Hér er brot úr viðtali við Sigmund Geir Helgason sem birtist í nýjasta tölublaði Mannlífs en Sigmundur eða Simbi eins og hann er kallaður, missti allar tennurnar vegna fíkniefnaneyslu og ákvað að snúa við blaðinu:
Í dag er Simbi búinn að greiða um 3,8 milljónir fyrir tennurnar sínar, með öllu sem fylgir. Lokaupphæðin verður í kringum 4,2 milljónir. Þar er meðtalin stóra aðgerðin sem hann þurfti að gangast undir, þar sem hann fékk beinígræðsluna – en sú aðgerð var framkvæmd á sjúkrahúsi, auðvitað með svæfingu og tilheyrandi.
Simbi segist hafa skoðað verð heima og lokaniðurstaðan hafi yfirleitt verið í kringum 14 og upp í 16 milljónir, miðað við það verð sem hann fékk uppgefið hjá þeim tannlæknum sem hann talaði við.
„Þetta er bara ekki eitthvað sem ég hefði getað gert á lífsleiðinni. Ekki séns. Ef maður þarf að gera eitthvað svona stærra, þá munar þetta miklu. Vinur minn fór í eitt implant. Hann ætlaði að fara til Búdapest, en svo ákvað hann að láta gera þetta heima. Reikningurinn hækkaði endalaust. Hann fékk eitt verð í byrjun, 250.000, sem var síðan ekki lokaverðið. Hann endaði með 600.000 króna reikning og sá mikið eftir því að hafa ekki farið út.“
Simbi er mjög ánægður með sína reynslu af þeim stofum sem hann hefur fengið þjónustu á. Hans aðalstofa hefur verið Íslenska Klíníkin en hann hefur alls farið á þrjár stofur úti til þess að sinna hinum margvíslegu hliðum sem hans tilfelli kallaði á í ferlinu, vegna Covid-lokana. Hann segist oft hafa upplifað óþægindi í tannlæknastólum í gegnum tíðina; stress og jafnvel sársauka. Hann hafi verið hissa á því hve allt var þægilegt úti.
„Heima var ég stundum kófsveittur og það var bara hjakkast á manni. Hérna hef ég ekki fundið til í stólnum. Það er búið að gera mikið grófari aðgerðir og mikið meira. Ég hef ekki fundið til. Það eina sem maður finnur er kannski þegar verið er að deyfa. En það er búið um leið. Ég upplifi mig í öruggum höndum – mun öruggari höndum en ég hef nokkurn tíma upplifað áður. Og það er í Austur-Evrópu.“
Sjá viðtalið í heild sinni HÉR.