Föstudagur 24. janúar, 2025
-0.2 C
Reykjavik

Sævar upplifði alkóhólisma, vanrækslu og kynferðislega misnotkun: „Æska mín farin og barnið dáið“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Þeir sögðu aldrei neitt við mig, ég var eins og eitthvert drasl sem hafði verið notað og síðan fleygt. Ég man litið eftir hvað gerist eftir þetta annað en það að ég klæddi mig í fötin og leiddi hjólið mitt heim. Ég gat ekki hjólað til baka, ég var svo illa farinn. Strax þá var ég breyttur og annað en barn. Ég var orðinn fórnarlamb. Æska mín farin og barnið dáið. Aðeins tóm skelin eftir,“ skrifar Sævar Þór Jónsson lögmaður í bók sinni, Barnið í garðinum, þar sem hann rekur erfiða æsku sem lituð var af alkahólisma, vanrækslu og kynferðislegri misnotkun.

Var búinn að brynja mig

„Bókin er búin að vera að malla í mér í einhver ár en lengi vel fannst mér þetta ekki vera saga til að segja. Ég var búinn að brynja mig og gerði mér ekki grein fyrir að ég hafði lifað óhefðbundnu lífi. Þetta var minn veruleiki,“ segir Sævar í samtali við Mannlíf.

Í bókinni lýsir Sævar uppvexti í skugga alkahólisma foreldra, einverunni og skömminni. Hann var síðan misnotaður kynferðislega af þremur ókunnugum einstaklingum í skúr vestast í Vesturbænum, aðeins átta ára að aldri.

„Þegar barn lendir í áföllum grípur sjálfsbjargaviðleitninin í taumana og það fennir yfir áföllin. Það þýðir þó ekki að þau fylgi manni ekki. Sagan byrjaði í upphafi sem óður til kvennanna í lífi mínu sem voru mér svo mikilvægir förunautar í æsku. Mig langaði að segja sögu þeirra og smám fór svo margt að rifjast upp sem ég þurfti að vinna úr. Frásögnin er hjálpartæki í þeirri vinnu.“ Sævar segir að auðvitað hafi hann einng átt yndislega tíma í æsku. „Það voru margir lífskúnstnerar í Vesturbænum og dásamlegt að vera nálægt fjörunni og sjónum. Minn bati felst í því að sjá einnig björtu hluta fortíðarinnar, það var margt fallegt í henni líka þótt ég viðurkenni og opni á áföllin“.

Fjölskyldan ósátt

- Auglýsing -

Foreldar og systkini Sævars hafa tekið útgáfu bókarinnar illa og er Sævar ekki í samskiptum við þau í dag. Hann tekur því af skilningi og æðruleysi og er engum reiður.

„Ég var viðbúinn viðbrögðum innan fjölskyldunnar og er þeim auðvitað sorgmæddur. Ég hef þurft að syrgja fjölskyldu mína og það er erfitt. Það er aftur á móti eðlilegt þegar maður segir svona sögu. Ég elska fólkið mitt en ég hef líka rétt á því að segja mína sögu eins og ég upplifði hana. Þau hafa einnig sinn rétt á að hafa aðrar skoðanir. Við höfum öll okkar tilgang og verkefni í lífinu og ég þarf að hugsa um mitt nærumhverfi og bera ábyrgð á eigin lífi.“

Sævar sem barn. Æska hans var lituð áföllum.

Sævar segir að nánustu aðstandendur vilji gleymast í umræðunni um kynferðisafbrot.

- Auglýsing -

„Það þarf að tækla fjölskyldurnar, aðstandendur er hluti af áfallinu og þeir eiga oft erfitt með að vinna úr því. Þetta getur orðið tabú og ég fékk oft að heyra af hverju ég væri að rifja upp hlutina eftir öll þessi ár. Þetta  snýst allt um að opna umræðuna og segja hlutina eins og þeir eru, sama hvort liðin eru tíu og fjörutíu ár. Það er mikilvægt að opna sig og geta talað opinskátt um hlutina til að takast á við áföll.“

Tvær brotnar sálir

Bókaskrifin reyndust Sævari erfið og þeir tímar komu að hann vildi bakka frá verkefninu.

„Það komu þær stundir að ég taldi ég mig ekki getað gefið bókina út. Hún var búin að taka það mikinn toll af mér andlega. Það þyrmdi yfir mig og ég hefði aldrei getað getað klárað nema fyrir stuðnings Lárusar Sigurðar Lárussonar, eiginmanns míns og meðhöfundar. Ég beit á jaxlinn og vissi að ég vildi láta bókina frá mér“.

Sævar og Lárus höfðu búið saman í sautján ár þegar Sævar opnaði sig við hann um áföll æsku sinnar og þeir tókust í sameiningu á við bókaskrifin.

„Auðvitað vissi hann brotabrot, hann vissi að hluta til um ástæðuna fyrir minni vanlíðan, hvernig fjölskylduaðstæður og áföll höfðu mótað mig. Það sem ég held að hafi hjálpað okkur var að við vorum tvær brotnar sálið í leit að stuðningi og gátum leitað í styrkleika hvers annars. Brotin okkar tvö smullu saman eins og jing og jang en fullar skýringar á tilfinningalífi mínu komu ekki fyrr en ég fór að opna á þetta. Ég þurfti að líta til baka yfir ævi mína og spyrja í hvað ég hefði eytt öllum þessum árum? Hvað var ég að tala um og skipti það einhverju máli? Hvernig manneskja væri ég í dag ef ég hefði tæklað þetta öðruvísi og fengið stuðning?“

Sævar telur að reynsla hans í barnæsku hafi mótað hann sem foreldri.

„Reynslan nýtist syni okkar og hefur gert mig að betra foreldri. Ég er svo þakklátur fyrir að njóta stunda með syni okkar, stunda sem ég fékk ekki að upplifa sem barn. Það er ekki sjálfgefið að verða faðir í lífinu og ég er óendanlega þakklátur að hafa hlotið þetta tækifæri. Foreldrahlutverkið er besta gjöf sem ég hef fengið í lífinu“.

Fólk hefur haft á orði við Sævar að bókin sé erfið en jákvæð baráttusaga.

„Fyrir mér er þetta bara saga um lífið, lífið mitt. Þetta eru engar skrautbókmenntir og ég er að afhjúpa sjálfan mig með því að segja sannleikann. Ég er afar þakklátur þeim sem hafa stigið fram og tjáð mér að sagan hafi hjálpað sér og haft jákvæð áhrif. Það gerir fórnarkostnaðinn þess virði, að koma áleiðis hversu mikilvægt er að tjá sig og opna á umræðuna“.

Hann segir bókina ekki vera hetjusögu. „Þetta er saga einstaklings sem er að miðla ákveðinni reynslu og koma því áleiðis að lífið getur verið svo gott ef maður er góður við sjálfan sig. Maður er oft sjálfum sér verstur. Ég hef átt við áfallstreituröskun að stríða, og hef unnið með því og lært á sjálfan mig jafnt í einkalífi sem og starfi. Ég hef þurft að fara í sjálfsskoðun, viðurkenna hluti fyrir sjálfum mér og ná að koma auga á jákvæðu hlutina í lífinu.

Taka litla barnið innra með mér í sátt.

Ég er fyllilega sáttur við hlutina í dag. Svo sér maður hvað framtíðin ber í skauti sér þegar þar að kemur. Eitt skref í einu,“ segir Sævar Þór.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -