Þriðjudagur 14. janúar, 2025
8.3 C
Reykjavik

Tók Má tíma að átta sig á samkynhneigðinni: „Versta sem maður gerir er að fela það“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Már Gunnarsson sundmaður hefur gert það gott á Ólympíuleikum fatlaðra í Tókýó og hefur þegar komst tvívegis í úrslit og var sekúndu frá gullverðlaunum í 100 metra baksundi. Már á eftir að keppa í einni grein og það gerir hann á föstudaginn. Dvöl hans í Japan lýkur eftir nokkra daga og segir hann að það sem standi upp úr sé í rauninni þetta verkefni sem er búið að vera í vinnslu í langan tíma. „Þetta er auðvitað risastór keppni en er í sjálfu sér í grunninn eins og öll önnur sundmót nema bara mun stærra.“

Már Gunnarsson

Og Már hefur ýmislegt lært í tengslum við þessa risastóru keppni. „Það tengist undirbúningnum fyrir keppnina og tímann sem fór í að undirbúa mig sem og það að stíga yfir hindranir og komast fram hjá þeim eða troða sér undir þær til að ná lokamarkmiðinu og svo áður en maður veit af er þetta bara búið. Þessu verður náttúrlega þannig séð lokið eftir þessa viku og það markar áveðin tímamót þegar svona verkefni er búið sem maður hefur unnið að í rosalega langan tíma. Þá er kominn tími til að finna ný markmið og stefna annað.“

Þessu verður náttúrlega þannig séð lokið eftir þessa viku og það markar áveðin tímamót þegar svona verkefni er búið sem maður hefur unnið að í rosalega langan tíma.

Már er spurður um ný markmið og hvert hann stefni. „Ég fer fyrst heim í smáfrí og síðan verður tíminn örlítið að leiða það í ljós. Ég hugsa að það séu margar dyr opnar fyrir mig. Ég gæti auðvitað sett fullt strik á Ólympíuleika fatlaðra í París árið 2024 þar sem ég tel að ég myndi eiga góða möguleika á að ná verðlaunum í 100 metra baksundi. Síðan er það náttúrlega músíkin sem er í mínu hjarta sem ég þarf líka að sinna. Þannig að ég þarf aðeins að skipuleggja mig þegar ég kem heim. Ég þarf að púsla þessu saman og ákveða í hvaða átt ég vil fara.“

Már Gunnarsson

Már hefur vakið athygli á tónlistarsviðinu sem söngvari og lagahöfundur. „Ég gaf út geisladisk árið 2019 sem var tekinn upp í Póllandi. Þetta er samansafn af lögum sem ég hef samið í gegnum tíðina. Ég og Isold, systir mín, unnum árði 2019 jólalagakeppnip Rásar 2. Síðan hef ég verið að vinna að fleiri verkefnum eins og lagið Barn sem við Iva endurgerðum í fyrra sem varð eitt vinsælasta lagið á Íslandi síðasta sumar. Svo hef ég verið að koma fram og troðið upp á stöðum hér og þar og haldið mína eigin tónleika. Stærstu tónleikarnir sem ég hélt voru í Stapa árið 2020 rétt fyrir Covid. Þá flutti ég inn 9 tónlistarmenn frá Póllandi sem voru með mér á sviðinu og það var hrikalega skemmtilegt.“

- Auglýsing -

Hvað með áherslurnar þegar hann semur tónlist? „Ég er ennþá pínu leitandi þar og ég hef verið að gera frekar fjölbreytta hluti. Ég hugsa samt að rauði þráðurinn séu alltaf stórar laglínur. Ég á það til að vera frekar fyrirferðarmikill þegar ég sem tónlist og mikið af þessu sem ég hef gert er pínu söngleikjalegt. En þetta er í þróun og ég er spenntur fyrir því hvert áframhaldandi tilrauninr munu leiða mig.“

Ég á það til að vera frekar fyrirferðarmikill þegar ég sem tónlist og mikið af þessu sem ég hef gert er pínu söngleikjalegt.

Sumarið var fljótt að líða og nú er komið haust samkvæmt dagatalinu. Og Már mun fá leiðsöguhund í september og hann segist ekki geta beðið eftir að fá hann. „Svo er ég að fara í tónlistarskóla í Reykavík, MÍT. Ég er að vinna við lag sem ég ætla að senda í Söngvakeppni sjónvarpsins, ég og systir mín, Ísold, erum að plana að gefa út lag og ég og Iva, vinkona mín, erum einnig að plana að gefa út lag. Svo hef ég verið að tala upp lög með sinfóníuhljómsveit í Póllandi. Síðan munu örugglega fleiri skemmtileg verkefni koma til mín.“

Ferli sem ég þurfti að fara í gegnum

- Auglýsing -

Sundið og tónlistin. Þetta tvennt á jú hjarta Más sem fæddist með um 10% sjón og nú segir hann að um hálft prósent sé að ræða og sé það varla mælanlegt. Hann segist almennt vera með gott jafnaðargeð og að hann hafi í sjálfu sér aldrei pælt í að hann sé blindur. „Auðvitað spilaði það samt inn í og hefur litað líf mitt rosalega mikið. Ég væri ekki sá einstaklingur sem ég er í dag ef ekki væri fyrir sjónina mín. Við fjölskyldan fluttum til Lúxemborgar árið 2006 þar sem við bjuggum í sex ár til að ég gæti fengið kennslu við hæfi; myndi læra að lesa blindraletur og ganga með staf og færi að læra á tölvur og tól. Það hafði áhrif á mig að búa þar en það var ekki alltaf auðvelt þar sem ég var bæði blindi gaurinn og útlendingurinn í bekknum.“

Það hafði áhrif á mig að búa þar en það var ekki alltaf auðvelt þar sem ég var bæði blindi gaurinn og útlendingurinn í bekknum.

Már er spurður hvað sé það erfiðasta sem hann hefur upplifað. „Ég ætla að segja að það sé tvennt. Það er annars vegar að komast inn á unglingsárin og díla við tilfinningar eins og ástarsorg og það að fá höfnun og eitthvað svona unglingadrama. Svo er það hins vegar missir fjölskyldumeðlima og vina.“

Már Gunnarsson

Ástin. Már er samkynhneigður og segir hann að það hafi tekið sig smátíma að átta sig á því að hann væri samkynhneigður. „Maður var ekkert að tala mikið um þetta fyrst og mér fannst það kannski vera óþarfi. Ef ég væri gagnkynhneigður þá hefði ég ekki farið til foreldra minna og sagst vera það. Mér finnst ég ekki þurfa að vera með einhverja tilkynningaskyldu varðandi það hvort ég vilji hitta stráka eða stelpur. Mér fannst vera óþægilegt að tala um ef ég var að deita einhvern og segja hvort þetta væri deit eða kærasti. Og það var eitthvað sem ég þurfti svolítið að vinna í.

Það hefði samt örugglega líka verið smátabú ef ég hefði átt kærustu. Þannig að kannski er þetta algjörlega eðlilegt hjá öllum. En þetta var eitthvað ferli sem ég þurfti að fara í gegnum og mér þykir miklu auðveldara að tala um þetta í dag og sérstaklega eftir að ég fór að tala meira um það en þá finnst mér það bara vera fínt. Stundum þarf maður að yfirstíga einhverjar hindranir og þá er besta leiðin að tala um það; ekki fela það eða setja það einhvers staðar á „hold“. Ég hugsa að það sé það versta sem maður getur gert.“

Ef ég væri gagnkynhneigður þá hefði ég ekki farið til foreldra minna og sagst vera það. Mér finnst ég ekki þurfa að vera með einhverja tilkynningaskyldu varðandi það hvort ég vilji hitta stráka eða stelpur.

Hvað er ástin í huga Más? „Er það ekki bara gagnkvæm virðing og að fólki líði vel saman?“

Már er á lausu. Hann er spurður hvernig draumaprinsinn sé. „Ég er með rosalega fordóma gagnvart samböndum þar sem er mikill aldursmunur en ég hugsa að það tengist vanþroska í mér. Ég sé mig ekki fyrir mér með einhverjum 15 árum eldri. Mín draumatípa væri örugglega heilseyptur karakter á mínum aldri sem veit hvað hann vill í lífinu og er góð og heilbrigð persóna. Ég held að það sé það mikilvægasta í grunninn.“

Tónlistarmaðurinn er spurður hvort hann eigi eitthvað uppáhalds rómantískt lag. „Já, það er lagið „In the Stars“ sem ég samdi þegar ég fór fyrst að tala um að ég væri samkynhneigður.“

Ég samdi lagið og laglínuna og sendi það síðan á góðan vin sem reddaði fyrir mig texta. „In the stars I see you belong to me“. „Þetta er alveg rómó.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -