarðsambandi og sem eru tveimur númerum of stórir til að hún geti hreyft tærnar, segir í Mannlífinu með Reyni Traustasyni.

„Ég er hálfur Önfirðingur,“ segir hún og talar fyrst um föðurættina. „Það er voða smart. Ég þekki alveg Vestfirðinga úr; þeir eru alltaf til. Þeir eru fjörugir strax. Pabbi er frá Mosvöllum þar sem var sýslumannssetur. Ég held að fjallið komi aldrei með skugga þar. Og þetta er stærsta undirlendi á kjálkanum sem er ekki kjálki; þetta er höfuð. Pabbi var mikill töffari og átti 12 börn sem við vitum um með tveimur konum og lærði flugumferðarstjórn í Oklahoma á meðan ég var inni í mömmu. Hann varð yfirflugumferðarstjóri að lokum.

Mamma er Reykvíkingur og mamma hennar þannig að ég er með einn fínan borgaralegan kvenlegg. Ég held að það sé hluti af sjálfstraustinu. Þau hittust úti í Engey, langafi og langamma, og bjuggu á Laugavegi og svo Baldursgötu 30.“

Gúmmískórnir eru til að tryggja jarðsambandið. Mynd: Róbert Reynisson,

 

 

- Auglýsing -

Afi hennar ku hafa smitað ömmu hennar af sífílis.

„Já, það er svo hryllilegt þetta neðanmittismál. Amma var á farsóttarhúsinu þegar ég var lítil og fór að heimsækja hana. Mamma virðist ekki hafa vitað af þessu af því að hún hafði áhyggjur af því að eitthvert okkar systkinanna myndi bilast í höfðinu eins og mamma hennar. Það er 3. stigs sífílis þegar það fer í höfuðið. Jón Sigurðsson fékk aldrei 3. stig. Ég skammast mín og roðna þegar ég tala um þetta.“

Þórunn segir að það þurfi að hafa það uppi á borðinu að amma hennar, nafna hennar, hafi verið með sífílis en ekki heilarýrnun, geðveiki eða alzheimer. „Af því að hún var ung þegar hún fékk þetta þá létti það álagi og áhyggjum mömmu. Sannleikurinn gerir ykkur frjálsa og lyftir af okkur alls konar bulli sem lygi og yfirbreiðsla skapar.“

Mamma virðist ekki hafa vitað af þessu af því að hún hafði áhyggjur af því að eitthvert okkar systkinanna myndi bilast í höfðinu eins og mamma hennar.

- Auglýsing -

Tíminn leið og rithöfundurinn tilvonandi óx úr grasi. Hún segist hafa farið kornung með vinkonu sinni, Fríðu, til Mexíkó. „Hún vildi læra vefnað. Ég fór í listaháskóla. Það var gott að losna við íslenska drauga og það leysti mig mikið úr læðingi,“ segir hún um frjálsræðið sem hún kynntist á þessum tíma í hitanum.

Hún hóf síðar nám í sagnfræði við Háskóla Íslands og þar kynntist hún samnemanda sínum, Eggerti Þór Berharðssyni. „Við vorum skotin en ég var treg af því að hann var bæði lágvaxnari og yngri en ég. Svo vorum við á Hótel Borg og þá tosaði hann í fléttuna á mér aftan frá og við byrjuðum að dansa og dönsuðum í 34 ár.“

Hjónin voru samrýmd. „Það er ótrúleg gjöf að eiga lífsförunaut í sama fagi. Þá hefur maður alltaf eitthvað að spjalla um.“ Hún nefnir líka gagnkvæma aðstoð í faginu.

Eggert lést á gamlársdagsmorgun fyrir sjö árum síðan.

„Hann vann allt of mikið og var með læknafælni á háu stigi. Hann var með kvef á milli jóla og nýárs og ég vildi að hann færi til læknis. Hann sagði fólki uppi í Árnagarði að hann ætlaði til læknis eftir áramót. Þetta er feigð.“

Ég lærði hvað það er gott að vera einn.

Þórunn segir að sorgin hafi dýpkað sig. „Ég lærði hvað það er gott að vera einn. Það er extra friður í einverunni sem ég hef lært að meta.“

Hvað með dauðann? „Kom þú sæll, þá þú vilt.“

Hún neitar því ekki að hún sé bún að finna ástina aftur.

„En þar sem ekki er búið að opinbera þá er það ekki opinbert.“

Podcastviðtalið við Þórunni Jörlu í Mannlífinu er að finna hér.

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -