Þriðjudagur 19. nóvember, 2024
-5.1 C
Reykjavik

Sigrar og sorgir Sigurjóns M: Hitti Jón Ásgeir á leynifundi í bakhúsi

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Fjölmiðlamaðurinn Sigurjón Magnús Egilsson, þekktur sem sme, talar hér meðal annars um mögulegan langafa sinn í móðurætt, Kristján IX Danakonung, óþektkina í barnaskóla, sjómennskuna, blaðamennskuferilinn, alkóhólismann, lífsviljann sem minnkaði eftir mótorhjólaslsyið og sálina sem logar. 

Sigurjón Magnús Egilsson er sonur Guðrúnar R. Guðmundsdóttur og Egils heitins Hansen sem er látinn. Föðurafi hans, Hinrik, var danskættaður. Hann talar svolítið um ættina og talið berst að þeirri sögusögn að afi hans í móðurætt, Karl Karlsson, hafi verið launsonur Kristjáns IX Danakonungs sem hafi átt hann áður en hann varð konungur. 

„Þetta er svolítið deilumál. Langamma mín eignaðist dreng, Karl Karlsson, og hún upplýsti aldrei hver pabbinn væri en sagði þó einum afkomanda sínum, ég man ekki hver það var, að það hafi verið Kristján, krónprins Dana, síðar Kristján IX Danakonungur. Þetta er mikið tilfinningamál. Við viljum alveg meina að þetta sé svona,“ segir Sigurjón sem segist fyrst hafa heyrt um þetta þegar hann var unglingur. „Það er þá blátt blóð í okkur. Þetta var viðkvæmt mál innan fjölskyldunnar eða á meðal barna Karls. Kynslóð mín hefur hins vegar gaman af þessu. Við brosum að þessu. Ég kann vel við Danmörku. Bara alveg virkilega. Við gerum hins vegar ekki tilkall til dönsku krúnunnar.“

Úr skónum!

Sigurjón bjó fyrstu árin í Hafnarfirði.

„Við áttum heima á mjög sérstökum stað fyrstu æviár mín. Þetta var hálfgert ævintýri. Við bjuggum í lítilli risíbúð við Krosseyrarveg í Hafnarfirði. Nágrannarnir voru yndislegir og nábýlið mikið. Við vorum fjórir bræðurnir – Hafsteinn, ég, Egill og Gunnar Smári – og á neðri hæðinni bjó ekkja með þrjú börn sem við litumst nánast á eins og frændsystkini. Það var sameiginlegt klósett og snyrting. Þetta var algjörlega án árekstra. Hús, sem stóð neðar í götunni, var mjög sérstakt og var há girðing í kringum garðinn. Það mátti enginn koma inn í þennan garð nema við bræðurnir. Þar bjuggu hjón. Konan var alltaf kölluð Ella Dabb en hún var Davidsen. Maðurinn hennar, Bergur, var sjómaður á fossunum hjá Eimskipafélaginu. Þetta var svo spennandi. Hann hafði verið í siglingum og þarna var til svo mikið af leikföngum sem við höfðum aldrei séð áður. Og varla enn. Þetta var alger ævintýraheimur. Við fengum að leika okkur með leikföngin en það var ekki allt. Þau áttu líka talandi páfagauk sem hét Vargas af því að Beggi hafði keypt hann í Brasilíu þegar hann var að sigla þangað og þá var Vargas forseti Brasilíu. Þegar maður kom inn til þeirra kallaði Vargast alltaf „úr skónum“. Þetta var skemmtilegt. Stórkostlegt.“

- Auglýsing -

Sigurjón segir að svo hafi komið mikið rót á fjölskylduna. „Við fluttum í húsið Sólberg sem er í Setbergslandinu þar sem nú er Setbergshverfið. Þá var þetta strjálbýli. Það voru örfá hús þarna. Og þaðan fluttum við svo til Reykjavíkur. Rótið var svo mikið á okkur að ég fór í fimm barnaskóla til að klára gagnfræðaprófið.“

Faðir Sigurjóns var drykkfelldur og skildu foreldrar hans þegar Sigurjón var 13 ára og flutti Guðrún með synina fjóra til Seltjarnarness þar sem þau bjuggu í um þrjú ár. Hún kynntist öðrum manni sem hún giftist og eignaðist með honum son, Kristján Rúnar Kristjánsson. „Líf okkar breyttist eðlilega og við bræðurnir fjórum fórum allir að heiman sem táningar. Við vorum nánast börn.“

Villingur og lúði

- Auglýsing -

Sigurjón náði sér í pening á æskuárunum með því að safna miðstöðvarofnum í fjörunni og selja þá. „Þá var fyrirtæki við Ánanaust sem hét Járnsteypan. Málmurinn í miðstöðvarofnunum hét pottur og þeir keyptu pott, þennan málm, á eina krónu kílóið. Þá henti fólk bara ofnunum í fjöruna og ég var að draga þetta upp úr fjörunni og fór með í Járnsteypuna. Svo þegar ég var búinn að hreinsa fjöruna þar þá þurfti ég að fara lengra og þá fór ég til Péturs Hoffmanns, þess fræga manns sem var að selja glingur á Lækjartorgi. Hann átti stóran handvagn sem hann geymdi í Alliance-húsinu og ég bað hann um að lána mér hann. Þetta var stór trévagn málaður í fánalitunum. Ég hreinsaði síðan fjöruna frá Gróttu og inn í Klettsvík af ofnum og seldi fyrir krónu kílóið. Þetta var ég að dunda mér við 12 ára eða eitthvað svoleiðis. Ég hef alltaf verið orkumikill. Sumum finnst ég nú vera full fyrirferðarmikill. Eða hefur þótt það.“

Sigurjón var erfiður í skóla. Ofboðslega erfiður í skóla.

„Ég gerði allt sem ég átti ekki að gera og ekki það sem ég átti að gera. Ég var til mikilla vandræða. Ég var svona trúður. Ég var alger trúður. Þetta var tómt vesen. Ég sneri út úr og þrasaði og þrætti. Ég gekk fram af skólastjóranum oftar en einu sinni. Honum var illa við mig og mér við hann.“

Sigurjóni leið illa í skólanum. „Ég átti í sjálfu sér ekkert erfitt með að læra en það var ekkert gert í málinu þegar ég lét svona. Mér var bara refsað með því að reka mig úr tíma eða ég var sendur til skólastjórans. Skólakerfið var ekki fullkomnara en þetta. Ég var bara fífl. Ég var bara rekinn til og frá.

Sigurjón M. Egilsson. „Mamma kom til dyra og þá voru komnir menn frá barnavarnanefnd til að sækja mig. Það átti að senda mig á Breiðuvík.“

Svo var einu sinni bankað heima. Mamma kom til dyra og þá voru komnir menn frá barnavarnanefnd til að sækja mig. Það átti að senda mig á Breiðuvík. Mamma harðneitaði. Það var grátur og mikil læti. Það endaði með því að mamma gerði við þá samkomulag um að fresta þessu. Ég varð síðar upphafsmaðurinn að skrifunum um Breiðuvík. Breiðuvíkurmálið er eiginlega stóra málið mitt í blaðamennsku.“

Fjölskyldan flutti í Ljósheima þegar Sigurjón var á síðasta ári í grunnskóla og hann fór í Vogaskóla. Þá breyttist allt.

„Það var eins og hendi væri veifað. Þá kynntist ég allt öðruvísi fólki og þá var ég ekki með neina fortíð. Kom fortíðarlaus á nýjan stað. Hægt var að velja valfög og ég fór í leiklist. Það var yndilsega gaman. Hreint frábært. Það var merkilegt fyrir mig sem hafði verið villingur og lúði. Þetta gjörbreytti öllu. Við sömdum okkar eigið leikrit og ég var valinn til að leika aðalhlutverkið. Ég er laglaus og þurfti að syngja. Og það sprungu allir úr hlátri þegar ég byrjaði að syngja. Ég kann ennþá ljóðið sem ég söng og ég syng það stundum í mínu lagleysi.“

Grét söltum tárum

Sigurjón var 17 ára. Farinn að vinna. 

„Ég var í ágætis starfi sem þótti þá fyrir svona vitleysinga eins og mig; ég var sendisveinn á bílaverkstæði og var á fínum Bronco-jeppa að sendast eftir varahlutum og var ekkert að velta fyrir mér neinni framtíð. Aldrei. Félagi minn, sem hafði ekki klárað gagnfræðaskólann, hætti eftir 3. bekk en ég kláraði 4. bekk. Hann hafði farið þá á vertíð og hann vildi endilega fá mig með sér á sjóinn. Það vantaði mikið af mönnum á báta að það var listi á skrifstofu LÍU. Háseta vantar á bát. Og svo voru taldir upp bátar.“

Ég nota hornið á handklæðinu

Og Sigurjón fór til Ólafsvíkur 18 ára gamall til að fara á sjóinn.

„Mér var vísað upp á herbergi í verbúðinni þar sem voru fjórar kojur. Hermannakojur. Mjög nöturlegt. Eitt borð. Og bara þrír naglar til að hengja fötin á. Ég kom síðastur inn þannig að ég þorði ekki að nota nagla. Ég fór að taka upp úr pokanum mínum um kvöldið og þá kom yfir mig ofboðslegur kvíði. Ég fór til konunnar sem var með verbúðina og mötuneytið sem hét Jóhanna Metúsalemsdóttir. Fín kona. Ég spurði hvort ég mætti hringja til Reykjavíkur. Nei, það mátti ég ekki. Ég var voða aumur. Svo kallaði Jóhanna í mig og sagði að ég mætti hringja. Ég hringdi í mömmu og sagði að ég væri ekki með neinn þvottapoka. Þá sagði mamma við mig setningu sem ég gleymi aldrei. Hún sagði: „Siggi minn, sjómenn nota hornið á handklæðinu.“ Og það fannst mér alveg geggjað. Síðan hef ég ekki notað þvottapoka. Ég nota hornið á handklæðinu.“

Sigurjón var sjómaður í 12 ár. „Það var eitthvað rót á Agli bróður, sem er tveimur og hálfu ári yngri en ég, og hann kom líka vestur. Við vorum verbúðarmenn. Við áttum mest heima í verbúðum. Við vorum verbúðarstrákar seinni táningsárin. Þetta hefur eflaust mótað okkur mikið. Ég hugsa það. En við vorum mjög sjálfbjarga en við höfðum allir mjög takmarkað bakland. Þetta var töff tími og mótaði okkur sem krakka. Auðvitað var ég bara krakki. 

Ég sneri mér bara undan og grét

Þetta var oft erfitt. Þetta var svolítið töff. Ég var svo óharðnaður þegar ég fór fyrst á sjóinn. Mér leið illa til að byrja með. Mér var oft kalt; litlir unglingsputtar og þá voru bátarnir ekki yfirbyggðir. Janúar. Kuldinn. Myrkrið. Einn að heiman. Og menn að bölsótast við mann ef maður lagði sig ekki nógu mikið fram. Mér fannst mennirnir vera miskunnarlausir við mig. Harðir. Ég grét oft, sko, án þess að þeir sæju. Ég sneri mér bara undan og grét af því að mér leið svo illa þarna. 

Ég ætlaði aldrei aftur á sjóinn eftir þessa fyrstu vertíð. Ég ætlaði með stakkinn minn upp á bryggju þegar vertíðinni væri lokið og kveikja í honum. Ég var margbúinn að segja þetta við strákana. Svo þegar við vorum að klára að ganga frá eftir vertíðina þá kom skipstjórinn til mín og sagði að við myndum byrja aftur strax eftir 17. júní. „Þú kemur þá,“ sagði hann. „Já,“ sagði ég. Og svo bara hélt ég áfram. Ég var á þessum báti í fjögur ár. Og ég var í alls sex ár hjá þessari útgerð. Þegar upp var staðið kunni ég mjög vel við þetta allt. Svo fór ég að fara á aðra báta fyrir hærri hlut. Þannig að þetta gekk ágætlega.“

Sigurjón er spurður hvað sé eftirminnilegast frá sjómannsferlinum.

„Það er sorglegt. Ég var einu sinni stýrimaður og við vorum á leiðinni í land. Ég var kominn heim þegar húsið var bara barið að utan og ég fór til dyra. Þar stóð vörubílstjóri sem sagði að ég yrði að koma af því að einn báturinn hafði ekki skilað sér. Við fórum út að leita. Þessi nótt var alveg ömurleg,“ segir hann með áherslu. „Hún var svo köld. Fimm menn, sem ég þekkti, drukknuðu. Þetta var svo kalt og þetta var svo vont. Þetta var alveg ógeðslegt. 

Við komum í land undir morgun og ókum fram hjá húsi skipstjórans sem fórst auk þess sem einkasonur hans hafði líka farist. Ekkjan var úti í glugga alveg hágrátandi og krafsaði í rúðuna. Bróðir hennar hélt utan um hana. Þessi mynd hverfur aldrei úr huga mínum. Aldrei. Ég sé þetta enn fyrir mér.“

„Mér líður ennþá stundum illa andlega. Lífsviljinn er missterkur.“

Sigurjón er spurður hvað sjórinn sé í huga hans. „Ég kunni afskaplega vel við að vera sjómaður. Ég var alveg ákveðinn í að það yrði ævistarfið mitt. Ef ég á erfitt með að sofna þá fer ég í huganum út á sjó. Þá er ég að draga línu eða eitthvað. Ég finn þá þessa fallegu, þægilegu hreyfingu sem getur líka verið alveg miskunnarlaus. Sjórinn við Ísland er svo tær. Hann er svo fallegur; eins og að vera til dæmis að draga línu í góðu, björtu veðri og sjá einhverja tugi metra niður í hafið. Þetta er svo hreint og tært. Ég sé margt mjög fallegt við sjómennsku.“

Í blaðamennsku

Sigurjón hóf nám við Stýrimannaskólann árið 1986 en lauk aldrei því námi.

„Skólinn var með útibú í Ólafsvík. Ég fór einu sinni í prentsmiðju í bænum vegna þess að mig vantaði pappírsörk til að skrifa reikniformúlu inn á sem ég hafði búið mér til um stöðugleika skipa. Kennarinn hafði beðið mig um að sýna fleirum formúluna. 

Prentmiðjueigendurnirnir voru þeir Ævar Guðmundsson, Ólafur Arnfjörð og Kristján Pálssson, útgerðarstjóri og síðar bæjarstjóri og þingmaður. Við fórum að spjalla og Kristján spurði mig hvort bróður minn væri blaðamaður. Þá var Gunnar Smári blaðamaður á Helgarpóstinum. Þá spurðu Ævar og Óli hvort ég vildi ekki eiga Ólsarann sem var héraðsfréttablaðið sem þeir áttu en höfðu ekki haft tíma til að skrifa í eða gefa út. Ég þáði Ólsarann og varð svo fréttaritari DV sem varð síðar til þess að Ellert B. Schram bauð mér vinnu sem blaðamaður.

Mér þótti það vera algert ævintýri að vinna hjá DV. Þetta var eins og ungur knattspyrnumaður væri að fá tilboð frá Arsenal eða eitthvað. Mér fannst þetta alveg geggjað.“

Sigurjón er beðinn um að gera fjölmiðlaferilinn upp.

„Hann er svo langur, maður. Ég flutti sem sé suður til að verða blaðamaður hjá DV árið 1987. Ég notaði aldei millinafnið mitt, Magnúsarnafnið, fyrr en ég gerðist blaðamaður til að búa til skammstöfunina sme; þetta var allt úthugsað hjá mér til að það væri hægt að lesa skammstöfunina. Ekki se heldur sme. Mér fannst það vera flottara. Ég var alltaf kallaður sme eftir þetta þegar greinar eftir mig voru merktar.

Ég var settur strax í fréttir hjá DV. Ég man að þegar ég var nýbyrjaður þá sátum við á fundi og var búið að úthluta verkefnum til allra og ég, nýliðinn, var eftir. Fréttastjóri spurði hvort ég gæti ekki skrifað um bílastæðavandann í miðborginni. Ég sagðist geta gert það og bætti við að ég hefði lesið einhver furðuskrif um að það vildi einhver bílastæði undir Austurvöll. Þá horfði Jónas Kristjánsson ritstjóri á mig og sagði: „Það var ég.“ Og ég horfði á hann og sagði að mér fyndist það vera jafnundarlegt fyrir því. Þá sá ég að hann brosti með augunum. Ég er alveg viss um að ef ég hefði ekki svarað honum þá hefði ég ekki orðið blaðamaður. En þarna sá ég að honum leist á mig af því að ég svaraði fyrir mig. Og síðan átti ég farsælan feril á DV og líkaði mjög vel. Ég hafði svo gaman af þessu. Ég vann mjög mikið og bara naut þess algerlega í botn. Nema að Elías Snæland Jónsson, sem var fréttastjóri, var svolítið erfiður við mig fyrst. Það var allt ómögulegt sem ég gerði og alltaf eitthvað vesen. Einn morguninn stóð ég fyrir framan DV-húsið við Þverholt 11 og hugsaði með mér hvort ég ætti að fara inn eða fara út á sjó. Hvað átti ég að gera? Svo ákvað ég að fara inn og gera þetta að ævistarfi. Ég fór inn og hélt áfram í blaðamennskunni. Ég hef aldrei efast. Aldrei. Svo endaði það á því að Elías varð einn af mínum uppáhaldsyfirmönnum. Hann var harður maður og ég lærði mikið af honum.“

Gunnar Smári, bróðir Sigurjóns, var ráðinn ritstjóri Pressunnar og segir Sigurjón að hann hafi boðið sér vinnu sem ritstjórnarfulltrúi. „Ég fór þangað og var í miklu stuði. Ég skúbbaði mikið og þetta var flott rannsóknarblaðamennska. Þetta var mjög gaman. Ég var alltaf í vinnunni. Alltaf. Þá var yngri sonur minn alltaf að kvarta yfir því að ég væri aldrei heima. Svo var auglýst eftir fréttamönnum á fréttastofu Ríkisútvarpsins og hann sagði að ég yrði að sækja um. Og ég gerði það. Og var ráðinn. Það var geggjað. Það var algjörlega geggjað. Atli Rúnar Halldórsson hafði verið í pólitíkinni og hann tók sér frí þegar ég var kominn og þá var Davíð nýbúinn að mynda ríkisstjórn og ég var orðinn fréttamaður Ríkisútvarpsins í pólitíkinni og var á fleygiferð um allt. Ég stóð mig mjög vel. En þetta var svo illa borgað. Það var alveg ömurlegt.“

Grimmi fréttastjórinn

Aftur bauð Gunnar Smári bróður sínum vinnu. „Ég hitti hann einu sinni á Hard Rock í hádeginu og hann lagði fyrir framan mig blað með tölum á sem Pressan bauð mér fyrir að koma aftur. Ég gat ekki annað en þegið það. Þetta voru svo miklu hærri laun. Og ég fór þangað. Þá höfðu orðið eigendaskipti á Pressunni og þetta var allt öðruvísi en áður. Mér leist ekki á þetta. Mér fannst við líka vera farin að teygja okkur of langt eftir fréttaefnum og ég bara fílaði ekki breytingarnar.“

Sigurjón hitti Jónas Kristjánsson á förnum vegi sem bauð honum starf hjá DV og fékk hann hærri laun en áður með því að fá mikla yfirvinnulaun. „Þetta gekk vel og þá var ég í ofboðslega miklu stuði. Ég skúbbaði mikið. Sérstaklega í pólitíkinni. Það var geggjað, sko. Geggjað. Ég þurfti að hafa svo mikið fyrir þessu og það gekk svo margt upp hjá mér. Og ég naut trausts víða. Þar átti ég ótrúlega merkilegan kafla í pólitískum skrifum. Ég kynntist stjórnmálamönnum af góðu og illu. Þetta var æðislegur tími. Svo var skrúfað fyrir alla yfirvinnu á DV og þá var ég kominn á grunnlaun sem voru galin. Og ég gat ekki sætt mig við þetta.“

„Það var grátið á ritstjórninni hjá okkur dag eftir dag og við sem fjölluðum mest um málið vorum stundum gersamlega búin á því. Þetta var svo sársaukafullt.“

Það vantaði ritstjóra á sjómannablaðið Víking og Sigurjón fékk það starf og vann við það í sjö ár. 

„Össur Skarphéðinsson hringdi í mig. Hann var þá ritstjóri á Alþýðublaðiu og spurði hvort ég vildi ekki verða fréttastjóri. Þegar Alþýðublaðið var svo lagt niður var ákveðið að ég færi aftur á DV en það var verið að sameina þetta allt saman og leggja niður blöð. Það var hins vegar ekki staðið við það sem sagt hafði verið og ég nennti þessu ekki og hætti.“

Sigurjón vann síðan hjá Fréttablaðinu og varð hann fljótlega fréttastjóri og síðar fréttaritstjóri. „Þetta var á miklum uppgangstíma. Veistu, ég fór hvorki í bíó né leikhús í held ég sex ár. Ég var að vinna. Ég vann og ég vann og ég vann. Ég var alltaf að vinna. Þegar ég tók við sem fréttastjóri þá var svo mikið agaleysi að þá þurfti ég að vera grimmi fréttastjórinn til að búa til eitthvað vinnuferli. Sumir hafa ekki fyrirgefið mér enn. Sumir eru ennþá reiðir við mig út af þessu. Ég var harður. Ég læsti húsinu klukkan níu á morgnana þannig að þeir sem komu of seint þurftu að banka til að komast inn. En það var ekkert annað að gera. Þetta var algerlega vonlaust dæmi. Við ætluðum aldrei að ná að skila blöðum af því að það vantaði efni. Þetta var allt í rugli.

Jónas Kristjánsson vann þar í hálft ár sem ritstjóri sem mér fannst frábært. Við unnum saman í hálft ár, ég og Jónas, og ég fletti upp í honum, ég leitaði til hans og lærði af honum. Ég tók þetta eins og ég væri í háskóla með Jónas Kristjánsson á skrifstofu hjá mér alla daga. Mér fannst það frábært. Enda ber ég ekki eins mikla virðingu fyrir nokkrum öðrum eins og honum í þessum bransa. Hann var svo nákvæmur. Ég get nefnt dæmi. Þegar ég kom af sjónum og var orðinn fréttablaðamaður hjá DV þá var ég ekki nógu góður í tíðunum; ég er ekki menntaður maður – ég er „drop out“ úr stýrimannaskóla. Ég ruglaði saman tíðum. Þá var bara unnið í því. Jónas og Ásgrímur heitinn Pálsson, sem var yfirmaður prófarkadeildar, unnu í því að laga tíðirnar hjá mér.“

Sigurjón var gerður að fréttaritstjóra þegar Kári Jónasson var ráðinn ritstjóri. „Ég var nú svolítið spældur þá. Ég vildi verða ritstjóri. En ég sættist á þetta. Ég var í fínu starfi – ég stjórnaði orðið allri fréttadeildinni. 

Svo kom Þorsteinn Pálsson og þá missti ég svolítið það frelsi sem ég hafði haft þegar Kári var. Kári var allt öðruvísi maður. Með honum fór ég mínu fram. En Þorsteinn var öðruvísi. Frelsi mitt sem fréttaritstjóra varð minna, ég kunni illa við það. Þannig að ég bara hætti.“

Breiðavíkurmálið

Sigurjón varð ritstjóri á Blaðinu. „Það var litli ljóti andarunginn í þessu en náði frábærum árangri; eða ég og aðrir starfsmenn. Við fórum fram fyrir Moggann í lestrarkönnunum sem var algerlega geggjað. Mér fannst hins vegar vanta bilið milli auglýsingadeildar og ritstjórnar sem ég þoldi ekki. Ég þoldi ekki að auglýsingadeildin væri að spyrja blaðamenn um hvað þeir væru að fara að skrifa til að reyna að selja auglýsingar út á efnið. Þetta voru endalausir árekstrar. 

Svo endaði það á því að ég hitti Jón Ásgeir á leynifundi. Þetta er eina skiptið sem ég hef fundað með honum. Það var leynifundur í bakhúsi. Það var rosalega flott. Þar bauð hann mér samning ef ég kæmi og yrði ritstjóri hjá DV. Og ég þáði það.“

DV var þá vikublað sem Sigurjón segir að hafi gengið frekar illa. „Og í bulli og þvælu héldum við þeirri áæltun að breyta DV í dagblað sem við hefðum aldrei átt að gera en það þurfti að bæta við mannskap sem var ekki gert nægilega. Þetta var algjörlega ómögulegt. Við eyðilögðum algerlega frábært dæmi.“

Sigurjón vann með öðrum á DV á þessum tíma að skrifum um Breiðavíkurmálið. Hann segir að ísinn hafi þá verið brotinn með umfjöllunum um Breiðuvík sem og önnur heimili – Kumbaravog, Bjarg og Silungapoll. „Strákarnir sem voru sendir í Breiðuvík voru sviptir öllu. Þeir voru sviptir menntun. Þetta mál var ömurlegt. Það var grátið á ritstjórninni hjá okkur dag eftir dag og við sem fjölluðum mest um málið vorum stundum gersamlega búin á því. Þetta var svo sársaukafullt. Við vorum fyrir þessar umfjallanir valin rannsóknarblaðamenn ársins árið 2007. Ég held að af mörgu sem ég hef unnið í kringum fjölmiðla þá sé þetta magnaðast af öllu. Mér hlýnar að innan þegar fólk sem var farið illa með fær sanngirnisbætur. Breiðuvíkurmálið er upphafi að þeim bótum.“

Sigurjón fór svo að vinna á Mannlífi sem var í eigu sömu útgáfu og fór að skrifa um efnahagsmál. Hann fékk svo árið 2008 verðlaun sem rannsóknarblaðamaður ársins fyrir þá vinnu. „2007 og 2008 voru svolítið merkileg ár í minni blaðamennsku.“

„Þetta var bara ömurlegt. Ég hugsaði oft með mér hvort ég ætti ekki bara að vera drykkjumaður. Það var einhvern veginn auðveldasta leiðin.“

Hann byrjaði síðan með útvarpsþáttinn Sprengisand á Bylgjunni árið 2008 og var með hann í sjö og hálft ár. „Þetta var oft vinsælasti útvarpsþáttur vikunnar. Vinsælli heldur en fréttir RÚV. Það var mikið hlustað á þáttinn og vitnað í hann til og frá. Svo var mér farið að leiðast. Það voru breytingar á stjórn 365 og ég notaði fyrsta tækifæri til að fara út. 

Síðan hef ég verið með vefmiðilinn minn, midjan.is, og svo er ég nýbúinn að kaupa tímaritið Heima er bezt. Ég er orðinn eldri borgari og Heima er bezt er dásamlega fallegt. Ég sit órakaður og óklipptur og er með frábæra vinnuaðstöðu heima hjá mér. Ég á hundinn Lopa og fer með hann út að ganga á morgnana og seinni partinn. Það eru ritstjórnarfundirnir mínir með honum. Ætli þetta sé ekki það síðasta sem ég geri í blaðamennsku. Ég hugsa það.“

Sigurjón keypti midjan.is fyrir nokkrum árum síðan. „Mér fannst ég hafa verið plataður. Ég borgaði allt of mikið fyrir þetta. Miðjan mín er einhvern veginn öðruvísi vefur. Ég nenni ekki að vinna venjulegar fréttir. Ég vinn upp úr þingskjölum og fundargerðum borgarinnar og þannig. Svo skrifa ég greinar og birti greinar eftir aðra. Netmiðillinn midjan.is gefur ekki mikla peninga. Ég er eins og fjárbóndi. Ég byrja morguninn á því að gefa á garðann. Ég set eitthvað inn á midjan.is. Svo fer ég að snúa mér að Heima er bezt. Svo fer ég út að ganga og hugsa um Heima er bezt. Svo kem ég úr göngutúrnum, fer í sturtu og byrja að skrifa. Núna er ég til dæmis að skrifa upp úr gömlu tölublaði grein um börn Fjalla-Eyvindar. Ég vissi ekki að hann hefði átt börn. Mér finnst þetta vera skemmtilegt. Mér finnst þetta vera flottar sögur. Ég elska þetta.“

Sigurjón er til í að selja midjan.is af því að það er orðið svo mikið að gera hjá honum. Ef einhver vill kaupa.

„Ég ætla að halda áfram að óbreyttu fram yfir kosningar ef ég sel ekki. Ég er búinn að bjóða Framsóknarflokknum að kaupa midjan.is; ég hef ekki sagt neinum frá þessu. Ég er búinn að skrifa bæði Sigurði Inga og Lilju Alfreðsdóttur tvisvar sinnum af því að Framsóknarmenn segja að framtíðin ráðist á miðjunni; þá spyr ég af hverju þau kaupi ekki Miðjuna. Þetta er frábært lén fyrir þá sem segja að framtíðin ráðist af miðjunni. Kannski kemur svar frá þeim með vorskipinu.“

„Ég grét oft, sko, án þess að þeir sæju. Ég sneri mér bara undan og grét af því að mér leið svo illa þarna.“

Alkóhólisti

Sigurjón eignaðist sitt fyrsta barn 21 árs og eignaðist þrjú börn með tveimur konum á fimm árum. Eina stúlku og tvo drengi. „Dóttir mín er hálfsystir strákanna og þrátt fyrir að þau hafi ekki alist upp saman þá eru þau miklir vinir í dag. Það er mitt mikla lán í lífinu að eiga börnin mín og hvernig hefur spilast úr með þau.“ Þögn. „Nú líður mér illa þegar ég tala um þetta.“

Hvers vegna?

„Æi. Stundum skammast ég mín. Ég var fáviti. Brást fólki. Ég hafði ekkert samband við stelpuna lengi vel. Ég stóð mig illa og það má segja að þetta hafi gengið illa hjá mér lengi. Krakkarnir mínir þekktust ekki lengi vel. En svo þegar það loksins varð þá hefur ræst betur úr því en ég hefði nokkurn tímann þorað að dreyma um. Eldri sonur minn og dóttirinn búa bæði úti í Stokkhólmi og þar er vinskapur og á milli barnanna þeirra. Það er svo sniðugt að þau eiga jafngamla stráka og jafngamlar dætur. Þau er vinafólk og það gleður mig mjög mikið. Ég er glaður með börnin mín og barnabörn.“

Drykkfelldur. Jú, Sigurjón er alkóhólisti. 

Hann man eftir fyrsta sopanum. Hann segist hafa verið smápolli þegar nágranni hans, sem var ári eldri, stal víni frá pabba sínum og þeir smökkuðu. „Við vissum ekki hvað þetta var. Þá vorum við bara óvitar og okkur þótti þetta vera ógeðslegt.“

Svo var hann um 15 ára. Hann og félagar hans voru á Lambastaðatúni á Seltjarnarnesi og voru með brennivín í flösku. Einhverja blöndu. „Ég fann vel á mér. Og þegar ég kom heim þá man ég að mamma var alveg ofboðslega reið og henti mér ofan í baðkerið og sprautaði yfir mig köldu vatni.“

Svo ágerðist drykkjan hægt og bítandi.

„Frelsið sem fólst í því að vera á vertíð tengdist því að þar var engin mamma. Þá gat ég bara átt mína peninga. Ég gat pantað mér áfengi með póstinum. Og þá var enginn til að hafa eftirlit með mér; ekki nema skipsfélagarnir – eldri menn um borð sem höfðu nú stundum áhyggjur. Einhverra hluta vegna drakk ég oft illa og var á tímabili nefndur „dáni“.“ Ástæðan er að Sigurjón dó oft brennivínsdauða.

Sigurjón og fyrri kona hans skildu eftir 17 ára hjónaband og hann segir að þá hafi hann aukið drykkjuna. „Þá var ég eiginlega búinn að missa öll tök á þessu án þess að viðurkenna það.“

Hann fór langt niður í drykkjunni. „Þetta var bara ömurlegt. Ég hugsaði oft með mér hvort ég ætti ekki bara að vera drykkjumaður. Það var einhvern veginn auðveldasta leiðin. Þegar maður er fullur þá virðist vera svo langt í edrúmennskuna og þá finnst manni auðveldari leið að vera bara áfram fullur. Ég gat ekki hugsað mér lífið án áfengis. Ég held að það sé þannig með flesta alkóhólista. Ég náði aldrei að stjórna því hvenær ég hætti að drekka eftir að ég fékk mér í glas. Ég var algjörlega búinn að missa tökin á því. Ef ég drakk þá vissi ég aldrei hvenær ég næði landi aftur. Jú, ég gat verið undir áhrifum einhverja daga í röð. Það var þannig. Þetta varð stjórnlaust. Maður stjórnaði þessu ekki neitt.“

Sigurjón hafði í mörg ár verið í blaðamennsku og svo þegar hann varð ritstjóri tímarits og vann einn að því gat hann falið drykkjuna meira.

Svo breyttist lífið. „Ég kynntist núverandi konunni minni og hún hagaði sér öðruvísi í kringum mig þegar ég var illa fyrir kallaður. Hún lét mig bara finna fyrir því án þess að segja neitt heldur bara hvað varðaði framkomu hennar gagnvart mér.“

„Þá horfði Jónas Kristjánsson ritstjóri á mig og sagði: „Það var ég.“ Og ég horfði á hann og sagði að mér fyndist það vera jafnundarlegt fyrir því. Þá sá ég að hann brosti með augunum. Ég er alveg viss um að ef ég hefði svarað honum þá hefði ég ekkert orðið blaðamaður.“

Byrjun árs 1997. Sigurjón var í baði og fór að hugsa sinn gang. Honum fannst þetta ekki vera hægt. „Ég tók ákvörðun um að fara í meðferð. Ég stökk upp úr baðinu, kallaði á konuna mína og sagðist ætla að fara í meðferð og hringdi svo í bróður minn, Gunnar Smára, sem var þá búinn að vera edrú í rúmt ár. Ég veit ekki hvernig honum tókst að komast heim til mín á einni sekúndu. Við fórum eftir það daglega saman á alkafundi þangað til ég fór í meðferð.“

Sigurjón hefur verið edrú síðan

„Ég er breyskur og brothættur maður. Það verður að bera virðingu fyrir því að í mér er alkóhólisti. Ég hef lært það. Ég nálgast hann með varúð. Stóra málið er að vera í bata og vera í sambandi við fólk sem er eins ástatt um.

Það kemur ekki til greina að snúa til baka. Þetta er annað líf og betra.“

Lífsviljinn er missterkur

Lífið er alls konar. Og áföllin gera ekki boð á undan sér.

Sigurjón lenti í mótorhjólaslysi fyrir nokkrum árum. „Það var 2015. Eða 2016. Ég man ekki hvort það var. Það var helvítis rassgat. Ég datt niður í malbikið. Skall í malbikinu, braut fimm rifbein, annað lungað lagðist saman og annað herðablaðið mölbrotnaði og greri svo vitlaust saman. Það eru miklir áverkar sem fylgja þessu og ég næ aldrei bata. Ég er með skemmdar taugar sem framkalla mikinn sársauka og stundum er ég bara mjög slæmur og get ekkert unnið. Ég hef stundum engan mátt í hægri hendi og alls ekki hægri handlegg. Ég legg hendina stundum upp á lyklaborðið og stundum svara fingurnir á hægri hendi ekki alltaf. Ég hlæ stundum að mér af því að allar ásláttarvillurnar eru hægra megin á lyklaborðinu; hugsunin nær ekki niður í fingurna. Sambandið rofnar.“

Sigurjón M. Egilsson. „Mamma kom til dyra og þá voru komnir menn frá barnavarnanefnd til að sækja mig. Það átti að senda mig á Breiðuvík.“

Sigurjón segir að verkirnir séu það versta. „Þeir geta verið miklir. En svo er ég Pollýanna í mér. Ég ólst upp við það að þegar maður kvartaði þá sagði mamma að þeir sem ættu bágt ættu bágara en ég. Og það eru sumir sem eiga mikið bágara en ég svo sem þeir sem eru með krabbamein eða hjartasjúkdóma. Ég veit alveg hvað er að mér. Ég veit að það er ekki lækning við því. Ég tek hins vegar eins lítið af verkjalyfjum og ég get vegna þess að ég er alkóhólisti.“

Sigurjón og eiginkona hans voru tvo vetur á Spáni en hann vonaði að verkirnir myndu minnka við að vera í hitanum. Verkirnir voru til staðar en voru þó minni. Hann segir að næðingur fari verst með sig. „Fyrri veturinn var dásemd. Það voru stuttbuxur og stuttermabolur í desember og janúar. Seinni veturinn var ekki eins góður. Ekki eins hlýr. Svo kom Covid og við komum heim fyrr en við ætluðum.“

Hann var stundum í golfi á Spáni og fer stundum í golf á Íslandi þrátt fyrir verkina og máttleysið í hægri hendi. „Ég næ stundum ekki að klára golfhringinn. Stundum spilaði ég kannski þrjár til fjórar brautir. Stundum klára ég. Stundum kláraði ég vitandi það að ég ætti að vera hættur en hélt áfram til að vera ekki eins og fýlupoki. “

Verkirnir hafa áhrif á sálina.

„Af því að annað lungað lagðist saman þá var ég lagður inn á hjarta- og lungnadeild og þar var Tómas Guðjartsson, þessi frábæri læknir, sem sagði að þetta hafi verið þungt högg fyrir líkamann og líka sálina. Hann skoraði á mig að fara til sálfræðings sem ég gerði. Ég trúi öllu sem svona alvörufólk segir. Ég hafði ofboðslega gott af því að fara til sálfræðings. Það var bara meiriháttar. Ég get ekki sagt hvernig mér leið í upphafi fyrsta tímans. Mér leið svo illa andlega. Mér líður ennþá stundum illa andlega. Lífsviljinn er missterkur. Mér hefur aldrei komið til hugar að fremja sjálfsmorð. Ég get það ekkert. Það væri svo frekt. Ég gæti það ekki út af öllu fólkinu mínu. Ég þarf samt oft að hvetja mig áfram. Ég finn svo oft til – og til hvers þá að vera að þessu? Væri ekki betra að fara? Maður þarf að hafa fyrir því að viðhalda lífsviljanum. Og þá fer maður að hugsa um barnabörnin.“

Sigurjón er í góðu sambandi við barnabörnin. „Ég er pennavinur þeirra með aukinni tækni. Bara með svona Messenger.“ Hann hlær. „Maður skrifast á á Messenger.“

Þá kviknaði eldur í einni sál

Sigurjón, sme, er orðinn 67 ára. Löglegur eldri borgari. „Ég er svo sáttur við að eldast. Ég sé alveg breytingar á útlitinu. Ég er að verða sköllóttur en mér er bara alveg sama um það. Þetta snýst ekkert um það. Mér líður bara vel í því sem ég er að gera.“

Þótt bæði líkami og sál séu stundum aum þá hugsar hann um heilsuna. Hreyfir sig. Gengur.

Jú, hann gengur tvisvar á dag; það eru ritstjórarfundirnir með rakkanum Lopa. 

„Ég geng sjaldan undir um 10 kílómetrum á dag,“ segir Sigurjón sem fór í magaermisaðgerð fyrir nokkrum árum og léttist eftir það um tugi kílóa. Hann segir að það sé gaman að geta keypt föt sem honum líkar og svo er hann farinn að vera veitingahúsafær; getur pantað létta fiskrétti og klárað.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan 18 ára unglingsstrákur fór vestur til að fara á sjóinn og grét söltum tárum um borð. sme þykir hafa verið töffari í blaðamennskunni. Í dag situr hann óklipptur og órakaður heima hjá sér og skrifar um börn Fjalla-Eyvindar.

„Ég er kominn í friðarhöfn. Ég er búinn að leggja bátnum í friðarhöfn.“

Hann stendur upp. Fer fram á gang. Leitar að bók í bókahillu.

„Ég er að leita að bók sem mótaði mig mikið í æsku. Þetta er bók með ljóðum eftir Stein Steinarr. Ljóð sem gjörbreytti lífi mínu eða fékk mig til að taka afstöðu í lífinu. Steinn Steinarr minn, hvar ertu?·

Hann finnur bókina.

„Þetta er ljóð sem ég held mikið upp á sem er í ljóðsafni á blaðsíðu 60. Nú ætla ég að lesa það.“

Og Sigurjón les:

 

Eldsvoði

 

Það kviknaði eldur á efstu hæð,

 

í einu húsi við Laugaveginn.

 

Og því verður ekki með orðum lýst,

 

hvað allur sá lýður varð harmi sleginn.

 

Það tókst þó að slökkva þann slóttuga fant,

 

því slökkviliðið var öðru megin.

 

Og því verður ekki með orðum lýst,

 

hvað allur sá lýður varð glaður og feginn.

 

„Svo kemur seinni hlutinn sem gjörbreytti unglingum og hafði mikil áhrif á mig.“

 

Og Sigurjón les áfram:

 

En seinna um daginn, á sömu hæð,

 

í sama húsi við Laugaveginn,

 

þá kviknaði eldur í einni sál,

 

í einni sál, sem var glöð og fegin.

 

Og enginn bjargar og enginn veit,

 

og enginn maður er harmi sleginn,

 

þó brenni eldur með ógn og kvöl

 

í einu hjarta við Laugaveginn.

 

„Þetta kvæði gjörbreytti hugsun minni. Það kviknaði eldur í húsi við Laugaveg og þá kom slökkviliðið og það berjast allir við að slökkva eldinn. En þegar það kviknar eldur í sál þá kemur enginn. Það er það sem er. Þá bara brennur sálin.“

Það hefur án efa logað í sál Sigurjóns. Oftar en einu sinni.

„Ég er alltaf að hugsa frekar um aðra heldur en mig sjálfan. Ég er ekki í neinni neyð núna.“

Hvað með vesen í skóla, drykkjuna, skilnaðinn, slysið og andega vanlíðan?

„Já, ég er ekkert ónotaður maður.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -