Þriðjudagur 24. desember, 2024
0.8 C
Reykjavik

Rakel: „Ég á langa og erfiða fjölskyldusögu í tengslum við krabbamein og tek ekki þessa áhættu“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Ég er sérleg áhugamanneskja um breytingaskeiðið og 45 ára var ég byrjuð að huga að því hvernig best væri að undirbúa sig fyrir það. Við förum allar, reyndar öll, í gegnum breytingaskeiðið á einhverjum tímapunkti en það er mismunandi hvernig það hittir okkur,“ segir Rakel Fleckenstein Björnsdóttir, jóga- og qigongkennari, sem ætlar að fræða okkur aðeins um nálgun hormónajóga á breytingaskeiðið.

Upplýsingarnar sem liggja fyrir eru takmarkaðar

Sumar konur skauta léttilega í gegnum það á meðan aðrar eru undirlagðar. Þær eru óteljandi sögurnar af konum sem upplifa hræðilega tíma, miklar breytingar og í langan tíma, allt upp í 12 ár. Upplýsingarnar sem fyrir liggja um möguleg einkenni breytingaskeiðsins eru mjög takmarkaðar. Einkennin eru nefnilega mun fleiri en okkur grunar.

Ég á langa og erfiða fjölskyldusögu í tengslum við krabbamein og tek ekki þessa áhættu.

„Og úrræðin eru fá, annaðhvort bítur þú á jaxlinn, mögulega í 12 ár, eða tekur inn hormónalyf með öllum þeim aukaverkunum sem þeim fylgja. Þetta síðara hugnaðist mér ekki. Ég á langa og erfiða fjölskyldusögu í tengslum við krabbamein og tek ekki þessa áhættu. Ég er samt alls ekki á móti hormónalyfjum. Sumar þurfa á þeim að halda í einhvern ákveðinn tíma og hormónajóga getur svo hjálpað þeim að komast af lyfjunum.  Hormónajóganu fylgja engar þekktar aukaverkanir, bara bætt heilsa og ávísun á yndislegt breytingaskeið.“

Fór til Þýskalands til að læra fræðin

Rakel hefur alltaf stundað einhverjar íþróttir og verið meðvituð um heilbrigt líferni. Lengi vel æfði hún sund en svo tók jógaáhuginn við og átti hug hennar, sem og lífsorkuæfingarnar qigong.

Ég er eini kennarinn á Íslandi sem hef réttindi til að kenna hormónajóga

- Auglýsing -

„Árið 2018 frétti ég af hormónajóga og höfundi þess Dinah Rodrigues frá Brasilíu og fór til Þýskalands og nam fræðin hjá henni. Í kjölfarið þýddi ég og gaf út bók eftir Dinah um hormónajóga fyrir konur á breytingaskeiði og byrjaði að kenna í janúar 2019. Nemendur mínir skipta hundruðum og árangur þeirra sem halda áfram og sýna þolgæði er alveg magnaður. Ég er eini kennarinn á Íslandi sem hef réttindi til að kenna hormónajóga.“

Margir sofa allt of lítið og státa sig jafnvel af því

Rakel útskýrir fyrir okkur að Landlæknir ráðleggi fólki að hreyfa sig í 30 mínútur á dag til að bæta svefn. Svefninn skiptir okkur öllu máli. Margir sofa allt of lítið og státa sig jafnvel af því. Þetta er kolröng þróun og mikilvægt að snúa þessu við. Eitt það fyrsta sem fólk finnur fyrir þegar það stundar hormónajóga er bættur svefn. Um leið og svefninn lagast og svefngæðin verða betri verðum við andlega sterkari og þá tekst okkur betur að takast á við dagleg verkefni og gera það sem þarf.

Það er eiginlega alveg sama hvað við gerum, ef við ekki slökum á inni á milli og drögum úr streitu, þá virkar ekkert annað.

- Auglýsing -

„Í hormónajóga þarf þolgæði. Það er ekki pilla sem tekin er inn og það er heldur ekki eins skiptis lausn. Hormónajóga er æfingar sem þarf að gera reglulega, helst daglega og helst á morgnana. Seinnipart dags eða á kvöldin gerum við svo slökunaræfingar og náum okkur niður eftir daginn. Það er mjög mikilvægt að geta slakað á. Ef maður kann það ekki þá þarf maður að læra sérstakar æfingar til þess. Það er eiginlega alveg sama hvað við gerum, ef við ekki slökum á inni á milli og drögum úr streitu, þá virkar ekkert annað. Hormónjóga, og qigong fyrir konur, kemur sterkt þar inn.“

Áherslan er lögð á að draga úr streitu

Hormónajóga er meðferðarform, ákveðin æfingaröð sem er endurtekin. Í hormónajóga er verið að breyta ákveðnu ástandi, eða bæta, í líkamanum sem er tilkomið vegna minnkandi hormónabúskapar og ójafnvægis á hormónastarfseminni. Áherslan er lögð á að örva og endurvirkja hormónabúskap líkamans og draga úr streitu.

Eins og fram kom hér að ofan þá eru það ekki eingöngu konur sem ganga í gegnum breytingaskeiðið. Karlar gera það líka! Dinah ákvað að mæta þeirra þörfum og þróaði æfingaröð fyrir karla. Hún þróaði einnig æfingaröð fyrir sykursjúka.

 Hormónajóga fyrir karla og fyrir sykursjúka

„Þessa dagana sit ég og þýði bækurnar um Streitulosandi hormónajóga fyrir karla og Hormónajóga fyrir sykursjúka en hugmyndin er að þær komi út í einni bók eftir áramótin hjá bókaútgáfunni Yoga Natura ehf., sem er í eigu fjölskyldunnar.“

Samhliða þessu kennir Rakel byrjendanámskeið og upprifjunar- og endurmenntunarnámskeið í hormónajóga fyrir konur og námskeið í qigong sem er sérstaklega ætlað konum og kallast HEILLANDI LÓTUS.

„Heimsfaraldurinn færði okkur Zoom. Núna er ég með alla mína tíma bæði í Ljósheimum í Borgartúni 3 og á Zoom, þannig að konur geta valið hvort þær mæta í salinn eða eru heima. Þetta hefur líka orðið til þess að konur á landsbyggðinni geta tekið þátt, sem er frábært.“

 

En hvernig fara þessar æfingar fram?

„Hormónajóga er frábrugðið öðru jóga að því leyti að það er meðferðartengt. Það er líka dýnamískara en annað jóga og orkulíkaminn er virkjaður allan tímann. Kirtlarnir og líffærin sem við erum að vinna með, eggjastokkar, eistu, bris, skjaldkirtill o.fl., eru nudduð innan frá með ákveðinni öndunartækni og síðan er gert svokallað orkuflæði sem tekið er úr qigong.

Hormónajóga er heildstætt jóga og vinnur með líkamann í heild sinni. Það vinnur á líkamlega sviðinu (styrkir vöðva, eykur liðleika og styrkir beinin), á lífeðlisfræðilega sviðinu (örvar og endurvirkjar framleiðslu hormóna), á andlega sviðinu (dregur úr streitu, svefnleysi, þunglyndi o.fl.) og á orkusviðinu (virkjar orkustöðvarnar og auðveldar dreifingu orku (prana eða Qi).“

Þær þarf að gera helst daglega í 4-6 mánuði ef við ætlum að breyta ákveðnu ástandi

Sömu æfingar gerðar á sama hátt

Hormónajógaæfingaraðirnar þrjár (konur, karlar og sykursjúkir) taka um það bil 30 mínútur.

„Þetta eru alltaf sömu æfingarnar og alltaf gerðar á sama hátt. Þær þarf að gera helst daglega í 4-6 mánuði ef við ætlum að breyta ákveðnu ástandi og síðan að viðhalda eftir það og gera að lágmarki tvisvar í viku.“

Hormónajóga samanstendur af: jógastöðum (Asanas), öndunaræfingum (Pranayama) sem nudda líffærin í stöðunni og qigong eða tíbetskri orkutækni sem beinir orkunni til líffæranna. Allt þetta þrennt þarf að fara saman til að æfingarnar virki. Það er ekki nóg að gera bara jógastöðurnar, eða bara öndunaræfingarnar og heldur ekki nóg að hugleiða bara. Þetta þrennt þarf að fara saman. Það er galdurinn í hormónajóga.

 

Hér er hægt að fræðast um námskeiðin í hormónajóga.

Hormónajóga fyrir konur: Best er að byrja í kringum 45 ára aldurinn og vera þá komin með tækin í hendurnar og vita nákvæmlega í hvaða átt er stefnt. Konur á snemmbúnu breytingaskeiði, með engar blæðingar, miklar blæðingar, fyrirtíðaspennu, bólur og PCOS geta byrjað fyrr. Hormónajóga gagnast þeim öllum. Hormónajóga hefur líka hjálpað fjölmörgum konum að verða barnshafandi. Dinah státar sig af því að eiga jógabörn út um allan heim. „Við ungar konur vil ég ég segja: Um leið og þú ert búin að ákveða að þig langi til að eignast barn skaltu byrja að gera æfingarnar. Gerðu þær eins oft og þú getur í eitt ár, tvö ár, þrjú ár og líttu á þær sem alhliða heilsueflingu. Ef þú verður ekki þunguð ert þú allaveganna mun betur undir það búin, bæði andlega og líkamlega, að takast á við tæknifrjóvgun eða annað.“

Hormónajóga fyrir karla: Karlarnir braggast mjög fljótt og sýna reynslusögur í væntanlegri bók ótrúlegan árangur á skömmum tíma. Minnkandi hormónastarfsemi hjá körlum (upp úr fimmtugu) getur haft mikil áhrif bæði andlega og líkamlega og getur dregið úr þeim kjarkinn og þeim finnst þeir ekki vera að standa sig, hvorki í bólinu né í lífinu almennt. Streita er oft vandamál hjá þessum hópi og því er gert ráð fyrir streitulosandi æfingum í hormónajóga.

Hormónajóga fyrir sykursjúka: Hormónajóga læknar ekki sykursýki en gerir sykursjúkum, bæði þeim sem eru með tegund 1 og tegund 2, kleift að hafa betri stjórn á blóðsykrinum og það örvar brisið. Sykursýkin er þannig sjúkdómur að sjúklingurinn hefur mikið um það að segja hvernig sjúkdómurinn þróast. Öll hreyfing er góð fyrir sykursjúka. Dagleg ástundun hormónajóga með æfingum sem er ætlað að örva brisið og draga úr streitu hjálpar þeim að halda um stjórntaumana og bætir alhliða heilsu þeirra og eykur andlega vellíðan.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -