„Ég er með dauðahugsanir á hverjum degi og langar bara að deyja,“ segir Einar Ágúst Víðisson tónlistarmaður í forsíðuviðtali við nýútkomið Mannlíf. Einar Ágúst segir frá lífshlaupi sínu af einlægni og dregur ekkert undan. Hann segist hafa tekist á við þunglyndi og kvíða frá því að hann var krakki. Ótta. Hræðslu. Óöryggi.
„Ég nenni þessu ekki. Ég er bara kominn með nóg. Ég er mjög brotinn og er ekki á besta stað í lífinu, en ég næ edrútímum og ég næ flugi og svo grípur kvíðinn og þunglyndið inn í sem og verkirnir og ég fer niður brekku. Svo endar það með því að ég fæ mér Baileys í kaffið eða reyki eina jónu og svo upp á vagninn aftur. Það er þessi leiðindahringur í lífi mínu sem ég er orðinn svo þreyttur á,“ segir hann.
Langvarandi sársauki er ofboðslega erfiður
Hann er spurður hve lengi svona þunglyndistímabil standi yfir. „Vikur. Mánuði. Ár. Ég hef alveg tekið nokkur ár. Þetta er bara viðbjóður. Ég er ekkert á sérstaklega góðum stað í lífinu andlega og má við rosalega litlu.“
Er Einar Ágúst hættur að drekka?
„Nei, ég fell. Ég hef náð einhverjum tíma og svo kemur í bakið á mér kvíðinn og þunglyndið og svo er ég mikill verkjasjúklingur og það er ofboðslega erfitt að díla við hluti eins og þunglyndi, kvíða og alla sína bresti ef maður finnur til. Langvarandi sársauki er ofboðslega erfiður. Ég hef stúderað mikið þennan mannlega breyskleika. Einhver sakaði mig um að vera narkissisti en ég finn svo ofboðslega til með öðrum þannig að ég krossa ekki í það box. Ég hef verið að reyna að finna sjálfan mig. Bróðir minn er sálfræðingur og hann sagði að ég væri með dass af öllu og það talsvert. Ég hef spurt sjálfan mig hvort ég sé geðveikur, sækópati, siðblindur eða narkissisti.“
Viðtalið í Mannlífi er að finna hér. Þeir sem vilja hlusta á Einar Ágúst í Mannlífinu með Reyni Traustasyni finna þáttinn hér.