Miðvikudagur 15. janúar, 2025
7.8 C
Reykjavik

Þórir í viðtali um brottreksturinn: „Ég hef verið afskaplega heppinn í mínum störfum“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Þóri Guðmundssyni, ritstjóra Stöðvar 2, Bylgjunnar og visir.is, var sagt upp í morgun og hætti hann strax störfum og segir hann í viðtali við Mannlíf að sú sé venjan á staðnum þegar yfirmenn séu látnir fara. Hann segist ekki hafa fengið skýringar á uppsögninni.

„Það er ekkert nýtt að skipt sé um stjórnendur og það geta verið margar ástæður fyrir því. Það er í rauninni bara ákvörðun yfirmanna hjá fyrirtækinu og það eru margir sem hafa farið og komið og nú er ég einn þeirra. Mér skilst að meðalstarfsaldur hjá ritstjórum eða fréttastjórum hjá Fréttastofu Stöðvar 2 í gegnum tíðina hafi verið á milli 18 mánuðir og tvö ár þannig að ég er bara orðinn gamall í hettunni,“ segir Þórir sem hefur gegnt starfinu síðan í ársbyrjun 2018.

„Þetta var auðvitað óvænt en ég er óskaplega stoltur af því að skilja við fréttastofu í mjög góðu standi þar sem er samheldinn og öflugur hópur fólks sem er vinir og nýtur þess að vinna saman. Ég er afskaplega ánægður með að skilja eftir þannig starfsemi sem ég held að muni eflast á næstunni undir stjórn Erlu Bjargar og Kolbeins Tuma.“ Erla Björg Gunnasdóttir hefur verið ráðin ritstjóri fréttastofu Stöðvar 2, Vísis og Bylgjunnar og Kolbeinn Tumi Daðason hefur verið ráðinn fréttastjóri allra miðla fréttastofunnar.

Þórir segir nokkrum tímum eftir uppsögnina að nú taki hjá sér að njóta lífsins og hugsa næstu skref. „Það er mjög ánægjulegt að geta gert það þegar sólin skín. Það eru nokkrir klukkutímar síðan þetta gerðist og núna er ég ekki kominn lengra en að skipuleggja að koma torfi á ákveðinn blett sem ég er búinn að vera að vinna í og kurla trjágreinar í sveitinni. Það eru næstu verk hjá mér.“

 

Stríðsátök og stjórnmálaátök

- Auglýsing -

Þórir á að baki langan feril í fjölmiðlaheiminum og er hann spurður hvað standi upp úr. Hvað sé eftirminnilegast.

„Ég hef verið afskaplega heppinn í mínum störfum. Ég hef fengið að gera margt og fara margt. Ég vann lengst af í kringum alþjóðlegar fréttir og hef talað við bæði fyrirmenni og venjulegt fólk hingað og þangað um heiminn og ég hef fengið að fylgjast með stríðsátökum og stjórnmálaátökum af ýmsu tagi. Ég fór reglulega til fyrrum Júgóslavíu þegar stríðið þar var í gangi og ég fór til gömlu Sovétríkjanna þegar þau voru að liðast í sundur. Það er margt sem er að baki svo sem. Síðustu tæp fjögur árin hafa verið einstaklega ánægjuleg vegna þess að ég tók við starfi fréttastjóra sem var í rauninni yfir tveimur hópum þar sem annar hópurinn skrifaði fyrir vef og hinn flutti fréttir í útvarpi og sjónvarpi. Það var markmið mitt alveg frá upphafi að sameina þessa tvo hópa og það er ekkert endilega hlaupið að því og er ekki gert nema í samstarfi við aðra stjórnendur og fólkið sem fyrir er. Og það hefur tekist. Þarna er núna einn samheldinn hópur þar sem menn stökkva frá því að skrifa fréttir á vefinn, visir.is, yfir í það að vera í beinni útsendingu á Stöð 2. Þetta er gífurlega góður hópur og okkur hefur tekist að gera visir.is að mest lesna fjölmiðli landsins og höfum gert þetta með samheldninni. Fólk getur treyst á fréttirnar sem það les á visir.is, hlustar á á Bylgjunni eða sér í kvöldfréttum Stöðvar 2“.

 

Ég vann lengst af í kringum alþjóðlegar fréttir

- Auglýsing -

Allir samtaka

Fréttastjórinn fyrrverandi er spurður hvað hafi haft mest áhrif á hann í lífinu og hvað hafi mótað hann.

„Ég vann töluvert í hjálparstarfi erlendis, í Asíu, gömlu Sovétríkjunum og Afríku, og það sem hefur alltaf haft mest áhrif á mig er þegar ég kemst í snertingu við fólk sem hefur upplifað vonda tíma, mikinn missi, farið í gegnum erfiða lífsreynslu og er að takast á við það. Ég hitti marga í þeim sporum svo sem eldri konur sem vita ekki hvað hefur orðið um barnabörn þeirra í stríðsátökum. Það hefur auðvitað mikil áhrif á mann og það er því miður allt of mikið um slíkt ennþá. Það eru ennþá stríð og átök út um allar grundir sem valda óskaplegri óhamingju.“

 

Þórir Guðmundsson
Mynd sem var tekin í Afganistan 2013. Þórir með starfsmönnum bæklunarsjúkrahúss Rauða krossins í Kabúl.

Fjölmiðlamaðurinn víðförli sem kynnst hefur lífi fólks sem og fréttamennsku erlendis talar um heimsfaraldurinn. Ísland og heimsfaraldurinn.

„Síðasta eitt og hálft árið höfum við Íslendingar verið óskaplega farsæl með það að það hafa allir verið samtaka um að upplýsa sem mest um allt það sem er að gerast í tengslum við heimsfaraldur kórónuveirunnar. Það hefur ekki myndast vantraust og tortryggni sem maður sér í öðrum löndum. Ég veit ekki hvort fólk geri sér grein fyrir hvað þetta er einstakt og hvað við erum heppin með það. Ég held að stjórnvöld, sóttvarnayfirvöld, almannavarnir, fræðimenn og fjölmiðlar hafi staðið sig gífurlega vel og ég vona að svo verði áfram.“

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -