Miðvikudagur 15. janúar, 2025
6.8 C
Reykjavik

Sigrún er berdreyminn víkingur sem hræðist kukl: „Margir halda að ég sé stórskrýtin!“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Við konur stóðum að mörgu leiti framar í fornöld. Karlmenn báru mikla virðingu fyrir konum sínum enda er augljóst að þú lifir ekki af á norrænum slóðum nema að bera virðingu fyrir framlagi maka þíns. Þetta fór síðan allt til helvítis með kristinitökunni,“ segir Sigrún Björk Ólafsdóttir, hönnuður, kvikmyndagerðarmaður, ættfræðingur, víkingur og baráttukona fyrir tjáningarfrelsi.

Fortíðin á erindi til okkar

„Sem krakki elskaði ég goðafræði út af lífinu. Eftir því sem ég eltist fór ég að kynna mér þetta betur og sá að allt byggist þetta á virðingu fyrir náttúrunni. Æsirnir eru persónugervingar og samlíkingar fyrir náttúruna og náttúrufyrirbæri, þetta er elsta kennsluefni í heimi og á enn mikið erindi til okkar.

Sigrún elskar víkingar, hannar í anda þeirra og gerir stuttmyndir.

Sigrún segir sig vera fornnorræna sál í tuttugustu aldar líkama og er að sjálfsögðu ásatrúar. „Þetta fólk var svo töff! Við erum ekki að sinna þessari stórkostlegu arfleifð okkar eins og hún á skilið, það eru einhverjir að gramsa í þessu en allir í sitthvoru horninu. Það er líka mikið af hrikalega hallærislegu fólki í þessu út um allan heim. Þetta er fólk sem hefur horft á seríuna Vikings, fer í DNA próf, finnur út að það er kannski með eitt prósent norrænt blóð, vill vera Ragnar Loðbrók og tattúverar rúnir á hausinn á sér. Svo eru það hinir sem virkilega leggja á sig að lesa sér til. Við vitum samt aldrei allt um forfeður okkar, það breytist með hverjum uppgreftri. Alveg hrikalega spennandi!“

Besti hippi í heimi

Sigrún fer árlega á stóra víkingahátíð í York á Bretlandi að hitta víkingavini sína. „York er eins og Róm Bretlands enda þeirra gamla höfuðborg, þar eru líka 365 pöbbar, einn fyrir hvern dag á árinu! Ég fer líka reglulega á lítinn stað í Noregi sem heitir Gudvagen. Þar er víkingaþorp og allt tengt nútímanum er bannað. Þú getur reyndar fengið undanþágu vegna notkunar á gleraugum eða heyrnartæki. Þarna er maður kominn aftur til fornaldar, fer í föt þeirra tíma og dansar undir trommuslætti í tungsljósinu alla nóttina eins og besti hippi í heimi. Ég elska það.“

- Auglýsing -

Sigrún var beðin um að halda ræðu í víkingbrúðkaupi vinar síns og fór að kynna sér hjónabandslöggjöf þess tíma. „Veistu að ef karlmaður sýndi á sér geirvörtuna á almannafæri færði hann svo mikla skömm yfir fjölskylduna að konan mátti ganga út? Nauðgarar voru réttdræpir nema að þeir ættu gríðarleg auðævi sem konan samþykkti að taka sem skaðabætur. En það þurfti mikið til og konan réð því alfarið sjálf. Einnig var löggjöf um það að ef að efnuð kona giftist manin þurfti hann að sanna sig í þrjú ár fyrir henni, meðal annars í bólinu, og ef hann stóð sig ekki mátti henda honum eignalausum á götuna. Af hverju er þetta ákvæði ekki í lögum enn í dag?“ segir Sigrún og skellihlær.

Þorir ekki kuklinu lengur

- Auglýsing -

Aðspurð að því hvort Sigrún sé göldrótt segist hún ekki halda það. „Eg er aftur á móti afar berdreyminn og gat spáð í allt þegar ég var yngri. Ég gat aldrei útskýrt það samt. Einn daginn sá ég fyrir veikindi í fjölskyldunni sem þó yrðu allt í lagi og skráði mamma allt niður. Sex mánðuðum síðan greinist sonur bróður míns með bráðahvítblæði. Hann var fyrsti strákurinn á Norðurlöndum til að lifa þessa tegund hvítblæðis af. Mamma var alltaf róleg því hún geymdi spádóminn frá mér en þetta truflaði mig mikið, maður á ekki að vera að kukla í þessu. Ég varð hrædd við þetta og hef ekki snert þetta síðan. Hvort þetta voru galdrar veit ég ekki.“

Höfuðfat úr 50 dauðum fiðrildum sem Sigrún hannaði.

Sigrún hannar og framleiðir föt undir nafninu SigRun Design sem eru undir áhrifum frá íslenskri náttúru og víkingatíma. „Ég hanna föt, skó og veski til daglegra nota og sel á netinu. Ég var komin með framleiðsluaðila og smásala fyrir hönnunina en þá kom Covid og allt fór í lás. Ég hef líka verið með dramatískari hönnun, sýnt á tískupöllum í London og tekið þátt í stórfurðulegum verkefnum. Ég nota mikið dauð dýr í alla hönnun og bý til ljósakrónur úr hauskúpum. Margir halda á ég sé stórskrýtin!“

Saknar ekki London

Á meðan Sigrún er föst á Íslandi býr hún í veiðihúsi við Stóru-Laxá í Gnúpverjarhreppi. ,,Ég hef ekki tölu á hve oft ég hef bókað flug til Bretlands sem hefur verið aflýst. Ég var föst ásamt systur minni og syni í einangrun í London í 85 daga í fyrra og skráði niður dagana eins og fangi á vegginn úti. Það sem bjargaði því var að ég er með stóran pall og veðrið var gott. En ég tók fyrsta flug til Íslands 15. júní í fyrra og gerði samkomulag við vinnuveitanda minn um að vera í fjarvinnu. Í orðsins fyllstu merkingu. Upprunalega átti ég að fljúga til London mánaðarlega en það hefur ekki gengið eftir. Ekki það að ég sakni London, ég sat í lest 3 tíma á dag í sautján ár til að komast til og frá vinnu. Ég var alveg útbrunnin og komin með ógeð á borginni.“

Sigrún hefur alltaf verið í „venjulegri” vinnu með hönnuninni. „Ég vann í tíu ár hjá fyrirtæki sem hjálpar aðilum að stofna skóla í Bretlandi. Menntakerfið þar er að hruni komið og fólk getur ekki fengið skólavist í yfirfullum skólum fyrir börnin sín. Aðrir skólar er sumir svo lélegir að það er börnum ekki boðlegt. Við unnum með menntamálaráðuneytinu í að vera ráðgefandi við stofnun skóla og við hjálpuðum til að stofna 509 skóla meðan ég starfaði þar.” Sigrún hætti í því starfi í febrúar í fyrra og fór að vinna hjá fyrrverandi yfirmanni sínum, blaðamanni sem var að stofna ný samtök sem berjast fyrir tjáningarfrelsi.

Tekinn af lífi af dómstól götunnar

„Hann er með umdeildar skoðanir og hafði verið tekinn af lífi af dómstóli götunnar fyrir að nefna orðið brjóst í fimm ára gamalli Twitter færslu sem einhver gróf upp. Hann missti lífsviðurværi sitt og var ofsóttur af blaðamönnum og var síðar gerð kvikmynd um hann, „How to Lose Friends and Alienate People”. Hann er einfaldlega með rödd í samfélagi sem gerir allt til að brjóta niður tjáningarfrelsið. Hann ákvað að taka þessu ekki sitjandi og við berjumst fyrir fólk sem lendir í sambærilegu. Þessi þöggun er mjög ríkjandi í háskólum, hjá fjölmiðlafólki og reyndar öllum þeim sem eru í sviðsljósinu. Þú ert tekinn af lífi fyrir að horfa í vitlausa átt. Fólki finnst bara allt í lagi að setjast í dómarasæti, þykjast vera yfir annað fólk hafi og níða það niður og ógna vegna þess að það er „réttsýnt”  Þetta er klikkað þjóðfélag sem við lifum í. Við erum á leið í einhvern nútíma kommúnisma sem er þaggar niður í okkur er við erum ekki sammála einhverri opinberri línu.“

„Fólk er að missa vinnu og jafnvel æruna út af engu. Sjáðu til dæmis uppistandara sem hafa atvinnu af því að gera grín að þjóðfélaginu. Þeir mega ekki segja eitthvað í dag sem var í lagi í gær. Svo er textum breytt, bókum hent og styttur brotnar.“

Löglegt að finnast Ísfirðingar fávitar

„Við erum að gera góða hluti og erum til dæmis með lögræðideild rekna af frjálsum framlögum. Ef við teljum að brotið hafi verið á fólki sem leitar til okkar veitum við þeim lögfræðiaðstoð. Ég held að allur heimurinn þurfi á okkur að halda og við erum komin með samstarfsaðila út um allt. Sem dæmi má nefna að þér á að vera frjálst að segja að allir Ísfirðingar séu fávitar, það er ósmekklegt en ekki lögbrot. Ef þú aftur á móti segist ætla að skjóta alla Ísfirðingar ertu að brjóta lög. Vandinn er að mörkin eru orðin svo óljós, það eru netlöggur og dómarar út um allt. Hausinn á fólki er orðinn svo fullur af rugli,“ segir Sigrún Björk og hristir höfuðið. Hún er á leiðinni á Fjörukrána þar sem hún gistir þessa dagana. Það er eins nálægt víkingunum og hún nær í augnablikinu.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -