Föstudagur 10. janúar, 2025
2.8 C
Reykjavik

Ívar Daníels var lagður í harkalegt einelti

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Stórsöngvarinn Ívar Daníels var undir stækkunargleri Mannlífs þessa vikuna.
Ívar tók þátt í Söngvakeppninni árið 2019 með góðum árangri, hann söng þar lagið Þú bætir mig. Árið 2015 komst Ívar í úrslit í keppninni Ísland got talent, ásamt félaga sínum Magnúsi Hafdal.
Ívar bræðir fólk með stórkostlegri rödd sinni og ljúfri nærveru hvar sem hann kemur fram. En Ívar er ekki bara röddin, heldur einnig fjögurra barna faðir sem horfir á Bachelor og Love Island með unnustunni og telur sig gera bestu hamborgarana -hver veit nema Ívars borgarar opni seinna meir.

Ívar Daníels

Fjölskylduhagir? Trúlofaður fjögurra barna faðir – búsettur í Hafnarfirði, uppalinn á Seltjarnarnesi samt.

Menntun/atvinna? Starfa í varahlutaþjónustu Bílanaust – hef verið söngvari/tónlistarmaður að atvinnu síðastliðin tíu ár.

Uppáhalds Sjónvarpsefni?  Ég er alveg steiktur þegar kemur að sjónvarpsefni, lét frúna plata mig (lofa) í allskonar raunveruleikaþætti á sínum tíma, Love Island, Bachelor bíóið og fleira. En get svo alveg farið hina leiðina yfir í þætti eins og Exit (Útrás á Rúv) sem eru alveg eins siðlausir og þeir gerast. Svo týni ég mér alveg stundum í seríum eins og Hawai 5.0, sem er alveg galið þar sem ég horfði á einhverja 300 (ágiskun) þætti sem ég veit að enda allir eins, vel!

Leikari? Íslenskur leikari er alltaf Ólafur Darri, fast á hæla hans kemur Hilmar Guðjónsson, einn sá alfyndnasti leikari sem við eigum.
Íslensk leikkona myndi ég segja Júlíana Sara Gunnars og Ilmur Kristjáns. Ekkert eðlilega fyndnar báðar tvær, annars erfitt að velja, eigum geggjaðar leikkonur.

Rithöfundur? Úff, þessi er erfið… Ég les svo skammarlega lítið, nenni ekki að taka eitthvað basískt svar en ég ætla að gefa Sóla Hólm þetta, hann hefur komið sterkur inn og hann er með þetta, hvað sem hann gerir.

- Auglýsing -

Bók eða bíó? Ég er alveg 100% bíó megin í lífinu, mér finnst fátt betra en einhver geggjuð bíómynd.

Besti matur? Þessi er geggjuð, því ég elska að borða en ég er alveg ljónharður þegar kemur að mat, nautasteikin er alltaf fremst þar, elska að sous-vide-a nautakjöt heima. Hins vegar er eitthvað í mér varðandi hamborgara, alvöru samansetta grillaða hamborgara, ef það er einhver á þessu landi sem ætti að vera með hamborgarastað þá er það ég myndi ég segja 😉

Kók eða Pepsí? Coke Zero, allan daginn, alltaf.

- Auglýsing -

Fallegasti staðurinn? Ég var svona pínu að vonast til þess að þessi spurning kæmi ekki því ég er svo vandræðalega mikið borgarbarn og skellti mér fyrir nokkrum árum lengra austur en Vík, en LANG fallegasti staður sem ég hef séð er Jökulsárlón.

Hvað er skemmtilegt? Það er svo margt sem poppar upp en það sem stendur eiginlega upp hjá mér á þessum skrítnu tímum sem við lifum á er að hitta bræður mína ásamt konum okkar og taka spilakvöld. Við spilum bara eitt spil, Partners fyrir 6 manns og það er alltaf bræður á móti dömum og sú keppni er grjóthörð. Skiptumst mikið á að vinna, allir sjúklega hressir í byrjun en svo kickar inn almennilega keppnisskapið. Endar reyndar alltaf vel og allir vinir en þessi kvöld geta verið rosaleg. Auðvitað gerum við svo meira úr kvöldinu, borðum saman og opnum 2-3.

Hvað er leiðinlegt? Mér þykir fátt skemmtilegra en að koma fram og skemmta fólki, hvort sem það sé með tónlistaratriði eða veislustýringu svo þessi er auðveld, að geta ekki skemmt fólki.

Hvaða flokkur? Næsta spurning.

Hvaða skemmtistaður? Ef það er down town Rvk þá er það American bar, sérstaklega þegar það er live tónlist, annars staður sem kemur upp er SPOT Kópavogi, komnir nýir eigendur loksins, sem eru heldur betur búin að endurbæta staðinn og gjörbreyta matseðli til dæmis.

Kostir? Mér þykir ég hrikalega fyndinn og skemmtilegur, jákvæður svona oftast nær og ég tel mig vera virkilega góðann og traustann.

Lestir? Get verið alveg asskoti latur stundum, er með stuttan þráð en er fljótur niður, get verið svolítið þver.

Hver er fyndinn? FM95Blö gengið og Ari Eldjárn

Hver er leiðinlegur? Fólk sem þrífst á því að niðra aðra, það er ekkert leiðinlegra en týpan sem svona „djók niðrar“ aðra fyrir framan annað fólk.

Trúir þú á drauga? Neeeei ég get ekki sagt það.

Stærsta augnablikið? Fæðingar barnanna minna standa þar upp úr, það er ekki til betri tilfinning í heiminum en að taka sitt eigið barn í fangið. Þó svo við karlmenn séum gjörsamlega gagnslausir í ferlinu, þessar elskur (konurnar) sjá um þetta frá a-ö og færa manni það yndislegasta sem til er, við karlar eigum ekki break í þær.

Mestu vonbrigðin? Það er erfitt að finna eitthvað sem mestu vonbrigðin en það er tvennt sem kemur helst upp í huga mér sem ég hef verið vonsvikinn með. Það fyrra er að hann pabbi minn er búinn að vera langveikur síðan ég var 3 ára gamall og hefur ekki fengið að öðlast það líf sem hann hafði unnið sér inn og á skilið. Magnaður maður og mín hetja í alla staði.
Hitt er að ég var lagður í leiðinlega harkalegt einelti þegar ég var yngri. Eitthvað sem ég óska ekki mínum versta óvin (sem ég á samt ekki). Þannig lífsreynsla fylgir manni fram á fullorðinsár og erfitt er að losa sig við. En ég tók bara þann pólinn í hæðina að einbeita mér að því góða sem til er, ég á fallega og yndislega fjölskyldu, bestu bræður sem hægt er að finna, yndislega foreldra sem vilja manni allt það besta og að fyrirgefa þeim sem komu illa fram við mig, því ég eyddi allt of miklum tíma í einhvern pirring sem ég átti ekki að gera.

Hver er draumurinn? Draumurinn er frekar einfaldur – ala stelpurnar mínar (jebb fjórar stelpur) upp við góð gildi, gera þær að góðum manneskjum, hjálpa þeim og leiðbeina þeim í lífinu, byggja upp mitt líf með minni konu og vonandi ná að syngja og koma fram eins lengi og ég get.

Mesta afrek sem þú hefur unnið á þessu ári? Tjahh, afrek á þessu herrans Covid ári? Það er fátt hægt að setja þarna en ætli það sé ekki bara það afrek að halda áfram ótrauður þrátt fyrir massífar hraðahindranir, afbókanir og allt það sem þessu ári fylgir.

Ertu búin að ná öllum þínum markmiðum? Alls ekki, á fullt eftir, því þegar maður nær markmiðum, setur maður sér ný markmið.

Manstu eftir einhverjum brandara? Það er einn sem poppar strax upp en hann er ekki birtingarhæfur.

Vandræðalegasta augnablikið? Sko, ég á alveg vandræðaleg augnablik sem eru sögð í góðra vina hópi, látum þau moment bara vera þar.
En ætli það sé ekki þegar það var haldið surprise þrítugs afmæli fyrir mig, allt gekk hrikalega vel þar til það var sett á video, kveðjur frá hinum og þessum og endaði kveðjan á því þegar bróðir minn sem var þá búsettur í Danmörku var með kveðju. Þá var ég byrjaður að grenja, alveg ugly cry fyrir allann peninginn og svo kom kvikindið hlaupandi inn í sal eftir myndbandið og þá grenjaði ég ennþá meira… vaknaði svo sáttur morguninn eftir og þá var þetta komið á allar fréttaveitur því vinur minn tók allt afmælið upp og póstaði videoinu á fb, þar var mynd af mér til dæmis í „mest lesið“ á fréttaveitum að grenja með öllu smettinu, ég var enn að fá svona „hey ert þú ekki gaurinn sem grést þarna“ nokkrum mánuðum seinna.

Sorglegasta stundin? Það er svo sorglegt og erfitt að missa ástvini en ég held ég hafi aldrei grátið jafn mikið og þegar vinur minn lést þegar við vorum í 9.bekk.

Mesta gleðin? Það er klárlega að finna það hvað ég er elskaður af mínu fólki.

Mikilvægast í lífinu? Koma fram við fólk af góðmennsku, leyfa engum að finna eins og hann/hún sé út undan.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -