Mánudagur 23. desember, 2024
2.8 C
Reykjavik

Synir Guðmundar kalla fram jólabarnið í honum: „Maður leyfir sér að gera gott við sig“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Jólin eru á handan við hornið og jólalög byrjuð að hljóma um land allt en undanfarin ár hefur verið skortur á góðum nýjum jólalögum að mati sumra. Einn besti lagahöfundur Íslands, Guðmundur Jónsson, hefur svarað kallinu með útgáfu á frábærri nýrri jólaplötu sem nefnist Jóladraumur en á þeirri plötu er að finna ný lög og gömul lög í nýjum búning. Framundan eru svo útgáfutónleikar í Salnum Kópavogi, sunnudaginn 10. desember, þar sem öllu verður tjaldað til og platan frumflutt ásamt velvöldum jólaábreiðum. Platan er væntanleg á geisladisk fyrir sönn jólabörn en hægt er að hlusta á hana á streymisveitum. Mannlíf heyrði í Guðmundi vegna plötunnar.

„Það kemur eiginlega tvennt til,“ sagði Guðmundur þegar hann var spurður af hverju hann tók þá ákvörðun að gera jólaplötu. „Ég á tvo unga drengi sem gefa mér hvað mest og best í lífinu og kalla fram jólabarnið í mér. Annað er að maður er alltaf að rembast við að vera skapandi, prófa sig áfram sem lagasmiður, tikka við boxin og jólatónlist var kannski næst á dagskrá. Auk þess að ég átti slatta af lögum sem höfðu legið óbætt hjá garði í nokkur ár og mér fannst þau smellpassa í þetta jólaþel, ásamt því að bæta við nokkrum nýjum ópusum.“

„Verkefnið kallast Jóladraumur og er undir áhrifum frá jólasögunni frægu Christmas Carol eftir Charles Dickens, jólasaga með sígildan boðskap,“ sagði gítarleikarinn góði um innblásturinn fyrir plötuna. “Jóhann Sigurðarson leikari og söngvari var mér innan handar frá byrjun og við textagerð hjálpuðu mér, Kristján Hreinsson og Friðrik Sturluson, sem jafnframt spilar með mér á plötunni ásamt Eysteini Eysteinssyni, Birgi Þórissyni og fl. Lögunum er lauslega mátað við söguna og frábærir söngvara; Íris Lind Verudóttir, Edgar Smári, Salka Sól, Þór Breiðfjörð, Margrét Eir og Jóhann, túlka svo hin ýmsu hlutverk af sinni alkunnu snilld.“

En hvaða lög koma Guðmundi í jólaskap?

„Yfirleitt kemst ég í jólafíling er ég heyri gömlu swingjólalögin sungin af „krúnerum“ eins og Bing Crosby, Nat King Cole, Ellu Fitzgerald og fleirum. En svo eru líka nokkur íslensk jólalög sem ég fæ sjaldan leið á, þó þau séu spiluð í döðlur, eins og Ef ég nenni, Friðarjól, Þú komst með jólin til mín, Handa þér og fleiri.“

- Auglýsing -

„Ætli það sé ekki þegar ég var að hlusta yfir og raða saman plötunni fyrir hljómjöfnun,“ sagði Guðmundur um það augnablik í ferlinu sem stendur upp úr að hans mati. „Mér fannst hún bara þrælvirka og halda nokkuð vel vatni miðað við allt og allt, því oftar en ekki er maður búinn að fá nóg á þessum tímapunkti. En ferlið að þessu sinni var lengra og öðruvísi en oft áður. Fyrstu lögin komu út árið 2020 og hafði því megnið af lögunum litið dagsins ljós sem smáskífur áður en platan var tilbúin í haust, fyrir utan þrjú nýjustu,“ en hvernig er jólin hans Guðmundar?

„Bara ánægjuleg yfirleitt. Vetrabyrjun fram yfir jól er minn öndvegistími og vildi ég hvergi annars staðar vera en hér á klakanum í kulda og trekki. Ég er lítið að stressa mig fyrir jólin og maður leyfir sér að gera gott við sig í mat og drykk, nýtur samvista með fjölskyldunni og sérstaklega strákunum mínum.“

„Ekkert sérstakt,” sagði Sálarmaðurinn knái um hvað hann vildi fá í jólagjöf. „Nema hinn bráðnauðsynlega Nóa konfektkassa sem ég treysti á að fá frá elsta syni mínum – þá mega jólin koma fyrir mér, eins og segir í kvæðinu góðkunna.“

- Auglýsing -

Hægt er að hlusta á alla plötuna hér fyrir neðan

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -