Laugardagur 21. desember, 2024
-0.2 C
Reykjavik

Uppgjör Steingríms J: Ég kveð stjórnmálin mjög sáttur

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, tilkynnti í haust að hann muni ekki gefa kost á sér til að leiða framboð Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs í norðausturkjördæmi í alþingiskosningunum á næsta ári. Um fjögurra áratuga ferli hans í stjórnmálum lýkur þá. Hann talar hér um ýmis menn og málefni og segir meðal annars um samvinnu við aðra flokka að menn átta sig á því að fólk er ekkert holdsveikt þótt það sé í öðrum flokkum. Um Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra segir Steingrímur: „Ég ætla að leyfa mér að segja það að ég náttúrlega dáist á hverjum degi af Katrínu Jakobsdóttur fyrir það hersu öflugur forystumaður og leiðtogi hún er og gerir þetta vel og af mikilli samviskusemi og dugnaði enda vönduð manneskja. Ég sé engan sem gæti gert þetta betur.“

 

„Ég hef oft velt því fyrir mér hvernig maður eigi að hætta og hver sé lykillinn að því að gera það vel og með sæmilegri reisn,“ segir Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis. „Auðvitað er ég mjög ánægður með að ég skuli eiga þess kost að velja þann tíma sem ég tel heppilegan. Ég hef sagt í gríni og alvöru að það sé skemmtilegra að hætta á meðan einhver hugsanlega saknar manns og áður en allir vilja losna við mann. Ég fór annars að velta þessu fyrir mér þegar leið á þetta kjörtímabil og það má kannski segja að með því að taka að mér embætti forseta Alþingis þá hafi það verið ákveðin skilaboð af því að þá dregur maður sig eðlilega dálítið í hlé frá dags daglegri pólitík og þó það þurfi ekki að vera regla þá gegnir því embætti oft fólk sem er að koma inn til lendingar ef það má grípa til þess líkingamáls í pólitíkinni. Það er verið að undirbúa að stíga út af sviðinu.“

 

Kvittur var uppi um að Steingrímur hafi lofað Birni Vali Gíslasyni að hann myndi víkja í síðustu kosningum en hafi hætt þá við og Björn Valur lent fyrir borð. Steingrímur er spurður út í þennan kvitt. „Björn er einn af okkar harðskeyttustu og öflugustu þingmönnum og mikill baráttujaxl og við höfum þekkst lengi. Útgáfa mín af sögunni er aðeins öðruvísi en ég hef einhvers staðar séð í slúðurdálkum. Það var þannig að þegar Björn ákvað að reyna fyrir sér í Reykjavík í forvali 2013 í staðinn fyrir að halda áfram með okkur fyrir norðan þá hvatti ég hann nú til þess að vera bara áfram með okkur fyrir norðan en hann að sjálfsögðu varð að ákveða hvað hann gerði og fór í forvalið í Reykavík. Það er alveg rétt að í samtölum okkar Björns benti ég honum á þann kost að jafnvel þó svo færi að hann yrði þá bara varaþingmaður eitt kjörtímabil eða svo þá kæmi nú að því fyrr eða síðar að ég hætti í stjórnmálum, enda þá þegar búinn að vera mjög lengi. En það var ekkert ákveðið í þeim efnum, engin loforð. Ég benti bara á hið augljósa að ég var þá þegar búinn að vera þingmaður mjög lengi og myndi auðvitað fyrr eða síðar láta af þingmennskunni, enda var í mínum huga þá alveg óvíst um það hvort ég myndi halda áfram nema kannski í eitt kjörtímabil eða mesta lagi tvö í viðbót. Svo bara atvikuðust hlutir öðruvísi. Við fengum óvæntar kosningar bæði 2016 og 2017 og það hafði sín áhrif á það að mér fannst það ekki heppilegur tími til að hætta. Og er hér enn. En ég kannast ekki við að ég hafi gengið á bak nokkurra orða í þeim efnum og finnst miður ef slíkt er verið að bera út og ég hef hvergi séð það frá Birni sjálfum. Þannig að menn eru að reyna að koma fleyg á milli okkar. Hann hvarf til sinna fyrri starfa og hefur verið farsæll skipstjóri síðustu árin og ég veit ekki annað en að hann sé sáttur í því hlutskipti.“

 

- Auglýsing -

Hvað mögulegan „arftaka“ varðar segir Steingrímur að það sé í höndum félaga sinna í norðausturkjördæmi að finna út úr því hvernig þeir vilja stilla liðssveitinni upp og hann ætli ekki að blanda sér í það.

 

Fjölbreyttur ferill

Steingrímur er jarðfræðingur að mennt og með próf í uppeldis- og kennslufræði. Hann vann meðal annars sem íþróttafréttamaður hjá RÚV áður en hann fór í pólitíkina. Embættin og verkefnin hafa verið mörg og má nefna nokkur. Steingrímur var formaður þingflokks Alþýðubandalagsins 1987-1988 og varaformaður Alþýðubandalagsins 1989-1995, hann sat á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 1991 og 2007, var formaður flokkshóps vinstri sósíalista í Norðurlandaráði 1998-2000 og flokkshóps vinstri sósíalista og grænna 2015-2017. Steingrímur var formaður Vinstrihreyfingarinnar – græns farmboðs frá stofnun flokksins í febrúar árið 1999 til febrúar 2013. Hann var alþingismaður Norðurlands eystra 1983-2003 (Alþýðubandalagið, þingflokkur óháðra, Vinstrihreyfingin – grænt framboð) og alþingismaður Norðausturkjördæmis frá árinu 2003 (Vinstrihreyfingin – grænt framboð).

- Auglýsing -

 

Hann var landbúnaðar- og samgönguráðherra frá 1988-1991, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í nokkra mánuði árið 2009, fjármálaráðherra 2009-2011, efnahags- og viðskiptaráðherra og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra 2011-2012 og atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra frá því í september 2012 til loka apríl 2013.

 

Magnað að vinna með Jóhönnu

Steingrímur er spurður um samstarfið við Jóhönnu Sigurðardóttur en VG og Samfylkingin voru í stjórn á árunum 2009-2013 og var Jóhanna forsætisráðherra.

„Jóhanna er óskapleg eljumanneskja og það var magnað að vinna með henni. Hún var óhemju dugleg og gaf sig alltaf í sitt starf þannig að það var til hreinnar fyrirmyndar. Við vörðum gríðarlega miklum tíma saman, við funduðum mjög mikið og það var svolítið hennar stíll að vilja funda um málin en hún hélt þá bara fund eftir fund ef þess þurfti í anda þessa dugnaðar sem einkennir hana. Jóhanna er ekkert allra og var á köflum kannski má segja svolítill einfari í pólitík en við náðum mjög vel saman. Við áttuðum okkur algerlega á því að sú ríksistjórn og samstarf okkar byggðist algerlega á því að við værum sem einn maður og það voru nánast aldrei nein frávik frá því.“

Steingrímur segir að þau Jóhanna hafi yfirleitt leyst málin sín á milli og á bak við tjöldin ef eitthvað var og hafi aldrei borið ágreining sinn á torg.

„Það skiptir gríðarlegu máli fyrir svona samstarf og fyrir liðsmennina sem eru með manni því að það er alltaf mjög erfitt ef þeir skynja að forystumennirnir eru orðnir ósammála og ósáttir. Þannig að við bara snerum bökum saman og jöxluðumst í gegnum þetta. Þetta var ævintýralegur og erfiður tími en við komumst í mark og héldum úti heilt kjörtímabil og rúmlega það. Það spillti ekki fyrir að við vorum þá þegar tveir reynslumestu alþingismennirnir. Svo nauðsynleg sem endurnýjun og nýtt blóð er inn í stjórnmálin eins og allt annað þá er nú líka reynslan þáttur sem enginn skyldi vanmeta. Það hefur lífið einmitt kennt mér að maður á að geta þroskast og styrkt sig í þessu starfi eins og öðru með aukinni reynslu ef maður notar það til þess að læra af hlutunum og maður öðlast líka meiri yfirvegun og ró með reynslunni þannig að maður hættir að kippa sér eins upp við hlutina; maður fer ekki af hjörunum þótt ýmislegt gangi á. Það er ákaflega mikill kostur í stjórnmálum, sérstaklega þegar glímt er við erfið verkefni á krefjandi tímum. Og það reynir heldur betur á það í dag hjá þeim sem eru að leiða okkur í gegnum þessa nýjustu krísu.“

Voru aldrei minnihlutastjórn

Sagt hefur verið að stjórnarsamstarf VG og Samfylkingar á sínum tíma hafi einkennst af stöðugum og fordæmalausum málefnalegum átökum og uppþotum en ríkisstjórnin VG og Samfylkingarinnar á árunum 2009-2013 missti meirihlutann. „Við vorum komin í erfiða stöðu hvað það snertir að við vorum með minnsta mögulega meirihluta og áttum hann ekki alltaf tryggan en ég met stöðuna þannig að við vorum aldrei minnihlutastjórn í þeim skilningi að það væri mikil hætta á að við yrðum borin ofurliði með vantrausti. Reyndar vissi ég af fólki sem hefði ekki látið það gerast. Það var ekkert óskaplegur áhugi að minnsta kosti framan af á því að taka við af okkur. Menn vissu alveg hvað verkefnið væri erfitt þó þeir létu öðruvísi og voru ekkert endilega spenntir fyrir því nema helst rétt undir lokin þegar öllum var að verða ljóst að þetta var farið að ganga betur; þá hefðu kannski einhverjir getað hugsað sér að ýta okkur frá stýrinu og taka við. En framan af held ég að flestir hafi lofað guði fyrir það að vera ekki að glíma við þetta heldur vera á hliðarlínunni og gagnrýna og rífa kjaft.“

Steingrímur segir skýringarnar á því hvers vegna þetta var svona erfitt innan flokkanna margar; hann bendir á að það hafi líka verið hræringar í fleiri flokkum sem tengist fyrst og fremst því hversu ástandið var erfitt vegna hrunsins. „Menn réðu misvel við það álag sem fylgdi og einkum fólk með minni reynslu og nýliðar í stjórnmálunum stóð náttúrlega frammi fyrir svakalegum hlutum. Ég erfi það ekki við neinn. Menn verða auðvitað að taka sínar ákvarðanir. Mér fannst og finnst alltaf vera leiðinlegt ef leiðir skilja að menn skuli ekki reyna að gera það í góðu. Því miður ráða menn ekki alltaf við sig og missa sig í það að hreyta ónotum í sína fyrrum félaga. Það er það leiðinlega við þetta; ekki í sjálfu sér að leiðir skilji.“

 

Kallaði Davíð gungu og druslu

Það gefur oft á bátinn í Alþingishúsinu og fræg urðu ummæli Steingríms í garð Davíðs Oddssonar, þáverandi forsætisráðherra, þegar hann kallaði hann gungu og druslu vorið 2004. Hann hafði ítrekað óskað eftir því við forseta Alþingis að Davíð kæmi í þingsalinn og svaraði spurningum sem tengdust fjölmiðlafrumvarpinu. 

„Davíð tók þessu bara vel og þó það væri smáhiti í okkar samskiptum í kringum þessi átök og reyndar oftar þá gátum við alltaf talað saman. Það var kannski meira að það hafi slitnað á milli okkar eftir hrunið eftir að hann hætti sem seðlabankastjóri. Það má segja að hann hafi á endanum verið settur af með lögum og hann vildi að ég stoppaði þá lagasetningu. En, þetta voru orð sem féllu í hita leiksins. Það fauk í mig vegna þess að ég hafði óskað eftir að hann yrði viðstaddur umræðurnar og hann var einhvers staðar annars staðar og kom aðeins í dyrnar og hvarf aftur. Mér fannst hann vera að sýna mér takmarkaða virðingu sem forystumanns í stjórnarandstöðu. Þetta fauk út úr mér að hann þyrði greinilega ekki að eiga orðastað við mig og kallaði hann gungu og druslu. Ég upplifði þetta ekki eins hörð orð og margir aðrir. Það er sennilega vegna uppruna míns en þetta eru orð sem flugu oft á mínum heimaslóðum í gamla daga og þóttu ekkert óskaplega neikvæð. Það var sagt um menn sem voru ekki að standa sig vel á einhverju sviði að þeir væru gungur eða druslur.“

 

Landsdómsmálið og Geir H. Haarde

Dagana 5. til 16. mars 2012 fór í þjóðmenningarhúsinu við Hverfisgötu fram aðalmeðferð í landsdómsmálinu nr. 3/2011: Alþingi gegn Geir Hilmari Haarde en Geir hafði verið forsætisráðherra í stjórninni fyrir hrun. Þingmenn greiddu í september 2010 atkvæði um hvort fjórir ráðherrar yrðu ákærðir vegna starfa þeirra fyrir hrun og varð niðurstaðan að Geir, fyrrverandi forsætisráðherra, var einn ákærður. Landsréttur sýknaði hann af öllum ákæruliðum nema einum og honum var ekki gerð refsing.

Steingrímur greiddi atkvæði með því að Geir H. Haarde yrði ákærður. „Þetta var gífurlega erfitt mál og okkur öllum held ég erfitt og með því leiðinlegra má segja sem maður hefur þurft að ganga í gegnum. En þetta var því miður óumflýjanlegt. Alþingi gat ekki vikist undan því að takast á við þetta og það var alveg ljóst frá byrjun þegar rannsóknarnefndin var skipuð að þá voru allir sammála um að eitt af því sem hún hlyti að skoða væri ábyrgð ráðherra og æðstu embættismanna. Við vissum það alveg að það gat þýtt að niðurstöður nefndarinnar kæmu svo til Alþingis á því formi að Alþingi þyrfti að taka afstöðu til þess að einhver þyrfti að axla ábyrgð. Um þetta var alveg samstaða þegar lagt var af stað með rannsóknarnefndina. Þingið undirbjó sig mjög vel við að taka við niðurstöðunum og stofnaði sérstaka nefnd undir forystu Atla Gíslasonar sem vann mánuðina áður en rannsóknarnefndin skilaði áliti til þess að vera undirbúin hver sem niðurstaðan yrði. Við tókum fljótlega þá afstöðu í VG að setja traust okkar á þessa nefnd. Og það var alger samstaða um að við myndum styðja þær tillögur sem hún kæmi með. Þaðan kom tillagan um að ákæra fjóra ráðherra og við greiddum öll atkvæði algerlega í samræmi við niðurstöðu meirihluta nefndarinnar. Að vísu var það tekið fram hjá okkur í VG að við litum ekki svo á að við værum að beita menn einhverjum flokksaga ef menn af samviskuástæðum vildu gera eitthvað annað og þá gerðu þeir það.“

Var hlýtt til Geirs Haarde

Steingrímur segir að á meðal ástæða þess að þetta mál hafi verið honum erfitt sé að honum hafi verið og sé mjög hlýtt til Geirs H. Haarde. „Hann er að mínum dómi góður maður. En mér fannst ekki hátt risið á þeirri umræðu að maður ætti þá að greiða atkvæði í samræmi við það hvort manni væri vel eða illa við viðkomandi mann. Ég ýtti því bara algjörlega frá mér og tók málefnalega afstöðu, eins erfið og hún var. Ég hefði alveg þegið að vera aldrei í þessum sporum en ég tók afstöðu út frá því hvernig málin lágu fyrir á þessum tíma og ég hef ekki endurskoðað afstöðu mína. Ég sé ekki eftir þessu í þeim skilningi að ég telji að ég hefði átt að greiða öðruvísi atkvæði. Það geri ég ekki, ég hef aldrei beðist afsökunar og mun ekki gera það af því að ég tel að ég hafi haft málefnalega nálgun á þetta mál. Það sem kom okkur hins vegar í opna skjöldu og eitraði þetta mál mjög mikið var hvernig atkvæði féllu hjá öðrum. Það hefur ekkert með okkur í VG að gera. Menn í öðrum, ónefndum þingflokkum studdu ákærur á suma ráðherra en ekki aðra. Það er allt annað mál og setti dálítið annan svip á þetta leiðindamál hvernig þær atkvæðagreiðslur fóru.“

Steingrímur segir að það megi endalaust deila um hvort það hefði átt að ákæra bara ráðherrana þrjá sem rannsóknarnefndin taldi að væru ábyrgir eða bæta fjórða ráðherranum við eins og nefnd Alþingis ákvað.

„Þetta eru allt saman umdeilanlegir hlutir að sjálfsögðu en að endingu er þetta eins og hvert annað mál sem Alþingi verður að takast á við. Það átti ekkert val – það var skylda Alþingis að útkljá þetta mál með þau gögn í höndunum sem við vorum með. Alþingi hefði verið að bregðast hlutverki sínu ef það hefði vikið sér undan því.“

Steingrímur segir að hann telji að það hefði ekki mælst vel fyrir ef menn hefðu sópað öllu sem hét „ábyrgð stjórnmálamanna“ undir teppið og bara lögsótt og fangelsað bankamenn. „Auðvitað átti bara og varð að útkljá þessi svakalegu mál sem hruninu tengdust á forsendum réttarríkisins – láta lög og reglur gilda um það. Og ég held að Íslendingum hafi tekist það nokkuð vel. Það er að segja, við stofnuðum þessa rannsóknarnefnd sem vann feiknarlega mikið og merkilegt starf og síðan var málum vísað til dómstóla sem eftir atvikum áttu erindi þangað. Ég veit ekki hvað annað hefði verið hægt að gera en að láta grundvallarreglur réttarríkisins virka hér eins og við aðrar aðstæður. Geir H. Haarde hafði verið forsætisráðherra fyrir hrun og lögin og ráðherraábyrgð eru þannig að hún getur tekið til athafna eða athafnaleysis manna í tiltekinn tíma aftur í tímann. Það voru hans beisku örlög í stjórnmálum að vera forsætisráðherra þessa tíma. Ég tel að Geir hafi ekki átt að líta á þetta sem persónulega árás eins og hann gerði. Ég held að mönnum sé hlýtt til hans. Þessi niðurstaða varð mjög væg í hans garð – hann var fundinn sekur um vanrækslu á einu sviði, það er að segja að hafa ekki boðað fundi og virkjað ríkisstjórnina alla sem hafði vissulega afleiðingar inn í stóra samhengið að ríkisstjórnin var ekki samstillt, fundaði ekki og stillti ekki saman strengi og það gat mögulega haft neikvæð áhrif á það hvað menn gerðu eða reyndar fyrst og fremst gerðu ekki í aðdraganda hrunsins. En það er ekki alvarleg yfirsjón finnst mér og ekki eitthvað sem hann og aðrir eigi að líta á sem þungan áfellisdóm í tilviki hans. En þetta var niðurstaða dómsins og þá verða menn að hlíta því. Hann gat á hinn bóginn bent á að hann var sýknaður af öðrum ákæruatriðum og kom þar af leiðandi ekkert illa út úr þessu máli svoleiðis. En auðvitað verður hann að stjórna og ráða viðbrögðum sínum.“

 

Bjarni Ben góður í samskiptum

Steingrímur er spurður út í samstarfið við Bjarna Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra.

„Bjarni er góður maður í samskiptum og mér líkar vel við hann. Það er yfirleitt hægt að ná í hann, hann svarar og maður fær hrein svör frá honum. Það er á margan hátt gott að eiga samstarf við hann sem slíkan og samstarfið við hann hefur verið gott. Mér finnst hann vera vaxandi sem fjármálaráðherra en sem gamall fjármálaráðherra horfi ég svolítið á það hvernig menn eru að standa sig sem slíkir og mér finnst Bjarni hafa yfirleitt verið að gera þá hluti ágætlega. Ég hef hins vegar ekkert verið sammála öllum áherslum hans. Ég tel til dæmis að menn hafi farið of geyst í því að veikja tekjustofna ríkisins á hagvaxtarárunum eftir 2013 og það væri ágætt að hafa suma þeirra til staðar núna. 

 

Bjarni var auðvitað mér erfiður eins og aðrir í stjórnarandstöðunni 2009-2013. Við bjuggum þá við mjög hatramma stjórnarandstöðu og Bjarni er ekkert saklaus af því; hann var dálítið með í því. Það auðveldaði okkur Jóhönnu Sigurðardóttur ekki lífið sem vorum með ærinn vanda við að glíma að við bjuggum líka við mjög harðskeytta og á köflum ósvífna stjórnarandstöðu. Ég tel að núverandi ríkisstjórn sé betur stödd hvað það varðar að stjórnarandstaðan í dag hefur að mínu mati staðið sig líka vel á þessum erfiða tíma og verið ábyrg og það er alltaf ánægjulegt þegar manni finnst stjórnmálin vera að sýna slík þroskamerki.“

 

Samstarfið við Sjálfstæðisflokkinn

VG, Framsókn og Sjálfstæðisflokkurinn eru nú í ríkisstjórnarsamstarfi og er Steingrímur spurður hvort hann sjái samstarfið við Sjálfstæðisflokkinn ganga upp til frambúðar. „Ég er ekkert viss um að það sé endilega æskilegt til langrar frambúðar að forystuflokkarnir á sitthvorum vængnum í stjórnmálunum vinni saman. Menn geta alveg fært fyrir því rök að það leiði til einhverrar stöðnunar í þeim skilningi að málin séu ekki gerð upp á milli ólíkra hugmyndakerfa eða ólíkra hugmynda um hvernig samfélagið eigi að þróast. En það er ekkert sem segir að það geti ekki verið mjög góður kostur við tilteknar aðstæður og í tiltekinn tíma og það þarf ekkert að vera endilega eitt kjörtímabil. Og þá er ég að sjálfsögðu að hugsa um það ef vel gengur sem fæst með slíku samstarfi; það er að segja stöðugleiki og breidd í stjórnmálin. Og það kallar á það að menn miðli málum, að menn slái af sínum ýtrustu kröfum á báða bóga og það er ekkert endilega óheppileg þróun fyrir samfélag að það komi tímabil þar sem menn eru meira í því að tala sig saman heldur en í sundur. Og á þeim tímum í stjórnmálum sem við höfum séð í kringum okkur þar sem sundrung er að aukast, pólarisering er að aukast víða í stjórnmálum, þá held ég að það sem er verið að gera á Íslandi sé alveg stórkostlegt. Ég tek gjörsamlega ofan fyrir þessu fólki – Katrínu, Bjarna og Sigurði – og þessari kjarkmiklu tilraun sem hér er verið að gera að stuðla að því að íslensk stjórnmál þróist þá á þessum tímum öðruvísi en við sjáum víða í kringum okkur sem er stórskaðlegt – öfgarnar eru að aukast, sundrungin er að aukast og það er að verða svo mikil heift í þessu víða. Auðvitað eru Bandaríkin ofarlega í huga þessa dagana. Og ég bara spyr: Vill einhver það ástand? Vill einhver þá þróun þar sem menn eru komnir svo gersamlega í sundur og ofan í skotgrafir? Það eru engir snertifletir orðnir, það er engin miðja eftir í bandarískum stjórnmálum og það er stórkostlegt áhyggjuefni hvernig þetta stóra og volduga ríki er að þróast af því að það varðar alla heimsbyggðina. Eða í Evrópu þar sem við sjáum auðvitað fasisma og ýmsar öfgar, popúlisma, vaða uppi. Ég held að þetta hafi verið algjört gæfuspor fyrir Ísland, ég er ekki í vafa um það, og eins og ég segi: Ég bara tek ofan og ber virðingu fyrir þessu fólki hvern dag. Við getum líka velt því fyrir okkur á þessum erfiðu tímum sem við upplifum núna hversu gott það er að hafa ríkisstjórn sem er sæmilega stöðug og er á hjörunum og við erum þó ekki í hættu á að það bætist pólitísk upplausn við erfiðleikana í faraldrinum og þau geigvænlegu áhrif sem hann hefur á efnahagslíf okkar. Þannig að ég held að við Íslendingar ættum að vera þakklát fyrir hvað við erum í raun lánsöm að vera að sigla í gegnum þessa tíma í þetta góðum höndum. Ég ætla að leyfa mér að segja það að ég náttúrlega dáist á hverjum degi af Katrínu Jakobsdóttur fyrir það hversu öflugur forystumaður og leiðtogi hún er og gerir þetta vel og af mikilli samviskusemi og dugnaði enda vönduð manneskja. Ég sé engan sem gæti gert þetta betur.“

Fólk er ekkert holdsveikt þótt það sé í öðrum flokkum

Steingrímur er spurður hvort það hafi í upphafi ekkert verið snúið að fallast á samstarfið við Sjálfstæðisflokkinn.

„Jú, jú,“ segir hann. „Það var okkur mörgum erfitt og svolítið framandi, ekki mér sérstaklega því ég er á algjörlega sömu línu og Katrín í þessum efnum. En, það þarf að vinna eins vel og hægt er úr þeim aðstæðum sem stjórnmálin færa manni í hendur á hverjum tíma. Og það er ekkert sérstaklega málefnalegt að útiloka algjörlega samstarf við aðrar stjórnmálahreyfingar þó þær séu með ólíkar áherslur. Mér fannst vera alveg sjálfsagður hlutur að minnsta kosti láta á það reyna hvort menn fyndu málefnalegan flöt á slíku samstarfi. Það eiga að vera málefnin sem ráða en ekki einhver fyrir fram gefin sannfæring um að eitthvað sé útilokað. Það eina sem maður myndi útiloka væri að vinna með flokkum sem væru með andlýðræðislegar og fasískar áherslur eða virtu ekki mannréttindi. Slíkt kæmi aldrei til greina að mínu mati. En þó að menn séu hægrisinnaðir þá getur verið hið besta fólk í þeim hópum. Og það er líka hægt að velta fyrir sér hvort það geti ekki bara haft áhrif til góðs að fólk með ólíka nálgun í stjórnmálum tali saman, reyni að finna sameiginlega fleti og þurfi kannski svolítið að miðla málum. Það færir menn kannski pínulítið nær hver öðrum og menn átta sig á því að fólk er ekkert holdsveikt þótt það sé í öðrum flokkum. Það er bara hið besta fólk og oft bara ágætt að vinna með því, sérstaklega ef samskiptin eru hrein og bein. En þetta var mörgum okkur erfitt og framandi, jú, það er alveg rétt. VG lagði af stað með umtalsverða sérstöðu í íslenskum stjórnmálum, við höldum á lofti merki andstöðu við her og hernaðarbandalög og erum málsvarar afvopnunar og alþjóðlegrar friðarstefnu þar sem við höfum mikla sérstöðu. Við höfðum frá byrjun algera sérstöðu í umhverfismálum og gerðum þau að einni grunnstoðinni í pólitík okkar. VG er eini femíníski flokkurinn á Íslandi, eini flokkurinn sem skilgreindi sig frá byrjun sem feminískan og róttækan flokk í þeim efnum eins og fleirum. Þannig að þetta var kannski að því leyti miklu stærra skref fyrir okkur og erfiðara fyrir marga okkar félaga en þá sem tilheyra öðrum flokkum. En, ég held að það sé útkoman sem skipti okkur mestu máli og ég er bjartsýnn á hana. Og ég held að við getum nú þegar sagt að þetta sé búið að skila mjög miklu. Þannig að ég tel að sá yfirgnæfandi meirihluti sem studdi þetta í hreyfingu okkar hafi tekið rétta ákvörðun. Og ég held að nú sé svo komið að nánast öll hreyfingin standi þétt að baki Katrínu í þessu sögulega verkefni.“

Steingrímur

Vinstri áherslur

Steingrímur er spurður hvort honum finnist VG hafa haldið sig á sporinu bæði í vinstri áherslunum og svo hvað umhverfismálin varðar. Hann segir svo vera. 

 

„Varðandi vinstri pólitík þá bendi ég á hluti eins og breytingar á skattkerfinu sem er algerlega í okkar anda og þar höfum við náð að hafa mikil áhrif. Nú er aftur komið prógressíft þriggja þrepa skattkerfi sem hlífir þeim tekjulægstu við sköttun. Og það eru stórauknar fjárveitingar inn í velferðarmálin, við erum að efla opinbera heilbrigðiskerfið, auka geðheilbrigðisþjónustu í heilsugæslunni og höfum mótað heilbrigðisstefnu til framtíðar sem er mjög í okkar anda þannig að við höfum náð að hafa góð áhrif. Við höfum að sjálfsögðu líka gert málamiðlanir eins og gengur en við höfum mörg flögg til að draga að húni og benda á að starf okkar hefur skilað miklu og að áherslur okkar hafa haft veruleg áhrif. Stjórnarsáttmálinn er að mínu mati mjög mikið í anda okkar og það er kannski eðlilegt þegar forsætisráðherrann kemur úr röðum okkar. Það er að vísu þannig núna og það höfum við upplifað áður að þegar svona stórir atburðir troða sér inn í stjórnmálin og verða að aðalviðfangsefninu eins og heimsfaraldurinn þá vill fljótt gleymast margt annað sem verið er að gera gott. Þessi stjórn hefur líka verið umbótastjórn í mannréttindamálum, jafnréttismálum, lengingu fæðingarorlofs og lögum um þungunarrof. Það er langur listi. En þetta þokast fljótt út af sviðinu í umræðunni þegar svona stóratburðir troða sér inn í stjórnmálin. Við upplifðum það sama í kjölfar hrunsins á árunum 2009-2013 en það var ótrúlega margt sem sú stjórn hrinti í framkvæmd á sviði jafnréttis og mannréttindamála, í nýsköpun og svo framvegis. En það gleymdist fljótt vegna þess að hrunið og úrvinnslan á afleiðingum þess hirti alla athygli. Það er svolítið sama hætta núna fyrir núverandi stjórnarflokka að þeirra ágætu störf á mörgum sviðum fá kannski ekki þá athygli og ella væri eða skyldi af því að allt er gjörbreytt og staðan er ný og ný viðfangsefni eru mest í fréttunum.“

Umhverfisráðherra eldheitur umhverfissinni

Hvað varðar VG og umhverfismálin segir Steingrímur: „Það eru gjörbreyttir tímar í umhverfismálum. Við erum með metnaðarfulla aðgerðaáætlun í loftslagsmálum fullfjármagnaða, við höfum stóraukið fjármagn inn í umhverfismálin, það hefur verið mikill gangur í náttúruverndinni í friðlýsingu svæða sem lágu niðri um árabil og stofnun hálendisþjóðgarðs er í undirbúningi svo nú er það allt gjörbreytt. Við erum með eldheitan umhverfisverndarsinna sem umhverfisráðherra sem er gott. Hann stendur svo sannarlega undir nafni. Það er margt gott að gerast á því sviði en því þarf að fylgja eftir.“

 

Stóriðjan á Húsavík

Verkefnin sem Steingrímur hefur barist fyrir eru mörg og margvísleg og þeirra á meðal er stóriðjan á Húsavík. Þegar ríkisstjórnin undir forystu Jóhönnu Sigurðardóttur tók við árið 2009 höfðu Húsvíkingar og Þingeygingar árin á undan barist fyrir því að byggð yrði stórt álver á Húsavík. „Ég var allan tímann á móti þeim áformum og fór ekkert dult með það og var nú ekki vinsælastur manna á Húsavík og nágrenni af því að ég sagði að það væri algert brjálæði því við myndum þurfa að sópa saman öllum virkjanakostnum sem til eru á norðausturlandi og meira en það. Álver á Húsavík hefði ekki orðið annað en ávísun á að Skjálfandafljót yrði eyðilagt og jafnvel farið í jökulárnar í Skagafirði auk þess sem öll jarðhitasvæðin hefðu þá verið undir. Þessi áform voru enn í einhverjum farvegi og þess vegna var farið að ræða saman um þann möguleika að í staðinn fyrir þetta álver kæmi þá meðalstórt iðnaðarver sem þyrfti miklu minni orku og myndi menga minna. Það náðist samkomulag um þetta. Alcoa ákvað að hætta við og nýir aðilar komu að borðinu sem vildu byggja kísilver. Það hafði náttúrlega líka áhrif og rétt að muna það að þarna var um að ræða að Ísland færi af stað inn í nýja iðngrein sem sagt kísilframleiðslu. En vissulega fylgir því losun. Þetta var á allan hátt frá sjónarmiði samfélagsins og umhverfisins miklu geðslegri hlutir og viðráðanlegri heldur en fyrri áform. Þannig að ég og fleiri töldum að það væri breyting til góðs að hætta við áformin um mörg hundruð þúsund tonna álver en fara þá frekar í staðinn í einhverja viðráðanlega stærðargráðu í nýjum iðnaði.“

Vonbrigði á Húsavík

Lokun versins á  Húsavík í sumar og hópuppsögn starfsmanna var svo rakin til Covid-19-faraldursins. Í tilkynningu var sagt að kórónuveirufaraldurinn hafi raskað heimsmarkaði með kísilmálm, verð hafi lækkað mjög og dregið úr eftirspurn. Þá sagði að aðgerðirnar væru tímabundnar og að félagið gerði ráð fyrir að endurráða starfsfólk þegar framleiðsla hefjist að nýju.

„Þetta eru að sjálfsögðu mikil vonbrigði og högg fyrir staðinn. Og reyndar eru blikur á lofti hvað varðar framtíð málmiðnaðar yfirleitt á Vesturlöndum vegna samkeppni við Kína. Það sem þarf að öðlast viðurkenningu og endurspeglast í verðum eru umhverfisáhrifin þar sem hallar á Kína en á tímum efnahagserfiðleika og offramboðs gerist það ekki, ekki enn. Ég vona svo bara að það rætist úr vandamálum þessa fyrirtækis og það geti starfað áfram og vonandi finna menn síðan leiðir til þess að binda losunina sem þarna er. Aðferðir eru orðnar þekktar hvað það varðar og Íslendingar í fararbroddi í því og þá gæti þetta allt orðið með ágætum þegar fram líða stundir. Þannig að ég sé  ekki eftir því að stuðla að því að þarna fyrir norðan gæti risið annars konar iðnaður og af viðráðanlegri stærðargráðu en risaálver og að til yrði viðbótar staðsetningarkostur í landinu fyrir lítil og meðalstór iðnfyrirtæki.“

 

Fiskeldið á Vestfjörðum

Segja má að fiskeldið á Vestfjörðum sé orðið stóriðja og það er í vexti á Austfjörðum og hvoru tveggja umdeilt.

„Ég er í hópi þeirra manna sem hafa auðvitað áhyggjur af mögulegri erfðamengun íslenskra laxastofna eða villtra stofna þannig að ég vil fara mjög varlega í þeim efnum. Laxeldi í sjó var orðin staðreynd þannig að þetta snerist þá um að setja eitthvert regluverk utan um það. Það hefur nú sem betur fer loksins verið gert en að vísu allt of seint. Við hefðum þurft að hafa löggjöf utan um fiskeldismálin strax í byrjun eins og við höfum í dag. Við hljótum að gera ítrustu kröfur um mat á burðarþoli og áhættu sem fiskeldi í sjó er samfara til framtíðar litið, það þarf að ljúka skipulagsvinnu fyrir haf- og strandsvæðin og ég myndi vilja ganga enn lengra í svæðaskiptingu landsins. Mér finnst það vera algerlega fráleitt að Eyjafjörður sé opið svæði og Öxarfjörður þess vegna. Mér liði betur með það að allt svæðið frá Horni og austur á miðja Austfirði væri bara algjörlega frátekið eins og svæðið hér á suðvesturhorninu; það væri allavega talsverð vörn í því fyrir laxveiðiperlurnar sem eru á þeim svæðum. Draumur minn er sá að framtíðin sé í eldi á landi. Ísland á þar geysilega möguleika og maður sér ánægjulega þróun í þeim efnum. Þannig að þetta er kannski eitthvert yfirgangstímabil sem verður og mér finnst líklegast að framtíðin muni bera það í skauti sér að fiskeldið þróist annaðhvort upp á land eða hugsanlega í einhverjar lokaðar stórkvíar djúpt úti í hafi. Fiskeldið er að sjálfsögðu matvælaframleiðsla og tiltölulega áragursrík leið til að framleiða próteinríka fæðu. Og þar sem Íslendingar eru fiskveiðiþjóð er að sjálfsögðu eðlilegt að menn hasli sér völl í þessari vaxandi grein af því að það er alveg ljóst að fæðuþörf mannkynsins verður ekki bara mætt með veiðum á villtum fiski. Það sem fyllir í skörðin verður væntanlega einhvers konar búskapur, einhvers konar eldi. Og Ísland á tröllaukna möguleika á því að verða matvælastóriðjuland bæði í gróðurhúsaræktun og slíku tengdu og svo líka  í hefðbundinni framleiðslu og eldi, búskap. Við höfum mikla landkosti hérna til þess og höfum umhverfisvæna orku og margt sem gerir það að verkum að við ættum að geta orðið stór á því sviði.“

 

Sér ekki eftir neinu

Eftir alla þessa áratugi í stjórnmálum er við hæfi að spyrja forseta Alþingis af hverju hann sé stoltastur.

„Það er auðvitað hægt að tína til einstök mál sem maður hefur haft áhrif á og getað komið til leiðar og ég er stoltur af mörgu. Það sem stendur hins vegar upp úr í huga mínum er það traust og sá stuðningur sem ég hef notið í kjördæmum mínum og fyrir það er ég þakklátastur og auðmjúkastur. Kjósendur fyrir norðan og austan hafa staðið við bakið á mér og við höfum yfirleitt fengið góða útkomu úr þeim framboðum sem ég hef leitt og það er mér dýrmætast og stendur upp úr.“

 

Steingrímur er svo spurður hver stærstu mistökin hafi verið á ferlinum.

„Það er voðalega erfitt að segja. Kannski voru það mistök hjá mér að vera ekki tilbúnari til þess að fara alla leið í formannsframboð í Alþýðubandalaginu árið 1987. Þá var mikið skorað á mig en ég var hikandi og svo fengu félagar mínir aðrar hugmyndir og allt í góðu með það. Einhver gæti sagt að ég hefði þá átt þess kost að fara strax í forystusveit íslenskra stjórnmála en ég hugsa að það hafi þá verið mistök sem hafi orðið mér til góðs. Ég lít ekki á það sem mistök að hafa gefið kost á mér sem formaður Alþýðubandalagsins árið 1995 þó ég hafi tapað þeirri kosningu. Það voru kannski ákveðin mistök að vanmeta aðstæður þá en ég held sömuleiðis að það tap hafi orðið mér til góðs. Það er nú stundum þannig að upp úr því sem lítur út fyrir að vera tap verður til annað og eitthvað betra.“

 

Hann segist ekki sjá eftir neinu og segir að þess vegna eigi hann erfitt með að svara frekar spurningunni um mistök.

„Ég hef reynt að vera trúr stefnumálum mínum en það eru auðvitað hlutir sem maður áttar sig á að koma ekkert endilega vel út fyrir mann. Það var mjög mikið sótt að okkur í aðdraganda kosninganna árið 2009, gengið á okkur og borið út að við ætluðum að svíkja stefnu okkar í sambandi við andstöðu við aðild að ESB og ég hraktist út í það í sjónvarpsviðtali að vera með nokkuð svera yfirlýsingu um að umsókn um aðild kæmi ekki til greina. Staðreyndin er að þetta var algerlega óútkljáð mál á milli flokkanna og ég hafði ekki áttað mig á að samstarfsaðilarnir ætluðu að gera það að slíku úrslitaatriði sem þeir gerðu þannig að ég gat ekki að öllu leyti verið maður orða minna í því tilviki. En staðreyndin er sú að við kvikuðum ekki frá stefnu okkar og höfum ekki gert. Hún er óbreytt en við gerðum þarna málamiðlun sem gekk mjög langt. Maður getur þannig tínt til ýmislegt en í huga mínum er miklu ofar það sem maður er stoltur af og ánægður með. Ég hef alltaf brunnið fyrir samgöngumálum og byggða- og atvinnumálum. Hagsmunir  hinna dreifðu byggða er kannski ein af þremur ástæðum sem ýttu mest á mig til að gefa kost á mér til framboðs á sínum tíma. Það voru utanríkis- og friðarmálin, það voru umhverfismálin og auðvitað vinstri stefnan sem slík og síðan vonin um að ég sem kem úr einu af afskekktustu og fámennustu byggðarlögum landsins gæti sem fulltrúi slíkra á Alþingi orðið þeim að liði. Þannig að ég hef alla mína tíð reynt að leggja þeim málum lið. Og þá hef ég ekki bara verið að horfa á kjördæmi mitt. Ég man eftir lotum sem ég hef tekið til að koma góðu og mikilvægu máli áfram, eitt var barátta mín fyrir því að hefja framkvæmdir í jarðgöngunum á Vestfjörðum. Það var auðvitað ekkert í kjördæmi mínu en ég tók harðan slag um að hefjast handa við Vestfjarðargöng og að þau yrðu byggð öll í einu lagi og leggurinn til Suðureyrar tekinn með. Þetta var harður slagur og miklu harðari en kom fram opinberlega. Ég hafði það í gegn þannig að ég nota þetta stundum sem dæmi þegar er verið að bera upp á mig eitthvert kjördæmapot að ég hafi nú tekið harðan slag bæði hvað Hvalfjarðargöngin og Vestfjarðargöngin varðar sem og byggingu nýs Herjólfs eða hvað það nú er sem hefur ekkert með kjöræmi mitt að gera. Enda fór ég mjög fljótlega og eiginlega frá byrjun að temja mér að líta á mig sem þingmann landsins alls; ég stæði fyrir þessu sjónarmiði hvar sem væri á Íslandi. Ekki bara í kjördæmi mínu.“

 

Reiknaði út jarðskjálftann

Í stjórnmálum gefur jú oft á bátinn og hryktir í stoðum. Segja má að Alþingishúsið hafi í bókstaflegri merkingu hrist fyrir nokkrum vikum þegar stór jarðskjálfti varð á Reykjanesi og það vakti athygli bein útsending úr þingsal þegar skjálftinn varð að Helgi Hrafn, þingmaður Pírata, hljóp úr ræðustól en forseti Alþingis sat hinn rólegasti og sagði: „Sitjið þið bara róleg, sitjið þið bara róleg.“ Steingrímur er spurður hvort hann sé almennt svona rólegur þegar aðrir hlaupa í burtu.

„Ja, ég hef reynt að temja mér það á seinni árum að vera bara æðrulaus og rólegur. Ég þurfti nú eiginlega bara að vakna á hverjum morgni með það í huga á árunum 2008-2013. Það eina sem dugði við slíkar aðstæður var að vera bara yfirvegaður og æðrulaus. Síðan er ég jarðfræðingur og ég er nú stoltastur af því sem kom lítið fram en það má heyra það af upptökum af því þegar jarðskjáltinn reið yfir að ég giskaði rétt á stærð hans. Ég sagði að hann væri á milli fimm til sex á Richter. Ég reiknaði það út í huganum að skjálfti úti á Reykjanesi og í þessari fjarlægð frá Reykjavík sem gæti hrist þinghúsið svona hressilega hlyti að vera af þeirri stærðartráðu. Og það reyndist rétt vera.“

Steingrímur segist ekki hafa haft sérstakar áhyggjur af Alþinghúsinu þar sem eru þykkir og miklir steinveggir. Hann vissi að húsið myndi standast skjálftann. „Mér varð síðan að vísu litið upp í loftið og sá stóru ljósakrónurnar tvær sem hanga niður úr lofti þingsalarsins sveiflast og það eina sem ég var órólegur yfir voru þeir þingmenn sem sátu undir þeim. Það var þá kannski helsti hasarinn ef þær hefðu farið. Þetta var bara yndislega skemmtilegt atvik og ég held að allir hafi haft gaman af þessu. Þetta er búið að vera gleðigjafi og ekki veitir af. Þjóðin gat skemmt sér yfir þessu í nokkra daga og það var fínt.“

 

Gekk þvert yfir landið

Þegar Steingrímur stundaði nám í jarðfræði við Háskóla Íslands á sínum tíma töluðu hann og félagar hans um að þá langaði til að ganga þvert yfir landið. „Við ætluðum náttúrlega að skrifa grein um ferðina í National Geographic og verða heimsfrægir. Þetta blundaði í mér lengi og ég hafði af og til hugleitt þetta í gegnum tíðina. Svo þegar fimmtugsafmælið nálgaðist árið 2005 hugsaði ég með mér að það væri ekki seinna vænna að fara að drífa í þessu ef af þessu ætti að verða. Ég samdi við fjölskyldu mína að ég fengi þrjár vikur í að prófa þetta.“

Steingrímur lagði af stað í ferðina á Jónsmessu.

„Ég tók þetta nokkuð stíft og gekk þetta á þremur vikum sem er í það stífasta. Ég hef nú mælt með að fólk ætti að taka þessa leið á um fjórum vikum og gera ráð fyrir hvíldardögum. Ég réð tempóinu þó sjálfur þar sem ég var iðulega einn á ferðinni en þó alls ekki alltaf en valdir félagar og vinir gengu með mér spotta og spotta. Ég var í mjög góðu formi en ég var búinn að undirbúa mig vel og ég lenti ekki í neinum teljandi hremmingum en ég fékk vissulega erfiða daga og erfið veður inn á milli. Það var svo margt í senn sem ég var að gera. Mig langaði að gera þetta sem slíkt, mig langaði að skoða landið gangandi og hafa nógan tíma til að skoða perlur eins og Arnarfell hið mikla og Arnarfellsbrekkuna í Þjórsárverum og fara á staði sem ég hafði marga hverja ekki komið á áður og bara einhvern veginn fá þetta beint í æð. Og það gerði ég svo sannarlega. Þetta er eitt það magnaðasta sem ég hef gert og það breyttist eiginlega eitthvað í manni eftir viku til 10 daga eftir að hafa verið mikið einn með sjálfum sér úti í náttúrunni dag eftir dag. Það var komin einhver lotning í mig yfir landinu og náttúrunni. Ég var eiginlega farinn að standa mig að því að læðast um. Þegar ég kom til dæmis niður í Heljardal, sem er falleg hálendisvin á norðausturhálendinu inn af Þistilfirði, þá var þar allt iðandi af lífi. Það voru þar kindur, heiðargæsir, álftir og hreindýr og ég hreinlega læddist með fram fjallshlíðinni til að trufla ekki náttúruna þarna í öllu sínu veldi. Þetta var alveg mögnuð upplifun og er svo sterk í endurminninguni að ég get eiginlega rifjað upp alla ferðina – ef ég loka augunum og endurtek ferðina í huganum þá sé ég þetta allt fyrir mér.“

 

Slysið við Svartá

Íslensk náttúra er gullfalleg og hrikaleg og náttúruöflin og veðrið hafa áhrif. Steingrímur þekkir það eftir alvarlegt slys í janúar 2006. Hann segist hafa verið búinn að vera á flakki í kjördæminu fyrir norðan og velt fyrir sér hvort hann ætti að aka suður eða ekki en segist hafa verið ákafur og óþolinmóður og lagði af stað frá Akureyri að kvöldi til. Veður var að versna og færið ekki álitlegt. „Það voru ágætis skilyrði framan af og yfir Öxnadalsheiðina. Það var komið frost og svo lenti ég í lúmskum aðstæðum þar sem var launhálka sem ég réð ekki við í Svartárdalskjaftinum. Þetta var mjög harkalegt og ég var ansi illa skaddaður,“ segir Steingrímur en bíllinn fór nokkrar veltur og endaði niðri á bökkum Svartár þar sem vegurinn liggur í beygjum upp á háum bökkum.

„Það var lán í óláni að bíllinn endaði á hjólunum og ég sat þar af leiðandi í sætinu í því sem eftir var af bílnum og komst fljótlega til meðvitundar. Ég gat hringt í Neyðarlínuna og var í sambandi við hana allan tímann á meðan björgunarlið var að leita mig uppi. Síðan voru það glöggir vegfarendur sem áttuðu sig á að eitthvað hafði gerst þarna og flutningabílstjórar sem töluðu sig saman um að sá sem var á norðurleið myndi gefa því gætur þegar þeir kæmu þarna hvort eitthvað hafi farið úrskeiðis. Fyrsti maður var bílstjóri úr Keflavík. Mig minnir að hann heiti Ragnar. Hann hlúði að mér. Fyrstu björgunarmenn komu síðan á vettvang en það kom lið bæði frá Sauðárkróki og Blöndósi. Þeir lögðu reyndar af stað í allar áttir af því að ég var svo ruglaður að ég vissi ekki nákvæmlega hvar ég var. Það eina sem ég vissi eða mundi var að ég var á suðurleið frá Akureyri og giskaði á að ég væri annaðhvort nálægt Öxnadalsheiði eða Vatnsskarði og það síðara reyndist vera rétt.

Allt þetta stórkostlega kerfi okkar fór í gang. Lögreglan og sjúkraflutningamenn komu á staðinn og síðan kom þyrla Landhelgisgæslunnar. Veðrið var orðið vont þannig að þeir þurfti að fljúga krókaleið; það var ekki hægt að fljúga yfir hálendið og var ég ekki kominn á Landspítalann fyrr en um klukkan sex morguninn eftir. Ég hélt meðvitund að mestu leyti og man að minnsta kosti eitthvað eftir ferðalaginu.

„Mér var tjaslað saman og þetta stórkostlega fólk á Landspítalanum kom mér í gang.“

Steingrímur fór í aðgerð um morguninn en öll rifbein vinstra megin brotnuðu og sum margbrotnuðu og eitt hægra megin, viðbeinið „kubbaðist vinstra megin“ og lungun féllu saman að hluta. Þá segir Steingrímur að hryggtindarnir hafi hreinsast af vinstra megin og alveg niður í mjöðm; hann segir áverkana vissulega tengjast notkun bílbeltis en að ekki hafi þurft að spyrja að leikslokum ef hann hefði ekki verið í belti.

„Mér var tjaslað saman og þetta stórkostlega fólk á Landspítalanum kom mér í gang.“

Hann lá á sjúkrahúsi í um þrjár vikur og fór síðan í endurhæfingu á Reykjalundi sem tók sex vikur „Ég var ákaflega stoltur þegar ég gat, sennilega um hálfum mánuði eftir slysið, gengið eftir endilöngum ganginum á deild 12B á Landspítalanum; ég var ekkert minna stoltur af því að geta gengið ganginn á enda með göngugrind, en ég var um hálfu ári áður þegar ég gekk yfir landið. Það er svo merkilegt að ég náði að ljúka þessu afmælisári 2005 með mjög góðum hlutum. Ég var bæði búinn að ganga yfir Ísland og hlaupa maraþon í New York auk mikillar afmælisveislu á Gunnarsstöðum og pílagrímsferðar okkar hjóna til Nýja-Sjálands. Það var ágætt að ég var búinn að þessu öllu saman áður en ég lenti í slysinu; ég hefði ekki gert það fyrstu misserin á eftir. Þetta var auðvitað lífsreynsla og eftir þetta fór ég að hugsa ýmislegt upp á nýtt og áttaði mig kannski betur en ella á hvað er einhvers virði í þessu lífi og hvað ekki. Eitt stykki ónýtur bíll er ekki til þess að tala um ef maður lifir af og nær svo sæmilegri heilsu og á fjölskyldu. Ég fór að endurmeta ýmislegt hvað varðar verðmætin og gildin í lífinu sem er hollt og gott fyrir alla. Það er eitthvað sem við gleymum kannski oft í amstri dagsins að hugsa um hvað það er sem raunverulega skiptir máli. Síðan fannst mér vænt um að það var greinilega ekki öllum sama um mig því að ég fékk óhemjumikið af kveðjum, bataóskum og heimsóknum. Það voru ekki síður keppinautar mínir í öðrum flokkum sem komu í heimsókn til mín eða sendu mér kveðjur. Geir H. Haarde er á meðal þeirra sem heimsóttu mig en við ræddum um hann fyrr í þessu viðtali. Það þótti mér vænt um.“

Afleiðingar slyssins

Steingrímur segir að hann væri ekki að segja alveg satt ef hann segði að hann fyndi ekki enn fyrir afleiðingum slyssins. „Öndunin hefur aldrei orðið eins góð og hún var – ég mæddist aldrei fyrir slysið en núna geri ég það svolítið. Ég snöggmæðist við fyrstu áreynslu en svo jafnar það sig og ég hef ágætis þrek og get alveg gengið á fjöll. Svo veit maður ekki hvaða áhrif árin sem bæst hafa við eru að hafa líka. En ég er mjög sáttur við það form sem ég er í og hvernig hefur unnist úr þessu öllu saman.“

Steingrímur segir að það sé eftirminnilegt þegar hann var kominn aðeins á stjá og leit niður í Alþingi um vorið eftir að hafa verið lengi í veikindaleyfi og var þá enn. „Þá hitti ég vin minn, Einar Odd, sem sagðist vera svo feginn að sjá mig. Hann sagði að hann hafi orðið svo hræddur um að ég væri dauður eða verra en dauður þegar ég lenti í slysinu. Þetta var býsna vel orðað því að þetta snýst ekki bara um að lifa af heldur að það sé eitthvað gott líf sem maður á þá áfram; að maður sé ekki svo illa farinn að það sé næstum því eins og hann orðaði það sem væri verra en að vera dauður.“

 

Meyjará varð skaðræðisfljót

Steingrímur hefur farið í ýmsar svaðilfarir á göngu- og fjallaferðum sínum. Hann segir frá ferð með gönguhópi á Ströndum í hittifyrra þar sem fólk lenti í miklum  háska þegar gerði úrhellisrigningu. 

„Við vanmátum kannski aðstæður og vorum ekki nógu kunnug því hversu vatnið kemur svakalega hratt niður þessi bröttu fjöll á Ströndum. Við fengum svo sem engar sérstakar viðvaranir um það þannig að við lögðum af stað úr Reykjarfirði í suddaveðri. Eftir því sem leið á daginn var ljóst að vatnavextirnir voru meiri og meiri. Það gekk allt vel þangað til við áttum um þrjá kílómetra eftir að Dröngum en þá komum við að á, Meyjará, sem er venjulega hægt að vaða yfir á gúmmístígvélum en var orðin að skaðræðisfljóti. Það var alveg ljóst að hópurinn var strandaður. Það var komið fram á kvöld, fólk var orðið þreytt af langri göngu og vosbúð og augljóst að menn voru ekki vel staddir til þess að stranda þar ef enginn vissi um okkur. Það var ekkert fjarskiptasamband svo við vissum þannig að ég og bróðir minn, Ragnar, leituðum að stað til að vaða ána alveg upp undir flúðum sem þarna eru til þess að komast að Dröngum og komast í símasamband. Þetta gekk bara ágætlega og það er miklu meira fyrir hetjuskap og krafta bróður míns en mín vegna þess að hann er mjög harðskeyttur og öflugur maður og góður að hafa með sér á ferðalögum. Við óðum bara eins og við höfum oft gert áður þegar við höfum vaðið stórvötn og þá ríghöldum við í hvorn annan og þá eru fjórir fætur en ekki tveir undir byrðinni. Við komumst klakklaust yfir ána og drifum okkur að Dröngum og hittum þar gott fólk sem aðstoðaði okkur við að komast í samband við neyðarlínuna og björgunaraðila. Svo tók það reyndar ónotalega langan tíma en að lokum kom bátur frá Norðurfirði og sótti hópinn og ferjaði hann yfir að Dröngum. Það mátti ekki seinna vera í sjálfu sér því það var farið að bera á ofkælingu og fólk auðvitað orðið mjög þreytt. Það var þeim líka til happs að það voru snillingar í hópnum sem gátu tendrað eld en það var einhver með gashitara sem þau gátu notað til að kveikja í plasti og síðan rekavið og þannig gátu þau hlýjað sér, enda ilmaði hópurinn af reykjarlykt þegar hann kom.“

 

Vestrar og spennuþættir

Steingrímur ætlar að halda áfram að ganga eftir að hann hættir í stjórnmálum eftir kosningar næsta haust. 

„Ég á alveg haug af áhugamálum og ég vona að mér endist bæði heilsa og kraftar til að sinna þeim meira; fara á fjöll og rækta skóg og já, sinna barnabörnunum og allt þetta hefðbunda. Ég hef alltaf verið duglegur að finna mér eitthvað að gera. Ég játa það alveg að ég hef verið þannig frá blautu barnsbeini að ég hef verið vinnandi. Við krakkarnir í sveitinni fórum að hjálpa til við létt störf bara strax og við gátum þannig að ég man eiginlega enga aðra tilveru en að vera alltaf að gera eitthvað. Þá hef ég ekkert síður unun af erfiðisvinnu, einhverju púli, heldur en að vinna með hausnum. Það getur svo sem líka verið álag á hausinn að vinna verkleg störf svo sem að smíða eitthvað eða fara í einhverjar landbætur. Það er margt slíkt sem ég hef áhuga á og vonast til að geta gert.“

Forseti Alþingis er spurður um uppáhaldskvikmyndina.

„Ég held ég verði að segja Kona fer í stríð sem er ein besta mynd sem ég hef lengi séð og í hópi allra bestu íslenskra mynda að mínu mati. Það spillir ekki fyrir að gamli Volvóinn minn leikur stórt hlutverk í myndinni og gerir það með glæsibrag.“ Hann hefur líka gaman af vestrum og spennuþáttum. „Mér finnst sumir af norrænu þáttunum hafa verið mjög góðir.“

 

Hann segist hafa lesið Morgan Kane þegar hann var í háskólanum en áður var það Ástríkur. „Ég les klassíkina dálítið og ég er kominn á þann stað að ég er farinn að kippa Laxness stundum fram úr hillunni og lesa aftur eða í þriðja sinn sumar af bókum hans. Ég er aðeins að blaða í ritsafni Jóns Trausta og þess vegna Sturlungu og Njálu. Ég fylgi nýju spennusagnahöfundunum og er mikill aðdáandi Arnaldar og ég les líka Yrsu og Ragnar. Ég hef gaman af því hvað við eigum góða rithöfunda. Þau eru líka mörg að standa sig vel á klassíska sviðinu þannig að ég er alæta á bækur eins og margt annað en ég flokka mig eiginilega alætu á bókmenntir og tónlist.“

 

Steingrímur segist hafa gaman af karlakórum og halda upp á flotta kóra eins og Heimi, Hreim, Fóstbræður og Karlakóra Reykjavíkur og Eyjafjarðar. „Ég hlusta líka svolítið á blús. Ég var aðdáandi Harry Belafonte og Johnny Cash var í uppáhald hjá mér að minnsta kosti um tíma. Síðan er það þægileg tónlist eins og Cat Stevens eða Cohen. Ég hlusta einstöku sinnum á klassík og hef gaman af því þegar spiluð eru falleg lög á píanó eins og þegar krakkarnir mínir eru að spila heima.“

Fórnir fjölskyldunnar

Steingrímur er kvæntur Bergnýju Marvinsdóttur lækni og eiga þau fjögur börn og tvö barnabörn. „Maður er búinn að leggja mikið á sína nánustu með því að vera í svona starfi. Þannig að ef það er eftirsjá eða samviskubit út af einhverju þá myndi ég nefna það fyrst; það eru miklar fórnir sem fjölskyldur og aðstandendur manna eins og mín færa í raun og veru vegna starfa viðkomandi. Vinnutíminn er langur og óreglulegur, það er mikið álag á köflum og maður er opinber persóna og sætir öllu því súra og sæta sem því fylgir.“

Álagið var sérstaklega mikið þegar hann var í stjórninni á árunum 2009-2013 og segir hann að hann hafi í raun og veru verið eins og hótelgestur á eigin heimili. „Ég hitti fjölskyldu mína stundum vikum og mánuðum saman, sárasjaldan á fótum en ég kom oft heim seint á kvöldin og svaf í nokkra klukkutíma og var farinn áður en aðrir vöknuðu. Það er ekki beysin frammistaða fyrir mann sem fjölskyldumann. Það er til mikils ætlast að aðrir umberi það en ég hef verið gæfusamur í því og notið mikils skilnings og stuðnings minna nánustu þannig að það hefur alltaf blessast.“

Hefur aldrei flutt lögheimilið

Steingrímur hefur meðal annars verið gagnrýndur fyrir að hafa búið ásamt fjölskyldu sinni í glæsilegu húsi í Reykjavík en vera skráður að Gunnarsstöðum í Þistilfirði og þiggja viðbótargreiðslur sem landsbyggðarþingmaður. Hvað þá gagnrýni varðar segir hann: „Það er ótrúlega lífseigur misskilningur að þetta hafi eitthvað með lögheimili að gera. Það gerði það fyrir áratugum síðan en því var breytt og nú fá einfaldlega allir þingmenn landsbyggðarkjördæmanna ákveðna fasta greiðslu samkvæmt lögum til að mæta viðbótar búsetukostnaði og skiptir engu máli hvort viðkomandi heldur sitt aðalheimili í kjördæminu en kemur sér upp aðstöðu á höfuðborgarsvæðinu eða öfugt. En svo það sé nú sagt þá hef ég aldrei flutt lögheimili mitt eitt eða neitt. Ég var búsettur á Gunnarsstöðum og með mitt lögheimili þar þó ég væri í háskólanum þegar ég fór á þing og þar hefur það verið síðan. Þar á ég stórt hús, gamla bæinn á Gunnarsstöðum sem ég held við með systkinum mínum og þar hef ég mína bækistöð í kjördæminu sem hentar vel eftir að hið víðlenda Norðausturkjördæmi kom til sögunnar. Áður leigðum við stundum íbúð á Akureyri á sumrin eða ég mér aðstöðu í tengslum við kosningar og svona. Mergur málsins er að það er gífurlegur aðstöðumunur sem þingmenn landsbyggðarkjördæmanna, algerlega óháð því hvar þeir hafa skráð lögheimili, búa við og löggjafinn hefur fyrir löngu ákveðið að þeim aðstöðumun skuli mætt. Mín kjör að þessu leiti eins og öðrum ákvarðast af lögum og ég hlíti þeim.“

 

Orðið ágætt

Steingrímur segist líta mjög sáttur um öxl. „Ég er mjög sáttur á þessum tímapunkti. Ég er þakklátur og ánægður að eiga þess kost að velja mér tíma til að hætta og geta gert það vonandi með sæmilegri reisn. Þetta er orðinn bara mjög góður ferill sem ég er sáttur við og stoltur af. Mér hefur verið sýnt mikið traust og mikill trúnaður og ég hef haft mikinn stuðning og ekki síst þegar á hefur þurft að halda. Ég kveð stjórnmálin mjög sáttur og er tilbúinn til þess. Það er mikilvægt að vera það og undirbúa sig andlega undir það að maður sé að hætta til þess að geta hætt og sleppt og vera ekki til vandræða fyrir þá sem taka við. Nú tekur við að ljúka þeim verkefnum sem ég tók að mér. Ég verð forseti þingsins til loka þessa kjörtímabils og reyni að gera mitt besta í því og nýta mína reynslu þar. Ég kvíði því ekkert hvað svo tekur við. Ég ætla mér ekki einhvern embættisferil eða annað slíkt. Þetta er orðið ágætt hjá mér. Ég er búinn að vera opinber persóna og í forystuhlutverkum meira og minna stanslaust síðan 1987 en þá varð ég formaður þingflokks Alþýðubandalagsins og síðan er ég búinn að vera næstum því samfleytt annaðhvort formaður eða varaformaður flokks, ráðherra eða forseti Alþingis. Þannig að þetta er orðinn dálítið langur tími í krefjandi forystustörfum af því tagi. Núna held ég að ég sé búinn að leggja mitt af mörkum og mun fara að hugsa aðeins meira um sjálfan mig og fjölskyldu mína.“

 

Svava Jónsdóttir

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -