Föstudagur 27. desember, 2024
0.8 C
Reykjavik

Stærsta augnablik Heiðu þegar sonurinn fæddist heill á húfi 7 vikum fyrir tímann „Þvílíkt þakklæti“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Söngdívan Aðalheiður Ólafsdóttir, eða Heiða eins og hún er oftast kölluð, er undir Stækkunargleri Mannlífs þessa vikuna.
Flestir ættu að kannast við Heiðu, hvort sem það er úr Söngvakeppni sjónvarpsins, Idol stjörnuleit, þar sem Heiða endaði í 2. sæti árið 2005, Frostrósum, hljómsveitinni Url og svona mætti lengi telja, því Heiða hefur komið víða við á tónlistarferli sínum.
Mannlíf komst að því að Heiða drekkur mikið af svörtu sterku kaffi, hún er með frestunaráráttu og leiðist samsæriskenningafólk.

Fjölskylduhagir? Nýgift honum Helga mínum (Helgi Páll Helgason), giftumst 24. júlí síðasta sumar og eigum samanlagt þrjú börn, Huga Hrafn 16 ára, Kristínu Maríu að verða 14 ára og Snorra 6 ára og svo eigum við hana Ástríði kisu.  

Menntun/atvinna? Eftir stúdentsprófið frá Verslunarskólanum hélt ég áfram að mennta mig í söng og tónlist í hinum ýmsu skólum og útskrifaðist síðan sem leikkona frá Circle In The Square Theater School í New York árið 2009. Starfa við fjölbreytt störf tengd listunum. 

Uppáhalds sjónvarpsefni? Get alltaf horft á þætti af 30 rock, Friends, Seinfeld og Parks and Recreations, svo gott að gleyma sér í einum og einum stuttum grínþætti. Annars er Breaking bad á toppnum yfir framúrskarandi vel gert drama efni, öfunda þá sem eiga eftir að horfa.

Leikari? Meryl Streep er drottningin.

- Auglýsing -

Rithöfundur? Jojo Moyes er ofsalega góð í að skrifa rómantískar ástarsögur með áhugaverðu “twisti” og síðan er Camilla Lackberg uppáhalds í spennubókunum. 

Bók eða bíó? Bók, er ofboðslega léleg í að fara í bíó.

Besti matur? Mjög erfitt að segja þar sem ég er mikill matarperri, elda mikið og allskonar og elska að prófa nýja rétti. En þar sem hátíðirnar eru nýafstaðnar að þá er matur tengdur jólunum mér afskaplega kær og ég get ekki gert upp á milli hamborgarahryggsins eða skötunnar. Ég borða afganginn af hryggnum í þrjá daga nánast og talandi um töluna þrjá að þá borðaði ég þrisvar skötu þessi jól, fór á árlegt skötudeit mitt og vinkonu minnar á Þrem Frökkum, við hjónin héldum skötuboðið okkar á Þorláksmessu og fékk svo líka skammt með fjölskyldunni á Hólmavík í jólaheimsókninni þangað. Klikk myndu sumir segja, en skynsemi segi ég!

- Auglýsing -

Kók eða Pepsí? Hvorugt, koffeinið mitt kemur úr sterku svörtu kaffi og mikið af því.

Fallegasti staðurinn? Hólmavíkin mín þar sem ég er fædd og uppalin og bara Strandirnar eins og þær leggja sig og svo nýja heimilið okkar fjölskyldunnar, en útsýnið okkar er hreint út sagt guðdómlegt og ég stari og nýt í þakklæti á hverjum degi.

Hvað er skemmtilegt? Vera jákvæð og bjartsýn og njóta hverrar stundar með fólkinu mínu því hver dagur er gjöf.

Hvað er leiðinlegt? Að vera í kringum fólk sem lifir í fortíðinni, sér alltaf verstu mögulegu útkomuna og hefur glasið sitt alltaf hálf tómt. Maður þarf að hafa sig allan við að smitast ekki af slíkri orku.

Hvaða flokkur? Er óttalegur miðjumoðari, en bara í pólitík. 

Hvaða skemmtistaður? Hef ekki komið inná slíkan í langan tíma en minn skemmtistaður er klárlega borðstofuborðið heima þegar það er fullt af skemmtilegu fólki í matarboði og góðu stuði.

Kostir? Jákvæðni/bjartsýni, góður dass af „þetta reddast” og fjölskyldurækin.

Lestir? Frestunarárátta, of mikill dass af „þetta reddast” og meðvirkni.

Hver er fyndinn? Helgi maðurinn minn, Snorri sonur minn og Halldór bróðir.

Hver er leiðinlegur? Samsæriskenningafólk.

Trúir þú á drauga? Já auðvitað, alin uppá Ströndum, drulluhrædd alltaf sem barn við allar þessar óværur, en hef tekið þær í sátt í dag, að mestu. 

Stærsta augnablikið? Þegar sonur minn fæddist heill á húfi eftir að drífa sig í heiminn með bráðakeisara sjö vikum fyrir tímann. Þvílíkt þakklæti!

Mestu vonbrigðin? Þegar Donald Trump náði að verða forseti Bandaríkjanna, á ennþá erfitt með að trúa þessum hryllingi. 

Hver er draumurinn? Að fjölskyldan fái að eldast saman.

Mesta afrek sem þú hefur unnið á þessu ári? Kannski ekki afrek en það allra merkilegasta og besta á árinu var að giftast ástinni minni.

Ertu búin að ná öllum þínum markmiðum? Alls ekki!

Manstu eftir einhverjum brandara? Núna er tími skemmtilegra barna brandara á heimilinu þar sem sonurinn er 6 ára og elskar að grína. Hann er nýbyrjaður að horfa á Ladda grín sem gleður mig, en brandararnir kannski aðeins of langir til að skrifa hér, en um leið og ég nefni Ladda þá er ég viss um að allir fái minningu af einhverju góðu Ladda gríni, bara gjössovel og njótið á minninga stræti segi ég nú bara.

Vandræðalegasta augnablikið? Mörg, ég er ótrúlega mikil brussa og er yfirleitt 10 skrefum á undan mér og skvettast áfram með tilheyrandi hlutum sem brotna, fernum sem hellast niður, fötum sem fá á sig bletti og óteljandi skiptum þar sem ég rek mig í, hrasa og svona gæti ég lengi talið. 

Sorglegasta stundin? Það er óhjákvæmilega þau skipti sem ástvinir kveðja. 

Mesta gleðin? Að verða móðir.

Mikilvægast í lífinu? Þakklæti, vera í núinu og njóta litlu hlutanna, hamingjan er í hversdeginum.

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -