Föstudagur 22. nóvember, 2024
-2.4 C
Reykjavik

Sigurlaug hefur áhyggjur af þremur blindum sonum sínum: „Þeim eru í raun allar bjargir bannaðar“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Ég fæddist og ólst upp að mestu leyti í Skagafirði en einnig í Garðabæ en hef lengst af búið austur á Héraði en ég er fyrrum bóndi en núverandi verslunarmaður og kaffihúsaeigandi á Blönduósi,“ segir Sigurlaug Gísladóttir, oddviti í Norðvesturkjördæmi fyrir Frjálslynda lýðræðisflokkinn. 

Sigurlaug rekur ásamt eiginmanni sínum, Reyni Sigurði Gunnlaugssyni, Húnabúð við bakka Blöndu. Hún var í þrjú ár réttindamaður fatlaðs fólks á Austurlandi en hún þekkir málefni fatlaðra persónulega.

„Ég á fjögur börn og þar af þrjá syni sem allir eru lögblindir; einn þeirra er reyndar líka með meiri fötlun. Þeir fæddust það sem kallast öryrkjar. Og kerfið er bara þannig að það er svakalegt fyrir börn að fæðast inn í það“.

Sigurlaug er mikið fyrir blóm.

Sigurlaug segir að ekki sé vitað hvers vegna allir synirnir fæddust lögblindir og að það hafi ekki átt að vera fræðilegur möguleiki. 

„Íslensk stjórnvöld virðast ekki vita að þessi hópur, fatlaðir, sé til; það er sama hvaða flokkur hefur verið við stjórn. Efndirnar eru engar þrátt fyrir fögur loforð,“ segir Sigurlaug en ástæða þess að hún gefur nú kost á sér er málefni fatlaðra og heilbrigðiskerfið og reynsla hennar að vera móðir þriggja fatlaðra sona. 

„Þetta fyrst og fremst setur mann í baráttuham fyrir bættum lífsgæðum þessara einstaklinga hvort sem það eru synir mínir eða aðrir í svipuðum sporum.“

- Auglýsing -

Hvers vegna Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn?

„Einfaldlega vegna þess að þar fékk ég tækifæri. Ég er búin að sjá margt gott fólk fara fram fyrir aðra flokka og hélt í fávisku minni að ef maður gengi til liðs við aðra flokka þá væri hægt að breyta þessu innan frá en það var bara hrokafullt af mér að halda það því flokkakerfið virðist kæfa það. Við hjá Frjálslynda lýðræðisflokknum förum öll fram í rauninni á okkar forsendum. Ég einbeiti mér að mínum málefnum og mun aldrei gefa það eftir. Og ég hefði ekki farið fram á hliðarlínunni. Það var fyrsta sætið eða ekkert“.

 

- Auglýsing -

Áhrif á heilsuna

Sigurlaug segir að baráttan við kerfið vegna fötlunar sona hennar hafi litað líf sitt. 

„Það er svo sem ekkert öðruvísi að eiga þá frekar en önnur börn. Ég á dóttur sem er heilbrigð og synir mínir fengu sama uppeldi en fyrir þessa einstaklinga að fullorðnast þá eru þeim í raun allar bjargir bannaðar, kerfið vinnur á móti þeim. Það er náttúrlega fáránlegt nema þá að viðkomandi eigi þvílíkt betra bakland. Þetta hefur litað líf mitt. Það er bara þannig. Maður hefur auðvitað lært að standa á eigin fótum og við höfum þurft að berjast fyrir því sem maður telur þess virði að berjast fyrir. Þá hefur þetta haft áhrif á heilsu mína í gegnum tíðina. Álagið hefur verið mikið. Ég hugsa ekki nógu mikið um sjálfa mig og þetta hefur fyrst og fremst haft áhrif á stoðkerfið. Er ekki það nýjasta að gigt sé áunnin? Að ef álag er of mikið þá fái fólk vefjagigt og alls konar gigt? Álag á andlega heilsu kemur fram í líkamanum. Ég er andlega sterk en líkaminn hefur aðeins látið undan“.

 

Falinn fjársjóður

Sigurlaug hefur búið á Blönduósi í sjö ár og hún segir að bæjarbúar hafi tekið ótrúlega vel á móti fjölskyldunni.

„Blönduós er „heima“. Hér er ofboðslega mikil náttúrufegurð. Það er heilun að koma hingað. Þetta er svo einstakt svo sem að ganga með fram Blöndu. Blönduós hefur verið þekktur bær fyrir að fólk ekur þar í gegn en fegurðin er svolítið falin frá þjóðveginum; hún er samt alveg við þjóðveginn. Það er til dæmis einstakt að ganga upp á Spákonufellið við Skagaströnd og gönguleiðirnar hér allt um kring eru einstakar“.

Sigurlaug rekur eins og fyrr segir kaffihúsið Húnabúð. 

„Marengsterturnar eru mjög vinsælar sem og brauðterturnar. Það er allt heimabakað. Ég baka allt sjálf. Svo eru það kúmenkringlurnar; það er uppskriftin hennar mömmu. Ég nota að mestu uppskriftir frá mömmu og tengdamömmu. Svo er konur í bænum að læða að mér uppskriftum sem ég nota líka. Hér er heimilislegt andrúmsloft,“ segir Sigurlaug en pottablóm og afskorin blóm einkenna kaffihúsið þar sem einnig hægt er að kaupa íslenskan lopa.

„Ef það er nóg af blómum þá er ég alsæl. Ég sel yfirleitt sumarblóm á vorin líka fyrir utan kaffihúsið en ég gat það ekki í vor út af skorti á starfsfólki“.

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

dfkjpogv

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -