Föstudagur 22. nóvember, 2024
-2.2 C
Reykjavik

Sigtryggur alltaf verið sjúkur í sjóinn og kominn með pungapróf: „Ég er stundum of bjartsýnn“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Móðir mín sagði mér að ég hafi verið sjúkur í sjóinn alveg frá blautu barnsbeini,“ segir Sigtryggur Baldursson, tónlistarmaður og framkvæmdastjóri Útflutningsskrifstofu íslenskrar tónlistar (ÚTÓN). „Ég fæddist í Noregi og bjó fjölskyldan niðri við strönd þangað til ég varð 2 ára og bæði mamma og eldri systir mín hafa sagt að ef þær létu mig frá sér í sandinn þegar ég var lítill þá hafi ég skriðið beinustu leið út í sjóinn eins og skjaldbaka.“

Hafið bláa hafið hugann dregur.

„Það er í rauninni á seinni árum sem ég hef farið að laðast meira að sjónum. Það er ákveðin dásamleg mistería í því hvernig maður laðast að hlutum eða fólki; blessuð ástin. Sjórinn er eitt af höfuðelementunum og maður sækir í ákveðna orku eða stillingu í hann. Ég sæki þangað ákveðið jafnvægi. Einhverjir sem trúa á stjörnuspeki myndu segja að það sé vegna þess að ég er vog. Ég held að allir leiti að jafnvægi í sálina í hvaða stjörnumerki sem þeir eru í. Ég held að það hafi ekkert með þetta að gera. Ég laðast að sjónum. Ég hef farið í sjósund og mér finnst það vera voða gaman en mér finnst bara yfirleitt vera svo kalt. Ég hef prófað það og hef buslað; ég labba stundum út í fjöru rétt hjá heimili mínu og hendi mér út í og syndi aðeins. Svo hef ég farið í Nauthólsvík og synt þar svolítið.“

Nei, Sigtryggur er ekki nógu hrifinn af sjósundi.

„Þá er betra að vera á kajaknum.“

- Auglýsing -

Fílósófískt róðarí

Kajakinn.

„Ég eignaðist kajak fyrir nokkrum árum. Það komu fram kajakar sem ég kalla „idiot-proof“. Þeir eru kallaðir „sit on“ kajakar í staðinn fyrir „sit in“. Maður situr ofan á þeim en ekki inni í þeim. Þeir eru rosalega stabílir og maður þarf ekki að vera mjög flinkur; maður þarf ekki að læra að verða ræðari til þess að geta róið þeim. Það er rosalega einfalt að eiga við þá. Mér fannst þetta vera svo heillandi; að geta fengið sér kajak, labbað með hann niður í sjó, en ég bý rétt hjá sjónum, róið út og veitt sér fisk í soðið. Ég bý á Kársnesinu í Kópavogi og fór að vinna í því að finna fiskimið fyrir utan Álftanes til að geta róið til fiskjar. Svo er það reyndar „practical“ afsökun til að fara út að róa.“

- Auglýsing -

Sigtryggur segist hafa æft sig í að detta í sjóinn og fara aftur upp í kajakinn.

„Ég tók sjálfan mig aðeins í gegn í „basic“ öryggisatriðum. Nei, nei. Ég er voðalega varkár þannig séð. Ég ræ yfirleitt í félagsskap við einhverja aðra. Jú, jú, ég hef farið í einhverjar sólóferðir. Það er líka gaman. Ég hef meira gaman af einhverju léttfílósófísku róðaríi heldur en að gera eitthvað sem er hættulegt.“

Sigtryggur upplifir umhverfið auðvitað allt öðruvísi úti á sjó en ella.

„Ég tók strax eftir því þegar ég byrjaði að róa út á fjörðinn þar sem ég bý og byrjaði að róa út á Álftanes og þar í kring að maður sá umhverfi sitt allt í einu frá öðrum sjónarhóli heldur en maður var vanur. Það er svolítið sjarmerandi að fá annað sjónarhorn á tilveruna. Það er það sem ég kalla fílósófískt róðarí. Þarna er maður strax kominn með annað sjónarhorn á tilveruna og kominn í allt annað umhverfi sem er samt alveg við dyrastafinn hjá manni. Ég fæ aðra upplifun af nærumhverfinu. Mér finnst það vera rosalega sjarmerandi. Náttúran er alls staðar í kringum okkur. Það þarf ekki að fara í Þórsmörk til að fá náttúrupplifun. Ég get farið út á kajak og róið 50 metra frá húsinu mínu og þá er ég kominn í einhverja náttúruupplifun sem er allt önnur heldur en að fara upp í Þórsmörk með fullri virðingu fyrir því. Það sem ég er að segja með þessu er að þetta er allt í kringum okkur. Það þarf bara að opna augun og taka betur eftir þessu.“

Með pungapróf

Sigtryggur segist eiga skemmtilegan tengdason í Gautaborg og að hann reyni að heimsækja dóttur sína og fjölskyldu hennar þar í borg eins oft og hann getur.

„Hann vissi af þessu bátablæti mínu og fór að senda mér í kóvinu í fyrravor myndir af skútum sem voru til sölu í Gautaborg. Þetta voru mjög fallegar skútur. Hann var að fylgjast með verðinu á þeim og ég hélt að hann væri að grínast af því að þær voru svo ódýrar. Ég hélt án gríns að það vantaði eitt núll á verðið. Svo fór ég að spyrja hann hvort þetta væri raunverulegt verð og hann sagði svo vera. Þetta voru fáránlegar tölur. Það er næstum því hægt að fá skútur gefins í Gautaborg á vorin. Ég spurði hvernig stæði á þessu. Þá er ástæðan að það er offramboð. Ríkisstjórn Olavs Palme ákvað á 8. áratugnum að skútusport og siglingar skyldu verða alþýðusport í Svíþjóð en ekki elítusport eins og það er víðast hvar annars staðar í heiminum. Og hvernig fóru þeir að því? Jú, það var búið til nýtt efni, trefjaplast, sem var farið að nota mikið í bátasmíði þannig að þeir studdu við litlar trefjaplastsfabrikkur, bátaverksmiðjur, svo voru iðulega lítil fjölskyldufyrirtæki sem fóru að framleiða mikið af bátum. Svo var þetta, hafnargjöld og annað, í rauninni niðurgreitt. Þannig að þetta varð að miklu alþýðusporti og það var ofboðslega mikil framleiðsla á skútum á þessu tímabili.“

Tíminn leið og sumir skútueigendur vildu fá sér nýja skútu og til varð mikið magn af skútum.

„Það er orðið umframmagn af skútum sérstaklega á þessu svæði þannig að það er hægt að fá skútu á lágu verði á vorin þegar fólk er að hugsa sér til hreyfings með bátakaup. Og við slógum saman í eina skútu. Þetta var eins og við værum að kaupa gamlan skóda; svipað verð. Það er hægt að fá gamla skútu undir hálfri milljón með öllum græjum; segli og öllu dóti.“

Sigtryggur og eiginkona hans fóru svo til Síþjóðar í fyrrasumar og lærðu að sigla.

„Svo tók ég pungapróf í fyrrahaust. Þannig að þetta er búin að vera upplifun.“

Sigtryggur segir að það hafi verið dásamlegt að vera á skútunni.

„Maður er í rauninni með lítinn, fljótandi sumarbústað og vorum við að sigla á milli eyjanna í skerjagarðinum fyrir utan Gautaborg. Þetta var afskaplega þægileg sigling. Það var lítil úthafsalda og þetta er voðalega fallegt og „idillic“ allt saman. Ég upplifði þarna sænskt sumar. Það voru búnar til margar náttúruhafnir þarna fyrir 40-50 árum síðan en settir voru járnhankar í kletta þar sem maður getur krækt böndum og bundið skútuna þannig við klett. Þannig að maður er með lítinnn, fljótandi sumarbústað sem maður skottast í. Það er mjög skemmtilegt.“

Sigtryggur og eiginkona hans ætla til Svíþjóðar síðar í sumar og ætlar stórfjölskyldan þá að sigla jafnvel á stóru vötnunum inni í landi.

„Vänern og Vättern; ég man eftir þessu úr landafræðinni í 12 ára bekk. Það eru skipaskurðir þarna um allt þannig að það er líka hægt að fara í svoleiðis ævintýri sem eru allt öðruvísi ævintýri.“

Bogomil og Mikki refur

Það hefur verið tiltölulega lygnt á lífssiglingu Sigtryggs sem segist vera jákvæður að eðlisfari og heppinn almennt í lífinu. Stundum hefur þó gefið á bátinn í lífi fjölskyldumeðlima og vina sem hefur haft áhrif á hann.

„Það er alltaf erfitt þegar eitthvað heilsutengt kemur upp. Svo eldast foreldrar manns. Það getur verið erfitt. En það er allt hluti af lífinu. Ég sjálfur hef ekki orðið fyrir neinum leiðinlegum áföllum ennþá. 7-9-13. Erfitt og ekki erfitt. Það er spurning hvort maður meti erfiðleika sem hluta af ákveðnu ferli í lífinu eða hvort maður afmarki þá sem erfiðleika. Jú, ég á vini og ættingja sem hafa misst börnin sín. Það er það átakanlegasta sem ég hef orðið vitni að. Annars er lífið alltaf ansi fjölþætt málverk og maður þarf að taka því svolítið eins og það kemur. Þetta get ég náttúrlega sagt komandi úr ákveðinni forréttindastöðu af því að ég bý við góða heilsu og hef ekki lent í alvarlegum hremmingum með mína eigin fjölsyldu. Það að vinir og ættingjar hafa misst börn hefur haft þau áhrif á mig að maður reynir að kunna betur að meta það sem maður hefur. Ég hef reynt að temja mér að þakka fyrir það sem ég hef. Ég er stundum of bjartsýnn. Það á til að vefjast fyrir mér.“

Sigtryggur hefur sem tónlistarmaður glatt mann og annan og margir kannast við karakterinn Bogomil Font en það er jú karakter sem Sigtryggur bjó til á sínum tíma. Marsbúa cha cha cha. Hæ mambó. Fly me to the Moon. Kaupakonan hans Gísla í Gröf. Tico tico. Rokk calypsó í réttunum. Og lögin eru fleiri á plötunni „Ekki þessi leiðindi.“ Svo var það Bogomil Font og Milljónamæringarnir.

Þvílíkt fjör og skemmtilegheit.

Hvað er líkt með Sigtryggi og Bogomil?

„Þeim finnst báðum voða gaman að vera til. Og Bogomil er einn af mínum uppáhaldskarakterum. Hinir eru ekki jafnþekktir. En Bogomil var karakter sem ég bjó til svolítið til að sinna ákveðnu hlutverki eins og vill vera. Hann var svolítill sprellikarl og var að sinna því þegar mér fannst ég þurfa að vera alvarlegur tónlistarmaður.“

Bogomil var iðulega með hatt.

„Jú, hann er eins og Mikki refur sem er með skott. Ég hef alltaf borið þá saman. Það er eitthvað prakkaraelement sem þeir hafa í mínum huga. Þeim er alls ekki varnað eins og maður segir. Mikki refur er með skott og Bogomil með hattinn sinn.“

Ætli Bogomil sé refur eins og sagt er?

Það er spurning.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -