Mánudagur 25. nóvember, 2024
-2.2 C
Reykjavik

Rögnvaldur fékk mikið sjokk við að veikjast: „Ég finn af og til brjálæðislega mikla reykingalykt“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Það versta var sjokkið að kveikja á því bíddu erum við veik?“

Rögnvaldur Ólafsson aðstoðaryfirlögregluþjónn greindist með kórónuveiruna í október á síðasta ári. Hann segir það hafa verið mikið áfall, sérstaklega í ljósi starfs síns og konu sinnar. En Rögnvaldur er giftur Helgu Rós Másdóttur, deildarstjóra bráðadeildar Landspítalans. Segir hann að sökum stöðu þeirra hjóna hafi þau farið gífurlega varlega og passað allar sóttvarnir löngu áður en settar voru á sóttvarnar aðgerðir.

„Við vorum löngu búin að setja bann á heimsóknir til okkar, við fórum ekki að hitta neinn og strákarnir okkar fengu voða lítið að hitta vini sína. Við vorum ábyggilega ein af þeim fyrstu sem nýttum okkur það að geta verslað á netinu og fengið sent heim, það voru einstöku búðarferðir og þá var það yfirleitt ég sem fór í búðina því konan mín þurfti að passa sig enn betur en ég. Þannig það var sjokk.“

Segir hann sína fyrstu hugsun þegar ljóst var að hann væri smitaður hafa verið: Hvernig í ósköpunum hef ég smitast? Og óttaðist hann að hefða smitað aðra í deild almannavarna.

„Er ég að fara setja almannavarnadeildina á hliðina? Eða er bráðadeildin að fara á hliðina út af okkur? En sem betur fer greindist enginn annar út frá okkur, en þetta var verulegt sjokk.“

Ekki kom strax í ljós hvernig smitið hafði borist inn á heimilið, en þau hjónin veiktust með eins dags millibili og því ljóst að þau voru útsett á sama tíma og ekki  um „eitthvað random smit út í búð“ að ræða, eins og Rögnvaldur orðar það.

Síðar kom á daginn að smitið hafði komið af leikskóla sonar þeirra. „Það kom í ljós með raðgreiningu að yngsti strákurinn okkar hafði greinst fyrstur áður en nokkur annar fékk þetta og var algjörlega einkennalaus. Síðan kom í ljós að hinir tveir höfðu líka smitast.“

- Auglýsing -

Segir Rögnvaldur að aðeins sárafá börn hafi veikst á leikskóla drengjanna, aðallega hafi það verið starfsfólk sem smitaðist. „En akkúrat þessi gaur hérna er algjör keligaur og er alltaf í fanginu á manni, ég hugsa að hann sé að gera það sama í leikskólanum. Honum finnst eflaust gott að vera í fanginu á leikskólakennurunum, því kannski ekkert skrítið að hann hafi veikst,“ segir Rögnvaldur og hlær.

Hann segir fjölskylduna hafa þó sloppið frekar vel út úr veikindunum. Einkennin hafi til þess að gera verið væg. „Ég fékk þessa vöðvaverki sem margir kannast við, hausverk og hósta. Svo missti ég bragð- og lyktarskyn og það var svipað hjá konunni minni.“

Hefur hann orðið var við einhver eftirköst?

- Auglýsing -

„Ég finn af og til brjálæðislega mikla reykingalykt, eins og einhver haldi öskubakka upp við nefið á mér. Eitthvað sem ég vildi alveg vera án,“ segir hann og hlær. „En ég get samt ekki kvartað.“

Keyrði sig út

„Ég fattaði það samt eftir á að ég hefði ábyggilega þurft lengri tíma að jafna mig. En það er erfitt að liggja heima vitandi að þá er meira álag á félögunum, þannig að um leið og ég gat dreif ég mig í vinnuna.“

Skömmu eftir að Rögnvaldur snéri aftur veiktist Víðir. Segir hann Víði hafa þurft að sinna starfi þeirra beggja á meðan hann lá veikur og þarna hafi hlutverkunum verið snúið við. Nú var komið að Rögnvaldi að sinna starfi Víðis samhliða sínu eigin starfi.

„Hann var lengi að jafna sig og kom til baka í vikunni sem að aurskriðan féll  á Seyðisfirði, þannig hann byrjaði eiginlega of skarpt og keyrði sig út og fór aftur í veikindaleyfi.“

Segist Rögnvaldur gjörsamlega hafa verið búinn á því þegar Víðir kom til baka. „Ég fékk eiginlega ekkert sumarfrí í fyrra, ég var búinn að plana sex vikur, en ég held að ég hafi kannski náð tveimur vikum, það var alltaf verið að kalla mig inn út af einhverju. Þannig að ég átti inni frí og tók það út í febrúar. Í febrúar var bara sumarfríið mitt.“

Rögnvaldur segist hafa kúplað sig algjörlega út, slökkt á tilkynningum í símanum, ekki svarað síma né tölvupósti. „Það var mjög næs, ég þurfti virkilega á því að halda. Strákarnir voru líka í skólanum og konan í vinnunni þannig að ég var bara einn með sjálfum mér, það var bara fínn félagsskapur í smá tíma,“ segir hann glottandi. „Fín tilfinning að þurfa ekki að gera neitt, ekki hugsa um neitt, engar kröfur á mér. Ég gerði ekki einu sinni neitt heima  þótt það væri nóg að gera, ekki tiltekt eða mála eða byggja neitt. Ég bara gerði ekki neitt í heilan mánuð,“ segir hann og augljóst að mánuður án nokkurra ábyrgða var kærkominn. „Ég ætlaði reyndar að vera í sex vikur en síðan var ég kallaður inn, þegar Reykjanesið fór að hristast enn meira og svo náttúrlega fór að gjósa. Þannig ég á ennþá inni slatta af fríi,“ segir Rögnvaldur kíminn og vonast til að geta nýtt frídagana þetta sumarið.

Lítill glamúr

Rögnvaldur segir starf almannavarna í faraldrinum meðal annars hafa snúist um að  uppfæra vefsíður og ýmis skjöl almannavarna, leiðbeiningar bæði hér á landi og jafnvel úti í heimi, fyrir fólk sem hugðist koma hingað til lands. „Þannig að það er alveg brjálæðislega mikil kerfis- og pappírsvinna og vesen í kringum þetta allt saman, plús allar þýðingarnar í kringum þetta líka. Segir hann í raun lítinn glamúr yfir þessu starfi og lýsir því, með brosi út í annað, sem vegsamaðri skrifstofuvinnu.

En hvernig er þá að vera skyndilega orðinn þekkt andlit í samfélaginu?

Telur Rögnvaldur sig líklegast ekki vera svo þekktan, að minnsta kosti ekkert í líkindum við hið upprunalega þríeyki. „Ég hef sloppið held ég, ég hef að minnsta kosti ekki lent í sama áreiti og þau. Vinnufélagarnir eru alltaf að grínast með að þetta sé þríeykið og Batman.
En ég svo sem tek eftir því núna að fólk kannski horfir tvisvar þegar maður er úti í búð, en ég er ekkert viss um að fólk tengi endilega við hvaðan það kannast við mig.“
Segist hann sjálfur kannast við slíkt  verandi mjög ómannglöggur. „Þegar ég var ungur lögreglumaður bjó ég á Ísafirði og rakst á mann í Kaupfélaginu og heilsaði, því það var einhver sem ég kannaðist við. Ég hugsaði mögulega var hann með mér í skóla eða kannski unnið með mér einhvern tímann eða eitthvað. Svo fattaði ég seinna um daginn að ég hefði handtekið manninn helgina áður fyrir ölvunarakstur,“ segir Rögnvaldur hlæjandi.

„Ah þarna kom tengingin. Eftir þetta hætti ég eiginleg að heilsa fólki að fyrrabragði.“

Aðspurður hvað hafi komið honum mest á óvart við faraldurinn hér á landi gefur hann sér drjúga stund til umhugsunar.

„Góð spurning, kannski viðbrögð fólks,“ svarar Rögnvaldur. „Þegar maður horfir á þessar amerísku stórslysamyndir þar sem fólk hleypur öskrandi um, baðandi höndum út í loftið, það hefur ekki verið mín upplifun af hamförum hingað til.“ Sjálfur hefur hann upplifað snjóflóðin á Súðavík og Flateyri, en þá starfaði hann sem lögreglumaður á Ísafirði, ásamt því að vera viðriðinn allar stórar krísur hér á landi síðastliðin 16 ár í stöfum sínum hjá almannavörnum.

„Og það sem ég upplifi í svoleiðis er að það kemur þessi stóíska ró yfir fólk og það þjappar sér saman og hjálpast að. Slíkt hef ég margoft séð. Aldrei þetta hauslausa hlaupa-um-dæmi.“

Rögnvaldur segir þó einnig að þessi hræðsluáróður gagnvart bólusetningum og sóttvarnarráðstöfunum sem aðeins hefur gert vart við sig hér á landi, hafi komið sér á óvart. „Þetta andóf við bólusetningum  finnst mér skrítið, eins og þetta sé einhver pólitísk stefna einhvers. Þetta eru bara vísindi. Það er byggt  á staðreyndum og á því sem hefur sýnt sig að virkar. Ég held að þetta sé það sem hefur kannski komið mér mest á óvart,“ segir hann og heldur áfram. „Og rauninni hvernig heimurinn er orðinn í dag, hvað það er í raun orðið auðvelt að villa um fyrir fólki með fals upplýsingum. Og það er hluti af ástæðunni að upplýsingafundirnir urðu svona margir og voru haldnir daglega á löngu tímabili, einmitt til réttar upplýsingar kæmust á framfæri. Af því að við fundum það að um leið og við stigum til hliðar eða tókum frí þegar var mikið að gera, þá birtust um leið einhverjir aðrir á sviðinu sem héldu á lofti einhverju sem var bara ekki rétt.“

Segir hann það fljótlega hafa sýnt sig sem gagnlegustu leiðina til að fá fólk með sér í lið að hamra nógu oft á því hvað best væri að gera og útskýra leiðina sem valin var hverju sinni. „Sem sagt að halda fólki öllum stundum upplýstu,“ segir Rögnvaldur alvarlegur í bragði og heldur áfram. „Mottóið hjá almannavörnum er að ef við vitum eitthvað þá segjum við frá því. Við erum ekki að liggja á eða þegja yfir einhverjum upplýsingum. Þó það sé vont og leiðinlegt að heyra það þá segjum við það samt. Það held ég sé hluti af því af hverju fólk treysti okkur og líka gott samstarf við fjölmiðla. Þeir hafa gott aðgengi að okkur, við svörum næstum undantekningarlaust ef einhver hringir.“

Rögnvaldur segir það hafa komið bersýnilega í ljós í öðrum löndum hve slæm áhrif það getur haft þegar slík andófs umræða tekur yfir með þeim afleiðingum að réttar upplýsingar drukkni.

„Klassískt dæmi með Anthony Faucy  og Trump. Þegar forsetinn er farinn að gagnrýna sérfræðinginn, hvað á fólk þá að halda? Þú ert að setja fólk í skelfilega aðstöðu sem er kannski með einhvern efa eða hrætt. Það eru náttúrlega allir hræddir, óttaslegnir og kvíðnir yfir hvað er í gangi. Og þegar þú ert með svoleiðis jarðveg þá er rosalega auðvelt að sá efasemdafræjum og vekja upp andóf og vesen. Þá veltir maður því oft fyrir sér til hvers? Í hvaða tilgangi?“

En hvað hefur covid slagurinn kennt okkur?

„Það borgar sig að vera undirbúinn,“ segir Rögnvaldur  brosleitur. „Ég veit allavegana að það er lærdómur sem margar af nágrannaþjóðunum hafa dregið af þessu öllu saman. Sú hugsun að eiga lager af hlutum var búin og enginn taldi lengur þörf á því að eiga lager, en ég hugsa að þetta hafi hrist upp í mörgum að endurhugsa það.“

Ólíkt mörgum öðrum þjóðum átti Ísland góðan lager af til að mynda hlífðarbúnaði. Rögnvaldur segir allar framleiðsluleiðir í heiminum vera orðnar það góðar að eftir að pöntun sé lögð inn sértu iðulega kominn með varninginn í hendurnar tveimur, þremur dögum seinna. „Margir gerðu bara ráð fyrir þessu í sínum plönum. En svo þegar allur heimurinn er að kaupa sömu vöruna á sama tíma þá náttúrlega kemur hlykkur á alla aðdrætti. Þá kom sér vel að við áttum stóran lager, þannig að við vorum í ágætis málum og vorum ekki í sömu panikk og aðrir.“

Þá segir hann það hafa komið bersýnilega í ljós í faraldrinum hve miklu máli upplýsingagjöfin skipti.

„Að gefa réttar upplýsingar og treysta fólki til þess að taka rétta ákvörðun á þeim grunni. Eins og það er enginn skikkaður í bólusetningu, fólk hefur val. Á meðan sum lönd skikka fólk til þess að gera það og jafnvel fangelsisrefsing eða sektir ef þú mætir ekki.“

Rögnvaldur segir faraldurinn einnig hafa kennt okkur að treysta á okkar fólk. „Það hefur líka sýnt sig að við vorum trú okkar stefnu eða sóttvarnalæknis, hann þekkir fræðin mjög vel. Samkvæmt þeim var alveg ljóst hvað virkar og við héldum okkur bara við það. Við vorum ekkert að fara á taugum þótt aðrar þjóðir væru að gera aðra hluti, við bara héldum okkar stefnu og gerðum það sem okkur fannst passa fyrir Ísland og okkar samfélag og héldum okkur við það.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -