Mánudagur 25. nóvember, 2024
-7.2 C
Reykjavik

Steinunn Eldflaug: „Ég kem úr kúka- og morðblokkinni í Bakkahverfinu í svindl-Breiðholti“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Steinunn Eldflaug Harðardóttir er raftónlistarmaður undir nafninu dj. flugvél og geimskip og listmálari sem hefur mikið látið að sér kveða í listasenunni á Íslandi síðustu ár.

Nýverið bætti hún nýrri fjöður í hattinn, en hún getur nú titlað sig sem tölvuleikjahönnuð. Þessa dagana er hún í óða önn við að hanna spennandi tölvuleik, sem blaðamaður fékk að prófa heima hjá Steinunni, á Ásvallagötunni í Vesturbæ Reykjavíkur. Blaðamaður skemmti sér konunglega og heillaðist af listrænni hönnun og ævintýralegum heimi leiksins.

Bakkahverfið í svindl-Breiðholti

Þó Steinunn hafi vissulega búið lengi í Vesturbænum, hefur hún þó ekki verið þar alla tíð.

Nei, ég var í Breiðholtinu. Mér finnst ég vera einhvern veginn meira úr Breiðholtinu, en samt flutti ég hingað [í Vesturbæinn] þegar ég var 11 ára. Þannig að öll unglingsárin mín voru hér.

Steinunn gekk fyrst í Vesturbæjarskóla og fór svo í unglingadeild í Hagaskóla. Aðspurð um það hvar í Breiðholti hún hafi búið áður en fjölskylda hennar fluttist í Vesturbæinn glottir hún.

- Auglýsing -

Það eru sumir sem kalla það svindl-Breiðholt. Það er í Bakkahverfinu. Það eru þrjú Breiðholt sko. Það er efra-Breiðholtið, sem er alvöru Breiðholt, neðra-Breiðholtið, sem eru Bakkarnir og svo er það svindl-Breiðholtið, sem er Seljahverfið. Seljahverfið er svona… ég man að við vorum eitthvað: „Seljahverfið, haha, það er ekki Breiðholt“. En svo hef ég hitt fólk sem ólst upp í efra-Breiðholti og ég segist vera úr Breiðholtinu og þau bara: „Úr Bökkunum? Ó nei,“ segir Steinunn og hlær. 

Ég bjó alltaf í bakka sem hét „kúkablokkin“. Hún var í svona tveimur mismunandi kúkabrúnum litum. Og það var rosa skemmtilegt þegar ég var nýflutt í hverfið og einhver spurði mig hvar ég ætti heima og ég svaraði: „Í þessari blokk þarna.“ “Já, kúkablokkinni?“

Og svo var hún máluð og þá var ekki hægt að kalla hana kúkablokkina lengur. Þá kom í ljós að það höfðu verið framin einhver morð í blokkinni. Ég man ekki hvort það voru eitt, eða tvö, eða þjú morð, en það var allavega eitthvað af morðum. Þá var hún kölluð „morðblokkin“, sem var ekkert mikið skárra. Þannig að já, ég kem úr kúka- og morðblokkinni, í Bakkahverfinu í svindl-Breiðholti.

- Auglýsing -

Steinunn hlær innilega að þessari upprifjun.

Aðspurð hvort henni hafi þótt gaman að alast þar upp segir Steinunn svo vera.

Já, mér fannst það mjög skemmtilegt, af því maður er svo frjáls þegar maður er krakki og í þessum hluta Breiðholtsins, Bökkunum, þá var bara svona gata í kringum blokkirnar og ein gata inn. Þannig að maður gat alveg verið frá því maður var fimm ára – ég gat alveg leikið mér út um allt. Ég mátti bara ekki fara yfir götu.

Þannig að þá gat maður bara farið rosalega langar vegalengdir út um allt og heimsótt krakka í nýju blokkunum, en svo líka byrjaði ég að laumast stundum, þegar ég var aðeins eldri, því þegar maður var aðeins eldri mátti maður kannski fara yfir eina götu.

Þá gat maður farið niður í hólmann, í Elliðaárdalinn, að leika sér þar. Þannig að mér leið svolítið eins og ég byggi í sveit stundum og mér fannst æðislegt að fara þarna niður í Elliðaárdal sem hét alltaf hólminn. Maður þurfti að fara yfir svona á til þess að komast inn í þar sem var skógur og spennandi að vera. Fossar og svona eitthvað sem maður mátti ekki leika sér í. Sem var mjög gaman.

Lenti í stríðni í grunnskóla – „Mér fannst ég vera geimvera“

Steinunn rifjar upp að þegar hún og fjölskyldan hennar fluttu svo yfir í Vesturbæinn hafi henni fundist hún geta byrjað upp á nýtt.

Það þekkti mann enginn. Maður gat búið til alveg nýjan sig. Klippt á sér hárið og verið einhver annar.

Mér fannst ég alltaf vera geimvera, alveg frá því ég var pínulítil. Ég sagði við mömmu einhvern tíma: „Mamma.. þú ert náttúrulega ekki alvöru mamma mín“. Henni fannst ekkert voðalega gaman að heyra það. Ég var bara alveg viss um að ég væri utan úr geimnum. Þannig að ég hélt oft þegar ég hitti einhverja nýja, að fólk sæi mig kannski eins og geimveru, eða eitthvað allt annað. Ég leit á mig í spegli, en það var ekki manneskjan sem mér datt í hug að fólk myndi sjá þegar það segði halló við mig.

Þannig að mér fannst gaman að koma í Vesturbæinn. Enginn þekkti mig og þá var ennþá meira frjálst hvað ég hélt að fólk héldi.  

Mér hafði alltaf verið strítt í skóla og ég var alveg viss um að fyrst ég væri nú að koma hérna í nýtt hverfi þá yrði mér örugglega mikið strítt. Og ég ætlaði bara að vera fyrst til að vera nógu fáránlega ringluð og rugluð, þú veist, reyna bara að vera nógu mikið einhver annar, þannig að þegar krakkarnir færu að stríða þá væru þau bara að stríða þessum „öðrum“. Þannig að ég bjó til þennan „annan“, held ég.

Ég var með allskonar einhver furðuleg nöfn á sjálfa mig og hét alltaf einhverju nýju nafni þegar einhver kynntist mér: bleikur vitleysingur, Hannes, eða Gústi. Þetta voru eiginlega alltaf karlmannsnöfn.

„Hvað heitir þú? Ég er bleiki vitleysingurinn.“ Þá ertu allavega búinn að slá út úr höndunum á fólki að geta strítt þér á nafninu þínu. Og ef þú ert með rosalega stutt, blátt hár til dæmis… þá er heldur ekkert hægt að… já, bara gera nógu mikið. Þá ertu eiginlega bara búinn að segja það fyrir fólk.  

En ég hef örugglega verið mjög stressuð að skipta um skóla, enda var þetta ekkert rosa gaman. Ég eignaðist alveg einhverja vini, en ég eignaðist líka óvini og einhverja sem voru að stríða mér. Ég veit ekki.. kannski af því mér hafði verið strítt, þá var ég að reyna svona að „owna“ það.  

Innt eftir því hvort henni hafi fundist áætlunin virka er Steinunn hugsi.

Já, það var samt… mig langaði samt alveg líka til þess að falla inn í hópinn. Þannig að inni á milli var ég að reyna að gera eitthvað til að falla inn í hópinn, en ég vissi ekkert hvað það átti að vera. Það var enginn búinn að kenna mér. Ég vissi ekkert að það væri að vera í eins fötum, eða að hegða sér einhvern veginn. Ég bara skildi ekki hvernig átti að gera það og svo fannst mér alveg mjög leiðinlegt þegar ég hélt kannski að einhver væri vinur minn en svo var hann bara að stríða mér.  

Ég er einhvern veginn allt í einu að hugsa svo mikið um þetta núna, kannski af því ég á stelpu sem er þriggja og hálfs árs og hún er alltaf að tala um að fara í grunnskóla, hún er svo spennt að fara í grunnskóla. Þá fer ég svona að rifja upp: „já grunnskólinn, hvernig var það? Já… það var rosa skrýtið“.

Ég verð stressuð yfir því að hún lendi í því sama en aðallega af því að ég sagði engum frá því, þannig að mér var ekkert hjálpað með það. En svo af því þetta gekk ekkert eins og ég vildi þegar ég byrjaði í Vesturbænum, í 11 ára bekk, þá fannst mér svo leiðinlegt hvað þetta var mikið vesen og þá loksins tók einhver kennari eftir því að krakkar voru að stríða mér. En þá var mér sagt: „Þú verður að vera venjuleg“. Kannski einmitt eitthvað sem væri ekki sagt í dag. „Þú verður að breyta þér“. En ég vissi ekkert hvernig ég ætti að breyta mér því ég kunni bara að breyta mér í furðuverur.  

Svo var ógeðslega fyndið þegar ég byrjaði í Hagaskóla, þar ætlaði ég sko að eignast vini. Þá makaði ég vaselíni framan í mig og hellti glimmeri yfir andlitið á mér áður en ég fór í skólann og eitthvað svona, til að vera fín, því ég kunni ekkert að mála mig. Það eru sko til myndir af mér og.. ekki skrýtið að mér hafi verið strítt.

Steinunn skellihlær sínum smitandi hlátri. Það er eins og allt geti litast með húmor og gleði í hennar meðförum, jafnvel þungar minningar. 

Þegar Steinunn er spurð hvort henni hafi svo verið strítt þegar í Hagaskóla var komin er hún fljót að svara. 

Já. En ég var alltaf einhvern veginn að reyna að fara svona rétta leið. „Stelpurnar eru að gera sig fínar, ég get þetta líka!“ Límdi líka allskonar límmiða á mig.. mjög skrautlegt. „Mála sig? Ég kann það ekkert, ég skreyti mig bara aðeins.“

Steinunn segist eiga nokkra vini úr Hagaskóla sem voru líka með henni í Vesturbæjarskóla. Svo á hún eina vinkonu enn þann dag í dag sem var með henni í Breiðholtsskóla.

Stelpa sem heitir Edona, hún var alltaf vinur minn, sama hvað bjátaði á. Ég man eftir því að hún sagði einhvern tíma að hún skammaðist sín þegar ég var í einhverjum skrautlegum snjógalla og vildi ekki labba við hliðina á mér í skólann. Og ég skildi ekkert í því. Svo var einhver sem stríddi mér á skrautlega snjógallanum í skólanum og ég bara: „Já og hvað? Hann er geðveikt fínn“. Ég skildi aldrei afhverju fólk var að stríða mér á svona því mér fannst ég alltaf bara geðveikt fín. Eins ef einhver hefði farið að stríða mér þegar ég var með glimmer í andlitinu… það hlýtur að vera betra að vera allur úti í glimmeri í andlitinu en ekki?

Þannig að já, við Edona erum ennþá vinir alveg síðan í Breiðholtinu. Svo eru nokkrir strákar sem voru í Vesturbæjarskóla, sem voru alltaf að stríða mér þá. En einn þeirra kom til mín þegar við vorum orðin unglingar, komin í menntaskóla og svona og baðst afsökunar. Fyrir hönd hans og hinna strákanna sem höfðu verið að stríða mér. Bað mig afsökunar og sagði að sér þætti rosalega leiðinlegt hvað þeir voru leiðinlegir við mig. Og þá var það bara búið og þeir eru ennþá vinir mínir í dag. Það var rosa gott að heyra þetta.

Mynd: Aron Ingi Bjartsson

Mátti vera skrýtin í MH

Steinunn rifjar upp skiptin úr Hagaskóla yfir í Menntaskólann við Hamrahlíð, þaðan sem hún útskrifaðist með stúdentspróf.

Ég man að ég var búin að heyra áður en ég byrjaði í MH að þar væri allt í lagi að vera skrýtinn og það væri venjulegt þar; þar ættirðu að vera skrýtinn. Ég man að ég kom í MH og var bara skrýtin eins og venjulega og þá voru einhverjir eldri sem komu og sögðu: „Heldurðu að maður megi bara vera hvernig sem er í þessum skóla? Það er sko ekki þannig.“ Ég varð fyrir mjög miklum vonbrigðum, en svo hlustaði ég sem betur fer ekkert á þau, af því ég kunni ekkert annað. Þau vildu sko meina að það mætti alls ekki vera „hvernig-sem-er-skrýtinn“ í MH, heldur væri alveg ákveðin rétt leið til að vera skrýtinn. 

Steinunn segir að eftir fyrsta árið í MH hafi henni fundist hún geta blómstrað og verið hún sjálf í friði. Hún segir að með tímanum hafi hún hætt að búa sér til ný nöfn og persónur, því það sem hún var virkaði bara.

Mynd úr einkasafni

Pressan í myndlistinni og frelsið í tónlistinni

Eftir MH lá leið Steinunnar í myndlist í Listaháskóla Íslands og því má segja að hún hafi verið listmálari fyrst, áður en hún fór að fást við tónlist. Hún hefur alla ævi teiknað og málað mikið, en sem barn bjó hún líka til tónlist og söng.

Ég var kölluð „útvarpið“.

Þegar hún fékk inngöngu í Listaháskólann hafi hún upplifað mikið af reglum í listsköpuninni.

Líklega af því þetta var skóli. Maður lærði allskonar reglur og þetta virtist allt vera svo flókið. Maður þurfti að sækja um styrki, taka myndir af listaverkunum, mæta á sýningar þar sem eru alltaf kveikt ljós…

En svo þegar þú mætir á tónleika, þá er alltaf slökkt. Það var eins og þar væri ekki alveg saman krafan.

Steinunn segir að hún hafi upplifað pressu í myndlistinni sem hún upplifði ekki í tónlistinni. Henni fannst hún þurfa að vera „myndlistamaður“ þegar hún hafði lært það og fannst það dálítið hlaðið hugtak. Í tónlist upplifði hún hinsvegar frelsi og fannst hún mega gera hvað sem er, því hún var ekki menntuð á því sviði. Þar gat hún leikið sér.

Þannig að eftir skólann var ég bara rosalega spennt fyrir að gera fullt af tónlist.

Þegar hér er komið sögu í spjallinu stekkur grár og hvítur, kafloðinn köttur Steinunnar í fang hennar og hreiðrar svo um sig í kringum hálsinn á henni. Malið heyrist yfir eldhúsborðið og Steinunn strýkur kettinum rólega, horfir hlýjum augum á hann og hvíslar einhverju sem erfitt er að heyra hvað er, en það hefur róandi áhrif á fleiri en köttinn. Hún hellir því næst meira kaffi í bollana tvo á borðinu.

Mynd: Síta Valrún

Gæti fætt barn á sviðinu

Talið berst að listaverkum Steinunnar. Stór hluti af sviðsframkomu hennar sem dj. flugvél og geimskip eru ljós og sviðsmynd, myndbönd og ýmislegt annað frumlegt og lifandi sem hrífur áhorfandann með sér inn í undraveröld.

Í Listaháskólanum voru eiginlega öll myndlistaverkin mín með tónlist og ljósum og mér til dæmis þótti svo gaman að láta ljós bregðast við hljóði og gera úr því myndlistaverk. Og uppi á sviði er ég með ljós sem bregðast við hljóðum og ég geri allskonar bakgrunnsmyndir og myndbönd sem passa kannski við tónlistina og þetta á allt saman.

Fyrir stóra tónleika hef ég líka smíðað skúlptúra sem eru á sviðinu og mér finnst alltaf bara að það skipti ekki máli hvort það séu augun eða eyrun sem taka inn skilaboðin. Af því tónar eru bara litir og mismunandi áferðir og litir eru bara eins og ólíkir tónar, ólík hljóðfæri. Þannig að þetta endar allt bara inni í heilanum sem einhver skilaboð. Eins og maður hefur heyrt um lítil börn. Fyrstu mánuðina blandast þetta bara allt saman og svo með tímanum fara þau að aðgreina. En hjá sumum aðgreinist þetta aldrei. Ég sé alltaf rosalega mikið fyrir mér hvernig lagið mitt lítur út og ég get lýst því fyrir fólki hvernig lagið lítur út og hvað er að gerast sjónrænt í hverju lagi.

Ég var einhvern tíma að tala um þetta við Arnljót vin minn, sem er líka tónlistarmaður. Við vorum á drum and bass kvöldi og ég spurði hann hvort hann heyrði hvað bassinn væri djúpur eins og moldin og háu hljóðin eins og ský. Og hann sagði: „Já, manstu ekki eftir orðinu landslag? Afhverju heldurðu að landslag sé kallað lands-lag? Það er af því að landið er lag.“  

Steinunn lauk nýverið tveggja ára námi í stafrænni hönnun. Þar lærði hún að búa til tölvuleiki, en hún hafði lengi haft mikinn áhuga á því.

Hún segir íbyggin frá nýju verkefni sem hún er að vinna að þessa dagana. Þann 8. október mun Steinunn, í samstarfi við norskan forritara að nafni Jon Arthur Marrable, frumsýna nýjan tölvuleik sem þau hafa unnið að saman. Tölvuleikurinn er hannaður þannig að hann bregst einnig við tónlist Steinunnar og því verður frumsýningin sömuleiðis í formi tónleika. Herlegheitin verða sem fyrr segir þann 8. október, klukkan 19 á Loft Hostel.

Þannig að ég er að fara að frumflytja tónlist sem sameinar þetta. Útlit, heim, liti og hljóð. Það verður hægt að koma að sjá þetta á Loft Hostel, 8. október klukkan 19. Þá getur fólk komið og séð mig og Gígju, vinkonu mína, sýna þetta. Hún dansar og ég spila og syng.

Við verðum í motion capture búning og erum að gera þetta í samstarfi við Stafræna Hönnun skólann og kennarann minn sem heitir Ari Knörr. Hann er mikið búinn að vera að hjálpa mér með þessa tæknilegu hluti og ætlar að lána okkur þessa motion capture búninga og vera með okkur til þess að passa að þetta virki allt.

Þá mun fólk geta séð þrívíddarmódel sem er varpað á bak við okkur, inni í þrívíddarheimi, þannig að það sér nákvæmlega hvað við erum að gera á sviðinu og það sem ég er að spila og syngja mun sjást.

Kannski lýsast upp stjörnur þegar ég syng og einhverjir hlutir breyta um áferð þegar ég spila. Og ef þú kemst ekki þangað geturðu bara mætt á Twitch. Allir sem stofna Twitchreikning geta mætt á tónleikana heima í tölvunni hjá sér og fengið að vera lítil geimverudýr. Þá sjá þeir mig og Gígju ekki dansa, en þeir heyra tónlistina og sjá heiminn og allt breytast. Þetta verður rosalegt!

Steinunn er augljóslega mjög spennt. Hún bætir þó glottandi við:

Það eina sem gæti skemmt fyrir þessu er.. að ég er ólétt. Og ég á bara fjórar vikur eftir. Ef barnið kemur fyrir tímann, þá veit ég ekki. Ég á að eiga 25. október. Þannig að það gæti alltaf gerst að barnið væri komið fyrir tímann, eða að ég myndi bara fæða á sviðinu. Sem væri pínu skemmtilegt.

Hún hlær við tilhugsunina og bætir við:

Ég er smá að vona það.

Mynd úr einkasafni

„Þetta er stelpa. En það gæti breyst.“

Eldey, dóttir Steinunnar og Ísaks, kærasta hennar, fæddist fyrir tímann. Steinunn var sett af stað í fæðingu vegna þess að barnið hafði hætt að stækka. Það þótti því öruggara að koma henni fyrr í heiminn á sínum tíma. Það er því fylgst sérstaklega vel með þessari meðgöngu. Steinunn fór nýlega að láta gera mælingar og þar kom í ljós að kúlan hafði stækkað um einn sentímetra frá því síðast. Það er því von um að hún fái að ganga fulla meðgöngu í þetta sinn. Hún vonar að svo verði.

Eldey var svo rosalega lítil að það þurfti bara að setja mig af stað. Hún var aðeins undir stærð, en svo stækkaði hún bara ekkert í mánuð. Og þá var ákveðið að hún yrði bara að fæðast. Hún var ekki að fá nóga næringu, eða eitthvað svoleiðis. Hún var agnarsmá, það þurfti að gefa henni svona pela því hún kunni ekki að taka brjóst. Svo þegar Ísak hélt á henni passaði hún eiginlega bara í lófann á honum.

Steinunn segir að samkvæmt öllum skoðunum eigi hún von á stelpu í þetta sinn líka.

Það segja þeir sem hafa skoðað. Ég man alltaf þegar Eldey var, þá gerði afi minn sem er núna dáinn, Bragi afi, svona galdra til að skoða. Hann festi gullhring í hár úr höfði mínu og var að skoða. Svo sagði hann: „Það er strákur!“ Og hann var alveg handviss. Hann var með krabbamein og hann var rosa veikur á þessum tíma.

Hann dó áður en Eldey fæddist. Hann var með hvítblæði, mjög veikur og lá þarna í rúmi á spítalanum þegar ég fór í 20 vikna sónar að láta skoða kynið. Og þegar þau sögðu að þetta væri stelpa krafðist ég þess að láta þrjá aðila skoða hvort það væri rétt. Og já, það var stelpa. Svo ég hljóp yfir til Braga afa og hann ætlaði fyrst ekki að nenna að tala því hann var orðinn svo þreyttur alltaf þarna. Ég sá á honum að hann ætlaði ekki að nenna að tala í þetta skiptið. Svo sagði ég honum: „Þau segja að þetta sé stelpa!“ Og þá svona sneri hann sér við í rúminu bara: „NEI? HA? Það getur ekki verið!“ Ég sagði honum að jú, þau hefðu verið handviss. Hann velti þessu fyrir sér lengi og sagði svo: „Jæja… það gæti breyst.“ Ég hef alltaf hugsað um þetta. Gæti breyst. Ég hugsa þetta stundum ennþá. Jú, hún er með píku og sítt hár og svona. En ég hugsa alltaf: það gæti breyst.

Þannig að þegar fólk spyr mig hvort þetta sé strákur eða stelpa segi ég alltaf: „Þetta er stelpa. En það gæti breyst.“ 

Mynd: Saga Sig

Var búin að ákveða að eignast ekki börn

Aðspurð um það hvort hana hafi alltaf langað til að eignast börn segir Steinunn svo vera.

Mig hefur alltaf langað að eignast börn, mér hafði aldrei dottið neitt annað í hug. En svo svona ári áður en ég eignaðist Eldey hugsaði ég: „Ah.. mig langar ekkert til að eignast börn. Mig langar bara að gera tónlist og myndlist, ferðast um heiminn og vera með Ísaki. Ég nenni ekkert að standa í þessu barnastússi.“ Ég hugsaði að það væri fínt bara að tónlistin og myndlistin væru mín börn. Ég þyrfti ekkert meira. Og ég var alveg svo alvarleg með þetta að ég var búin að tala við Ísak um þetta og segja mömmu frá þessu. Ég spurði mömmu meira að segja: „Verðurðu mjög leið ef ég eignast engin börn?“ Og hún sagði: „Nei, auðvitað ekki, þú bara ræður alveg hvað þú gerir.

Svo kom systir mín einhvern tíma í heimsókn og ég og mamma vorum þarna, það var hádegismatur. Litla systir mín, Katrín. Og hún sagðist vera ólétt. Við sögðum „til hamingju“ og „frábært“ og svo fór hún. Þá fór ég að hágráta. Og mamma sagði: „Hvað er að? Systir þín er ólétt, þetta eru gleðifréttir.“ Þá sagði ég: „Mig langar líka að vera ólétt! Mig langar líka í barn!“ 

Steinunn segist hafa grátið í um það bil tvo daga eftir þetta. Henni fannst hún ekki geta eignast barn, því hún hafði ákveðið að gera það ekki. Henni fannst hún líka ekki geta verið tónlistarmaður að ferðast um heiminn og átt barn á sama tíma.

En þarna brotnaði ég bara algjörlega. Við Ísak ákváðum í framhaldinu að við vildum gera þetta saman.

Um það bil tveimur vikum seinna segir Steinunn að hún hafi orðið hrædd og fengið bakþanka. Hún var aftur komin í þann þankagang að hún gæti ekki eignast barn, gæti ekki hugsað um barn og langaði í raun ekkert í barn.

Steinunn segir að sér hafi varla dottið í hug að hún gæti orðið ólétt á svona stuttum tíma.

Ég veit að ég er rosalega heppin, að geta orðið ólétt, átt mitt eigið barn og fætt mitt eigið barn.

En já, svo var alltaf að líða yfir mig og svona, en mér datt ekki í hug að ég gæti verið ólétt, því ég vissi hvað þetta gæti verið mikið vesen. Svo var ég á leiðinni í einhverja röntgenmyndatöku til að skoða hvað væri eiginlega að mér þegar einhver stakk upp á því að ég gæti verið ólétt. Svo það var tekin blóðprufa og já, ég var ólétt af Eldeyju.

Það var mjög gaman en ég var líka ógeðslega stressuð. Ég grét á hverjum einasta degi örugglega fyrstu fjóra mánuðina. Mér fannst það bara hrikalega stressandi og hélt bara að ég myndi aldrei geta séð um barn og mér fannst líka bara að þá væri lífið búið. Ég man líka eftir því að hafa verið með Ísaki á kaffihúsi og sagt: „Síðasta skiptið sem við getum farið á kaffihús saman.

Steinunn hristir hausinn að þessu og hlær.

Svo erum við nú bara búin að gera ansi margt saman.

En ég vissi bara ekki hvað væri að fara að gerast og hvernig þetta yrði, hvernig barnið yrði. Hvað ef þetta yrði bara eitthvað hrikalegt barn? Bara ljótt og leiðinlegt? Ég man eftir því að einhver spurði hvort ég væri ekki spennt að eignast barnið og ég sagði: „Jú… en svo verður þetta samt kannski bara skítaleiðinlegur krakki.“ Það fóru allir bara að hlæja. Ég var samt ekkert að grínast.

Steinunn segir að Ísak, kærastinn hennar, hafi verið öllu rólegri yfir þessu.

Ég man bara eftir því að Ísak kom heim og ég bara: „Ísak! Ég er ólétt!“ Og Ísak sagði bara: „Já, ókei.“ Eins og honum væri bara alveg sama. Hann var samt glaður. Honum var bara einhvern veginn alveg sama. Barn eða ekki barn, lífið heldur áfram. En þegar hún fæddist, þá held ég að hann hafi orðið mjög glaður. Við vorum bæði mjög glöð með hana.

Fyrsta árið fórum við fimm sinnum með hana til útlanda að spila. Það var svolítið heví, en Ísak kom bara með og ég gaf henni alltaf brjóst fyrir tónleikana. Faldi hana baksviðs. Einu sinni mátti ekki hafa börn þar sem við vorum að spila, í Bretlandi. Þá náði ég að smygla Ísaki og Eldeyju inn og fela þau þar sem bjórkútarnir voru. Þetta var svona undir sviðinu og eftir tónleikana hljóp ég niður að gefa henni brjóst og var svona að fylgjast með því hvort dyravörðurinn væri farinn svo við kæmumst út aftur.

Mynd: Síta Valrún

Missti tengslin við raunveruleikann

Steinunn segir að það hafi því alls ekki verið á rökum reist að lífið væri búið eftir barneignir. Hún segir í raun aldrei hafa verið meira að gera hjá sér heldur en einmitt árið eftir að Eldey fæddist. Hún segir þó að hún hafi hugsanlega ofgert sér þetta fyrsta ár eftir fæðinguna.

Svo fór ég í skóla strax eftir það, hún fór til dagmömmu, svo í leikskóla og ég í skóla. Svo var svona tvisvar í mánuði sem ég þurfti að fá frí í skólanum til þess að fara til útlanda að spila. Þá fór ég að vakna um miðjar nætur, vinna skólaverkefni á hótelinu, svo geðveikt hress að spila um kvöldið. Svo í skólann. Svo þegar hinir krakkarnir í skólanum voru kannski að gera eitthvað annað þá var ég að sjá um barnið mitt og vera með fjölskyldunni – reyna að vera líka fjölskyldumamma.

Já og líka að vinna í búð. Það var bara alltof mikið, þannig að einhvern tíma síðasta sumar var ég að vinna í Pétursbúð og þegar ég átti að gefa fólki til baka þá gaf ég sumum bara þúsund kall, sumum eina krónu.. ég var bara að láta fólk fá eitthvað, því ég áttaði mig ekkert á því hvað ég var að gera. Þetta var svo skrýtið. Svo var fólk að koma til baka og segja: „Þú gafst mér vitlaust til baka.“ Og ég bara: „Æ, sorrí, ég er eitthvað utanvið mig í kvöld.“

Svo bara missti ég einhvern veginn tengsl við raunveruleikann.

Steinunn lýsir því hvernig hún hafi hætt að muna verðin í búðinni, eitthvað sem hún kunni utanað áður fyrr. Hún hafi líka hætt að geta lesið – öll orð hafi farið í hringavitleysu og hún hafi þurft aðstoð við að lesa verðskrána.

Svo kom gamall maður inn og sá bara að ég var með svima og þurfti að halda mér í borðið. Mér fannst bara allt vera á iði. Hann sagði: „Vina mín! Þú ert ekki alveg með sjálfri þér í kvöld.“ Þá sagði ég bara „nei“ og fór að hágráta. Fór bakvið til að jafna mig. Fólk var bara: „Halló! Er einhver afgreiðsla hérna?“ Og ég var bara grátandi á bakvið.  

Svo komst ég einhvern veginn, gat klárað vaktina og hringdi í vinkonu mína, Gullu. Hún sagði að það hljómaði bara eins og ég væri búin að ofgera mér. Að ég þyrfti bara að taka mér smá frí og slaka á. Ég þurfti bara aðeins að taka því rólega í smá tíma. Þá lagaðist þetta. Ef ég hefði ekki aðeins slakað á þá hefði ég kannski bara… maður veit ekkert hvað getur gerst. Maður getur bara fengið heilablóðfall, fengið allskonar sjúkdóma, maður getur bara orðið þunglyndur, maður getur bara dáið í rauninni. Maður getur fengið gigt.. þú veist, ég veit ekki hvað gerist. Allur líkaminn og hugurinn er bara rosa viðkvæmur fyrir. Þannig að, kannski gerði ég aðeins of mikið, kannski var ég að vera smá súperman.

Steinunn segist hafa lært af þessu. Markmið hennar núna er að læra að segja nei við verkefnum og leyfa sér að taka því örlítið rólega eftir að nýja barnið kemur í heiminn.

Mynd: Orange Ear

Hugleiðsla, drum and bass og saumaskapur

Þar sem talið hefur borist að rækt við heilsu og sálarlíf er Steinunn spurð hvort það sé eitthvað sérstakt sem hún geri til að passa upp á þau mál.

Já. Ef ég man eftir því, þá hugleiði ég. Ég reyni bara svona að setjast niður, í upphafi dags og lok dags – bara í nokkrar mínútur. Sit og anda og svona. Ég reyni að þakka fyrir mig alltaf – þakka fyrir það sem ég hef, því stundum gleymir maður því. Stundum nota ég svona hugleiðslu þar sem maður fer með möntru, í tíu mínútur, tuttugu mínútur… af því þegar maður gerir það þá sér maður svona eins og allar hugsanir sínar koma og ef ég geri það ekki í svolítinn tíma þá bara fara allar hugsanirnar út um allt. Allt fer í einhvern svona hrærigraut. Já.. eina mínútu, tvær, þrjár, í byrjun og lok dags. Þá reyni ég svona að anda rólega í smá stund og hugsa um hvað ég get verið þakklát fyrir. Og ef ég man eftir því og gef mér tíma þá reyni ég að fara með svona möntruhugleiðslu í tíu eða tuttugu mínútur, svona eins og innhverf íhugun, transcendental meditation. Og ég tek svona mín tímabil þar sem ég er geðveikt dugleg í því.

En svo hætti ég því, af því það er svo mikið að gera og ég hef ekki tíma fyrir þetta! Einmitt þegar mikið er að gera þá þarf að gera þetta. Og svo er tvennt annað sem hefur held ég bara bjargað mér. Það er í þau fáu skipti sem ég fer á drum and bass kvöld, fer og hlusta á drum and bass sem er uppáhalds tónlistin mín og dansa. Það eru þeir hlutir sem ég geri sem ég fæ ekkert fyrir; þeir eru ekki eitthvað sem einhver hrósar mér fyrir, eitthvað sem ég fæ borgað fyrir, eitthvað sem ég set út og einhver gefur einkunn, eða „þetta er flott eða ljótt lag“. Þetta er bara eitthvað sem… ég fer, er að njóta bara. Bara dansa, enginn er að horfa á mig. Ég er ekki að dansa til þess að einhver segi: „Ú, flottur dans“ á sviði, heldur er ég bara að dansa fyrir mig. Þú veist, ég fer ekkert oft… líka út af því að ég er rosalega feimin, því ég er aðeins byrjuð að þekkja einhverja sem spila. Ég þekki einhverja DJ-a núna og einhverja sem mæta á drum and bass kvöldin og mér finnst alltaf erfiðara að fara ef ég þekki einhvern.

En svo er hitt, sem er það nýjasta. Ég er komin með áhugamál, ég hef aldrei átt svona áhugamál. En það er að sauma. Þá sit ég bara svona og sauma eitthvað, þú veist. Ég hef saumað mér tónleikaföt, peysu handa Eldeyju, saumað mér kjól, saumað gardínur. Þá er maður einhvern veginn bara… maður situr, það er bara svona hljóð í saumavél, einhver tvö efni. Þetta gæti ekki verið ómerkilegra, skiptir engu máli og þetta er bara eitthvað sem… ég fæ ekkert fyrir þetta, en það er eitthvað svo gott. Stundum eftir alveg rosalega erfiðan dag, meira að segja eftir brjálaðan dag, seint um kvöld. Bara, setjast og sauma aðeins, einhver tvö efni og setja þau saman með einhverjum þræði. Þá kemur bara svona ró.

Steinunn heldur áfram:

Ég elska að keyra.. bíllinn minn er með enga hátalara, ónýta hátalara, þannig að ég þarf að vera með svona.. ég veit ekki einu sinni hvort það sé löglegt, noise cancelling headphones. En ég held að það sé líka hugleiðslan mín, að setja á mig þessi noise calcelling headphone og hlusta á.. yfirleitt drum and bass. Og keyra eitthvert.

Ég er svo léleg í… ég hef reynt að fara í einhverja svona gönguferð. En ef ég er ekki með einhvern áfangastað, þá er ég bara svona: „Ég er bara að labba hérna niður að sjó,“ svo enda ég með því að hlaupa bara niður að sjó: „Þarna er sjórinn! Ókei, til baka!“. Svona heilsubótarganga er það leiðinlegasta sem ég veit.  

Ég verð rosalega glöð ef ég þarf að spila á Selfossi eða eitthvað, því þá fæ ég þetta móment í bílnum. Stundum er ég líka bara að syngja í bílnum, það er mjög skemmtilegt. Enginn heyrir í mér, maður getur bara sungið og sungið. Þá koma oft lög og eitthvað svona upp.

Af því það er miklu auðveldara þegar þú ert að keyra, þá kemur kannski bara lag og einhver texti, en svo ef þú sest niður og eitthvað: „Nú ætla ég að semja meistaraverk“ þá bara.. „Hvernig á það að vera? Hvað er ég að gera? Ég veit ekki… hver er ég svosem? Hverjum er ekki sama?“ 

Ég var einu sinni að halda myndlistasýningu, fyrstu myndlistasýninguna eftir að ég útskrifaðist úr Listaháskólanum. Og ég sagði við Helga Þórsson vin minn: „Ég er svo stressuð.“ Og hann sagði: „Hverju ertu stressuð fyrir?“

„Að prófessorarnir komi og þeir sjái að þetta skiptir engu máli!“

Þá sagði hann: „Nú, vissirðu það ekki? Þetta skiptir engu máli. Hvað hélstu eiginlega?“ Þá fattaði ég að það er það sem er svo skemmtilegt við þetta. Ekkert skiptir máli. Hvað þá tónlist og myndlist – skiptir engu máli. Það er bara til gamans. Ég þarf ekki að vera að ljúga að sjálfri mér hérna, að þetta þurfi að vera eitthvað mikilvægt og merkilegt.

 

Mynd: Art Bicnick

Arfgengur taugasjúkdómur í fjölskyldunni

Steinunn virðist hugsa mikið út í andlega og líkamlega heilsu. Hún gefur því mikinn gaum hvernig andleg heilsa getur endurspeglast í líkamanum. Hún hefur hinsvegar sérlega ríka ástæðu til þess að hugsa mikið út í þessi mál, sér í lagi líkamlega heilsu, jafnvel meira en meðalmanneskjan.

Já, það er nefnilega ættgengur taugasjúkdómur í fjölskyldunni minni. Ég hélt að hann væri kominn bara, þegar ég missti jafnvægið.

Þetta er nú mjög skemmtilegur taugasjúkdómur að mörgu leyti, hann er bara eiginlega alveg eins og maður sé fullur. Maður svona rásar um, verður þvoglumæltur og sér tvöfalt og allt. Allt sem maður fær þegar maður er fullur, nema að vera fullur – nema víman.  

Steinunn skellihlær þegar hún áttar sig á eigin lýsingu.

Já þannig að nei, þetta er ekkert skemmtilegt, þetta er eiginlega bara ömurlegt!

En ég hef nefnilega fundið fyrir þessum einkennum öllum á svona álagstímum í lífinu. Þannig að, hvort sem ég þurfti að halda mér í af því að sjúkdómurinn væri að koma eða bara út af álagi.. ég veit að streita, álag og kvíði geta valdið allskonar svoleiðis tilfinningum. Ég hef lent í því líka í kringum tónleika og svona, fyrir og eftir, þá er ég bara þvoglumælt og kannski bara á erfitt með að tala og hef mjög mikið lent í því á sviði eins og ég sé völt á fótunum, eins og ég sé full og dett um eina litla snúru kannski. Ég hef spurt aðra hvort þeim finnist ekkert erfitt að labba inn á sviðið – einhver gítar þarna, pedall þarna, snúra þarna.. en fólk bara eitthvað: „nei“. Ég hef rosa oft, vandræðalega oft, dottið fram af sviðinu og ég er með svona meiðsli í öðru hnénu þannig að rosalega oft á tónleikum dett ég. Ég veit ekkert hvort fólk tekur eftir því, en þá er ég oft bara haltrandi það sem eftir er af tónleikunum.  

Líka í kulda og frosti, þá stundum hætti ég að geta talað. Ef ég hitti einhvern á Laugaveginum þegar allir eru að kaupa jólagjafirnar og allir eru að tala fullt og ég bara: „eeeeeeehhhhh…“.

Þannig að, ég hef svona fundið einkenni. Líka, ef ég er kannski í búð og þar er manneskja sem ég ætla að labba framhjá, þá kannski labba ég bara beint á hana í staðinn. Mjög vandræðalegt. Ég hef unnið í búðum og þar hefur mér svona verið bent á að ég verði að hætta að labba á viðskiptavini. Það má ekki heldur hlaupa á viðskiptavinina. Ég hleyp oft, því ég nenni aldrei að labba neitt. Svo ég kannski hleyp af stað, hleyp beint á viðskiptavininn sem ég átti að sækja tóbakið fyrir, hleyp svo á skápinn sem ég er að sækja tóbakið í…

Þannig að já, ég veit aldrei hvort þetta er sjúkdómurinn að koma eða hvort þetta sé álagseinkenni.  

Þegar hún er spurð nánar út í sjúkdóminn, hvað þetta sé og hverjir í fjölskyldunni séu með hann svarar Steinunn:

Pabbi er með hann, amma mín er með hann. Eftir að pabbi kom einhvern tíma með staf í jólaboð þá var svona eins og hann væri að koma út úr skápnum með þetta, að það væri eitthvað að. Og í næsta jólaboði voru eiginlega allar gömlu frænkurnar komnar með stafi, eða svona göngugrindur.

Málið er að ég á vinkonu sem er taugasálfræðingur. Og þetta heitir Cerebellar ataxia og ég sagði henni það, en þá sagði hún að það væri ekki nafn á sjúkdómi, heldur væru þetta einkennin. Þannig að það veit eiginlega enginn hvað sjúkdómurinn heitir eða afhverju hann kemur. Hann er svo sjaldgæfur. Mjög dularfullt. En einkennin heita Cerebellar ataxia og lýsa sér einmitt svona, eins og maður sé fullur.  

Steinunn segir að um sé að ræða sjúkdóm sem fer stigversnandi með tímanum.

Þetta er, sem betur fer, ekki svona sjúkdómur sem beint dregur þig til dauða. Hann versnar bara eftir því sem líður á lífið. Líka eftir því sem þú ferð verr með sjálfan þig. Þannig að það er bara um að gera að passa vel upp á sjálfan sig, svo þetta verði ekki of slæmt.

Það kom bara í ljós að þetta væri arfgengt af því ég eignaðist kærasta þegar ég var unglingur og kærastinn minn og besti vinur hans komu með mér í heimsókn til ömmu minnar. Eftir heimsóknina sögðu þeir við mig: „Skrýtið með ömmu þína, hún og pabbi þinn eru alveg eins. Þau svona halla sér eins upp að veggjum þegar þau labba um. Styðja sig eins við og labba einhvernveginn furðulega.

Það var allavega svona fyrsta ljósið sem kviknaði hjá mér og ég held að ég hafi sagt þeim frá því. En svo líka á svipuðum tíma var pabbi að hitta lækni og var alltaf að kvarta yfir því hvað hann væri eitthvað valtur á fótunum og þá þekkti læknirinn þetta. En það að strákarnir höfðu bent mér á að þau væru svipuð með þetta.. þá voru þau skoðuð svona saman. Það eru fleiri í fjölskyldunni með þetta, en þetta er svolítið feimnismál, svo ég ætla ekki að nefna nein nöfn. Fólki finnst þetta eitthvað vandræðalegt. 

Mynd: Chad Kamenshine

Sýnileiki getur læknað fordóma

Þegar Steinunn er spurð hvers vegna það sé segist hún ekki vita það. Hún hugsar sig um en heldur svo ákveðin áfram:

Ég held að þetta séu fordómar sem eru í samfélaginu, bara gagnvart fötlunum, sjúkdómum og veikindum. Fordómar gagnvart þunglyndi, fordómar gagnvart því að tala óskýrt, gagnvart því að stama. Það eru fordómar gagnvart því að vera í hjólastól. Það eru bara svo miklir fordómar. Svo þegar fólk upplifir að það sé með einhvern sjúkdóm þá held ég að það sé oft með fordóma sjálft gagnvart því að vera veikt.

Ég hugsa að ef ég fái þennan sjúkdóm.. þá vona ég að ég verði ekkert feimin við að leita mér hjálpar og ef ég lendi í hjólastól þá ætla ég svo sannarlega aldrei að vera feimin við að fara í hjólastól upp á svið. Á meðan sumum finnst það kannski óþægilegt. Ég spurði í Iðnó um daginn og það er núna þannig aðstaða þar að það er hægt að vera performer í hjólastól og koma fram.

Það þarf nefnilega að bæta þetta, þetta þarf að vera sýnilegra og það þarf að tala meira um alla þessa sjúkdóma eða hvað sem er annað.

Til dæmis, þegar einhver stamar eða skrollar, eða talar kannski þvoglumælt í búð, þá fer fólk oft að breyta röddinni og tala við fólk eins og börn. Ég veit alveg að það er vel meint, en það getur virkað alveg rosalega illa á fólk þannig að það vilji bara ekki fara út í búð lengur eða tala við aðra. Það fer að fela.

Og ef fólk þarf að nota staf, göngugrind eða hjólastól.. það er bara oft svo erfitt. Það þarf bara að vera miklu sýnilegra. Sjást miklu meira, til dæmis á sviði. Og það þarf að gera það auðveldara fyrir alla sem eru með einhverja sjúkdóma eða fatlanir að vera í skóla, vera í stjórnmálum, vera áberandi, vera í sjónvarpi, vera á sviði. Áður fyrr, ef þú varst í hjólastól, þá gastu jafnvel ekkert verið á sviði því þau voru svo hátt uppi og erfitt að framkvæma. Nú er það bara þannig að það verður að vera hægt að fara – það verður að vera rampur eða lyfta og þetta er allt að lagast hægt og rólega. En það þarf virkilega að breyta hugarfari hjá fólki og eina leiðin til að breyta því er ef allir kynnast einhverjum sem eru með fötlun eða sjúkdóm.

Og fólk sem er einhverft… það getur varla sagt frá því að það sé einhverft því þá fara sumir að tala við það eins og einhvern rugludall.

Fólk sem er með geðhvarfasýki eða geðklofa og segir frá því lendir stundum í því að fólk taki ekki mark á því og segi eitthvað eins og „Hva, tókstu ekki lyfin þín í morgun?“, ef það segir eitthvað óvenjulegt og eitthvað svona. Það eru svo rosalegir fordómar og fólk þorir varla að segja frá því ef það er með einhvern sjúkdóm og er jafnvel svo feimið að það vill ekki einu sinni leita sér hjálpar. Og ef það fær hjálp þorir það kannski ekki einu sinni að segja fjölskyldumeðlimum frá.

Hvar á maður þá að fá stuðning?

 

 

Eftirfarandi er slóð á Twitch, fyrir þá sem vilja fylgjast með tónleikum dj. flugvélar og geimskips heima í stofu, næstkomandi föstudag, 8. október, klukkan 19:

twitch.tv/alienorchestra

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -