Fimmtudagur 24. október, 2024
2.6 C
Reykjavik

Teiknarinn Hlíf Una – Kaldhæðni vék fyrir væmni

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Hlíf Una Bárudóttir er starfandi teiknari. Hún útskrifaðist úr Myndlistaskóla Reykjavíkur af teiknibraut árið 2016. Hún tók á móti Mannlífi á dögunum í fallegu heimili sínu í miðbæ Reykjavíkur þar sem hún býr með eiginmanni sínum og ungri dóttur.

Hún var komin yfir þrítugt þegar hún fann loksins rétta hillu, en óhætt er að segja að hún blómstri nú sem teiknari og eru verkefnin sem frá henni koma þessa stundina ótal mörg. Hún hefur alla tíð leitað í skapandi umhverfi, eftir stúdentspróf af listabraut vann hún lengi í leikmunagerð hjá Íslensku óperunni, hún hóf nám hjá Myndlistaskólanum og kláraði þar diplómunám í keramiki: „Keramikið var svo mikill útúrdúr í mínu lífi, sem taldist lítið með.“

Þrátt fyrir ótal kúrsa frá barnsaldri, reynslu sína og námið sem hún hafði á bakinu segir hún: „Það hvarflaði samt aldrei að mér að ég gæti unnið við þetta. Þetta var bara hobbíið mitt.“

Veggmyndin á Gljúfrasteini. Mynd/aðsend
Hlíf Una við vinnslu á veggmynd á Gljúfrasteini. Mynd/aðsend

Eftir útskrift af teiknibraut lýsir Hlíf Una því hvernig hún hafi beðið eftir hinu eina, rétta svari við því hvernig hún ætti að koma sér á framfæri. Þrátt fyrir að skila inn sýnishorni af verkum sínum hjá forlögum og þá hafi það ekki skilað neinu í hennar tilviki. „Þetta var eitthvað algjört happaglappa,“ útskýrir Hlíf og segir frá því hvernig tilviljun ein varð til þess að lítið handteiknað afmæliskort fyrir vinkonu hafi skilað sér í verki að heilli veggmynd á Gljúfrasteini.

Hvernig lýsir þú stílnum þínum?

„Hann er gamaldags, retro, nákvæmur og raunsær,“ segir hún og bætir við að það hafi komið henni sjálfri á óvart. „Langflestar teikninga minna eru ljúfar, saklausar og einlægar.“ Hún hefði sjálf búist við því að þær yrðu meira upp á kant og kaldhæðnari, en það hafi ekki orðið raunin. „Um leið og ég er komin með blað og blýant þá brýst einhver voða ljúf hlið fram.“

- Auglýsing -

Ekki er langt síðan að Hlíf Una færði sig frá blaðinu og blýantinum og yfir á tölvutækt form en hún segir þá vegferð hafa verið nauðsynlega, tímans vegna. 

„Ég er tæknileg risaeðla,“ svarar Hlíf Una aðspurð hvort hún sé með heimasíðu til að halda utan um verkin hennar. Hún segir það hafa verið í mörg ár á markmiðalistanum að koma upp slíkri síðu, en ekki sé enn komið því að. Hlíf Una brosir sposk og rifjar upp skondið atvik frá fundi í tengslum við teikniverkefni. Fundurinn hafi verið hinn formlegasti, haldinn í fundarsal með skjávarpa og öllu hinu helsta. Svo kom að því að sýna dæmi um verkin og lýsir Hlíf Una því sem þá gerðist. „Upp á skjávarpa var ég með mitt persónulega Facebook og skrollaði í gegnum ljósmyndir af Halldóri [eiginmanni Hlífar Unu, innsk. blm.] og Báru Mjallhvíti [dóttur Hlífar Unu, innsk. blm.] – Mjög indælt, en ekki mjög pró,“ segir Hlíf Una.

„Ég á mjög erfitt með þetta. Mig langar í umboðsmanneskju sem hangir yfir öxlina á mér og tekur myndir af verkum í vinnslu,“ útskýrir hún og segir það pressu að fylgja eftir samskiptum og almennu utanumhaldi rekstrarins.

- Auglýsing -

Nærðu að framfleyta þér á listinni?  

„Já, núna, en þetta kemur í svona bylgjum. – Stundum og stundum ekki.“ Hlíf segist vera með nóg að verkefnum í augnablikinu, en telji sig seint til ríkra. Hún segir það raunhæft að vinna eingöngu í teikningu þar sem þau hjónin væru ekki bæði í starfi. „Ég vinn hægt, ég teikna hægt og ég er nostrari. Þar af leiðandi tek ég mér of mikinn tíma í hvert verk.“  

Margir ættu að þekkja stíl Hlíf Unu, en teikningar hennar skreyta oft síður Heimildarinnar. Hún segist þurfa að vinna þær teikningar hraðar. Hlíf verður hugsi og ögn hikandi og bætir við: „… jafnvel hraðar en ég get.

Ég fór að gráta yfir einni forsíðu sem unnin var á tveimur tímum,“ segir Hlíf Una hlæjandi en bætir við að tilfinningaviðbrögð hennar hafi ekki staðið í útskýringartexta undir teikningunni. Hún segist hafa áttað sig á því fyrir skemmstu að hún væri ekki alltaf sjálfri sér best:

„Ég tala stundum upphátt við sjálfa mig, og því miður er það aldrei neitt jákvætt. Þá er ég að skamma mig, með svona tón: – Hlíf Una, nú hættir þú!“ 

Ertu með fullkomnunaráráttu?

„Já, algjöra en ég er samt ekki viðkvæma týpan. Þannig að fái ég tár í augun er það alveg í frásögur færandi.“ Hlíf Una er með sterka sýn á hver endanleg útkoma myndar á að vera og þykir því erfitt að skila frá sér verki sem rími ekki nægilega vel við þá hugmynd: „Ókei – Ég fór ekki að hágráta, en ég var ekki ánægð með þetta. Þarna er teikning sem á að fara á forsíðu og ég er ekki ánægð með myndina.“ Alla jafna stendur Hlíf Una samt hreykin upp frá hverju verki.

Hvað gefur listin þér? 

„Þegar ég er komin ákveðin stað í teikningunni …,“ það er eftir skipulagningu og hugmyndavinnu, útskýrir Hlíf: „… að þá verður þetta næstum því eins og hugleiðsluástand.“ Hún lýsir gleðinni við útfærslu smáatriða, eins og til dæmis áferð peysu eða mynstri hennar. „Sem skiptir ekki endilega öllu máli í myndinni – en gerir það samt!“ Viðbætur og smáatriði eru uppáhaldspartur teikningarinnar hjá Hlíf.

Hlíf Una Bárudóttir

Harkið og fórnarkostnaður

Hlíf Una ræðir um kosti þess og galla að vinna sjálfstætt og heima, en í gegnum tíðina hefur hún unnið hlutastörf samhliða listinni til að sjá sér farborða. 

„Ég hafði verið að reikna árslaun mín frá árinu áður og þau voru ekki há – Bara alls ekki há. En samt hafði það ár verið þannig að ég hafði varla tíma til að hitta vini mína. Ég gerði ekkert nema teikna – árangurinn var einhvern veginn þannig að ég lagði mikið á mig fyrir lítið,“  segir Hlíf Una sem tók að sér fyrir einu og hálfu ári hlutastarf sem aðstoðarmanneskja í eldhúsi. 

Þrátt fyrir að skilgreina sig sem „introvert“ þá fann hún fljótt hversu mikið hún hafði saknað nærveru við samstarfsfólk – og segist hafa vantað kaffistofuspjallið í lífið. „Ég finn fyrir því núna að vera hætt þarna, þar sem þetta var góður vinnustaður og ég var að vinna með vinkonu minni – og því mikið hlegið.“ 

Í dag starfar Hlíf Una að fullu við teikningu og er að berjast við að mynda sér einhverja rútínu og varast að vera alltaf ein heima að teikna. Hún fer því stundum á kaffihús til að vera meðal fólks og vinnur þar. Hún segir það ekki endilega vera vinatengsl innan vinnustaðar sem hún sakni heldur nærveran við annað fólk.

„Ég segi ekki nei við teikniverkefnum sem mér finnast áhugaverð,“ segir Hlíf Una, en hún fann fljótt að álagið var orðið of mikið til að halda tveimur störfum gangandi. „Ég er frekar til í að leggja á mig vökunætur og mæta síðan í vinnu. Þetta bara gekk ekki,“ bætir hún við og lýsir því hvernig ástandið hafi hvað mest bitnað á fjölskyldulífinu og félagslega partinum.

Álagið og streitan voru orðin það mikil að litlir hlutir voru farnir að taka á. „Ég var komin með svona tilfinningu þegar vinkonur mínar hringdu til að hittast að þá voru fyrstu viðbrögð mín að ég varð pirruð,“ og hún segist hafa hugsað með sér: „Vita þær ekki að það er brjálað að gera? Af hverju eru þær að setja mig í þá stöðu að þurfa að segja nei?“ Í dag hlær hún og gerir grín að viðbrögðum sínum og segist átta sig á hversu sjálfhverf hugsunin hafi verið, í stað þess að vera þakklát fyrir að eiga vinkonur sem þó hringdu. 

Öryggið og reglulegar tekjur við að vera launamaður eru ómetanlegar. Jólahlaðborð, sumarfrí og stéttarfélag eru hluti þess sem oft mætir rest hjá sjálfstætt starfandi og segist Hlíf hafa verið ofboðslega þakklát fyrir að hafa réttindi á stuðningi stéttarfélags þegar í ljós kom að hún þurfti að fá heyrnartæki fyrir ári: „Þau eru rosalega dýr.“

Verkin

Fyrir jólin eru komnar út tvær bækur sem Hlíf Una er myndhöfundur að. Ljóðabókin Flagsól, með ljóðum eftir Melkorku Ólafsdóttur, og barnabók eftir Ólöfu Sverrisdóttur um Sólu og stjörnurnar. Að auki teiknaði hún bókarkápu og tvær myndir í bókina; Maðurinn með strik fyrir varir, eftir Ragnar H. Blöndal. En bókin byggir á bréfum á milli Ragnars, Hlífar Unu og Ólafs sem eru einstakir pennavinir. „Svo þetta er í fyrsta skipti sem ég sem persóna kem fyrir í bók.“

Aðspurð hvort hún mundi ekki pennann sjálf við skrif, segir Hlíf Una að myndmálið sé hennar frásagnarleið. Hún nefnir lokaverkefni sitt við Myndlistaskólann sem hana langar að vinna áfram. Verkið eru teiknaðar smásögur með yfirskriftinni; „Erótík í eldhúsinu“. Myndirnar endurspegluðu hversdagslegt fólk inni á sínum heimilum og til hliðar lítil textabox með bundnu máli. Hlíf Una segir það væri gaman að fá rithöfunda til að skrifa texta út frá myndunum.

Lokaverkefni Hlífar Unu frá Myndlistaskóla Reykjavíkur. Mynd/Aðsend
Lokaverkefni Hlífar Unu frá Myndlistaskóla Reykjavíkur. Mynd/Aðsend

Hvað er á döfinni?

Á teikniborðinu hjá Hlíf er plötuumslag, stórt verkefni fyrir borgina: „Þar sem þessi væmna hlið mín fær að njóta sín,“ segir Hlíf Una hlæjandi og bætir við að í því gefist henni kostur á dreifa hlýju og mildi út í samfélagið. Þá teiknar hún Fauna-myndir fyrir Menntaskólann í Reykjavík og eru það yfir 100 teikningar. Að auki er barnabók sem Hlíf Una segist ætla að taka sér góðan tíma til að vinna: „Það er þannig bók sem ég ætla að leyfa mér að taka nokkra mánuði í að gera,“ segir Hlíf Una að lokum. 

Fleiri sýnishorn af verkum Hlífar Unu má sjá hér að neðan:

Teikning eftir Hlíf Unu Mynd/Aðsend
Teikning eftir Hlíf Unu Mynd/Aðsend
Teikning eftir Hlíf Unu Mynd/Aðsend
Teikning af Megasi eftir Hlíf Unu Mynd/Aðsend
Teikning eftir Hlíf Unu Mynd/Aðsend

Viðtalið birtist í tímariti Mannlífs. Lesa má blaðið hér í heild:

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -