„Þetta er nú bara þannig að mig langaði til að verða frjáls maður á frjálsum markaði og vil vera meira sjálfstætt í minni vinnu. Það er ekkert sem útilokar það að ég haldi áfram að vinna eitthvað með RVK Studios. Ég er sem sagt bara að segja upp minni föstu stöðu þar sem þróunarstjóri,“ segir Sigurjón Kjartansson. Hann segir að hann og Baltasar Kormákur, eigandi RVK Studios, séu enn hinir mestu mátar og að þessi ákvörðun hans hafi mætt fullum skilningi.
Þegar Sigurjón er spurður um verkefni fram undan segist hann meðal annars vera að undirbúa hátíðar- og aðventu þriðjudagskvöld Tvíhöfða sem haldið verður í Háskólabíói 7. desember. „Það er alltaf eitthvað á teikniborðinu svo sem. Ég hef jafnhliða störfum mínum hjá RVK Studios verið með vikulega útvarpsþætti með honum vini mínum Jóni Gnarr.“ Og Jón Gnarr er náttúrlega hinn Tvíhöfðinn.
Það er ekkert sem útilokar það að ég haldi áfram að vinna eitthvað með RVK Studios.
Mikill lærdómur
Sigurjón hóf störf hjá RVK Studios árið 2012 og segir hann að Ófærðarseríurnar standi upp úr sem og Katla. „Þetta eru stærstu verkefnin sem ég hef gert með RVK. Fyrsta prófraunin sem ég fór í gegnum var fyrsta serían af Ófærð; það er einn stærsti sigurinn okkar og serían varð gríðarlega vinsæl um allan heim og ól af sér tvær seríur í viðbót. Svo þótti mér mjög vænt um Kötlu og svo má ekki gleyma Hulla-seríunum tveimur sem við gerðum með Hugleiki Dagssyni og Borgarstjórann með Jóni Gnarr. Það eru mjög góðar og vel heppnaðar seríur sem mér þykir vænt um. Þetta hefur verið gríðarlega góður tími og góður skóli að vinna þessa hluti með Balta og fleirum þannig að ég er bara glaður í sinni. Þetta hefur gefið mér mikið.“
Sigurjón hafði komið að ýmsum handritum í gegnum tíðina svo sem Pressu, Rétt og Svarta engla og vann þá með öðrum handritshöfundum. „Það má segja að ég hafi vanist þeirri starfsaðferð, allt frá tímum Fóstbræðra, að öll sagan er saumuð saman af hópi frekar en einum handritshöfundi. Þegar ég fór svo að vinna við Ófærð þá vann ég með fjölþjóðlegum hugmyndahópi af þremur mismunandi þjóðernum svo sem Clive Bradley frá Bretlandi og Soniu Moyersoen frá Frakklandi. Ég hef lært mjög mikið af þessu. Í kjölfarið, þegar handrit er tilbúið, vinnur maður svo með leikstjórum, leikmyndafólki, tónskáldum, klippurum og fleirum að undirbúningi fyrir tökur þannig að þetta er gríðarlega víðfeðm vinna og það eru mikil forréttindi að kynnast öllum hliðum svona framleiðslu þar sem ég fylgdi þessu í rauninni frá fyrsta skrefi þar til þátturinn fór í loftið.“
Í vinnu sinni hjá RVK Studios hefur Sigurjón tamið sér þá vinnuaðferð að vera viðstaddur á tökustað og starfa sem svokallaður „showrunner“ í Ófærð og Kötlu. „Það hefur kennt mér gríðarlega mikið hvað varðar alla þætti kvikmyndagerðar. Ég hef einhvern veginn lært að bera meiri virðingu fyrir störfum allra deilda og ekki síst leikara; ég kom inn í þetta á sínum tíma kannski ferskur úr grínheiminum með ákveðna fordóma gagnvart leikurum af því að ég sjálfur hafði verið frekar svona „la la“ leikari í grínheimum. En svo fór ég að vinna með alvöru leikurum eins og Ólafi Darra, Ilmi, Ingvari E. og fleirum sem taka hlutverkin sín svo alvarlega og ná að setja raunverulegt kjöt á beinið í samstarfi við okkur handritshöfundana. Það hefur verið gríðarlega gefandi vinna. Ég lærði af þeim og Balta að bera meiri virðingu fyrir starfi leikarans heldur en ég hafði gert.“
Það hefur kennt mér gríðarlega mikið hvað varðar alla þætti kvikmyndagerðar.
Sigurjón er búinn að vera lengi í bransanum og segir hann að ástæða þess tengist upphaflega ást á miðlinum. „Það má segja að ég hafi orðið almennilega ástfanginn af sjónvarpi þegar við Jón Gnarr vorum að byrja í Dagsljósi árið 1995; þá einhvern veginn komu öll púsl saman í hausnum á mér. Ég er af fyrstu kynslóð á Íslandi sem ólst upp við sjónvarp. Ég lærði dagana út frá því hvenær The Flintstones voru og svo framvegis af því að þeir þættir voru sýndir á miðvikudögum. Síðan fór ég að vinna út frá því hvenær væru fimmtudagar; já, það var þegar það var ekkert sjónvarp.“ Hann nefnir líka kúrekaseríu sem fékk íslenska nafnið „Í Heiðargarði“ þar sem persónur voru kallaðar íslenskum nöfnum í íslensku þýðingunni. „Svo má ekki gleyma Dallas sem hafði gríðarlega áhrif á mig. Það var stórkostlegt fyrirbæri. Ég hef allar götur síðan verið mikill sjónvarpsmaður og eftir að ég byrjaði að vinna í þessu sjálfur hef ég verið mjög áfram um það að vegur sjónvarpsþáttagerðar yrði meiri og betri hér á landi með áherslu á leikið efni. Sá draumur hefur að mörgu leyti ræst.“
Svo má ekki gleyma Dallas sem hafði gríðarlega áhrif á mig.
Myrk og dramatísk
Það eru ekki einungis Fóstbræður sem eiga hug Sigurjóns þessa dagana heldur líka rokkhljómsveitin HAM en Sigurjón hefur í rúm 30 ár verið meðlimur hennar; hljómsveitin hefur starfað með hléum og nú er eitt hléð að verða búið.
„Við förum okkur hægt en örugglega. Það er alltaf eitthvað að kokkast hjá okkur. Við hittumst síðast um daginn og ræddum að það þyrfti að fara að spýta í lófana og fara af stað með eitthvað verkefni sem er kannski ekki tímabært að segja frá núna.“
Stíllinn hjá HAM er myrkur. „Hann hefur verið það í gegnum tíðina. Hann er dramatískur. Margir vilja afgreiða þetta sem bölvaðan hávaða en það er kannski bara allt í lagi. Við fórum af stað með það markmið að verða háværasta hljómsveit á Íslandi og það hefur gengið ágætlega hjá okkur. Við spilum ekki mjög aðgengilega tónlist en kannski er hún að verða aðeins aðgengilegri eftir því sem aldurinn færist yfir. Ég veit það ekki. En við gerum fyrst og fremst það sem andinn blæs okkur í brjóst,“ segir handritshöfundurinn og lagahöfundurinn en lögin sem hann semur með HAM eru jú myrk og dramatísk. „Það er einhver dramafíkill í mér sem fær útrás þarna og víðar. Mitt eilífðarverkefni í lífinu er að halda því þannig að drama sé í listinni og skrifunum en ekki í lífinu. Dramað verður allavega alltaf minna og minna vona ég eftir því sem aldurinn færist yfir. Nú eru komnar hænur í garðinn hjá okkur, það er svona nokkuð dramalaust að sinna þeim.“
Það er einhver dramafíkill í mér sem fær útrás þarna og víðar.
Sigurjón er spurður hvort tilfinningarnar og lífsreynsla hans komi ekki í gegn við handritsskrif og lagasmíði.
„Jú, tvímælalaust. Þetta kemur allt í gegn. Það að skrifa og semja tónlist er alltaf einhver speglun á því sem maður er að ganga í gegnum í sínu einkalífi. Það hefur hjálpað mér en ég hef oft skrifað mig út úr erfiðum hlutum. Kannski felst lífsgátan í að díla við eigin drauga; díla við sinn eigin skít með einhverju móti – annaðhvort í gegnum sköpun eða kannski að deila því með öðrum og hjálpa öðrum. Það þarf alltaf einhverjar leiðir til að tappa af og sumir nota til dæmis sálfræðinga eða trúna. Það svo sannarlega getur dýpkað að hafa lifað. Við sem erum komin yfir fimmtugt búum að ákveðinni reynslu. Lífið er aldrei slétt og fellt. Og það er gott að vera búinn að ganga í gegnum ýmislegt af því að það nýtist manni í svo mörgu. Maður er aðeins vitrari ef maður leyfir sér að þroskast á réttan hátt, festist ekki einhvers staðar og heldur áfram að leita.“
Það hefur hjálpað mér en ég hef oft skrifað mig út úr erfiðum hlutum.