Þriðjudagur 26. nóvember, 2024
-3.7 C
Reykjavik

Baráttukonan Sanna:„Þegar við áttum ekki pening var ekki hægt að kaupa mat og þá borðuðum við ekki“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Sanna Magdalena Mörtudóttir, mannfræðingur og borgarfulltrúi Sosíalistaflokksins, ólst upp hjá einstæðri móður og þekkir fátækt af eigin raun þar sem þær mæðgur höfðu stundum ekkert til að borða jafnvel í nokkra daga á æskuárum Sönnu.

Móðir hennar var í fullri vinnu sem leikskólastarfsmaður og vann auk þess í nokkur ár við skúringar á kvöldin til að drýgja tekjurnar og segir Sanna að á þessum árum, frá því hún var um sjö til 10 ára gömul, hafi hún því aðallega séð mömmu sína á morgnana og um helgar:

„Þegar við áttum ekki pening þá var ekki hægt að kaupa mat og þá var maður ekki að borða. Við fórum stundum í Mæðrastyrksnefnd þar sem við fengum mat, fengum lán hjá ættingjum og stundum fórum við með flöskur sem við áttum til að selja. Á tímabili áttum við ekki einu sinni ísskáp. Ég man þegar ég var einu sinni heima hjá vinkonu minni og sá hvar þar var til mikið af pottum og alls konar kryddi. Ég hugsaði með mér hvað þau væru rík.“

Sanna Magdalena Mörtudóttir

Sanna rifjar upp afmælisboð til annarrar vinkonu þegar þær voru stelpur:

„Við gátum ekki keypt gjöf handa henni og átti ég nýlegan, bleikan pennastand og ég gaf henni hann í afmælisgjöf. Mér fannst það vera leiðinlegt af því að ég vildi eiga hann áfram en ég skildi samt að ég þurfti að gefa henni gjöf og það var gaman að mæta til hennar með gjöf. Það var gott að geta reddað þessu svona en erfitt að geta ekki átt þetta í friði.“

- Auglýsing -

Sanna minnist þess þegar hún spurði mömmu sína og ömmu hvort allt yrði ekki auðveldara ef hún væri ekki inni í myndinni þegar mamma hennar var að biðja ömmu hennar um lán.

Hún segist hafa litið á þetta sem reikningsdæmi:

„Þeim brá svo mikið að ég skyldi vera að velta þessu fyrir mér. Ég var ekkert að hugsa um að ég ætlaði að hverfa af þessari jörð. Alls ekki. En þær skildu það þannig.“

- Auglýsing -

Hún segir að þegar hún líti til baka hafi sér alls ekki almennt liðið illa út af ástandinu:

„Það er hins vegar ekki eðlilegt að lítið barn sé að vonast til þess að það komi eitthvað gott inn á leigulistann eða að lítið barn sé spennt fyrir desemberuppbót.“

Hún segist hafa lært að lifa með þessu og segja ekki neitt. Hún ætlaði einu sinni í bíó með vinkonu sinni og var bent á að hún þyrfti pening:

„Í stað þess að segja að ég ætti ekki fyrir þessu þá hljóp ég heim til mömmu og bað hana um að biðja ömmu um lán fyrir bíóferðinni.“

Sanna er spurð hvað hafi verið erfiðast á æskuárunum:

„Það tengist ekki því að við áttum oft ekki mat, að þurfa að fara í Mæðrastyrksnefnd til að fá gefins mat eða hjóla í kulda með flöskupoka til að fá klink. Það var þegar mig langaði í tuskudýr í Euro Shopper sem var ekki hægt að kaupa. Ég er alls ekki að segja að börn eigi að fá allt sem þau biðja um en þetta stendur upp úr. Það var líka erfitt að horfa upp á hvað ástandið hafði slæm áhrif á mömmu; að vita til þess að hún hafi verið svöng og neitað sér um ýmislegt og svo neikvæðu áhrifin á sálarlíf hennar en hún hefur alltaf sett mig í fyrsta sæti.“

Álagið hafði þau áhrif á móður Sönnu að hún fór að upplifa mikinn kvíða og fór á örorkubætur áður en Sanna komst á unglingsár:

„Fátækt er mannskemmandi og hún er svo viðbjóðsleg að maður skilur ekki að það sé hægt að réttlæta það að borga fólki lág laun.“

Sanna Magdalena Mörtudóttir

Áhrifin í dag

Reynsla Sönnu af fátæktinni á æskuheimilinu hefur áhrif í dag:

„Ég fæ til dæmis samviskubit ef ég kaupi góð heyrnartól. Þá hugsa ég með mér af hverju ég sé að setja peninginn í þau. Mér finnst vera erfitt að sleppa takinu; að finna að það megi gera ýmislegt. Stundum finnst mér til dæmis ekki vera neitt mál að tala um ástandið eins og það var en svo finnst mér stundum vera bara erfitt að hugsa um það. Það er sárt að gera það; að hugsa um að ég gat ekki gert hitt og þetta svo sem að læra dans. Maður var alltaf að pressa niður það sem maður vildi og einhvern veginn að sussa á sjálfan sig.

Ef ég heyri í sjúkrabíl í dag þá kippist ég til og hugsa með mér hvort mamma sé í bílnum en ég hef þurft að hringja á sjúkrabíl þegar henni hefur liðið illa í kvíðakasti. Þetta eru kannski langvarandi afleiðingar að koma í ljós hjá mér. Ég sendi mömmu til dæmis sms um daginn og hún svaraði ekki og þá hugsaði ég með mér hvort hún væri komin á sjúkrahús. Fólk sér ekki endilega skilaboð strax. Ég hugsaði síðan með mér hvort ég byggði viðbrögð mín á staðreyndum eða einhverju öðru. Ég býst stundum við því versta.“

Sanna upplifir ekki eingöngu neikvæðar tilfinningar í dag í tengslum við fátæktina á æskuárunum. Hún segir að það sé jafnframt eflandi að geta sett sig í ýmsar aðstæður í dag:

„Þetta var hins vegar ekki heilbrigt fyrir sjálfsmyndina og það er svo margt sem maður fattar ekki að sé óeðlilegt. Ég myndi kannski ekki segja að þetta hafi veikt sjálfsmyndina en þetta hefur gert það að verkum að ég er með minni væntingar en ella.“

Hún talar um þvottavélina sína sem hún segist elska:

„Hún er ný og hún hefur aldrei bilað. Ég veit ekki hversu oft við mamma vorum í þvottavélaveseni og það eru mikil lífsgæði að eiga þessa þvottavél. Kannski elskar fólk þvottavélarnar sínar jafnmikið og ég elska mína. Ég veit það ekki.“

Hún hlær:

„Mér finnst fólk oft taka hlutunum sem sjálfsögðum en sumir fatta ekki að 1200 kall getur verið mikill peningur fyrir aðra.“

Í borgarmálunum og kannski seinna á þing

Sanna er einn af stofnendum Sósíalistaflokksins og hefur sem borgarfulltrúi undanfarin þrjú ár unnið að hag þeirra sem búa við slæmar aðstæður. Segir að það sé þó sorglegt hvað lítið hafi breyst á þessum tíma:

„Ég las nýlega 20 ára gamalt viðtal við mömmu og mér finnst þetta geta verið saga svo margra í dag og það er erfitt að vita til þess. Það er til nægur peningur í þessu landi og við þurfum að skipta kökunni betur. Það er sorglegt að vita til þess að fátækasta fólkið þurfi í raun að borga hlutfallslega meiri skatta af tekjum sínum en efnaða fólkið sem þarf ekki að borga skatta af fjármagnstekjum. Ég myndi vilja að sveitarfélögin myndu þrýsta á að því yrði breytt og að það yrðu sett lög um þetta. Ég vil að allir geti búið við öruggar aðstæður og að allir fái að dafna.“

Sanna Magdalena Mörtudóttir

Sanna segir að sér finnist hún vera nýbyrjuð sem borgarfulltrúi og vill hún halda áfram að vinna í borgarmálunum. Þess má geta að hún er í 11. sæti í Reykjavík norður fyrir Sósíalistaflokkinn í komandi alþingiskosningum. Hvað ef hún kemst á þing í framtíðinni. Hver yrðu áherslumálin?

„Skattamál, heilbrigðismál og velferðarmál. Það þarf að tryggja að litið sé á þetta sem grunnþjónustu en ekki að þetta yrði einkavætt. Og það þarf að tryggja að til dæmis öryrkjar og eldri borgarar geti lifað góðu lífi. Það þarf líka að heyra meira raddir fólksins í landinu. Það er ekki endilega stjórnmálafólkið sem veit best.“

 

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -