Sunnudagur 22. desember, 2024
-0.2 C
Reykjavik

Þórhildur átti erfitt að treysta og eignast vini:„Mikið um uppnefni, útilokun og líkamlegt ofbeldi“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, er höfundur skýrslu um alvarleg mannréttindabrot á Krímskaga sem var nýlega samþykkt á Evrópuráðsþinginu og vill forseti rússneska þingsins nú banna Þórhildi Sunnu að koma til Rússlands vegna þessa. Fréttablaðið greindi frá því að Vyacheslav Volodin, forseti Dúmunnar, rússneska þjóðþingsins, hafi sagt að skýrsla sé byggð á fölskum upplýsingum.

„Eins og er eru þetta bara orð og ekki aðgerðir sem betur fer, enda ber Rússland lagalega samningsleg skylda til að hleypa mér inn í landið ef nefndin mín, laga- og mannréttindanefnd Evrópuráðsþingsins, ákveður að senda mig þangað vegna vinnu minnar vegna skýrslu um pólitíska fanga í Rússlandi sem er önnur skýrsla heldur en sú sem þeir eru ósáttir við akkúrat núna,“ segir Þórhildur Sunna í viðtali við Mannlíf. „Þannig að þetta er eins og er bara yfirlýsing frá forseta Dúmunnar sem vissulega ber að taka alvarlega en er ekki einhver formleg ákvörðun um hvort ég megi heimsækja Rússland eða ekki. Þannig að ég er ennþá bjartsýn á að ég geti farið þangað og sinnt mínum skyldustörfum þar.“

Þórhildur Sunna ásamt unnusta sínum, Rafal Orpel, og syninum, Antoni Erni Orpel.

Þórhildur Sunna segir að sér finnist vera áhugavert að jafnvaldamikill maður og forseti rússnesku Dúmunnar sé að fetta fingur út í skýrslu sem hún skrifaði.

„Ég held að það þýði bara að hann sé að hlusta og lýsi svo því að það sem ég geri veki eftirtekt. Á maður þess vegna ekki bara að taka þessu sem hrósi?“

Ófætt barnið uppnefnt

Alþingismenn eru oft gagnrýndir á ýmsan hátt, hvort sem það eru háttsettir, erlendir embættismenn eða íslenskum almenningur, og þeir þurfa að hafa harðan skráp. Þórhildur Sunna segir að það fari alveg eftir því hvers eðlis gagnrýnin er hverju sinni hvernig hún taki slíku.

- Auglýsing -

„Stundum beinist gagnrýnin að hlutum sem ég hef gert eða einhverju sem ég hef sagt og virkar þá málefnaleg og uppbyggjandi. Ég þarf að vera opin fyrir því að það sem ég segi og geri sé gagnrýnt og læri af því og reyni að gera betur. Svo er annað þegar fólk er að ráðast á mig sem persónu eða fjölskyldu mína og jafnvel ófætt barn mitt á sínum tíma; þá tek ég því ekki jafnvel. Ég reyni bara að hugsa að fólk sem gerir slíkt hefur ekkert málstað sínum til framdráttar eða að það sýni hversu veikur málstaður þeirra er.“

Sonur Þórhildar Sunnu, Antoni Örn, er fjögurra og hálfs mánaða og hún segir að áður en hann fæddist hafi hún lesið uppnefni um hann á komenntakerfinu.

„Mér finnst það vera einum of langt gengið; fólk má vera svolítið veikt í hausnum til þess að ráðast á ófædd börn.“

- Auglýsing -

Það breytti náttúrlega miklu þegar frumburðurinn kom í heiminn.

Þórhildur Sunna með stallsystur sinni frá Lettlandi, Krista Baumane.

„Það breytti svolítið forgangsröðuninni. Vinnan mín hefur alltaf verið númer eitt, tvö og þrjú og núna er vinnan mín númer tvö, þrjú, fjögur og fimm. Strákurinn er númer eitt. Það hefur verið svolítil áskorun að vera í fullri vinnu og með hann á brjósti en við hjálpumst öll að í fjölskyldunni minni. Ég og unnusti minn, Rafal Orpel, hjálpumst að; við erum með kerfi þar sem ég get gefið syni mínum brjóst og verið í fullu starfi sem þingmaður og líka sem fulltrúi Íslands á erlendri grunu. Við Antoni Örn vorum einmitt að koma heim úr stórmerkilegri ferð þar sem þessi skýrsla var einmitt samþykkt á Evrópuráðsþinginu. Þar var ekki mikið gert ráð fyrir ungabörnum get ég sagt þér; Alþingi er töluvert fjölskylduvænna heldur en Evrópuráðsþingið. En það var samt frábært að taka Antoni Örn með og fá þessa skýrslu samþykkta sem Rússar eru ósáttir við núna eða að minnsta kosti forseti rússneska þingsins. Antoni Örn er orðinn víðförull fylgdarmaður mömmu sinnar í pólitískri baráttu. Hann hefur verið móður sinni mjög hjálplegur hvað það varðar að geta verið pólítíkus á leiðinni í kosningabaráttu með ungabarn á kantinum; það er ekki hvaða barn sem er sem myndi láta bjóða sér það en hann er bara mjög ligeglad strákur. Og góður og sætur.“

Antoni Örn er duglegur strákur og segir mamma hans að hann sé núna að fatta hvernig eigi að grípa hluti og stinga þeim upp í sig.

Falleg fjölskyldumynd þar sem þýski fjárhundurinn Freyja er með en hún verður 1 árs eftir 3 vikur.

„Hann er ótrúlega frábært barn. Ég er mjög heppin með hann. Hann sefur vel, drekkur vel og dafnar vel og er bara almennt frábær gaur.“

Unnusti Þórhildar Sunnu, Rafal, er pólskur og hefur búið á Íslandi í þrjú og hálft ár. Hann er nú í fæðingarorlofi en hefur unnið sem byggingaverkamaður.

„Hann var búinn að búa á Íslandi í hálft ár þegar við hittumst. Við kynntumst á dansgólfinu á ónefndum bar í Reykjavík. Hann er algjör sjarmör og rosalega góður dansari. Hann heillaði mig upp úr skónum um leið og við hittumst. Það var ekkert aftur snúið eftir það. Hann er afskaplega góður maður og er ástin í lífi mínu; þetta var ást við fyrstu sýn. Við ætluðum að gifta okkur í fyrra en Covid-19 setti strik í reikninginn og gerir svo sem enn en fjölskylda Rafal er ekki öll bólusett. Við erum búin að ákveða að fresta brúðkaupinu eða allvega veislunni um eitt ár í viðbót.“

Einelti

Lífið virðist núna vera dans á rósum í tilfelli Þórhildar Sunnu – hún er hamingjusöm, nýbökuð móðir og yfir sig ástfangin. Lífsleiðin hefur hins vegar stundum verið þyrnum stráð.

Þórhildur Sunna með soninn unga á Evrópuráðsþinginu.

„Ég var lögð í mikið einelti sem barn og það var mjög erfitt tímabil í lífi mínu. Ég var mikið ein og þar sem ég er mikil félagsvera þá reyndist það mér mjög erfitt. Ætli það hafi ekki verið mesta áskorunin í lífi mínu og líka mest gefandi að vinna mig út úr því og ná að koma mér út úr þeim skaða sem það getur valdið að lenda í svona einelti. Ég er þess vegna mjög stolt af því hvernig mér hefur tekist að greiða úr því og verða frekar félagslynd manneskja.“

Þórhildur Sunna bjó og ólst upp fyrstu sjö ár ævinnnar í Þýskalandi. Síðan flutti fjölskyldan heim og hún byrjaði í Melaskóla. Þar leið henni vel og þar eignaðist hún vini. Hún segir þó að hún hafi strax upplifað að viðhorf hennar til lífsins hafi verið annað heldur en íslenskra jafnaldra sinna. Hún talar um aðra menningu en þá sem hún þekkti í Þýskalandi.

„Svo fluttum við í Norðurmýrina eftir eitt ár í Melaskóla og ég fór í Waldorfskólann og þar var ég mikið skilin út undan. Mér var bara ekki leyft að vera hluti af hópnum. Ég var líka í Austurbæjarskóla um tíma og þar átti ég vinkonur; þetta voru stelpur sem þóttust inn á milli vera vinkonur mínar og þær gerðu stundum lítið úr mér.

Eineltið var verst eftir að ég flutti í Mosfellsbæ. Þar var mikið um uppnefni, útilokun og líkamlegt ofbeldi. Þetta var mjög niðurlægjandi framkoma í minn garð í langan tíma. Mér fannst eins og kerfið eða skólinn tæki þátt í því; ætli það hafi ekki verið það versta. Mér var alltaf sjálfri kennt um ofbeldið sem ég var beitt; það var eins og það væri eitthvað við mig sem þyrfti að laga en ekki krakkana sem lögðu mig í einelti.“

Eineltið hafði mikil áhrif á sjálfstraust og sjálfsmat Þórhildar Sunnu og skoðanir hennar sjálfrar hvað hana sjálfa varðaði. Hún upplifði óöryggi og segir hún að hún hafi orðið frekar hvöss í garð fólks; hún átti erfitt með að treysta þar sem hún hafði upplifað svo mikið vantraust þegar krakkar þóttust stundum vera vinir hennar og snerust svo gegn henni.

„Það var þess vegna erfitt fyrir mig að treysta og eignast vini.

Ég hafði það ágætt í menntaskóla, MR. Ég var svolítið týnd og fann mig ekki. Ég kláraði svo stúdentinn í FB. Ég flutti síðan til Þýskalands og síðan til Hollands þar sem ég lærði alþjóðalögfræði- og mannréttindalögfræði.

Þá fékk ég að vera ég sjálf og finna sjálfa mig á mínum eigin forsendum á stað þar sem enginn þekkti mig eða hafði einhverjar fyrir fram gefnar væntingar um mig. Ég eignaðist þar vini sem hjálpuðu mér að vinna úr þeim félagslegu afleiðingum sem eineltið hafði; það er að segja mína félagslegu hæfni. Fólkið sem ég kynntist úti bættu hana mikið. Ég var heppin en úti eignaðist ég góða vini sem hjálpuðu mér að komast í gegnum þetta og verða félagslega miklu hæfari einstaklingur heldur en ég var.“

Þórhildur Sunna segir að reynsla sín af einelti hafi gefið sér ákveðið tækifæri til þess að vita hvernig það er að lenda í svona hrottalegu einelti og að hún muni aldrei verða manneskja sem muni leggja í einelti.

„Fólk áttar sig ekki alltaf á því hvaða skaða einelti getur haft í för með sér fyrir aðra manneskju þannig að ég er meðvituð um hvernig framkoma getur haft áhrif á fólk og hversu mikilvægt það er að koma fram við alla af virðingu og að koma fram við alla sem jafningja vegna þess að það er lykilatriði. Það er ákveðin samkennd sem þessu fylgir. Þessi reynsla hefur sýnt mér að ég þarf að stóla á sjálfa mig og að álit annarra á mér á ekki að fá að stýra því hvernig mér líður. Ég þurfti að taka þá ákvörðun á sínum tíma að öðru fólki myndi líka vel við mig þó ég hefði reynslu af hinu gagnstæða í uppvextinum í lengri tíma. Öðruvísi myndi ég búa til vítahring ef ég væri neikvæð gagnvart því fólki sem ég hitti. Neikvæðnin kæmi til baka ef ég væri alltaf óörugg og hrædd. Maður þarf að nálgast heiminn með jákvæðum augum til þess að fá það sama til baka frá heiminum.“

Niðurstöður könnunar á starfsumhverfi og vinnustaðamenningu Alþingis með sérstakri áherslu á einelti, kynferðislega og kynbundna áreitni voru kynntar þingmönnum og starfsfólki skrifstofu Alþingis í fyrravor. Í ljós kom meðal annars að alls hafi 37,7% þingmanna orðið fyrir einelti.

„Það er gríðarlega vond menning á Alþingi þegar kemur að samskiptum og heiðarleika; einmitt svona virðingu í samskiptum. Það er oft sem maður upplifir svipaða takta og maður upplifði í skólanum forðum. En núna er ég náttúrlega fullorðin kona og ég læt þessa karla ekki ná einhverjum tökum á mér. Þessi hegðun er ótrúlega vanþroskuð og það er mikil vitleysa að beita svona bolabrögðum. Það er annað sem eineltið hefur kennt mér; það er að þekkja hvenær er verið að beita þessum brögðum og vita alveg hvernig maður á að brynja sig gegn þeim.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -